"Um lagalega óvissu, sem fylgir orkupakkanum"

Þann 19. júní 2019 birtu 2 aðstoðarmenn utanríkisráðherra, faðir annars þeirra og 5 aðrir hæstaréttarlögmenn yfirlýsingu í Morgunblaðinu, sem átti að vera andsvar við yfirlýsingu 5 hæstarréttarlögmanna í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður um hættuna á skaðabótakröfum á hendur íslenzka ríkinu vegna rangrar og ófullkominnar innleiðingar á Þriðja orkupakkanum, OP#3.

 Áttmenningarnir reisa málflutning sinn á sandi, eins og nú skal rökstyðja, og þar með fellur hinn lagalegi grundvöllur undan þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, sem stjórnarflokkarnir ætla nú, illu heilli, að innleiða 2. september 2019. Spurningin er um það, hvort valdheimildir stofnana EES/ESB nái til ákvarðana um, hvort sæstrengur verði lagður.  Áttmenningarnir eru með eftirfarandi skrýtnu kenningu:

"Þessar valdheimildir gilda einungis, þegar slík tenging er til staðar".

Hvar stendur það í OP#3, að valdheimildir stofnana ESB um millilandatengingar nái aðeins til millilandatenginga í rekstri, en ekki til millilandatenginga á verkefnastigi ?  Þessi fráleita túlkun áttmenninganna virðist þá þýða, að valdheimildir ESB nái ekki til sæstrengs nr 1 til Íslands, en myndi hins vegar ná til sæstrengs nr 2 og áfram.

Hér er grundvallarmisskilningur á ferðinni hjá áttmenningum og þar með hjá ráðherrunum og þingliði ríkisstjórnarinnar.  Þetta er svipað og að fullyrða, að engin umferðarlög gildi, ef engin er umferðin.  Það er ljóst, að þau verða virk, um leið og fyrsti vegfarandinn birtist.  Með sama hætti verða allar valdheimildir Evrópusambandsins (ESB) um millilandatengingar virkar, hvað Ísland áhrærir, þegar fyrsta sæstrengsverkefnið um Íslandsstreng verður stofnað og alls ekki síðar en við afhendingu verkefnisumsóknar til Orkustofnar Íslands og orkustofnunar með lögsögu í hinum enda sæstrengsins.

  Þar sem málatilbúnaður deiluaðila í orkupakkamálinu snýst mikið um sæstrenginn, verður nú gerð nánari grein fyrir því, hvernig ESB fer að því að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum aðildarlöndum EES, eftir að þau hafa innleitt OP#3 og þar með Evrópulöggjöfina á sviði millilandatenginga fyrir raforku.  Það, sem hér verður greint frá, ætti engum kunnugum OP#3 að koma á óvart, því að þar er á nokkrum stöðum skrifað, að eitt aðalhlutverk hans sé að liðka til fyrir millilandatengingum og að ryðja einstökum staðbundnum hindrunum úr vegi.

ESB, ACER, Landsreglari, PCI, ESA og EFTA-dómstóllinn:

Eitt af verkefnum ACER-Orkustofnunar ESB er eftirfylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB og við  forgangsverkefni ESB, s.k. PCI-verkefni (Projects of Common Interest).  ACER og Landsreglarinn í hverju landi eiga að fylgjast grannt með því, hvort kerfisáætlanir flutningsfyrirtækjanna, Landsnets og systurfyrirtækja hennar, taki mið af og séu í fullu samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr raforkutilskipun 2009/72/EB, gr. 37, nr 1(g).  Eins og allir, sem fylgjast með þessu orkupakkamáli, ættu að vita (Björn Bjarnason lemur hausnum við steininn um þetta mál), er IceLink, aflsæstrengur á milli Bretlands og Íslands, í gildandi Kerfisþróunaráætlun ESB, og er jafnframt PCI-verkefni.  Það er viðamikið matsferli að baki áður en framkvæmdastjórn ESB að lokum samþykkir verkefni inn á PCI.  Einstakar ríkisstjórnir hafa ekki síðasta orðið um það, og heldur ekki með að taka verkefni út af listanum.

Landsreglaranum ber að gefa ESA-Eftirlitsstofnun EFTA og ACER skýrslu um tilvik, þar sem óhlýðni við Kerfisþróunaráætlun ESB gætir hjá flutningsfyrirtækjunum, hér Landsneti.  Þannig mun Landsreglarinn fylgjast náið með áætlanagerð Landsnets, fjárveitingum til hennar og framkvæmdum fyrirtækisins.  Ef t.d. Landsneti mun ganga illa að fá framkvæmdaleyfi fyrir flutningslínum til að tengja IceLink við stofnrafkerfi landsins, mun koma til kasta ACER og ESA.  ACER myndi þá biðja formlega um, að Kerfisþróunaráætlun ESB verði haldið í heiðri, og ef allt um þrýtur gæti ESA höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi vegna tafa við framkvæmd, og strengfjárfestarnir gætu síðan höfðað skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu fyrir íslenzkum dómstólum vegna tapaðra tekna.

Evrópusambandið leggur verulega áherzlu á það við yfirvöld í hverju landi, að umsóknir um  millilandatengingar á PCI séu samþykktar og framkvæmdaleyfi veitt í kjölfarið.  Ef yfirvöldin, hér Orkustofnun, hins vegar hafna umsókn, eins og OS verður að gera, ef OP#3 verður innleiddur og Alþingi síðan setur lög, sem banna tengingu íslenzka raforkukerfisins við útlönd, þá getur fjárfestirinn kvartað við ESA.  Við þessar aðstæður verður ekki séð, að íslenzk stjórnvöld geti komið í veg fyrir málarekstur fyrir EFTA-dómstólinum.

Hversu djúptækar valdheimildir ESB hefur skapað sér til að ná markmiðum Sambandsins um eflingu millilandatenginga til að auka aflflutningsgetu á milli landa, sést enn greinilegar, þegar við virðum fyrir okkur OP#3 í samhengi við innviðareglugerð ESB, gerð 347/2013, sem ESB gerir ráð fyrir að tekin verði inn í EES-samninginn, eftir að gengið hefur verið frá innleiðingu OP#3 í hann, enda skarast innviðareglugerðin við gerðir OP#3 og eflir völd ESB til að fylgja eftir ákvæðum OP#3.

PCI-verkefni - eins og IceLink - skulu samkvæmt innviðareglugerðinni, gr. 7, njóta hæsta forgangs innan ESB og í kerfisáætlunum hvers aðildarlands og við afgreiðslu leyfisumsókna.  Bann Alþingis við því, að Landsnet setju aflsæstreng til útlanda inn á framkvæmdahluta kerfisáætlunar sinnar, eins og lagafrumvarp Þórdísar, iðnaðarráðherra, gerir ráð fyrir, gengur þvert gegn þessu ákvæði og verður auðvitað brotið á bak aftur með höfðun samningsbrotamáls gegn íslenzka ríkinu að hálfu ESA.  Fyrirhugaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar eru reistir á vanþekkingu á Evrópurétti, eru haldlausir til lengdar og skapa ríkinu skaðabótaskyldu til skemmri tíma litið.  Landið væri miklu betur sett án nokkurra fyrirvara, því að þeir eru í raun gagnslausir og geta reynzt ríkinu dýrkeyptir.

Í téðri innviðareglugerð eru jafnframt ákvæði í gr. 10 til að undirstrika mikilvægi PCI-verkefna.  Það verður ekki hægt að draga afgreiðslu leyfisumsókna á langinn, því að þar er kveðið á um, að afgreiða skuli umsókn innan 18 mánaða.  Orkustofnun getur sótt um 9 mánaða viðbótar frest til Landsreglara/ACER, en aðeins með góðum rökstuðningi verður hún samþykkt.  Ef Alþingi samþykkir OP#3, þá ofurselur það Orkustofnun valdi ACER varðandi sæstrengsumsóknir.  Það er tóm ímyndun ráðherranna, að allt verði einfaldlega, eins og áður var.  Fullveldi ríkisins varðandi millilandatengingar verður einfaldlega flutt til ACER/ESB með samþykkt OP#3.  Þetta óttaðist norska stjórnarandstaðan og setti fyrirvara um þetta o.fl.  Bréf þessa efnis var sent Sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir rúmt ár hefur enn ekki borizt svarbréf frá ESB, sem þýðir hundsun.  Fyrirvararnir voru ekki pappírsins virði.  

Í innviðagerðinni eru settar reglur um mat á umsóknum um leyfi fyrir millilandatengingum, þannig að hér verður ekki hægt að beita séríslenzkum lögum og reglum til að hafna umsókn.  Aðalreglan er sú, að sé verkefnið samfélagslega hagkvæmt, þar sem samfélagið er ESB, þá ber að samþykkja það.  Það er líka meginskilyrðið fyrir að komast inn á PCI-skrána, svo að fyrirsjáanlega verður að samþykkja IceLink, ef umsókn um hann berst eftir innleiðingu OP#3 í landsrétt hér.  Það er stórhættulegt og heimskulegt viðhorf, sem margir Alþingismenn hafa gert sig seka um, að samþykkt OP#3 breyti engu fyrir Íslendinga.  Ef við samþykkjum, að lög og reglur Evrópusambandsins skuli ríkja hér, þá verðum við að lúta þeim.  Annað kostar stríð við Evrópusambandið, sem getur komið hrottalega niður á okkar lífskjörum á næstu árum.  Höfnun pakkans er aftur á móti fullkomlega lögleg og leiðir sjálfvirkt til samningaviðræðna í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem öllum er í hag að ná samkomulagi, sem allir geta sætt sig við.  

Samkvæmt #347/2013, gr. 11, eiga raforkuflutningssamtök ESB, ENTSO-E, þar sem lönd utan ESB í Evrópu einnig eiga aðild, að semja samræmdar og vel útfærðar reglur til að reikna út samfélagslega hagkvæmni millilandaverkefna.  Þær þarfnast síðan samþykkis ACER og framkvæmdastjórnar ESB.  Evrópusambandið hefur þannig alla þræði í hendi sér í þessum efnum.  Aðeins blindingjar sjá það ekki, eru með gorgeir og þykjast með innlendri lagasetningu geta haft í fullu tré við Evrópusambandið.  Slíkt tal minnir á ræður Ketils, skræks, í Skugga-Sveini.

Í innviðareglugerðinni eru ákvæði um viðbrögð við þversku einstakra stjórnvalda gegn millilandatengingum og hvers konar öðrum hindrunum, sem þessi verkefni kunna að verða fyrir.  Samkvæmt #347/2013, gr. 6, skal þá setja á stofn evrópska eftirlitsnefnd til að framfylgja því, að samræmdum reglum sé fylgt alls staðar við umfjöllun verkefnisins hjá hinu opinbera. Ennfremur skal þá útnefna hæft yfirvald í viðkomandi landi, sem beri ábyrgð á fyrirgreiðslu og samræmdri málsmeðferð PCI-verkefnis.  Þetta gæti t.d. þýtt það, að reki sæstrengsumsókn upp á sker hér, taki ACER hana úr höndum Orkustofnunar og feli Landsreglaranum að afgreiða hana.  Landsreglarinn fylgir þá eftir öllum hliðum málsins hér innanlands, ekki sízt þætti Landsnets við að hanna, fjármagna og fá framkvæmdaleyfi fyrir línu frá stofnrafkerfi landsins og niður að landtökustað sæstrengsins.

Það er ljóst af þessum heimildum Evrópusambandsins í innviðareglugerðinni, að engum vettlingatökum á að beita þá, sem draga lappirnar eða tefja fyrir framkvæmd PCI-verkefnis Evrópusambandsins.  ESA verður beitt og dómstólaleiðin farin til að knýja fram allar nauðsynlegar leyfisveitingar í nafni fjórfrelsins og skuldbindinga Íslands með innleiðingu OP#3.  Munu enn gala gaukar um, að OP#3 skipti Ísland engu máli ? 

Hér hafa verið nefnd nokkur atriði, sem samanlögð gera það ómögulegt að koma í veg fyrir sæstrengstengingu, standi vilji ESB á annað borð til þess, því að landslög víkja fyrir Evrópurétti. Þá verður eina úrræðið til að skakka leikinn að segja upp EES-samninginum.  Í þessu andrúmslofti verður ekki gæfulegt að semja við Evrópusambandið um valkosti við EES-samninginn.   

Að baki þessu öllu saman stendur stefnumörkun ESB um landamæralausan orkumarkað með tengingu við öll lönd og landssvæði innan ESB/EES.  Í nýrri, endurskoðaðri ACER-reglugerð, sem er hluti af OP#4, stendur þetta í formálanum, atriði 6: 

"Despite significant progress in integrating and interconnecting the internal electricity market, some Member States or regions remain isolated or not sufficiently interconnected, in particular insular Member States and Member States located on the periphery of the Union."

Af þessum texta ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, að fullyrðingar um, að valdheimildir Evrópusambandsins um millilandatengingar lúti aðeins að slíkum innviðum í rekstri, eru algerlega úr lausu lofti gripnar.  Höfundur þessa tilvitnaða texta hefur að líkindum haft Ísland sérstaklega í huga við ritun hans, því að ESB sárvantar og tekur fegins hendi við allri þeirri orku úr endurnýjanlegum orkulindum, sem það getur komið höndum yfir.  Evrópusambandið verður með öll tæki og tól í sínum höndum til að knýja fram vilja sinn í þessum efnum gagnvart Íslendingum eftir innleiðingu Alþingis á OP#3 og #347/2013, sem óhjákvæmilega kemur í kjölfarið.  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Kærar þakkir að halda vaktinni. Það mátti vita að amk. 5 dómarar Hæstaréttar geta ekki lesið lög og túlkað- en það hefur að vísu ekki komið mér á óvart.

Eggert Guðmundsson, 24.6.2019 kl. 19:14

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Tek undir með Eggerti Guðmundssyni.  Barátta þín er ómetanleg Bjarni.........

Jóhann Elíasson, 24.6.2019 kl. 20:41

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já drengir Þökk sé honum og nú kemur til kasta allra Íslendinga að hindra innleiðingu OP#3.

Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2019 kl. 14:25

4 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni! takk fyrir enn eina snilldargrein þína!

Þessu pervertafóstri sem er op/3 verður að eiða fyrir fæðingu,því að allir sem vija sjá verður þetta framtíðar þurfalingur á þjóðinni.

Forsætisráðherra ásamt ríkisstjórn hlítur að vera sammála því að eiða því sem er bara til óþurftar.

Kv af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 26.6.2019 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband