Er bjart yfir birtingu gagna ?

Valdhafar hérlendis eru pukurgjarnir með viðfangsefni sín og jafnvel ákvarðanir, eins og þeir væru á mála hjá Miðstjórn sovézka kommúnistaflokksins, en ekki að vinna fyrir 0,36 M manns á eyju norður í Atlantshafi.

Þetta er óttalega heimóttarleg hegðun í samanburði við anda stjórnsýslu- og upplýsingalaga hér og borið saman við nágranna okkar og frændur á hinum Norðurlöndunum, t.d. Norðmenn. Sleifarlagi opinberrar stjórnsýslu er við brugðið, og er sem metnaðarleysi og doði liggi yfir vötnum.  Með auknu reglufargani, heimatilbúnu og að utan (EES), hefur keyrt um þverbak, og er Byggingarreglugerðin eitt dæmi.  Þunglamaleg stjórnsýsla er rándýr, því að hún sóar tíma fjölda manns, og dregur þannig úr framleiðniaukningu, sem þó er undirstaða lífskjarabata í landinu.

Vakin hefur verið athygli á nokkrum öðrum dæmum um þetta á þessu vefsetri, og nú hefur Umboðsmaður Alþingis ávítað stjórnvöld fyrir tregðu sína við eðlilega upplýsingagjöf og bent á algerlega óeðlilega hátt hlutfall beiðna um upplýsingar frá hinu opinbera, sem lendi hjá áfrýjunarnefnd um upplýsingamál. Sem betur fer er nú komin fram tillaga frá Stjórnarráðinu um að draga nokkrar tennur úr vinstri hvofti eins argasta kerfisdýrsins, Samkeppnisstofnunar.  "Kúba norðursins" lét ekki aðeins duga að innleiða hér löggjöf ESB á samkeppnissviði, heldur bætti í kerfishítina, og er það ekki í eina skiptið, sem íslenzkir búrókratar eru á fölskum forsendum látnir komast upp með að gerast kaþólskari en páfinn.  Alþingismenn verða að muna, að reglugerðafargan kemur að lokum niður á neytendum, kjósendum þeirra, þannig að þeir verða að standa á bremsunum.

Argvítugum þagnarhjúpi var varpað yfir þá ákvörðun ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar 2016, þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir var utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir var iðnaðarráðherra, að fallast í einu og öllu á þá kröfu ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) að taka upp nýtt fyrirkomulag við endurnýjun á og útgáfu nýrra orkunýtingarleyfa fyrir orkulindir í eigu hins opinbera. 

Markaðurinn skal eftir breytinguna að kröfu ESA ráða því, hver fer með þessi nýtingarleyfi, og þessi markaður er væntanlega Innri markaður EES.  Fyrir þessu máli var gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, og þar var sterklega varað við þessu á þeim forsendum, að 0,36 M manna samfélag gæti ekki staðið gegn afli 500 M manna markaðar um nýtingu eftirsóknarverðra auðlinda. 

Þetta þýðir þá með öðrum orðum, að vegna þessarar ákvörðunar í utanríkisráðherratíð Lilju D. Alfreðsdóttur (utanríkisráðherra fer með EES-mál í samstarfi við fagráðherra) stefnir í, að Íslendingar glutri niður umráðarétti orkulinda ríkisins og sveitarfélaganna, þótt þeir eftir sem áður haldi eignarrétti sínum. Hvers virði er hann, þegar umráðarétturinn er farinn annað ? 

Einhver hefði nú haldið, að þetta mál væri einnar messu virði á opinberum vettvangi og að á móti mætti draga úr froðunni og móðursýkinni, sem of mikinn tíma taka, s.k. umbúðastjórnmál, hismi, sem alltaf sneiða hjá kjarna máls.  Nei, engin ríkisstjórn frá þessum atburði, sízt núverandi leyndarhyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefur séð ástæðu til að skýra út fyrir þjóðinni þessa grundvallar stefnubreytingu um stjórnun á nýtingu orkulindanna.  Stefnir nú í, að hér gæti orðið um kosningamál að ræða, því að iðnaðarráðherra hefur boðað framlagningu máls á 150. löggjafarþinginu, þar sem ríkisstjórnin virðist loks ætla að efna loforðið við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem felldi kvörtunarmálið niður í janúar 2017 eftir uppgjöf ríkisstjórnarinnar í þeirri vissu, að staðið yrði við loforðið. 

Verður iðnaðarráðherra kápan úr þessu klæði sínu ?  Það mun a.m.k. verða lífleg umræða alls staðar á landinu og í öllum frjálsum fjölmiðlum, svo og á þingi.  Sú umræða er líkleg til að narta enn af fylgi stjórnarflokkanna, og sá fylgisflótti fer vonandi þangað, sem raunveruleg andstaða er við málið.  Hennar er aðeins að vænta af krafti frá Miðflokkinum, en OP#3 flokkarnir hafa væntanlega ekki miklar athugasemdir.  

Norska ríkisstjórnin lagði á hinn bóginn ekki upp laupana eftir móttöku bréfs frá ESA 30. apríl 2019 um, að aðferð norska ríkisins við úthlutun nýtingarleyfa orkulinda í eigu ríkisins stríddi gegn Þjónustutilskipun ESB, samkeppnisreglum o.fl., eins og ESA heldur fram.  Þann 5. júní 2019 sendi olíu- og orkuráðuneytið snöfurmannlegt bréf til ESA með lögfræðilegum útleggingum á því, að þetta mál kæmi ESA ekki við, væri utan valdsviðs Eftirlitsstofnunarinnar og sneri að fullveldisrétti Noregs til að ráða yfir nýtingu orkulinda Noregs.  

Því miður er hér grundvallarmunur á afstöðu Íslands og Noregs til samskipta við ESA, og það er mikið áhyggjuefni fyrir hérlandsmenn, að allur dugur virðist úr íslenzka stjórnkerfinu, þegar kemur að því að standa í lappirnar gagnvart EES/ESB.  Er engin döngun lengur í íslenzkum stjórnmálamönnum við völd og embættismönnum þeirra ?  Stórþinginu var tilkynnt um bréf norsku ríkisstjórnarinnar til ESA, og lýsti það yfir þverpólitískri samstöðu með ríkisstjórninni, sem er fremur sjaldgæft, en skýrist af því, að Norðmenn telja "erfðasilfur" sitt í húfi.

Þetta er ennfremur mjög athyglisvert í ljósi þess, að norska ríkisstjórnin hefur verið talin fremur höll undir ESB. Enginn veit hins vegar um afstöðu Alþingis til uppgjafarbréfs íslenzku ríkisstjórnarinnar, og það hefur ekki verið birt, en á vef ESA er vitnað til þess og svarbréfið birt, þar sem málinu var þar með sagt lokið.  Allt er þetta óboðlegt og til vitnis um pólitískar heybrækur, sem þola ekki dagsljósið hérlendis.

 Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 13.09.2019 bar yfirskriftina: 

"Bjart er yfir birtingu gagna".

Þar segir svo í undirkaflanum: 

"Ólæknandi hræðslupúkar":

"En óttaköstin, sem ákveðin tegund af mönnum verður heltekin af, þegar að skiljanleg rök vilja alls ekki eiga samleið með þeim, er þó erfiðara að botna í en bænakvakið út af hnerranum.

Umræðan um orkupakkann stóð stutt, þótt hún teygðist töluvert yfir almanakið.  Þeir, sem gengu erinda þeirra, sem gáfu fyrirmælin um að innleiða tiltekna tilskipun, ræddu málið sárasjaldan og aldrei efnislega.  Þeir, sem áttu formsins vegna að vera í forsvari, virtust algerlega ófærir um það og stögluðust því á innihaldslausum klisjum, sem útlitshönnuðum sjónarmiða var borgað af almenningi fyrir að sníða ofan í þá.  

Fyrst snerust þær um það, að málið, sem þeir höfðu ekki sett sig inn í, væri algjört smámál.  Næst kom þreytta tuggan um, að þau rök, sem meirihluti þjóðarinnar ætti samleið með, "stæðust ekki skoðun".  En sú skoðun fór aldrei fram, svo að séð væri.  Hvorug þessara aðferða gekk upp.

Að lokum endaði málatilbúnaðurinn með því að segja, að EES-samningurinn myndi fara út um þúfur, yrði þetta "smámál" ekki samþykkt.

Vandinn er sá, að það er sjálfur grundvöllur samningsins, að Ísland geti hafnað slíkum tilskipunum, algjörlega að eigin mati.  Gæti þjóðin það ekki, hefði lagasetningarvald Alþingis verið flutt úr landi, sem ekki stæðist stjórnarskrá.  

Margoft var um það spurt, hvað menn hefðu fyrir sér um það, að EES-samningurinn hryndi, ef "þetta smámál" yrði ekki samþykkt.  Enn hefur ekki komið svar við því.  Einhver marktækur hlýtur þó að hafa sett fram slíkar hótanir.  Varla hafa þær verið fabúleraðar í heimilisiðnaði.  

Og það ömurlega er, að það var á grundvelli þessa hræðsluáróðurs, sem málið var afgreitt, svo lítilfjörlegt sem það er.  Málið var rekið áfram á óttanum."

 Þetta er einn harðasti dómur yfir stjórnvöldum, sem Morgunblaðið hefur kveðið upp úr með á lýðveldistímanum, og voru þó vinstri stjórninni 1956-1958 ekki vandaðar kveðjurnar.  Það er auðvitað jafnframt mikill áfellisdómur yfir framkvæmd EES-samningsins, að ríkisstjórnin skuli, að því er virðist, fara fram með löggjöf Evrópusambandsins gagnvart Alþingi á grundvelli hótana, innlendra eða erlendra, sem hún þó treystir sér ekki til að staðfæra, hvað þá að hún hafi borið það við að færa rök fyrir gagnsemi löggjafarinnar fyrir íslenzka þjóð.  Hún greip hins vegar til þess óyndisúrræðis að veifa fremur röngu tré en öngu, þ.e. að innleiðing þess hluta orkulöggjafar ESB, sem OP#3 spannar, skipti þjóðina engu máli.  Það var þó margsinnis hrakið, bæði á lögfræðilegum, orkustjórnunarlegum og efnahagslegum forsendum.  Að EES-samningurinn sé hér keyrður áfram á svona lágkúrulegum forsendum, færir okkur heim sanninn um, að þetta herra-þræls-samband okkar við ESB um Innri markaðinn er komið að leiðarlokum.

Höfundur Reykjavíkurbréfs gerði síðan að umræðuefni, að baráttan í Bretlandi gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu væri líka rekin á óttanum.  Það hvarflaði þó ekki að aðþrengdum Bretum eftir ósigurinn við Dunkirque vorið 1940 að láta í minni pokann fyrir yfirgangi Berlínar þá, heldur barðist Royal Airforce með kjafti og klóm við Luftwaffe um yfirráðin í lofti. 

Wehrmacht og die Kriegsmarine höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að innrás í England myndi mistakast, aðallega vegna brezka flotans, svo að lofthernaðurinn var í raun ekki barátta um England, heldur barátta um yfirráð í lofti yfir Evrópu. Allir vita, hvernig þeirri baráttu lyktaði, og ekki kæmi það á óvart, að Bretar stæðu enn einu sinni uppi með pálmann í höndunum eftir útgönguviðureignina við meginlandið.  Þeir munu strax í kjölfarið fá viðamikinn fríverzlunarsamning við Bandaríkin, og vonandi hefur EFTA vit á að gera við þá víðtækan, nútímalegan  fríverzlunarsamning.  

Höfundur sama Reykjavíkurbréfs gerir Yellowhammer ("gultittling"), verstu sviðsmynd May-stjórnarinnar um afleiðingar BREXIT að umræðuefni.  Í lokaundirkafla bréfsins stendur þetta:

"Það eina, sem manni þykir vanta í þessar spár, væri 11.:"Verði farið út án útgöngusamnings, gæti Pence, varaforseti, komið í heimsókn í hálfan dag og umferðaröngþveiti verða í öllum borgum Bretlands og standa í þrjá mánuði, einkum ef það væri starfsdagur í skólum.".

Skýringin á því, að May birti ekki þessa skýrslu, sem hún pantaði, er augljóslega sú, að það reyndist ekkert vera í henni.  Þegar beðið var um það á þingi Bretlands, að þessi skýrsla óttans yrði birt, þá var það gert.

Á Íslandi er augljóst, að helztu forystumenn landsins keyptu fullyrðingar um það, að fylgdu þeir ákvæðum EES samningsins og höfnuðu fullgildingu ákvæðis, sem að almenningur er á móti, þá yrði samningurinn að engu !  Það þarf að vísu ótrúlega trúgirni til, því [að] ekki er fótur fyrir þessari kenningu.  En þingið hlýtur að krefjast þess, að öll gögn og rökstuðningur "hinna andlitslausu", sem hræddi börnin, verði birt.

Þeir, sem töldu þessi rök góð og gild og létu þau duga til þess að skipta um skoðun á umdeildu máli, geta ekki verið á móti því að birta rökstuðninginn.  Fyrst hann var svona öflugur, ætti hann að vera til þess fallinn að afla meiri skilnings á afstöðu, sem enn sætir mikilli tortryggni, sem mun einungis fara vaxandi, eftir því sem tímar líða frá, og þegar ljósar verður, hvers vegna í ósköpunum þetta var gert.  Það verður bara verra að bíða.  Það er þekkt."

Sagan mun ekki fara mjúkum höndum um þá, sem að þessum ófögnuði stóðu, því að auðvitað verður flett ofan af þeim í fyllingu tímans.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Og ekki batnar það, Kata litla lét það út úr sér á fundi Norðurlandaráðs um helgina, að hún ætlaði að nota lífeyrissjóðina og Íslandsbanka til að greiða fyrir skuldbindingar sínar í loftlagsmálum.......

Jóhann Elíasson, 1.11.2019 kl. 15:19

2 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!og takk fyrir Góðan pistil. Ætli Kata noti lansbankann til að greiða fyrir CARACAS samkomulagið.

Hvar endar þessi arfavitlausa ríkisstjórn með okkur.

Við erum á hraðferð til HELVÍTIS.

Óskar Kristinsson, 1.11.2019 kl. 18:29

3 Smámynd: Óskar Kristinsson

Og við viljum DAVÍÐ ODDSON í brúna!!!

Óskar Kristinsson, 1.11.2019 kl. 18:33

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Takk Bjarnifyrir þennan pistil. Gott væri að fá þetta birt og reyna að fá umræðu í öllum fjölmmiðlum landsins um þessi mál sem Ríkistjórn okkar hefur klúðrað gersamlega. 

Svo vil ég garnan ekki trúa orðum hans Jóhanns hé að ofan- ef þetta eftir henni haft, þá væri réttast að borga nokkrum loftlagsvísindamönnum héna heim til Ísland til að koma vitinu fyrir forsætisráðherra okkar og þá sem fara villu vegar.

Eggert Guðmundsson, 1.11.2019 kl. 21:20

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta eru allt íhaldsmenn, bara með mislangt minni fyrir hefðinni. Andstæðingar OP3 vilja halda í 70 ára forræði yfir orkumálum en fylgjendurnir vilja halda í 30 ára hefð fyrir sjálfvirkum innleiðingum EES reglugerða. 

Á Bretlandi er vilji útgöngusinna að halda í aldagamala hefð sjálfstæðis Bretlands en andstæðingar útgöngu vilja halda í 50 ára EU aðild.

Íhaldsmenn með lengra minni eru þá frjálslyndir þegar horft er til skemmri tíma en 50 ár eða svo.

Það sem ég er að fara með þessu er að í reynd er yngra fólkið á þingi sem vildi innleiða OP3 bara hrætt við breytingar og því svartasta íhald.

Sama gildir um andstæðinga Brexit, oft yngra fólk sem hræðist þær breytingar sem munu fylgja Brexit.

Viðtal sem vert er hlusta á.

https://mummij.blog.is/admin/blog/?entry_id=2241767

Guðmundur Jónsson, 2.11.2019 kl. 11:24

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Réttur tengill

Viðtal sem vert er að hlusta á. 

https://mummij.blog.is/blog/mummij/

Guðmundur Jónsson, 2.11.2019 kl. 11:29

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eggert, því miður er þetta ekkert sem ég er að "dikta" upp, ræðuna sem hún flutti á þingi Norðurlandaráðs má lesa í heild sinni á "vef" forsætisráðuneytisins en ég heyrði um þetta fyrst á útvarpi Sögu í pistli Gústafs Skúlasonar frá Svíþjóð......

Jóhann Elíasson, 2.11.2019 kl. 11:55

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Er forsætisráðherra gengin af göflunum að láta annað eins út úr sér á fundi í Stokkhólmi, þar sem hana hefur langað afar mikið til að komast í fréttirnar.  Hún kemst vonandi aldrei með kommaklærnar í lífeyrissjóðina og bankana.  Loftslagsumræðan er einvörðungu yfirvarp nýrrar skattheimtu og að gera Evrópu öðrum valdaaðilum óháða um orkuaðdrætti til lengri tíma litið. 

Bjarni Jónsson, 2.11.2019 kl. 13:28

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það fer ekki hjá því, að umræður komist á flug um einkavæðingu virkjanaleyfanna, því að ríkisstjórnin á eftir að efna loforðið við ESA og neyðist til að leggja málið fyrir Alþingi.  Þetta mál er til þess fallið að binda enda á pólitíska ferla, og þess vegna hefur verið farið með það eins og mannsmorð.  Hvers vegna ríkisstjórn Sigurðar Inga með Lilju D. sem utanríkisráðherra gafst upp fyrir ESA á árinu 2016 í stað þess að veita veg ígrundaða viðspyrnu, eins og norska ríkisstjórnin gerði, og leyfði ekki ESA að halda áfram með málið alla leið til EFTA-dómstólsins, á eftir að útskýra fyrir þjóðinni.  Í stað þess er tekin ákvörðun um það í utanríkisráðherratíð Lilju D. Alfreðsdóttur að verða við öllum kröfum ESA, og hún ber þannig hina pólitísku ábyrgð og mun draga Framsóknarflokkinn niður með sér í fallinu (í næstu þingkosningum), ef hún hefur enga frambærilega útskýringu.  Ef allt fer á versta veg, verður EES-aðildin í uppnámi líka.

Bjarni Jónsson, 2.11.2019 kl. 13:43

10 Smámynd: Óskar Kristinsson

Er ekki alveg ljóst Bjarni að ríkisstjórn er búin að samþikkja þessa verkferla?

Og ekkert heirist allt bak við kommatjöldin.Þetta er svo galið að það verður með einhverju móti að stoppa þetta fólk.

Óskar Kristinsson, 2.11.2019 kl. 20:15

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þórdís mun sennilega leggja málið fyrir þingið, væntanlega sem lagafrumvarp, í vetur (á vorþinginu).  Þá mun koma í ljós, hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga málum, t.d. hvort hún ætlar að hafa opin eða lokuð útboð, nú eða útboð, og hvort markaðurinn er allt EES eða bundinn við Ísland.  Nú er Lilja búin að ráða Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra, en hann hefur farið fyrir nefndinni, sem átti að skila ríkisstjórninni tillögum um þessa tilhögun, en um hana varð bullandi ágreiningur í nefndinni.

Bjarni Jónsson, 2.11.2019 kl. 21:38

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

... nú eða uppboð, átti að standa þarna.

Bjarni Jónsson, 2.11.2019 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband