"Vér mótmælum allir"

Arnar Þór Jónsson,(AÞJ), héraðsdómari, greindi afleiðingar EES-samningsins með hliðsjón af Orkupakka #3 (OP#3) meistaralega í sögulegu, réttarfarslegu og lýðræðislegu ljósi í grein sinni,

"Fullveldið skiptir máli",

í Morgunblaðinu 27. júlí 2019.  Verður að mælast til þess, að allir þingmenn kynni sér grein þessa rækilega áður en þeir gera upp hug sinn til OP#3 og greiða um hann atkvæði á Alþingi.  Sú atkvæðagreiðsla mun fara á spjöld sögunnar og ráða miklu um hina pólitísku framvindu á landi hér næstu árin.  Verður nú vitnað ótæpilega í þessa lærdómsríku ritsmíð:

"Í ljósi frétta og vaxandi þunga í almennri umræðu um málið, tel ég ekki ofmælt, að ágreiningur um innleiðingu O3 sé að umbreytast í djúpstæða pólitíska krísu, sem skekur ekki aðeins ríkisstjórnarflokkana á grunninum, heldur einnig flokka í stjórnarandstöðu."

Sé þetta rétt athugað hjá AÞJ, sem djúpstæður ágreiningur í stjórnarflokkunum ber vott um, þá má vissulega vænta umbrota í þeim og jafnvel stefnubreytingar með tíð og tíma.  Þessi grein AÞJ er þungt lóð á þá vogarskál og mun e.t.v. marka þáttaskil.

"Ég tel m.ö.o., að rætur ágreiningsins um innleiðingu O3 liggi djúpt í réttarvitund almennings og stöðu Íslands gagnvart ESB á grunni EES-samstarfsins."

AÞJ telur m.ö.o., að EES-samstarfið samræmist ekki lengur réttarvitund almennings, hafi það nokkurn tíma gert það.  Við þær aðstæður er ljóst, að einhverjir stjórnmálaflokkanna munu fljótlega endurskoða afstöðu sína til EES-samstarfsins, og það er nákvæmlega það, sem búizt er við í Noregi líka.  Þar er reiknað með, að EES-samstarfið verði kosningamál í kosningabaráttunni 2021 fyrir Stórþingskosningarnar.  Sama ár verður Alþýðusambandsþing í Noregi, og þar er reiknað með, að meirihluti þingfulltrúa hafi fengið sig fullsadda af einkavæðingarfyrirskipunum ESA á raforkuvinnslu og járnbrautarekstri og réttindaskerðingum verkafólks.  Ályktun LO-þingsins gegn EES mun, ef að líkum lætur, hafa áhrif á afstöðu Verkamannaflokksins til EES og við ríkisstjórnarmyndun eftir þingkosningarnar haustið 2021. 

Þetta ólýðræðislega EES-fyrirkomulag, sem getur framkallað djúpstæðar samfélagsbreytingar, sem aldrei hafa þó verið ræddar í kosningabaráttu eða innan stjórnmálaflokkanna til neinnar hlítar, er að nálgast leiðarenda og hefur farið fé betra.  

"Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EES-samstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna, en ekki tekið þátt í mótun þeirra.  Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar.  Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn, sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar."

Þegar dómari kemst að þeirri niðurstöðu, að EES-samningurinn samræmist ekki grundvellinum að stofnun Alþingis við Öxará 930, þá er ljóst, að EES-aðildin er að verða fleinn í holdi þjóðarinnar, sem verður að fjarlægja hið allra fyrsta, ef ekki á verra að hljótast af. 

Brezka þjóðin, eða öllu heldur Englendingar, þoldi ekki lengur við í ESB, og sat hún þó við borðið, þar sem reglur eru samdar og ákvarðanir teknar.  Hún gekk hins vegar sjaldnast í takti við öxulríkin Frakkland og Þýzkaland, sem dunda við stefnumótun tvær einar að hætti stórvelda.  Er nú ljóst með yfirburðasigri Borisar Johnson í formannskjöri brezka Íhaldsflokksins, að draga mun til tíðinda í útgöngumálum Breta í 31.10.2019.

Æskilegast er, að EFTA, með Svissland innanborðs, geri í kjölfarið víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland, og Boris og Donald munu mynda einhvers konar öxul yfir Atlantshafið og fríverzlunarsamningur á milli landa þeirra mun fljótlega sjá dagsins ljós.  Mun þá styttast í fríverzlunarsamning Bretlands og ESB, og tiltölulega einfalt ætti síðan að verða að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi EFTA og ESB, er einnig spanni menningar- og vísindasamstarf.  

"Í þessu samhengi blasir líka við, að það er alger öfugsnúningur á hlutverki löggjafa og dómstóla, ef hinum síðar nefndu er ætlað að taka á sig nýtt hlutverk og fara að marka samfélagslega stefnu.  Dómurum er ætlað það stjórnskipulega hlutverk að finna og beita lögum þess samfélags, sem þeir þjóna til að verja rétt þeirra, sem brotið hefur verið gegn.  Þetta er mikilvægasta skylda dómara, en ekki að vera viljalaust handbendi ríkjandi valdhafa eða þeirra, sem telja sig vera fulltrúa siðferðilegs meirihluta á hverjum tíma."

Sumir dómar ESB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins, sem notar dómafordæmi hins fyrr nefnda, en ekki öfugt, hafa komið verulega á óvart og þótt vera á skjön við Evrópuréttinn.  Eitt dæmi um slíkt er dómur EFTA-dómstólsins í máli ESA gegn norska ríkinu í s.k. "Hjemmfallssak", sem fjallaði um þjóðnýtingu vatnsorkuvirkjana í Noregi að ákveðnum tíma frá gangsetningu virkjunar liðnum (a.m.k. 70 ár).  Áður hafði verið talið, að EES-samningurinn spannaði ekki eignarréttinn né afnotarétt auðlindanna, en annað er nú komið á daginn. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að lögin mismunuðu eigendum, bæði eftir þjóðernum og eignarformi, þ.e. í sumum tilvikum erlend einkaeign viki í tilviki norsku laganna fyrir ríkiseign.  Hvort tveggja er óleyfilegt samkvæmt "fjórfrelsinu", og "fjórfrelsið" trompar allt innan EES.  Í kjölfarið á þessum dómi voru sett lög í Noregi, eftir stímabrak við ESA, um að öll vatnsorkuver í Noregi yfir 5,0 MW skyldu a.m.k. að 2/3 hlutum vera í opinberri eigu. Hið einkennilega er, að þetta þótti ESA á sínum tíma vera fullnægjandi fyrir lögmæti yfirfærslu einkaeignar á virkjunum til norska ríkisins að afskriftatímanum löngu liðnum, en annað er nú komið á daginn um vatnsréttindin eða virkjunarréttindin sjálf.  Ljóst er t.d., að ef Landsvirkjun missir vatnsréttindi sín í Þjórsá/Tungnaá í hendur E'ON, sem er þýzkur orkuvinnslurisi, þá mun Landsvirkjun neyðast til að selja E'ON virkjanirnar í Þjórsá/Tungnaá.  Þetta er í samræmi við orkustefnu ESB, þar sem "fjórfrelsið" á að ríkja á sviði raforkuvinnslu, og ríkisafskipti eiga þar engin að vera, því að þau geta skekkt samkeppni um "vöruna" rafmagn.  Fæstir Íslendingar vilja líta á rafmagn sem "vöru", eins og ESB gerir, enda geta þeir ekki skilað keyptri "vöru" þessarar gerðar.  Rafmagn á að vera samfélagsgæði, sem unnin eru úr náttúrunni hérlendis.  Sátt í anda hugmyndafræði þeirra, sem lögðu grunn að Alþingi 930, verður tæpast um annað. 

Nú hefur aftur brotizt út stríð á milli ESA og norska ríkisins út af eignarhaldi vatnsorkuvera, því að 30. apríl 2019 barst norsku ríkisstjórninni bréf frá ESA með spurningum og áréttingum varðandi úthlutun vatnsréttinda í Noregi til virkjunaraðila með vísun til Þjónustutilskipunar ESB #123/2013.  Hér er greinilega sams konar mál á ferðinni og rekið hefur verið gegn Frakklandi í 30 ár og gegn Íslandi síðan 2016, sem legið hefur í þagnargildi. 

Norðmenn hins vegar svöruðu kokhraustir, að þeir hefðu við innleiðingu þessarar tilskipunar lýst því yfir, að þeir teldu hana ekki eiga við raforkuvinnslu.  ESA/ESB hlustar ekkert á svoleiðis píp.  Undanþágur verður að geirnegla með skriflegum samningum, sem öðlast lagagildi við staðfestingu Framkvæmdastjórnar, Ráðherraráðs og ESB-þings.  

"Skilaboð alríkisins eru þau, að menn eigi fremur að hlýða en að andæfa, því að í alríkinu kemur valdið  ofan frá og niður, en ekki öfugt.  Þegar svo er komið, hefur gjörbylting átt sér stað, frá því sem áður var lýst.  Í stað þess að reglur séu settar af fjölskyldum, í nábýli manna og mótist innan eins og sama samfélagsins, koma lögin frá yfirvaldi, sem vill þröngva sér inn í hversdagslíf okkar, jafnvel hugsanir okkar.  Nútímatækni gefur slíku miðstýrðu valdi nánast takmarkalausa möguleika á slíkri áleitni.  Jafnvel einveldiskonungar fyrri alda blikna í samanburði.  Í stað umhyggju í nærsamfélagi býr alríkið til stofnanir, sem sýna okkur gerviumhyggju, en krefja okkur um algjöra hollustu."

Þarna leiðir AÞJ okkur fyrir sjónir, hvert yfirþjóplegt vald ESB/EES hefur leitt okkur.  Okkar gamli löggjafi, sem mismikil reisn hefur verið yfir frá 930 til þessa dags, er nú á niðurlægingarskeiði vegna hins yfirþyrmandi yfirþjóðlega valds, sem hér er orðið allt umlykjandi í krafti EES-samningsins.  Þar segir, að Evrópurétturinn sé ríkjandi gagnvart landsrétti, og þar með verður Stjórnarskráin að víkja líka.  Þegar nú á að nota þennan rétt til að hrifsa orkulindir landsins undir "alríkið", er flestum orðið ljóst, að við svo búið má ekki standa.  

"Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að  umbreytast í alríki, eru margar ástæður fyrir því, að viðvörunarbjöllur hringi.  Yfirþjóðlegt lagasetningar-, framkvæmda- og dómsvald rýfur það samhengi, sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur framhjá hagsmunum þeirra, sem standa næst vettvangi, og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið.  Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipun Íslands."

Við þetta er ekki öðru að bæta en því, að stjórnkerfi, sem vanvirðir samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið er forkastanlegt og ekkert annað að gera en að kasta því á glæ með vel undirbúinni uppsögn EES-samningsins, helzt í samráði við Norðmenn, sem senn kunna að komast á sömu skoðun, og EFTA geri síðan víðtækan fríverzlunarsamning við ESB. 

Hjáróma raddir (Viðreisnar o.fl.) hafa auðvitað heyrzt í kjölfar birtingar greinar AÞJ, að nú sé ekkert annað að gera en að dusta rykið af ESB-umsókn Íslands frá júlí 2009, sem enn hvílir í skúffu í Brüssel, en ekkert er fjær sanni eða væri heimskulegra í utanríkismálum nú á BREXIT-tíma.

"Afleiðingarnar blasa við í málum eins og O3.  Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenzkan rétt reglur, sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um, hvernig íslenzkum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar, en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans."

Hér er á ferðinni flengjandi gagnrýni þegns í þjóðfélaginu, sem séð hefur í gegnum blekkingarvefinn. Þingmenn eru bara leikendur á sviði í leikriti, sem samið er í Brüssel, og íslenzkir búrókratar hafa síðan tekið að sér uppfærslu og leikstjórn.  "Hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin bezt ?"  Þingmenn verða að hrista af  sér slenið (hlekkina) nú í þessu alræmda orkupakkamáli.

"Á móti spyr stór hluti íslenzkrar þjóðar, hvað sé lýðræðislegt við það ferli, sem hér um ræðir.  Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það, að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og málið eigi þar með að heita "lýðræðislega útkljáð".  Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar, og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking."

 Hérlendir búrókratar og handbendi þeirra hafa einmitt haldið þessu fram, að of seint sé í rassinn gripið fyrir Íslendinga að grípa í taumana, þegar OP#3 kemur til þingsins.  Það er "lýðræðisblekking", og með því eru hinir sömu að gefa lýðræðinu og okkar fornfræga Alþingi langt nef.  Það gengur ekki.

"Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum, sem búa handan við hafið.  Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum, sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja.  Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo [að] ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenzkan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum, sem höfðuð verða í kjölfarið."

Hér bendir AÞJ á tvö mikilsverð atriði.  Í fyrsta lagi er það órökrétt með öllu, að við innleiðum hér lög, sem eru sniðin við samtengdan raforkumarkað Evrópu, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna óttist versnandi landshagi, efnahagslega, umhverfislega og stjórnarfarslega, við slíka tengingu.

Í öðru lagi bendir hann á, og hefur gert í fleiri greinum, stórhættu á því, að t.d. umsækjendur um aflsæstreng, sem ekki fá að tengja hann við stofnrafkerfi Íslands, muni krefjast stórfelldra skaðabóta í málaferlum fyrir EFTA-dómstólinum.  Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er afspyrnu veikur, ber vott um skammsýni og ótrúlegan heimóttarskap í utanríks- og iðnaðarráðuneytum.  Þar virðast ólæsir Bakkabræður ráða ríkjum: 

Að lokum ritaði AÞJ:

"Ég rita þessar línur til að andmæla því, að Íslandi sé bezt borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE, sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum, án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist.  Slíkt verður ekki réttlætt með vísun til þess, að Íslendingar hafi kosið að "deila fullveldi sínu" með öðrum þjóðum."

Hér er við hæfi að skrifa í nafni þjóðararfs og lýðræðis: 

VÉR MÓTMÆLUM ÖLL

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Bjarni

Þetta er meiriháttar grein sem þú hefur skrifað hérna. Ég vona að þú hafir sent þetta á öll e-mail Alþingismann til lestrar.

Eggert Guðmundsson, 5.8.2019 kl. 14:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nei, hef ekki gert það, Eggert.  Sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær. 

Bjarni Jónsson, 5.8.2019 kl. 16:21

3 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Fáir vita að Jón frændi var að mótmæla fyrir hönd bænda nýjum lögum frá danska þinginu sem bönnuðu þrælahald og vistbönd..

Guðmundur Böðvarsson, 6.8.2019 kl. 04:57

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Guðmundur Böðvarsson: mig minnir hann hafi mótmælt því, að Trampe, greifi, sleit Þjóðfundinum 1851.

Bjarni Jónsson, 6.8.2019 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband