Stórhættuleg braut mörkuð af ríkisstjórn

Margt bendir til, að Evrópusambandið (ESB) hafi í örvæntingu sinni yfir árangursleysinu við að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákveðið að "sprengja" sér leið að endurnýjanlegum orkulindum Íslands og Noregs, og þá munu jarðhitaauðlindir Íslands fylgja í kjölfarið.  Hér verður vikið að þeirri sviðsmynd, að undirlægjuháttur ríkisstjórnar Íslands gagnvart EES muni leiða til þess, að nýtingarréttur þessara íslenzku auðlinda hverfi úr landi. 

Við stjórnvölinn sitja nú blindingjar á orkumálin, en þingmenn Miðflokksins virðast hafa áttað sig á þýðingu þessa máls fyrir þjóðarhag, og er málflutningur formannsins í Bítinu á Bylgjunni að morgni 21. ágúst 2019 til marks um það.  Sama má segja um ræðu hans á fundi á Selfossi að kvöldi 22. ágúst 2019, þar sem um 170 manns hlýddu á 5 ágæta ræðumenn úr öllu hinu flokkspólitíska litrófi. Blekbóndi var staddur austanfjalls og brá sér á fundinn.

Þriðji orkupakkinn er ákveðið skref inn í orkusamstarf, sem mun hafa þær hörmulegu afleiðingar í för með sér, að íslenzka þjóðin mun að fullu missa stjórn á orkulindum sínum til markaðsafla og búrókrata ESB þrátt fyrir eignarhald ríkisins á þeim í mörgum tilvikum.  EES-samningurinn spannar ekki eignarhald á náttúruauðlindum.  Ríkið má eiga auðlindirnar, en "fjórfrelsið" skal ríkja um ráðstöfunarréttinn, og hið vanheilaga bandalag búrókrata og fjármagnseigenda, sem stjórnar Evrópusambandinu undir forystu Tevtónans Martin Selmayr, hægri handar forseta Framkvæmdastjórnarinnar, ræður fyrirkomulaginu með útgáfu reglugerða og tilskipana. 

Téður Martin fær bráðlega löndu sína, Ursulu von der Layen, sem yfirmann, en hún var landvarnarráðherra Þýzkalands og skildi Bundeswehr eftir í rjúkandi rúst. Hefur þýzki herinn aldrei verið í jafnslæmu ásigkomulagi og nú. Dæmi: hjá Luftwaffe eru aðeins 4 bardagahæfar orrustuvélar og hjá Kriegsmarine álíka fjöldi bardagahæfra kafbáta.  Hjá Bundeswehr var fagnað ótæpilega fréttinni um flutninginn til Brüssel, og haldin "tappalosunarhersýning" í kveðjuskyni.

Leyfisveitingar til nýtingar og stjórnunar á orkulindunum munu að óbreyttu falla undir reglur ESB, og réttur Íslendinga til að nýta orkulindirnar og stjórna þeim í þágu þjóðarinnar verður lítils virði. Þarna er fullveldisréttur Íslands lítilsvirtur.  Lagaákvæði, sem gefa íslenzkum notendum rafmagns eitthvert forskot á erlenda innan EES, getur EFTA-dómstóllinn dæmt ólögmæt í kjölfar kvörtunar frá ESB til ESA.  Erlendir auðmenn munu fá jafngóð eða betri  tækifæri í krafti auðs síns en íslenzkir aðilar, þannig að arður af auðlindunum mun flytjast úr landi.  Hvernig í ósköpunum getur þetta gerzt fyrir framan nefið á okkur ? Er um að ræða fávizku og skilningsleysi íslenzkra embættismanna, sem um þetta véla, eða fjarstýra harðsvíruð hagsmunaöfl stjórnmálamönnunum ?  Spyr sá, sem ekki veit.

Í þessu sambandi má benda á þá kröfu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarríkjum ESB, þar sem vatnsréttindi eru á hendi ríkisins, t.d. Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal og Svíþjóð, að ríkisvaldið verði að bjóða út orkuvinnsluleyfi þessara vatnsréttinda á opnum markaði EES.  Útboðið skal aðlaga að þörfum einkafjárfesta, t.d. skal gildistími vinnsluleyfis vera aðeins 30 ár, en einkafjárfestar vilja endurheimta fjárfestingu sína ásamt öllum kostnaði innan þessara tímamarka.  Þetta eitt út af fyrir sig þýðir óhjákvæmilega hækkun raforkuverðs til almennings og getur grafið alvarlega undan gildandi langtímasamningum um raforkusölu án tillits til sæstrengs.

Þegar ESA mun krefjast þessa sama hérlendis, mun krafan einnig spanna útboð vinnsluleyfa jarðgufusvæða til raforkuvinnslu, og er frá líður (OP#4-5) einnig lághitasvæði fyrir húshitun.  Ætlunin er að ræna landsmenn um hábjartan dag.  Viðskipti með orkuauðlindir í eigu hins opinbera (ríkis & sveitarfélaga) munu þá fara fram sem viðskipti með nýtingarleyfi.  Yfirvöld landsins stefna nú málefnum landsmanna í algert óefni.  Orsakir þess eru ekki aðalatriðið, afleiðingarnar eru aðalatriðið, og þær verða stórskert lífskjör landsmanna. Þetta verður gott fóður í næstu kosningabaráttu, ef stjórnarflokkarnir vaða út í foraðið. 

ESA hóf þetta ferli gagnvart Íslandi með bréfi til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 2016.  Þann dag kvað þessi Eftirlitsstofnun EFTA, sem speglar Framkvæmdastjórnina EFTA-megin í EES-samstarfinu, upp eftirfarandi úrskurð:

"Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja, að orkufyrirtæki, sem nýta auðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu, greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu."

 Hið skrýtna er, að ríkisstjórnin þumbast við að svara þessu grafalvarlega bréfi, líklega af ótta um afdrif OP#3 á þingi, en norski orku- og olíuráðherrann svaraði snöfurmannlega slíku bréfi á 5 vikum og stóð uppi í hárinu á ESA.  Ekkert slíkt hvarlar að heimóttarlegum íslenzkum ráðamönnum, sem hræðast átök við pappírstígrisdýrið, sem ruggað getur hinum heilaga Graal, EES-samninginum. 

Eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans í íslenzka löggjöf mun slíkt markaðsverð ráðast af aðstæðum á Innri markaði ESB, en ekki á þeim alþjóðlegu orkumörkuðum, þar sem íslenzk orkufyrirtæki hafa í meira en hálfa öld verið í samkeppni um orkusækna raforkukaupendur. Á þeim mörkuðum er mikið tillit tekið til fjarlægða orkubirgis frá hráefna- og afurðamörkuðum.  Langtímasamningar hérlendis um raforkusölu verða augljóslega í uppnámi með þessu fyrirkomulagi, því að virkjanir, sem þeir eru reistir á, munu skipta um eigendur, og nýir eigendur munu heimta endurskoðun raforkusamninga til að gera viðskipti sín með nýtingarleyfi arðsöm. 

Ekki er vafi á, að nýir virkjanaeigendur munu leita liðsinnis ESA, enda mun allur Evrópumarkaðurinn standa þeim opinn, þegar búið verður að dæma fyrirvara ríkisstjórnarinnar um hömlur á völd Landsregara óleyfilega með vísun til dóms ESB-dómstólsins vegna rangrar innleiðingar OP#3 í landsrétt Belgíu.  Með þessu móti munu Íslendingar ekki aðeins missa forræði yfir orkulindum sínum, heldur mun vinnan og verðmætasköpunin, sem raforkunýtingin skapaði ásamt hagnaði raforkuvinnslunnar, hverfa úr landi.  Þá er ljóst, að uppsögn EES-samningsins verður eina úrræðið til að forða efnahagslífinu frá stórfelldu tjóni. Norðmenn munu vafalítið komast að sömu niðurstöðu af norska svarbréfinu frá 5. júní 2019 að dæma. 

  Augljóslega er hér flotið sofandi að feigðarósi í íslenzka stjórnarráðinu og við blasir, að affarasælast er til að forða stórfelldum vandræðum, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og leitað verði eftir undanþágum í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Ekki veldur sá, er varir. Hitt vekur furðu, hvers vegna flestir flokkanna, þ.á.m. píratarnir, hafa lagzt gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en hún myndi án nokkurs vafa skera á hnútinn.  Málið hefur leitt í ljós, að píratar eru ekki (lengur) uppreisnarflokkur gegn ríkjandi kerfi, heldur eru orðnir samdauna því og hafa lagzt upp að hlið Samfylkingarinnar.  Það gæti orðið banvænt faðmlag fyrir þá. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband