Af sæstrengjum Noregs og Íslands

Þann 31. ágúst 2019 skrifaði Hjörtur J. Guðmundsson stutta frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:

"Vonast eftir stuðningi við sæstreng".

Þar gaf m.a. á að líta eftirfarandi:

"Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins [fyrir Atlantic SuperConnection] á meðal þess, sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram.  Spurður, hvar verkefnið væri statt, sagði talsmaðurinn, að Atlantic SuperConnection væri enn áhugasamt um verkefnið. Færi svo, að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið og orkumálaumgerð þess [ACER og Orkusamband Evrópu] í lok október, eins og gert væri ráð fyrir, væri vonazt til þess , að virkt samtal gæti hafizt skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning."

Til er annar fjölþjóðlegur orkusamningur en Orkupakki #3 (OP#3) Evrópusambandsins (ESB), sem nú hefur hlotið fullgildingu í EFTA-löndum EES líka.  Sá heitir "Energy Charter Treaty" - ECT, og var hann samþykktur að Íslands hálfu 1994 og fullgiltur á Íslandi árið 2015, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með orkumálin, eins og núna. (Noregur hefur ekki fullgilt samninginn af einhverjum ástæðum.)  Umræddur ráðherra iðnaðar og nýsköpunar 2015 heitir Ragnheiður Elín Árnadóttir (23.05.2013-11.01.2017).

Sagt er, að á grundvelli ECT hafi fjárfestar höfðað skaðabótamál á hendur ríkisstjórnum og haft nokkuð upp úr krafsinu.  Það er þá á grundvelli þjóðaréttar, en ekki landsréttar, því að að ECT felur hvorki í sér lagalegar né fjárhagslegar skuldbindingar, eins og OP#3 gerir, og ekkert framsal ríkisvalds.  Ef ECT er varasamur, þá er OP#3 stórhættulegur.  ECT getur auðvitað orðið samningsumgjörð um sæstreng til Bretlands eftir BREXIT, og hann getur verið íslenzkum fjárfestum, verktökum og ráðgjöfum hjálplegur við starfsemi þeirra utan EES, t.d. við jarðhitaverkefni í Afríku og Asíu.  Fjórfrelsisreglur EES og OP#3 ættu að gera notkun ECT innan EES óþarfa.   

Sá er einmitt reginmunurinn á ECT og OP#3, að ECT er uppsegjanlegur, en OP#3 ekki (nema segja upp EES-samninginum). Það er hins vegar ólíklegt, að ACER leyfi orkutengingu við Bretland, ef Bretland gengur úr ACER.  ACER vill fá íslenzka raforku inn á Innri markað ESB, og gæti þá beitt sér til að beina "Icelink" verkefninu til Írlands og tengt síðan Írland með öflugum hætti við meginlandið, svo að dæmi sé tekið.  

Einhver erlendur stjórnmálamaður nefndi, að Íslendingar ættu að sjá Dönum fyrir kolefnisfríu rafmagni.  Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn, því að nú þegar selja Norðmenn Dönum rafmagn á daginn um 4 sæstrengi og kaupa til baka á nóttunni á tiltölulega hagstæðu verði. 

Samt hefur Statnett (norska Landsnet) talið rétt að tengja Noreg við enn stærri markaði,framhjá Danmörku,því að fyrirtækið lagði sæstreng til Hollands fyrir nokkrum árum og er að leggja einn til Þýzkalands og annan til Englands.  Einkafyrirtækið NorthConnect hefur sótt um leyfi til að leggja samnefndan sæstreng á milli Skotlands og Noregs með um 1400 MW flutningsgetu og áætlaðan orkuflutning um 10 TWh/ár.  Landsreglari Bretlands hefur nú samþykkt umsókn NorthConnect um þennan streng, og Orkustofnun Noregs, NVE, mun fljótlega afgreiða umsóknina frá sér.  Búizt er við, að hún muni samþykkja umsóknina, í blóra við vilja fjölmargra umsagnaraðila í Noregi, þ.á.m. Statnett, sem óttast gríðarlegar raforkuverðhækkanir í Noregi með NorthConnect, því að hann muni þurrka upp allan varaorkuforða í miðlunarlónum Noregs. 

Ef landsreglarar Bretlands og Noregs verða ósammála um NorthConnect, sker ACER úr.  Kannski mun BREXIT skera Norðmenn úr snöru OP#3 í þetta sinn.  NorthConnect verður áreiðanlega mikið hitamál í Noregi og mun skerpa línurnar í komandi baráttu fyrir Stórþingskosningarnar eftir 2 ár.  Verður lærdómsríkt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessum átökum í Noregi um NorthConnect og að fylgjast með efnahagslegum áhrifum af tengingu þeirra tveggja stóru millilandasæstrengja, sem Statnett er nú með á framkvæmdastigi.  

Atlantic SuperConnection þykist hafa varið stórfé til undirbúnings sæstrengs frá Englandi til Íslands.  Þar gætu búið að baki áform um að kæra stjórnvöld hérlendis fyrir óeðlilegar tafir á afgreiðslu sæstrengsmálsins á grundvelli OP#3 fyrir BREXIT eða ECT eftir BREXIT.  Þar kemur þó ekki einvörðungu til álita útlagður kostnaður, heldur ekki síður tapaðar tekjur í framtíðinni, svo að hér getur orðið um háar fjárhæðir að tefla við Edmund Truell, sem ekki kallar allt ömmu sína.  Þessa áhættu þarf að vega og meta á móti hugsanlegum ávinningi Íslendinga af ECT, sem hér hefur verið drepið á.  

"Hann sagði, að í heildina hefði rúmlega MGBP 10 verið varið í fýsileikaathugun sæstrengsins og raflínuverksmiðju [sæstrengsverksmiðju].

Talsmaðurinn sagði aðspurður, að þeir, sem færu fyrir verkefninu, hefðu verið í sambandi við íslenzka ráðherra og stjórnmálamenn snemma á síðasta ári."

 Það er athyglisvert, hversu mikla áherzlu Atlantic SuperConnection (ASC) leggur á samskipti við stjórnmálamenn í báðum löndum.  Fyrirtækið virðist ætla að sækja í sjóði þeirra, t.d. byggðasjóð á Englandi, þar sem ládeyða hefur um langa hríð hrjáð Norð-Austur England, þar sem ASC fyrirhugar að reisa sæstrengsverksmiðju og síðan að hefja lagningu sæstrengs þaðan og til Íslands.  ASC virðist líka sækjast eftir því, að brezka ríkisstjórnin greiði niður kostnað raforku frá Íslandi, sem flutt er frá Íslandi, á þeirri forsendu, að hún sé kolefnisfrí.  Þessar væntingar standa á brauðfótum.

Markaðskerfi ESB (Innri markaður raforku) felur í sér, að öll raforka fari á markaðstorgið, einnig sú, sem send er á milli landa.  Hjá ESB sjá menn hlutverk Íslands og Noregs í raforkuviðskiptum á þessum vettvangi fólgið í því að fylla upp í framboðslægðirnar, sem myndast þá daga, þegar margar vindmyllna Evrópu í senn hægja á sér.  Þá geta vatnsorkuver landanna hlaupið fyrirvaralítið undir bagga.  Skilyrði er auðvitað, að nóg vatn sé í miðlunarlónunum og ríkulegt afl til reiðu.  Á Íslandi skortir mikið á, að fyrir hendi sé mikið afgangsafl eða -orka, af því að álagið er fremur jafnt allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Þess vegna þarf fyrst að fjárfesta mjög mikið í nýjum eða stækkuðum stöðvarhúsum með viðbótar vél- og rafbúnaði. 

  Miðlunargetuna þyrfti ekki að auka mikið, því að hugmyndin er sú að snúa orkustefnunni við, þegar nægur fjöldi vindmyllna er tekinn að snúast eðlilega aftur.  Þá kaupir Ísland raforku að utan og safnar þannig vatni á ný í lónin.  Verðmismunurinn er mikill, en flutningskostnaðurinn tiltölulega hár.  Aukið uppsett afl kallar á miklar fjárfestingar, sem enduspeglast munu í rafmagnsverðinu, einnig innanlands.  Það mun þess vegna hækka við þessar aðfarir, og rennsli viðkomandi áa verða óstöðugt.

Þessi mikla fjárþörf í vatnsvirkjanageiranum getur skýrt áherzlu Framkvæmdastjórnarinnar á það, að orkunýtingarleyfin skipti um hendur og í stað ríkisfyrirtækja komi fjársterk einkafyrirtæki með fjárfestingarvilja og getu.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband