Þingsályktunartillaga í blekkingahjúpi

Margir þingmenn vaða í villu og svíma um afleiðingar samþykkis við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um Þriðja orkupakkann. Þeir halda jafnvel, að lögfræðileg "Álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB", eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson, sé grundvöllur þess lögfræðilega klúðurs, sem þingsályktunartillagan er.  Því fer víðs fjarri og er ein af blekkingunum, sem haldið er á lofti að hálfu þeirra ráðherra, sem hér eiga hlut að máli.  þessu til sönnunar er nóg að benda á grein 6.4 í téðri álitsgerð:

"Fram hefur komið, að ekki standi til að innleiða 8. grein reglugerðar nr 713/2009 í landsrétt, jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng).  

Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. grein EES-samningsins.  Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. grein reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Utanríkisráðherra hundsar þessa góðu ráðgjöf lagasérfræðinganna og fer öfugt að.  Hann leggur til brot á EES-samninginum og stjórnarskrárbrot með þessari dæmalausu þingsályktunartillögu, eins og líka má sjá af athugasemdum lagaprófessors Peter Örebech í viðhengi með þessum pistli.  Alþingismenn verða að stöðva þessi afglöp ráðherrans áður en þau valda landsmönnum stórtjóni og álitshnekki í Evrópu.  Allt er þetta fallið til að hafa slæm áhrif á þeirra pólitíska feril, sem þessa þingsályktunartillögu munu styðja.  Hún er í einu orði sagt hneisa.

Fullyrðing 1:Þriðja orkupakkann er í lagi að innleiða í íslenzk lög, af því að hann hefur enga raunhæfa þýðingu á meðan enginn sæstrengur tengir landið við sameiginlega raforkumarkaðinn:

Á meðan aflsæstrengir eru ekki fyrir hendi til útlanda, getur Ísland haft lágt raforkuverð, sé ekki raforkuskortur.  Með því að ganga í orkubandalag Evrópusambandsins, skuldbindur Ísland sig til að láta í té raforku á landamæralausan innri markað ESB, og ACER skal sjá til, að svo verði, enda segir um þetta í ofangreindu lögfræðiáliti tvímenninganna: "Engin heimild er að setja í lög ákvæði, sem fá ekki staðizt íslenzka stjórnarskrá, þó að svo standi á, að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn.  Verður því að telja rökrétt og reyndar óhjákvæmilegt, að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna, sem tengjast þriðja orkupakkanum, nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann."  Þetta les utanríkisráðherra, eins og fjandinn biblíuna, þ.e. aftur á bak, og snýr öllu á haus. 

Fullyrðing 2: Lagatextanum um ACER í gerð 713/2009 skal ekki taka inn í íslenzkan rétt samkvæmt eigin lögum.

Slík lagasetning er merkingarlaus að Evrópurétti, og verður vegin og léttvæg fundin af ESA og EFTA-dómstólinum, ef/þegar ágreiningur rís, sem telja má fullvíst, að verði fljótlega.  Þetta staðfesta íslenzku lagasérfræðingarnir tveir í grein 6.4 í Álitsgerð sinni, dags. 19.03.2019.

Fullyrðing 3: Tryggja skal sjálfstæði landsins í orkumálum með lagaákvæði um endurskoðun á íslenzku lögunum, sem nú er ætlað að hindra sæstrengslögn hingað, ef sæstrengur kemst á ákvörðunarstig.

EES-samningurinn leyfir ekki að hverfa frá innleiðingu, sem  þegar hefur verið samþykkt.  Bann Alþingis við lagningu sæstrengs er þess vegna haldlaust, ef upp koma deilur á milli Íslands og ESB um þetta.  ESA og EFTA-dómstóllinn hljóta að telja slík lög vera brot á EES-samninginum, kafla 7, 11 og 12 um bann við einhliða breytingu á ESB-lögum við innleiðingu í landsrétt og bann við útflutnings- og innflutningshindrunum.

Fullyrðing 4: Ákvæði laganna um utanlandstengingar (gerð 713/2009) verða ekki gerð virk fyrr en að lokinni endurskoðun laganna, sem fylgja innleiðingunni.

Við samþykkt þingsályktunartillögunnar verður allur Orkupakki #3 gildandi lög á Íslandi, og falla þau ekki úr gildi, nema ESB felli gerðina úr gildi, eða samningi Íslands við EFTA/ESB um EES verði sagt upp.

Fullyrðing 5: Við endurskoðun laganna, þegar sæstrengur verður á döfinni, skal ganga úr skugga um, hvort reglugerð 713/2009 stangast á við Stjórnarskrá Íslands.

Þriðji orkupakkinn snýst um það að búa til innri orkumarkað ESB-landa og annarra landa, sem ganga í orkubandalagið.  Við mat á árekstrum ESB-laganna við Stjórnarskrá þarf að ganga út frá þessu meginatriði, og hvort þetta samræmist Stjórnarskrá verður auðvitað að rannsaka áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.  Að mati ESB er ESB-löggjöf og ESB-dómstóllinn hafin yfir löggjöf hvers lands að Hæstarétti og Stjórnarskránni meðtöldum.  Varðandi EFTA löndin 3 í EES gildir hið sama, nema EFTA-dómstóllinn er æðsta dómstigið á sviðum, þar sem Evrópurétturinn er í gildi.  

Fullyrðing 6: Innleiðing Orkupakka #3 hefur ekki í för með sér skyldu eða samþykki við tengingu við innri orkumarkað ESB með sæstreng eða á annan hátt.

Einhliða íslenzkar yfirlýsingar hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Samkomulag á milli íslenzks ráðherra og framkvæmdastjóra hjá ESB hefur heldur ekki nokkra réttarlega þýðingu.  Með því að innleiða Þriðja orkupakkann í íslenzk lög, mun Alþingi skuldbinda Íslendinga til að taka þátt í að þróa innra orkumarkað ESB án hindrana, "fimmta frelsi" ESB. Að neita að samþykkja sæstreng til landsins er sama og að segja, að þessi "innri markaður" eigi ekki að spanna Ísland. Í þessu felst augljós mótsögn.

Með því að samþykkja Þriðja orkupakkann hefur Alþingi viðurkennt valdsvið ACER-Orkustofnunar ESB og hjáleigu hennar á Íslandi, Landsreglarann.  Báðum ber þeim skylda til að fylgjast með, hvort kerfisþróunaráætlun ESB sé fylgt.  Ef henni er ekki fylgt, skulu þau fara þess á leit við íslenzk yfirvöld, að henni verði fylgt.  Verði íslenzk yfirvöld ekki við þessari málaleitan, þá skal afhenda Framkvæmdastjórn skýrslu um það.  Framkvæmdastjórnin getur farið með málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Fullyrðing 7: Íslenzk yfirvöld draga "Ice-Link" út úr Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar með út af skrá hennar um forgangsverkefni-PCI:

Ekkert hefur heyrzt um viðbrögð við þessu, enda getur ríkisstjórnin ekki tekið þennan sæstreng út af lista, sem gildir 2018-2020, s.k. 3. lista.  Árið 2020 verður gefinn út 4. listinn.  Um þetta atriði mun ESB fara eftir Innviðagerðinni, #347/2013, sem er tilbúin til afgreiðslu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar Alþingi hefur innleitt Orkupakka #3.  Hvorki Ísland né Noregur hafa ýkja mikil áhrif samkvæmt þessari gerð.  Það eru rekstraraðilar stofnkerfisins, hér Landsnet, sem gera tillögur, ACER ráðleggur, og framkvæmdastjórn ESB samþykkir Kerfisþróunaráætlun ESB, og hvaða verkefni þar skal setja í forgang, PCI-verkefni.

Framkvæmdastjórninni ber við mat sitt að virða ósk Íslands, en ber engin skylda til að verða við ósk stjórnvalda landsins.  Mun hún kunna að meta erindi frá landi, sem hefur ákveðið að ganga í Orkubandalag ESB, en biður samtímis um viðurkenningu á því, að það skuli ekki spanna Ísland ?  Teikn á lofti um, hvernig þetta mál ræðst, er samþykkt ESB-þingsins 26. marz 2019 um endurskoðaða ACER-gerð ST-7711-2019 í Orkupakka #4, þar sem Ísland er greinilega "í skotlínu":

"(6) Þrátt fyrir marktækan árangur við samþættingu og samtengingu innri rafmagnsmarkaðarins, þá eru enn sum aðildarlönd eða svæði einangruð eða ekki nægjanlega vel tengd, einkum eyríki og jaðarríki Sambandsins.  Í störfum sínum ætti ACER að taka tillit til sérstakra aðstæðna í þessum ríkjum eða svæðum, eins og við á." 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Karl Þorleifsson

Það er greinilegt að ásetningur ríkisstjórnar Katrínu Jakobsdóttur er EFNAHAGSLEGT LANDRÁÐ. Hennar verður minnst sem arðránsdrottningin sem jók á byrðar landsmanna og hélt áfram valdbeitingunni er Steingrímur J. Sigfússon innleiddi í lög með innleiðingu orkupakka 2. Almenningur veit það á eigin skinni, hversu mikið orkuverð til heimila lækkaði EKKI, þrátt fyrir fagurgala fullyrðingar þáverandi stjórnar. Það á einnig við um þennan gjörning, sem er einungis gerður til að arðræna í bitum orkuauðlindir þjóðar og búa til raforku-greifa og sjá sægreifarnir munu líta sem peð út í samanburði við þessa ræningja sem nú er verið að byggja undir hraðbraut til arðránsins.

Hvet alla landsmenn að standa í lappirnar, hafna bullinu sem kom frá stjórnarráðinu þar sem greinilega var farið með rangt mál og láta þingmenn vita að við sem þjóð komum aldrei til með að samþykkja þetta.

Guðmundur Karl Þorleifsson, 2.4.2019 kl. 08:25

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Raforkukerfi og raforkumarkaður Íslands er svo ólíkur innri markaði ESB fyrir rafmagn, að það er algert óráð fyrir Íslendinga að tengjast þessum markaði beint.  Þingsályktunartillagan felur ekki aðeins í sér stjórnarskrárbrot, heldur boðar hún fyrirvara um gildistöku einnar reglugerðarinnar, sem er brot á EES-samninginum.  Hún er þess vegna pólitískt örverpi, sem ber að hafna.  Þingmenn, sem styðja þetta, gætu lent í kröppum dansi, og það verður auðvelt fyrir kjósendur að refsa þeim rækilega.

Bjarni Jónsson, 2.4.2019 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband