Aukin fjárfestingarþörf í raforkukerfinu með OP#3

Norðmenn sjá fram á mjög auknar fjárfestingar í raforkukerfi sínu, ef/þegar Orkupakki #3 tekur gildi í landi þeirra.  Þetta er óháð því, hvort Statnett, norska Landsnet, heldur einokunarstöðu sinni á sviði millilandatenginga, eins og meirihluti Stórþingsins vill og er einn af átta fyrirvörum Norðmanna við OP#3, en þessir fyrirvarar eru í uppnámi, og norska ríkisstjórnin hefur enn ekki staðið við 15 mánaða loforð sitt um að binda norsku fyrirvarana 8 í norsk lög, enda eru slíkir einhliða fyrirvarar gagnslausir og beinlínis skaðlegir fyrir samstarfið við Evrópusambandið, ESB.

Það er bull úr hvofti íslenzka utanríkisráðherrans, að ekkert bendi til annars en norsku fyrirvararnir hafi fullt gildi gagnvart ESB.  Þessu er þveröfugt farið og rétt ein innistæðulausa fullyrðingin úr þeim hvofti.  ESB hefur enn ekki gefið nokkurn skapaðan hlut út á bréf norsku ríkisstjórnarinnar með fyrirvörunum 8.  Þeir eru þess vegna púðurtunna í norskum stjórnmálum, sem eldur verður væntanlega borinn að með haustinu.

  Það eru alls ekki öll kurl komin til grafar í Noregi út af OP#3, og hin pólitísku átök munu verða enn harðari út af OP#4, af því að Alþýðusamband Noregs hefur nú tekið upp skelegga afstöðu gegn OP#3 og Verkamannaflokkurinn fylgir í humátt á eftir. Ofan á þetta bætast miklar raforkuverðshækkanir í Noregi, þar sem meðalverð fyrsta ársfjórðungs í ár er 30 % hærra en meðalverð sama tímabils í fyrra (2018). Hækkanirnar eru aðallega raktar til útflutnings raforku, sem óhjákvæmilega þrýsta upp raforkuverðinu innanlands upp undir erlenda verðið. 

Norska orkustofnunin, NVE, hefur upplýst um fjárfestingaráætlun næstu 20 ára fyrir flutningskerfi raforku.  Það er gríðarleg aukning fjárfestinga á döfinni, sem rekja má til áforma um vaxandi raforkuútflutning, sem ESB hvetur mjög til og hefur búið til kerfi með Þriðja orkupakkanum til að liðka fyrir.  Raunar veitir OP#3 millilandaviðskiptum með rafmagn lagalegan forgang, og þau eru niðurgreidd með styrkveitingum.  Þá ber flutningsfyrirtækjum rafmagns, Landsneti á Íslandi og Statnett í Noregi, að styrkja flutningskerfi sín, svo að þau anni þeim orkuflutningum, sem millilandatengingarnar kalla á.

  Landsreglari í hverju ríki á að hafa eftirlit með því og fylgja því eftir, að Kerfisáætlun hvers lands sé aðlöguð Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem millilandatengiverkefni eru tilgreind.  Þar eru t.d. "Ice-Link" á milli Íslands og Skotlands og "NorthConnect" á milli Noregs og Skotlands, og þessi 2 verkefni eru bæði á PCI-skrá ESB um styrkhæf verkefni. 

Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá mun ESB líklega hundsa spangól utanríkisráðherra Íslands um að taka "Ice-Link" af þessum lista.  Utanríkisráðherra skilur ekki, hvað OP#3 felur í sér.  Hann hefur sett upp einfeldningslegan fyrirvara, sem enginn vandi verður fyrir ESA og/eða sæstrengsfjárfesta að brjóta á bak aftur, Íslandi til mikillar hneisu og ómælds fjárhagstjóns.  Þessi utanríkisráðherra stefnir EES-samstarfinu í stórhættu með kjánalátum, og hann setur stjórnmálalega stöðu Sjálfstæðisflokksins í uppnám.  Hann hefur sýnt algera vöntun á pólitískri leiðtogahæfni til að leiða þetta orkupakkamál til farsælla lykta.  Ekki hefur iðnaðarráðherra bætt sjáanlega úr skák, en aftur á móti hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, fitjað upp á áhugaverðri stefnumörkun í málinu, s.s. að leita eftir undanþágu við ESB fyrir Ísland um alla orkupakkana.

Fjárfestingaráætlun NVE fyrir tímabilið 2020-2040 hljóðar upp á mrdNOK 140.  Sé þessari upphæð varpað yfir á íslenzkar aðstæður og notað hlutfall orkuvinnslu landanna tveggja (7), þá fæst upphæðin 14 mrdISK/ár.  Þetta er u.þ.b. þreföld fjárfestingarupphæð Landsnets 2018, sem gefur til kynna gríðarlega fjárfestingarþörf Statnetts vegna millilandatenginga, bæði í sæstrengjum og í flutningsmannvirkjum frá stofnrafkerfinu og að landtökustöðum sæstrengjanna.

Kostnaður við innanlandskerfið lendir alfarið á raforkunotendum innanlands.  Miðað við gríðarlega fjárfestingarþörf í íslenzka flutningskerfinu, þótt Landsnet taki ekki þátt í sæstrengsfjármögnuninni sjálfri, má búast við tvöföldun flutningsgjaldsins.  Í Noregi er búizt við, að breytingar Landsreglarans á gjaldskráruppbyggingunni leiði til tvö-þreföldunar á  flutningsgjaldi fyrir orkukræfan iðnað. Gerist eitthvað svipað á Íslandi, gæti það orðið rothögg á einhver fyrirtæki í þessum geira og virkað afar hamlandi á raforkusölu til nýrra viðskiptavina, t.d. gagnavera, nema orkuvinnslufyrirtækin taki óbeint á sig hækkunina með því að lækka verð orkunnar frá virkjun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Nánast allt mælir gegn o3. Að horfa upp á bulluselsfjarstýrða kjafthvopta utanríkisráðherra Íslands og ritara Sjálfstæðisflokksins auk annara, sem veigra sér ekki við lygum og undirferli dags daglega og jafnvel oft á dag, er ömurlegt upp á að horfa. Búið er að víla og díla um orkupakkafjandann fyrir löngu síðan. Um það ætti enginn heilvita maður að efast um. Planið er klárt. Síðustu ár hefur sú vinna farið fram bak við tjöldin. Þar fara fremstir í flokki forstjóri Landsvirkjunar, sem lýsir því yfir á hverjum aðalfundinum á fætur öðrum, í allt að því frygðarstandi, að strengurinn muni koma, hvað sem tautar og raular. Jafnvel þó sturta þurfi orkufrekum iðnaði niður í tojilettið. Störfin sem hverfa....´´who gives a shit´´. Þann forstjóra ætti að reka sem fyrst og geri ég það hér með að tillögu minni sem þrjú hundruð  og þrjátíu þúsundasti hluti eigenda Landsvirkjunar. 

 Umpólun forystu Sjálfstæðisflokksins og þá sérstaklega formannsins, hlýtur að eiga sér einhverja skýringu og hræddur er ég um að hún gagnist síst almenningi. Því hljóta myrk öfl að hafa valdið, sem alls ekki þola dagsins ljós. Það þarf virkilega einbeittan og óræðan, óutskýrðan brotavilja til að umpólast með þessum hætti, á ekki lengri tíma. Forysta sem fer ekki einu sinni eftir ályktunum landsfundar eigin flokks, hefur tapað öllum trúverðugleika hugsandi flokksmanna og ætti að moka út í hafsauga. Valhöll var ekki byggð fyrir svona svikapakk, svo mikið er víst. Nafn flokksins gefur ákveðna vísbendingu. Skilji forysta Sjálfstæðisflokksins ekki einu sinni nafn flokksins, hefði hún átt að fylgja Þorgerði og co yfir í svíðreisn. Húsið Valhöll var byggt fyrir sjálfstætt fólk, en ekki undirlægjur erlends afls, fullveldisafsalssinna, eða borgunarmenn gamalla skulda, í formi valdaafsals sjálfstæðrar þjóðar.

 Framsóknarmaddömmuna þarf sennilega minnst að fjölyrða um. Sú portkona selur sig ávallt á besta verðinu og er búin að vera lengur með útsölu á sjálfri sér en Litaver í Hreyfilshúsinu, meðan það var og hét. Þar gilda heldur engar landsfundarniðurstöður, frekar en annars staðar.

 Vinstri grænir með Forseta Alþingis í fararbroddi, ásamt svokölluðum Forsætisráðherra, sem gefur fimmur eins og trúður í bulluseli, situr hjá og þegir, eða hvað. Nei, ´´Málið er útrætt´´. Setning sem sá er nú gín yfir þingsal Alþingis frussaði út úr sér í algerri fyrirlitningu á þjóðarhagsmunum , fyrir áratug. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er þetta kúvendingshrat, þetta auma mosavaxna fyrirbæri komið í efstu stöður samfélagsins á ný og horfir yfir ´´glæsta sigra sína´´ með stolti og ótrúlegri lygaþvælu, þegar hentar. Dagskrárstjóri Alþingis, kúvendingurinn úr Þistilfirðinum, kemur fram í fjölmiðlum og kvartar yfir þvi að vera haldið í gíslingu þeirra, sem þrátt fyrir fyllerísraup og annan upptekinn óskunda, sjá heildarmyndina. 

 Það er svívirðilegt plott í gangi gegn alþýðu Íslands. Þar fara fremst í flokki fólk sem auðvelt virðist að snúa og sumir snúast meira að segja af sjálfu sér. Á móti viðsnúningi sem þessum, hlýtur að vera búið að lofa einhverjum sporslum. Eða er verið að borga til baka greiða, sem Forseti Alþingis veitti nýbornum kúvendingum Sjálfstæðisflokksins  í eftirmálum Hrunsins? Sjóvá eða eitthvað dulítið svoleiðis...? Þeirri sögu hefur verið pakkað inn í leyndarskjöl hundrað ára leyndar, fyrir tilstuðlan Þistilfjarðarkúvendingsins.

 Svona aula hefur þjóðin ekkert að gera við. Allra síst í formannsstólum stjórnmálaflokka.

 Afsakaðu langlokuna Bjarni. Þakka þér málefnalega og einstaklega vel gerða pistla þína. Í þeim hefur ekki verið farið með fleipur um nokkurn hlut, heldur bent á einfaldar staðreyndir og raunverulegar afleiðingar þess að samþykkja viðbjóðinn sem kallast orkupakki þrjú og það sem á eftir honum kemur. Það sem Ísland þarfnast mest í dag, eru þúsund þínum líkir.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan. 

Halldór Egill Guðnason, 2.6.2019 kl. 01:05

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Halldór -það er gaman og gott að setja hressilegt mannamál í letur. Hafðu heilar þakkir fyrir og einnig þér Bjarni fyrir alla framgöngu þína í þessu máli.

Eggert Guðmundsson, 2.6.2019 kl. 11:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka ykkur báðum hér að ofan hlý orð í minn garð og Halldóri Agli sérstaklega fyrir hans stormasama innlegg.  Þar er nú ekki skafið utan af því, enda engin ástæða til, þegar valdsmenn ganga fram með þeim ósæmilega hætti, sem þeir gera í þessu orkupakkamáli.  Starfshættirnir eru í alla staði ólýðræðislegir.  Að draga ESB hér inn á gafl ákvarðanatöku um raforkumál landsins (Landsreglarinn, ACER) fyrir tilverknað misviturra embættismanna án umræðu á meðal þjóðar og á þingi var það, sem fyrir valdastéttinni vakti.  Nú verður ekki um neitt slíkt að ræða, heldur verða ráðherrar og aðrir þingmenn krafnir skýringa á undarlegum ummælum sínum um léttvægi OP#3, þegar afleiðingar lagasetningar Evrópusambandsins á sviði orkumála fara að sjá dagsins ljós fyrir alvöru.  Munum, að endanlegt stefnumið ESB á orkumálasviði er fullnaðarstjórnun orkumála innan ESB, og viðkomandi EFTA-lönd fljóta með að feigðarósi. 

Bjarni Jónsson, 2.6.2019 kl. 14:04

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hann Halldór hefur alltaf kunnað að orða hlutina á kjarnyrtan og skemmtilegan hátt og án þess að fara yfir "strikið" og hreinskilni og réttsýni er hans aðalsmerki.  Og ef menn kunna ekki að meta hreinskilnina er það bara þeirra vandamál.  Þjóðin þarf á fleiri svona mönnum að halda......

Jóhann Elíasson, 2.6.2019 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband