Næstu skref eftir OP#3

Það er mikið fagnaðarefni, að ASÍ hefur markað sér skýra stöðu í átökunum um íslenzku orkulindirnar.  Það er engum blöðum að fletta um, að ásóknin í þær mun vaxa, ef mestur hluti orkugeirans, allt of margir og jafnvel nokkrir fórkólfar atvinnulífsins, illu heilli, þingmenn o.fl., fá þeim vilja sínum framgengt, að Orkupakki #3 verði leiddur inn í íslenzkar lögbækur. Það eru öflugir hagsmunahópar, sem hafa hagsmuni af og sjá auðgunartækifæri í hækkun raforkuverðs á Íslands, einkum með millilandatengingum, sem jafna myndu út á endanum raforkuverðsmun hérlendis og erlendis.  Allur orkugeirinn sleikir út um, og það er hald sumra, að ríkissjóðurinn muni fitna við þetta, en það getur ekki orðið, því að landsframleiðslan mun jafnvel dragast saman, þegar atvinnulífið kiknar undan byrðunum, og mörg fyrirtæki í samkeppni við útlönd munu neyðast til að draga saman seglin og jafnvel hætta starfsemi. Atvinnuframboð mun snarminnka. 

Niðurstaða ASÍ er þess vegna rökrétt.  Það eru hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar, eins og almennings á Íslandi, að hérlendis verði raforkuverð nálægt kostnaðinum við vinnsluna.  Þá má ekki hleypa að spákaupmennsku með raforkuna og kreddum um uppboð á virkjanaleyfum til "skamms" tíma, sem auðvitað munu leiða til hærra raforkuverðs til heimila og atvinnulífs, því að reynt verður að endurheimta kostnað við að afla virkjanaleyfa með hækkun raforkuverðs. 

Hvaða samband er á milli OP#3 og afkomu almennings ?  Með OP#3 verða Íslendingar skyldaðir til að taka upp markaðskerfi Evrópusambandsins, ESB, þótt það henti engan veginn íslenzkum aðstæðum og sé þar af leiðandi líklegt til að valda hér óstöðugleika orkuverðlags, vaxandi hættu á orkuskorti og hærra meðalverði raforku yfir árið.  Mismunurinn á núverandi markaðskerfi hér og markaðskerfi ESB er, að hið síðarnefnda er uppboðskerfi fyrir raforku í orkukauphöll með afleiðuviðskiptum og spákaupmennsku með raforkuna, en núverandi kerfi er aðallega auglýstar gjaldskrár, en um stærri orkuviðskipti er hægt að fá tilboð frá orkubirgjum. 

Opinber aðstoð við orkukaupendur, sem á einhvern hátt er hægt að flokka sem markaðsskekkjandi ríkisaðstoð, verður bönnuð.  Styrkur til húsnæðishitunar er t.d. óþekktur, þar sem frjálst markaðskerfi með orku er við lýði, einnig í Noregi, þar sem raforkunotkun heimila er fimmföld á við íslenzk heimili án rafhitunar.  Rafmagnskostnaður hefur orðið tilfinnanlegur fyrir margar fjölskyldur í Noregi, þegar saman hefur farið þurrkur og útflutningur rafmagns, t.d. um sæstrengi.  Samt hefur ekkert orðið úr því, að hið opinbera hlaupi undir bagga. 

Gaspri iðnaðarráðherra um, að ríkisstjórn og Alþingi muni ráða þessu hér eftir sem hingað til, er varlegt að treysta.  Ríkisstuðningur við bændur til að létta þeim byrðar hás raforkukostnaður er óleyfilegur að Evrópurétti og ögrun við fjórfrelsið.  Það er blindingsháttur að halda að það að ganga orkupakkanum á hönd muni engar afleiðingar hafa.  Annaðhvort stafar slíkur málflutningur af fullkomnu þekkingarleysi á málefninu eða blekkingartilhneigingu, sem er í raun fullkomið ábyrgðarleysi.  

Stóra reykbomban felst svo í því, að Alþingi geti í senn lýst yfir stuðningi sínum við tengingu Íslands við sameiginlegan raforkumarkað ESB og sett lög, sem banna Landsneti að setja aflsæstreng á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar, þótt Landsreglara beri að gefa Landsneti fyrirmæli um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB.  Þetta er þverstæða og algert píp.  

ESB ætlar að draga til sín öll völd yfir orkumálum aðildarlandanna, og hið sama mun gilda um EFTA-löndin, sem samþykkja orkupakkana.  Þessi valdasamþjöppun réttlætir ESB sem nauðsynlegt tæki í baráttunni við loftslagsvána.  Þessi rök eiga ekki við á Íslandi með innan við 1 % raforkuvinnslunnar úr jarðefnaeldsneyti.  Auðvitað á að hafna OP#3 og taka málið upp til vinsamlegrar viðræðu á réttum vettvangi, Sameiginlegu EES-nefndinni, í ljósi nýrra aðstæðna á Íslandi, þar sem komið hafi í ljós víðtæk andstaða um allt land og hjá öflugum verkalýðssamtökum á borð við ASÍ.

Við þessa vörðu á vegferðinni, OP#3, er rétt að velta fyrir sér, hvert leiðin liggur:

  • OP#4 eflir enn hina yfirþjóðlegu þætti orkusambandsins og stangast þar af leiðandi enn meir á við Stjórnarskrána en OP#3.  ACER fær aukin völd, eins og við var að búast, og Framkvæmdastjórnin á að ástunda mun strangara eftirlit með Kerfisáætlunum aðildarlandanna, ráðstöfunum til bættrar orkunýtni og orkuskipta.  Stefnumið orkusambandsins er hnökralaust net millilandatenginga, sem skal tryggja, að orka streymi vandræðalaust frá svæðum lágs orkuverðs til svæða hás orkuverðs.  Þannig er staðan alls ekki núna og þarf líklega að þrefalda núverandi aflflutningsgetu á milli landa ESB, til að svo verði.  Niðurstaða þessarar þróunar verður samræmt evrópskt orkuverð, sem vafalaust verður hærra en raforkuverðið, sem Íslendingar hafa vanizt á þessari öld.  Hvers vegna að gefa nú undir fótinn með, að við viljum taka upp evrópskt raforkuverð gegn því að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB ?
  • Í OP#4 er fyrirskrifað, að stofna skuli til Svæðisstjórnstöðva, SSS (Regional Operation Centres, ROC), til álagsstýringar og öryggisútreikninga á flutningskerfinu.  Ábyrgð á þessum málum er núna hjá hverju landi fyrir sig, hjá Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi til að nefna dæmi.  Norska ríkisstjórnin hefur fengið frágengnar gerðir og tilskipanir úr OP#4 og sent þær út til umsagnar.  Hvers vegna heldur íslenzka ríkisstjórnin spilunum svo þétt að sér, að halda mætti, að þau væru algerlega óboðleg ?  Er það vegna þess, að hún telji sig ekki þurfa neinar umsagnir utan úr þjóðfélaginu ?  Satt að segja hræða sporin frá Þriðja orkupakkanum, því að embættismannakerfi ráðuneytanna ræður hreinlega ekki við að leggja faglegt mat á stórmál af þessu tagi, sem raunverulega er tæknilegs eðlis, þótt lögfræðingar verði að rýna orkupakkana líka.  Það er hins vegar gagnslítið að láta þá rýna mál af þessu tagi, sem virðast eins og fiskar á þurru landi, þegar kemur að Evrópurétti og stjórnlögum landsins.  Hvað um það.  Í umsögn sinni sagði Statnett: "Ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á ekki að fara úr höndum ríkisins".  Þetta er hverju orði sannara.  Vonandi verður Landsnet sammála, og vonandi sammælast ríkisstjórnir Íslands og Noregs um það eigi síðar en í Sameiginlegu EES nefndinni, ef illu heilli Alþingi samþykkir OP#3, að ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á Íslandi og í Noregi verði hjá Landsneti og Statnett.  Þetta er lykilmál, sem þýðir í raun, að hvorki Ísland né Noregur geta samþykkt OP#3 heldur.  Að eftirláta stjórnstöð einhvers staðar á meginlandi Evrópu að stjórna íslenzka orkukerfinu, álagsdreifinu á línur, vatnshæð í miðlunarlónum og mörgu fleiru, er ófært af öryggisástæðum.  Þess vegna ætti Alþingi að girða strax fyrir vandræði og neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
  • Á minnisblaði með beiðni um umsögn við frágengnar gerðir OP#4 útskýrir norska ríkisstjórnin Raforkumarkaðsreglugerðina í OP#4 þannig: "Gerðin njörvar niður nánari reglur um atriði með þýðingu fyrir viðskipti yfir landamæri [með orku].  Tilgangurinn er að ákvarða mikilvægustu grunnreglurnar fyrir velvirkandi, samþættum rafmagnsmarkaði.  Það felur í sér, að allir viðkomandi aðilar skuli fá óvilhallan rétt til markaðsaðgangs. Ennfremur eru ákvarðaðar almennar reglur um úthlutun flutningsrýmis [í millilandatengingum] og þrengslameðhöndlun.  Þar er m.a. kveðið á um, að þjóðarhagsmunir megi ekki takmarka innflutning og útflutning á rafmagni."  Þetta þýðir, að norsk og íslenzk yfirvöld mega ekki skipta sér af, hvernig straumurinn á að verða í strengjum og línum til útlanda. Þetta verður hart aðgöngu fyrir Norðmenn, eins og athugasemd Statnetts sýnir, og algerlega óaðgengilegt fyrir Íslendinga.  Innlend fyrirtæki lenda í beinni samkeppni um raforkuna hér innanlands við fyrirtæki í ESB, það lækkar hratt í miðlunarlónum og orkuverðið rýkur upp úr öllu valdi.  Innlend stjórnvöld hafa ekki leyfi til að skakka leikinn.  Í versta tilviki bilar síðan sæstrengurinn, og hér verður hrikalegur raforkuskortur að vetrarlagi. 
Það er vogunarspil og gríðarleg áhætta í því fólgin að treysta því, að bann Alþingis við því að taka sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets haldi gagnvart Evrópurétti.  Hugmyndin sjálf er arfaslök og stngur í stúf við stefnumörkun Evrópusambandsins.  Það á í mikilli baráttu við ýmis aðildarlanda sinna út af stefnumörkuninni um hnökralausar millilandatengingar og sama orkuverð alls staðar.  Takist þetta, græðir þungamiðja framleiðslunnar, en jaðrarnir tapa.  Þetta er hins vegar barið áfram með þeim rökum, að miðstýring orkumála sé nauðsynleg til að ná tökum á loftslagsvánni.  Þessi stefnumörkun gengur öndvert á hagsmuni Íslands, sem eru fólgnir í lágu raforkuverði og nýtingu orkulindanna innanlands.  
Í þessu ljósi er deginum ljósara, að ESB getur ekki liðið það, að eitt ríki setji lagaleg skilyrði við innleiðingu OP#3, sem breyta inntaki og eðli orkupakkans.  Þess vegna velur norska ríkisstjórnin fremur þá leið að ganga á bak orða sinna gagnvart stjórnarandstöðuflokkunum Verkamannaflokknum og Græningjunum, svo alvarlegt sem það er, en að verða gerð afturreka með lagasetningu um skilyrðin 8.
Evrópusambandið hefur nefnilega vopnið, sem bítur í þessu sambandi, EES-samninginn, gr. 7. Á þetta vopn mun reyna eigi síðar en við afgreiðslu fyrstu umsóknar um aflsæstreng frá ESB-landi til Íslands.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband