Nýjar yfirþjóðlegar stofnanir samkvæmt OP#4

Það er deginum ljósara, að Evrópusambandið hefur komið sér upp lagalegri spennitreyju um aðildarlöndin með síðustu orkupökkum, OP#3 og OP#4.  Enn er ekkert handfast um OP#5.  Ein af áhrifameiri nýjungunum í OP#4 er stofnun svæðisbundinna samhæfingarmiðstöðva, eins og nú skal greina.

Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 62, verður komið á laggirnar fáeinum samhæfingarmiðstöðvum innan ESB fyrir rafmagnsflutningakerfi hvers svæðis með eigin stjórn fyrir hverja miðstöð.  Í OP#4 er þetta fyrirbrigði kallað "Regional Coordination Centre - RCC".

  • Landsreglarinn er skyldugur að taka þátt í þessari starfsemi á sínu svæði og samþykkja stofnun RCC með þeirri auknu kerfismiðstýringu og kostnaði fyrir Landsnet, sem hún hefur í för með sér.
  • Kostnaðinum af RCC er skipt á milli orkuflutningsfyrirtækjanna og er greiddur af notendum innanlands með hækkun gjaldskráa.  Hvernig skiptingin verður er enn óákveðið.  Verði skipt eftir orkunotkun innanlands, mun RCC leggjast kostnaðarlega tiltölulega þyngst á Íslendinga.  
  • Stjórn RCC ákveður, hvernig kosningafyrirkomulag við ákvarðanir verður viðhaft, þ.e. hvort einhvers konar vigtun fer fram.
  • Stjórn RCC getur sjálf lagt til við ACER aukin völd sér til handa gagnvart aðildarlöndum á svæðinu.  Svæðismiðstöðvarnar, RCC, gætu þróazt í kerfisstjórnstöðvar, sem yfirtaki kerfisstjórnir aðildarlandanna.  
  • RCC skal tryggja, að löggjöf ESB sé framfylgt, sérstaklega um millilandatengingar.
Hér er enn bætt í yfirbygginguna til að efla völd ESB yfir raforkuflutningum.  Þetta kostar sitt, og sá kostnaður lendir á almenningi án þess, að almenningur fái nokkuð í staðinn.  Hálaunaðar silkihúfur, sem éta úr lófa ESB, munu trúar og tryggar vinna að því að draga öll völd, þ.á.m. kerfisstjórn raforkuflutninga í einstökum löndum, í hendur ESB/RCC.  Það er mjög varhugaverð þróun fyrir eyjarskeggja langt norður í hafi.
 
ÞAÐ VERÐUR FRAMKVÆMDASTJÓRNAR ESB AÐ ÁKVARÐA REGLUR UM ORKUFLUTNINGA MILLILANDATENGINGANNA, EKKI LANDSNETS EÐA ÍSLENZKRA YFIRVALDA.
 
Með útgáfu netskilmála og reglna stjórnar Framkvæmdastjórnin orkuflutningunum í smáatriðum með ACER, bæði innanlands og á milli landa.  Slíkt verður ekki á hendi kerfisstjórans Landsnets, eins og þó væri eðlilegast.  Með öðrum orðum er það raforkumarkaðurinn og ekki þjóðarhagsmunir, sem eiga að ráða ferðinni.  Þetta er stórhættulegt fyrir Íslendinga og getur hæglega leitt til ofnýtingar gufuforðabúra og tæmingar lóna löngu áður en að leysingum kemur.  Þetta er svo veigamikið afsal valds úr landinu til yfirþjóðlegrar stofnar, að er hrein frágangssök, sem varpar ljósi á nauðsyn þess að koma í veg fyrir gildistöku undanfarans, OP#3.
 
Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 63, ber ACER að kveða upp úrskurð, ef netskilmálum eða netreglum ekki er hlýtt.  Sé ekki farið eftir úrskurðinum innan 4 mánaða, er send skýrsla um málið til framkvæmdastjórnar ESB.  Hún getur látið afturkalla úrskurð ACER, eða hún getur staðfest hann og áréttað viðlagða rafsingu.  Landsreglarinn fær tvo mánuði til að framfylgja úrskurðinum.  
Það stendur hvergi í þessari tilskipun, hvað gerist, ef Ísland fer ekki eftir úrskurðinum.  Það er ekki undarlegt.  Ef þessi endurskoðaða rafmagnstilskipun verður samþykkt í Sameiginlegu EES-nefndinni og í þjóðþingum EFTA-landanna þriggja, þá verður hún að landslögum.  Landsreglarinn mun fyrst kæra brotið fyrir Héraðsdómi, sem mun dæma eftir lögunum, og telji ESB/ESA það ekki hafa gerzt í Landsrétti heldur í anda Evrópuréttar, þá dæmir EFTA-dómstóllinn eftir þessum Evrópurétti að lokum.
 
ESB HEFUR AFSKIPTI AF LEYFISVEITINGUM FYRIR NÝ VIND- OG VATNSORKUVER
 
Í raforkutilskipun OP#4, gr. 8, eru settar fram nákvæmar reglur um leyfisveitingar vegna nýrra vind- og vatnsorkuvera.  Þær skulu m.a. taka tillit til ætlaðs framlags þessara virkjana til markmiða ESB um hlutdeild virkjana endurnýjanlegrar orku á sameiginlegum raforkumarkaði ESB.  Sjá menn ekki skriftina á veggnum ? 
Það verður mjög erfitt eða ógjörningur að standa gegn flestum hagkvæmum virkjanakostum á Íslandi. 
Með samþykkt orkupakka #4 verður þessi hugmyndafræði lagalega ríkjandi á Íslandi. 
Hvernig ætla umhverfisverndarsinnar að hindra það, að rannsóknarleyfi verði veitt til hagkvæmra virkjana í bið- og verndarflokki Rammaáætlunar
Ætla þeir að leggja hald sitt og traust á fyrirvarann í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um bann Alþingis við millilandatengingum ?  Þar er ekki á vísan að róa, sbr EES-samninginn gr. 7.
Það eru aðrar leiðir til að flytja orkuna utan, t.d. vetnisframleiðsla, sem líklega verður arðvænleg strax á næsta ári. 
Á að treysta skessunum fyrir fjöregginu eða á að anda með nefinu og senda OP#3 aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar til alvarlegra samningaviðræðna ?
 
Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 42, verður Landsneti gert skylt að tengja ný vind- og vatnsorkuver og væntanlega jarðgufuver einnig inn á flutningskerfi raforku án þess að virkjunarfyrirtækið þurfi að borga aukakostnað vegna vegalengdar eða annars, eins og nú er krafizt í skilmálum Landsnets.  Þetta er mikið hagsmunamál fyrir virkjunarfyrirtæki á Íslandi, sem þá verða ekki lengur bundin af nálægð við t.d. Byggðalínu eða, að á lausu sé tengistaður í aðveitustöð Landsnets. Kostnaður virkjunarfyrirtækis verður fastur.  Auðvitað mun þetta fyrirkomulag leiða til hækkunar á gjaldskrá Landsnets fyrir almenna notendur; "there is no free lunch in this world of ours".  Þetta mun vonandi leiða til aukins framboðs raforku og aukins afhendingaröryggis, en mun orkuverðið lækka í kjölfarið (án sæstrengs).  Það mun reynslan leiða í ljós, ef þingmenn gína við þessu.
Annex ACER á Íslandi, Landsreglarinn, mun annast stjórnun þessara tengimálefna og samþykkt viðkomandi reglna.  
Dettifoss 
 
 
 
 
 
    
 
 
 
 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk fyrir þetta Bjarni!

Enn ein áskorunin á ráðamenn að endurskoða pakkamálið.

Kv af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 14.7.2019 kl. 09:51

2 Smámynd: Alfreð Dan Þórarinsson

Mér sýnist að ef við göngum þessa leið sem stjórnvöld virðast leggja mikla áherslu á að ekki líði margir áratugir þar til Jökulsá á Fjöllum verð virkjuð og hún er ekki smá spræna eins og Jökla.

Hvað segja þá andstæðingar virkjana.

Alfreð Dan Þórarinsson, 14.7.2019 kl. 11:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Virkjun Jökulsár á Fjöllum myndi skapa álíka mikla orku og Kárahnjúkavirkjun. 

Ómar Ragnarsson, 15.7.2019 kl. 00:45

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Með OP#4 tekur ESB sér vald til að móta leyfisveitingaferlið fyrir ný vind- og vatnsorkuver.  Fyrir samþykkt rannsóknar- og virkjanaleyfa vegur þungt, sbr rafmagnstilskipun #2019/944, ef orkulindin, sem virkja á, er endurnýjanleg.  Á Íslandi munu þarna heldur betur vegast á umhverfisverndarsjónarmið og virkjanasjónarmið, en samkvæmt OP#4 er hætt við, að Evrópulöggjöfin hafi oftast betur og að EFTA-dómstóllinn muni úrskurða í slíkum deilum.

Bjarni Jónsson, 15.7.2019 kl. 10:51

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitt er víst, að sú orka Jökulsár á Fjöllum má ekki seljast úr landi sem hráefni til að efla atvinnulíf annarra þjóða. Ísland fyrir Íslendinga!

Jón Valur Jensson, 15.7.2019 kl. 10:56

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Endurnýjanlegar orkulindir eru takmörkuð auðlind á Íslandi ekki sízt að teknu tilliti til umhverfisverndarsjónarmiða.  Við þurfum á allri tiltækri orku að halda innanlands til orkuskipta og aukinnar framleiðslu á sviði landbúnaðar og iðnaðar til að sjá stækkandi þjóð farborða.  Samkeppnishæfni landsins má ekki við raforkuverðhækkunum.  Þess vegna er aflsæstrengur til útlanda þjóðhagslega óhagkvæmur.  

Bjarni Jónsson, 15.7.2019 kl. 21:02

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisvert, Bjarni. Takk.

Jón Valur Jensson, 16.7.2019 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband