Ólesnir, þröngsýnir nauðhyggjumenn eru illa fallnir til leiðsagnar

Við mat á afleiðingum innleiðingar Orkupakka #3 (OP#3) fyrir stjórnarfar og stefnumörkun orkumála landsmanna, svo og áhrif OP#3 á hag þeirra, er algerlega ófullnægjandi að skoða OP#3 einan.  Hann er aðeins stór steinn í vörðu, sem vísar veginn að fullri stjórnun Evrópusambandsins (ESB) á orkumálum aðildarlandanna og eftir atvikum EFTA-landanna.  Þessi miðstýring er grundvölluð í Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrárígildi ESB, en í upphaflega EES-samninginum frá 1992 er hana ekki að finna, enda hefði hann þá vafalítið ferið felldur á Alþingi í janúar 1993 (og líklega á Stórþinginu árið áður).

Það er líka nauðsynlegt að meta áhrif OP#3 með hliðsjón af EES-samninginum, t.d. hins alls yfirskyggjandi fjórfrelsis, og annarra gerða ESB, sem ýmist hafa þegar verið lögleiddar hér eða munu vafalaust verða það.  Þar má nefna þjónustutilskipun ESB og reglugerð #347/2013 um Kerfisþróunaráætlun ESB og samræmda meðhöndlun umsókna fyrirtækja um leyfi til uppbyggingar innviða til orkuflutnings á milli svæða eða landa.

Það er sammerkt með öllu þessu regluverki ESB, að það er sniðið til að draga úr opinberu eignarhaldi og rekstri og til að efla frjálsa samkeppni.  Iðnaðarráðherra Íslands hefur gleypt þetta agn og tilfærir sem meginrökin fyrir innleiðingu OP#3.  Það er merki um illa ígrundaða afstöðu af tveimur ástæðum:

1) Á Íslandi verður aldrei frjáls samkeppni að evrópskum hætti, sem þrýstir raforkuverðinu niður í lágmark þess, sem arðbært getur talizt, af því að hér verður alltaf fákeppni á þessu sviði og staða orkuvinnslufyrirtækjanna er fádæma ójöfn.  Orkukauphöll að hætti ESB verður þess vegna varla orkukaupendum til hagsbóta.

2) Landsmenn eru ekki tilbúnir að líta á rafmagn sem vöru, eins og ESB og iðnaðarráðherra, heldur stendur hugur landsmanna að líkindum nær því að líta á rafmagnið úr orkulindum landsins sem samfélagslega þjónustu, sem félagsleg fyrirtæki eigi að hafa forgang til nýtingar á, enda verði orkulindirnar lýstar í þjóðareign með svipuðum hætti og fiskimiðin.  Slíkt jafngildir ekki þjóðnýtingu einkaeigna á orkulindum, heldur skuli ríkisvaldið með slíkri lagasetningu öðlast rétt til að stjórna auðlindanýtingunni, eins og á sér stað með tiltölulega farsælum hætti með fiskimiðin.  Með þessu móti er von um lýðræðislega ákvörðunartöku um nýtingu orkulindanna og vonandi mestu sátt, sem hægt er að ná á þessu sviði í þjóðfélaginu.  Raforkukerfið væri þá viðurkennt sem innviðir samfélagsins, sem ríkisvaldið ber ábyrgð á.

Þetta samræmist hins vegar engan veginn stefnu ESB á orkumálasviði, sem með öllu sínu regluverki ýtir undir einkavæðingu og fjárfestingu einkaaðila í þessum geira í stað hins opinbera.  Sýnidæmi um þetta höfum við fyrir augunum um þessar mundir.  ESA sendi ríkisstjórn Íslands fyrir nokkrum árum bréflega fyrirspurn um það, hvernig hún færi að því að tryggja úthlutun virkjanaleyfa á markaðsverði.  Málið er enn í nefnd hér, enda "heit kartafla".  Í marz 2019 fékk orkuráðherra Noregs sams konar bréf frá ESA, og  nýlega var það birt opinberlega.  Þar í landi mun þess vegna bráðlega myndast umræða um málið, og þar kann að hitna í kolunum, því að um það hefur ríkt þjóðarsátt í Noregi, að virkjanir landsins séu að mestu leyti í þjóðareign.  Meira að segja millilandatengingar raforku eru þar allar í ríkiseign.  

Með því að líta til viðskipta framkvæmdastjórnar ESB við ríkisstjórn Frakklands út af franska ríkisorkufyrirtækinu EdF má sjá í hvað stefnir í viðskiptum ESA við ríkisstjórn Íslands og Noregs um eignarhald virkjanaleyfa og vatnsaflsvirkjana.  Þessu máli gerði Bændablaðið ítarleg skil  29. maí 2019 undir fyrirsögninni:

"Þess er nú krafizt, að átta ríki ESB einkavæði sínar vatnsaflsvirkjanir".

Verður nú vitnað í þessa úttekt blaðsins:

"Hefur framkvæmdastjórnin, sem hefur umsjón með frjálsri samkeppni í Evrópu, verið að þrýsta á Frakkland og 7 önnur lönd í langan tíma til að tryggja, að opnað verði fyrir einkafjármagn í orkugeiranum.  Þann 7. marz síðastliðinn var síðan höfðað samningsbrotamál gegn Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Ítalíu og Bretlandi fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og vatnsfallsvivrkjana."

Hérlendis hefur því verið haldið fram af orkupakkasinnum, og vitnað í lögfræðiálit því til stuðnings, að EES-samningurinn og viðaukar hans veiti Evrópusambandinu enga viðspyrnu til að krefjast breytinga á eignarhaldi virkjana eða á nýtingarrétti orkulindanna.  Nú er allt annað komið á daginn.  Að sjálfsögðu fetar Eftirlitsstofnun EFTA-ESA í fótspor Framkvæmdastjórnarinnar.  Hún sendi íslenzku ríkisstjórninni fyrir nokkrum árum og norsku ríkisstjórninni í marz 2019 skriflega fyrirspurn um það, hvernig ríkisstjórnirnar gengju úr skugga um það, að virkjunarleyfum vatnsorkuveranna væri úthlutað á markaðsverði í ljósi þess, að um opinbera úthlutun takmarkaðra gæða væri að ræða.  Hér er augljóslega um að ræða opnun ESA á sams konar kröfu gagnvart EFTA-löndunum og Framkvæmdastjórnin hefur rekið gagnvart 8 ESB-löndum um einkavæðingu leyfa fyrir vatnsorkuver í opinberri eigu.  Þetta stríð hefur nú leitt til þess, að ríkisstjórn Frakklands hefur boðizt til að selja mörg vatnsorkuver í eigu ríkisfyrirtækisins EdF.

Það blasir við, að vatnsréttindi Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár-svæðinu, sem Landsvirkjun fékk í heimanmund frá ríkissjóði við stofnsetninguna árið 1965, eru í uppnámi, og þess verður krafizt, að einkaaðilum á EES-svæðinu verði gefinn kostur á að bjóða í þessi verðmæti til afmarkaðs tíma, t.d. aldarfjórðung.  Þetta sýnir, að alls ekki má vanmeta einbeittan vilja Evrópusambandsins til að markaðsvæða raforkugeirann í ESB í nafni fjórfrelsins og EFTA-löndin í EES verða að lúta sömu reglum.  Það er í þessu ljósi mjög óráðlegt að veita ESB þær rúmu heimildir hérlendis, sem OP#3 felur í sér, t.d. með Landsregaranum og heimildum ACER samkvæmt Evrópuréttinum varðandi millilandatengingar.  

"Á frönskum vefmiðlum má sjá hörð orð um einræðistilburði ESB við að innleiða skefjalausan kapítalisma í franska orkugeirann, án þess að stjórnvöld hreyfi þar legg né lið.  Það sé allavega lágmarkið, að þjóðin sé spurð um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort hún vilji afsala sér yfirráðum yfir eigin orkufyrirtækjum. Einnig er spurt, hvort verið sé að færa franska orkugeirann í hendur kínverskra fjárfesta á silfurfati."

Hvernig halda menn, að pólitíska ástandið verði hérlendis, þegar það verður lýðum ljóst, að orð stjórnmálamanna, embættismanna og lögfræðinga um, að EES-samningurinn næði ekki til eignarhalds og yfirráða orkulinda og virkjana, eru orðin tóm og án nokkurrar lagalegrar stoðar, þegar ESB/ESA lætur til skarar skríða ?  Þá munu orðhákar orkupakkanna flýja inn í holur sínar.  Ekkert hald verður í þeim frekar en fyrri daginn.  Þá er ljóst, að EES-samningurinn verður í uppnámi, og stjórnmálaflokkarnir, sem mælt hafa fyrir umdeildu frekara fullveldisframsali með innleiðingu OP#3 munu eiga í vök að verjast.  

""Vatnsorkuver eru helzta uppspretta okkar af endurnýjanlegri raforku og skila 12 % af rafmagni okkar.  Þetta er jafnframt eina leiðin fyrir okkur til að geyma raforku", segir einn þessara [frönsku] þingmanna [sem telja valdhafana skorta pólitískan vilja til að verja öryggi og fullveldi Frakklands].  Hann bendir líka á, að þetta sé mikil áskorun fyrir iðnað, þar sem starfa um 25 000 manns og [sem] skilar um mrdEUR 1,5 [í opinberum tekjum]. 

"Það verður að verja vatnsorkuverin okkar líkt og gert hefur verið varðandi kjarnorkuverin", sagði þingmaðurinn Marie-Noëlle Battistel við blaðið L'Express."

Það er greinilega mikill pólitískur ágreiningur í uppsiglingu um eignarhaldið í orkugeiranum í uppsiglingu í Frakklandi.  Ráðamenn þar geta sig hvergi hreyft gagnvart Framkvæmdastjórninni vegna aðildar landsins að Evrópusambandinu.  Íslenzka löggjafarvaldið getur enn hafnað OP#3 og leitað samninga um undanþágur í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Ef allt um þrýtur kann að verða nauðsynlegt að leita annarra viðskiptalausna við Evrópusambandið.  Líklegt er, að megn óánægja með EES-aðildina gjósi einnig upp í Noregi, þegar Norðmenn horfa framan í einkavæðingarkröfur ESA/ESB á hendur orkugeira þeirra, og þá kann að myndast jarðvegur fyrir samningaviðræður EFTA með Svisslendinga innanborðs við ESB.

""Vatnsorkuverin hafa verið fjármögnuð af frönsku þjóðinni og eru rétt að byrja að skila arði.  Það er ekki til umræðu að gefast upp", sagði þingmaðurinn Delphine Batho.

"Spurningin snýst um öryggi og stjórnun sameiginlegs ágóða, en einnig um kostnaðarstjórnun.  Ég óttast, að einkavæðingin í orkumálunum verði á sama veg og varð við einkavæðingu hraðbrautanna, sem leiddi til aukins kostnaðar fyrir neytendur.""

 Raforkuvinnslukostnaður vatnsorkuvera stafar aðallega af stofnkostnaðinum, en aðeins að litlu leyti af rekstrarkostnaði.  Þegar búið að greiða niður lán vegna fjárfestingarinnar, taka vatnsorkuverin að mala eigendum sínum gull.  Það á einmitt við um elztu virkjanir Landsvirkjunar á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, allar nema Búðarhálsvirkjun, sem er aðeins 6 ára gömul.  Það væri þess vegna fjármálalegt óráð að selja þessar virkjanir núna, og að bjóða vatnsréttindi þessara virkjana út eða upp á EES-markaðinum getur aðeins leitt til hækkunar raforkuverðs til neytenda.  Það er auðvelt að taka undir það með gagnrýnum frönskum þingmönnum, að afskipti Evrópusambandsins og í okkar tilviki ESA af eignarhaldi í raforkugeiranum er óþolandi.  Við þessar aðstæður er óskiljanlegt, að flestir Alþingismenn virðast fúsir til að vaða enn lengra út í fenið og færa ESB/ESA enn meiri völd yfir orkugeiranum.  

"Krafa framkvæmdastjórnarinnar snertir yfirráð fransks almennings yfir 399 vatnsaflsvirkjunum víða um Frakkland.  Með öðrum orðum er verið að neyða franska ríkið til að afsala sér yfirráðum yfir sínum vatnsorkuverum í hendur einkafyrirtækja. Það er nokkuð, sem íslenzkir þingmenn, sem hafa haft forgöngu um að innleiða orkupakka 3 á Íslandi, hafa þvertekið fyrir, að væri nokkur hætta á, að geti gerzt hér á landi.  

Krafa framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel um, að EdF verði opið fyrir einkafjármagn, miðast við, að yfirráðaréttur franska ríkisins yfir 150 vatnsorkuverum falli úr gildi árið 2023."

Ólesnir og þröngsýnir þingmenn, haldnir nauðhyggju um, að engrar undankomu sé auðið að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 til að "bjarga" EES-samninginum, eru þvert á móti að reka nagla í líkkistu EES-samningsins með afléttingunni.  Þeir hafa látið aðstoðarmenn ráðherra teyma sig út í orðhengilshátt eins og þann, að  sæstrengsákvæði OP#3, t.d. reglugerð #713/2009, muni ekki gilda á Íslandi, af því þau gildi aðeins um innviði í rekstri.  Þarna gætir ónákvæmni, sem veldur alvarlegum rangtúlkunum, sem verða Íslandi ekki í vil fyrir dómi.  OP#3 á vissulega við sæstrengi á undirbúningsstigi, a.m.k. frá þeim degi, þegar umsókn um leyfi til lagningar og tengingar við raforkukerfi landsins er skilað inn til orkustofnunar á Íslandi og á Bretlandi.  Til að skýra línurnar kann að verða nauðsynlegt fyrir sæstrengsfjárfestana að höfða samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir að lögleiða fyrirvara við OP#3 (#713/2öö9), sem áskilur samþykki Alþingis fyrir undirbúningi og lagningu aflsæstrengs.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir þína frábæru pistla.

Ég vona að fólk sé að vakna, að vísu upp við vondan draum, en þá er bara að setjast niður, fá sér kaffi og lesa og lesa. Ég verð að viðurkenna að ég treysti stjórnvöldum - nánast í blindni. Það var kjaftshögg að uppgötva að fólkið sem var treyst til að leiða þjóðina brást gjörsamlega. Ef þau vilja að ávinna sér aftur traust og virðingu er algjört lágmark að þau lesi sér til gagns svo þau séu viðræðuhæf við venjulegt alþýðufólk í öllum flokkum sem kann að lesa.

Benedikt Halldórsson, 4.6.2019 kl. 21:06

2 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk innilega fyrir þessar upplýsingar Bjarni!!!

Það er ljótt að heira hvernig þetta valdafólk talar um þá sem eru að upplýsa fólk um rétta hluti í þesum málum.

Kv af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 5.6.2019 kl. 19:19

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk báðir fyrir ykkar innlegg hér að ofan.  Höfum í huga, að dramb er falli næst.

Bjarni Jónsson, 5.6.2019 kl. 20:49

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert maðurinn, Bjarni, geysimikið gagn að greinum þínum.

Hér fá þeir Miðflokksmenn sannarlega sitthvað að vitna í.

Jón Valur Jensson, 6.6.2019 kl. 03:12

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er þverpólitísk þjóðfrelsisbarátta, Jón Valur, en Miðflokkurinn einn heldur uppi frelsismálstað Jóns Sigurðssonar, forseta, á Alþingi.  Sú staðreynd hringir mörgum kirkjuklukkum í aðvörunarskyni.

Bjarni Jónsson, 7.6.2019 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband