Orkumál í höftum

Það kom fram í frétt Morgunblaðsins 6. september 2019, "Minni raforkunotkun", að raforkunotkun 2018 hefði orðið 1,4 % minni en spáð var.  Stafar það aðallega af minni raforkunotkun stóriðjunnar en búizt var við, þegar gildandi Orkuspá var samin, 2015. Ástæðurnar eru bæði tæknilegir rekstrarörðugleikar og lélegur markaður. 

Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess, að Landsnet hefur tilkynnt, að þar á bæ sé búizt við aflskorti þegar veturinn 2020, þótt ekki sé það öruggt,  og Orkustofnun sér fram á orkuskort á næstu árum (sem kemur fyrst fram sem aflskortur).  Ef hagur strympu braggast í iðnaðinum,  má búast við mjög kostnaðarsömum afl- og orkuskerðingum á næstu árum, því að fátt er um feita drætti á virkjanasviðinu núna. Slíkt ástand hefur neikvæð áhrif á allt hagkerfið og dregur úr hagvexti.

Þetta ástand léttir ekki undir með landsmönnum í orkuskiptunum, því að hækkað orkuverð er undanfari og fylgifiskur orkuskorts í markaðskerfi og aukin óvissa um afhendingu raforku gerir orkuskiptin ófýsilegri.  Deyfð orkuráðherra og skeytingarleysi um hagsmuni neytenda í þessum efnum vekur undrun.  Hvers vegna er ekki hvatt til frekari virkjana, úr því að markaðurinn veitir fyrirtækjunum ekki nægan hvata ?

Sannleikurinn er sá, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) hefur virkað illa hér á landi og þarf engan að undra.  Hún hefur hækkað verðið til fjölskyldna að raungildi um 7 % - 8 %, á sama tíma og þjóðin hefði sennilega farið að njóta ávaxtanna af eignum sínum í raforkugeiranum vegna skuldalækkunar hans með lækkun raunraforkuverðs, ef ekki hefði verið tekin sú misráðna ákvörðun 1999 og jafnvel fyrr að planta "aðskotadýri" inn í íslenzka orkulöggjöf, sem getur reyndar virkað vel við réttar aðstæður, en þetta "aðskotadýr" er ekki sniðið fyrir íslenzkar aðstæður.  Þess vegna ganga orkumálin á afturfótunum hér, þótt orkuráðherra virðist af greinaskrifum sínum að dæma halda annað.

Birgir Þórarinsson, sem var ræðukóngur 149. löggjafarþingsins, skrifaði grein í Bændablaðið 29. ágúst 2019 undir heitinu:

"Orkupakkar hækka raforkuverð".

Þessi fyrirsögn felur í sér staðreynd, sem leidd var í ljós með skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019. Ályktunin, sem draga ber af þessari staðreynd er sú, að orkulöggjöf ESB, innleidd í íslenzkt umhverfi, hlýtur falleinkunn.  Samkeppnin er ekki næg hérlendis til að vega upp á móti þeim kostnaðarauka, sem uppskipting raforkugeirans leiddi af sér.  Yfirbyggingin mun bara vaxa með fleiri orkupökkum og óhagræðið sömuleiðis.  Verðhækkanir rafmagns umfram verðlag munu vaxa með OP#3 og OP#4 (Hreinorkupakkanum) og um þverbak mun keyra, verði landið tengt Innri markaðinum um sæstreng.

Af þessum sökum ættu stjórnvöld að fitja upp á því, að Ísland fái algera undanþágu frá öllum orkupökkunum frá ESB.  Þetta væri ágætisumræðuefni í næstu kosningabaráttu.  Einnig mætti spyrja þjóðina að þessu beint í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.

Hluta rakanna fyrir þessari stefnubreytingu er að finna í ofannefndri grein Birgis Þórarinssonar, sem hér verður vitnað í:

"Þeir, sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB, er það fólk, sem býr á köldum svæðum á Íslandi.  

Tveimur árum eftir, að fyrsti orkupakkinn var innleiddur, hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74 % - 96 %.  Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum.  

Ástæðan var sú, að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar.  Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu, og var hún því felld niður.  

Maður spyr sig; hvað kom embættismönnum í Brussel það við, að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi ?  Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings.  Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum.  

Þetta eitt og sér sýnir, að þeir þingmenn, sem styðja innleiðingu orkupakka ESB, svífast einskis í málflutningi sínum.  Óskiljanlegt er, hverra erinda þeir ganga á Alþingi, og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki.  

Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði, fari svo, að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika."

Hvar var hin margrómaða neytendavernd orkupakkanna, þegar um 85 % hækkun á rafmagni til húshitunar dundi á Suðurnesjamönnum ?  Þetta gerist væntanlega við bókhaldslegan aðskilnað hitaveitunnar og rafveitunnar. Svipað gerðist við sundurlimun Landsvirkjunar.  Hagnaði af virkjunum var fyrir sundurlimun varið til uppbyggingar flutningskerfisins.  Nú þarf Landsnet að fjármagna þær fjárfestingar með lánum og gjaldskrá, allt saman neytendum í óhag.  Án Evrópuréttar á þessu sviði myndi Samkeppnisstofnun gera athugasemdir við markaðsráðandi stöðu og óeðlilega samþættingu samkeppnisrekstrar (raforkuvinnslu) og einokunarstarfsemi (hitaveitu).

Reynslan sýnir, að íslenzki markaðurinn er of lítill til að uppskipting fyrirtækja í anda ESB sé hagkvæm fyrir neytendur.  Í íslenzka orkukerfinu er orkuforðinn m.a. háður duttlungum náttúruaflanna, en hjá ESB sjá eldsneytismarkaðir að miklu leyti um þennan þátt.  Þess vegna þarf að flétta orkulindastýringu inn í markaðsstýringu ESB hérlendis, svo að ekki fari illa. Ef stjórnvöld (Alþingi) kjósa aðgerðir í átt til jöfnunar aðstöðu fólks á svæðum án jarðhita og með jarðhita, þá er það fullveldismál að ráða því, en svo er ekki lengur, eins og fram kemur í tilvitnaðri grein.

Grein sinni lauk Birgir þannig:

"Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því, hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana.  Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september n.k. [2019].  Þá kemur í ljós, hvaða þingmenn standa með þjóðinni."

Hvort sem landsmenn kjósa að eiga viðskipti við útlönd um sæstreng eða ekki, er óhagstætt fyrir þá að þurfa að beygja sig undir Evrópuréttinn á sviði orkumála.  Aðstæður eru hér of ólíkar þeim, sem á meginlandinu eða Bretlandi eru við lýði, til að hagfellt sé að lúta "erkibiskups boðskap" á þessu sviði.  Nær væri að fylgja fordæmi höfðingja Oddaverja og fóstra Snorra Sturlusonar á 12. öld, Jóns Loftssonar:

"Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband