Skýrslan "Íslensk raforka" - I

Þann 16.10.2019 gáfu Samtök iðnaðarins, SI, út skýrsluna "Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni".  Hafi tilgangur skýrslunnar verið að koma á framfæri áhyggjum og viðvörunum vegna minnkandi samkeppnishæfni íslenzkrar raforku, þá er textinn of almennt orðaður og á köflum loðmullulegur um það atriði, til að sá boðskapur komist til skila. 

SI eiga hins vegar hrós skilið fyrir að benda á mikilvægi orkuiðnaðarins og aðalviðskiptavinar hans, orkusækins iðnaðar, fyrir þjóðarbúskapinn.  Frá orkutæknilegu sjónarmiði er skýrslan þó of veik til að hitta í mark, enda hefur ekki á vegum SI verið framkvæmd nein ný greining á stöðu orkuiðnaðarins, sem þó er nauðsynlegt á þeim tímamótum, sem hann stendur á eftir innleiðingu OP#3 og með markaðsstýringu raforkuvinnslunnar á þröskuldinum.  Fyrir vikið standa margar fullyrðingar í skýrslunni uppi órökstuddar, og skýrslan er með slagsíðu óheftrar markaðstrúar, sem höfundar rökstyðja ekki, að eigi við í orkugeiranum á Íslandi.

  Þeir, sem lesa skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019, finna hins vegar þar ágætan rökstuðning fyrir því, að íslenzka orkukerfið útheimti orkulindastýringu til að setja hagsmuni neytenda í öndvegi, þ.m.t. iðnaðarins. Á Íslandi vill svo til, að almennir neytendur og eigendur raforkukerfisins eru næstum sami hópurinn. Það er sjaldgæf staða. Þess vegna er ákall SI um markaðsvæðingu raforkugeirans hjáróma eftiröpun erlendra og gjörólíkra aðstæðna, sem getur hæglega orðið neytendum til tjóns hérlendis.  Þannig ber skýrslan merki um flumbrugang, sem skýra má með vanþekkingu höfunda á orkumálum og orkukerfi Íslands.

Í þessari rýni verður fylgt sömu efnisröð og í skýrslu SI.  Inngangurinn hefst þannig:

"Nýting raforku gegnir lykilhlutverki í verðmætasköpun á Íslandi.  Fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á framleiðslu og nýtingu á raforku.  Fjórða iðnbyltingin er að miklu leyti raforkuknúin og er því mikilvægt, að vel takist til við að skapa samkeppnishæfa umgjörð um framleiðslu, dreifingu og nýtingu raforku til framtíðar litið.  Aðgengi að raforku er einnig mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni atvinnulífs, og flutningskerfi raforku er ein af lykilstoðum innviða í landinu, sem þjónar bæði heimilum og fyrirtækjum."

Það er nýnæmi að kenna "Fjórðu iðnbyltinguna" við raforku, þótt hún sé óhugsandi án rafmagns.  Hún er þó aðallega hugbúnaðarknúin og reist á fjarskipta- og skynjaratækni.  Að sjálfsögðu munu orkufyrirtækin og iðnfyrirtækin færa sér hana í nyt, enda eru á báðum þessum innbyrðis háðu vængjum hátæknifyrirtæki.

  Aðeins samkeppnishæf raforkuvinnsla getur skapað verðmæti. Sú yfirverðlagning á raforku, sem Landsvirkjun af mikilli skammsýni hefur stundað síðan 2010, gerir íslenzka raforku ósamkeppnisfæra til lengdar og ógnar útflutningsatvinnuvegunum og þeim, sem standa í beinni samkeppni við innflutning.

  Vinnsla sjávarafurða innanlands, sem er keppikefli vegna verðmætasköpunar innanlands, á undir högg að sækja og stenzt ekki samkeppni, nema með hagkvæmu heildarraforkuverði, þ.e. verði orku, flutnings og dreifingar auk opinberra gjalda.  Sama má segja um t.d. garðyrkjuna.  Þannig er meira en helmingur útflutningstekna þjóðarinnar algerlega háður tiltölulega lágum raforkukostnaði á hverja MWh (megawattstund). Yfirverðlagning í krafti yfirburðastöðu á markaði er þess vegna grafalvarlegt mál og gefur hugmyndum um uppskurð Landsvirkjunar byr undir báða vængi, en með honum væri farið úr öskunni í eldinn. 

Eigendastefna ríkisraforkufyrirtækja, sem stjórnvöld hnoða nú saman, verður að taka mið af þessu, ef ekki á illa að fara. Verðlagsstefna Landsvirkjunar eru mistök, hún er  stórhættuleg og verður að breyta henni með hliðjón af heildarhagsmunum atvinnulífs og heimila. Ef Landsvirkjun á að verða mjólkurkýr fyrir ríkissjóð eða fjárfestingasjóð, "Þjóðarsjóð", þá mun hún skilja eftir sig sviðna jörð í atvinnulífinu.  Það er ekki erfitt að marka fyrirtækinu sanngjarna verðlagsstefnu, þegar meðalvinnslukostnaður ásamt hóflegri ávöxtunarkröfu eigin fjár (3 %/ár) eru þekktar stærðir.

"Í ljósi mikilvægis raforku fyrir samfélög, bæði heimili og atvinnustarfsemi, er raforka ekki eins og hver önnur vara.  Þvert á móti er raforka aðfang og meðal grunnstoða okkar samfélags.  Án raforkukerfisins væri atvinnulíf fábreyttara og lífsgæði lakari en ella.  Aðgengi að raforku þarf að vera tryggt fyrir bæði heimili og atvinnulíf, auk þess sem raforkuverð þarf að vera sanngjarnt, innviðir traustir, regluverk skýrt og eftirlit á raforkumarkaði virkt." [Undirstr. BJo.]

Þessi hluti skýrslu SI er fagnaðarefni, og það er saga til næsta bæjar, að SI brýtur þarna í bága við orkustefnu ESB og málflutning annarra orkupakkasinna á Íslandi (SI lýsti sig því miður hliðhollt OP#3 í umsögn til Alþingis fyrr á þessu ári, þegar OP#3 var þar til umfjöllunar, þótt allt sé á huldu um það, að OP#3 geti gagnast íslenzkum iðnaði, nema síður sé).

Það gagnast ekki Íslendingum, sem framleiða alla sína raforku úr náttúruauðlindum sínum með sjálfbærum hætti, að líta á og meðhöndla rafmagnið sem hverja aðra vöru, enda er ekki hægt að skila því.  Rafmagnið hér er nátengt náttúruauðlindunum, og það er fullveldisréttur okkar að ráða því sjálf, hvernig þær eru nýttar.  Ef stefna ESA/ESB um fyrirkomulag á ráðstöfun orkunýtingarréttinda nær fram að ganga hérlendis, þá fer þessi fullveldisréttur í súginn, en í skýrslu SI er ekki minnzt á það. Er það miður, því að ekki er að efa, að raforkuverð hérlendis mun hækka, ef afnotaréttur náttúruauðlindanna verður boðinn út eða upp.  Einnig má leiða að því líkum, að markaðsstýring raforkuvinnslunnar muni leiða til verðhækkana rafmagns.  Það helgast af ólíku eðli okkar helztu orkulinda, vatnsfalla og jarðgufu.  

Þar er hins vegar sagt í skýrslunni, að raforkuverð eigi að vera sanngjarnt.  SI virðist þannig gruna, að iðnaðarfyrirtækin njóti ekki sanngirni um þessar mundir.  Satt að segja tuddast Landsvirkjun á aðildarfélögum SI og öðrum, nýtir yfirburði sína á markaði og okrar á orkunni. Það er óþarfi að fara eins og köttur í kringum heitan graut um það grafalvarlega málefni.

Þá svelta sum aðildarfélög SI vegna of lítillar flutningsgetu Landsnets og dreifiveitna, og sum búa við allsendis ófullnægjandi gæði, lélega spennu og lítið afhendingaröryggi, t.d. á Vestfjörðum.  Þetta setur þróun aðildarfélaga SI stólinn fyrir dyrnar og  hefði einnig þurft að minnast á og slá jafnframt á árlegan kostnað vegna ófullnægjandi orkugæða (aflskorts, ófullnægjandi afhendingaröryggis og lélegra spennugæða), ef skýrslan átti í upphafi að geta kallast faglega vönduð.  Það virðist vanta sérfræðilega þekkingu á orkusviði hjá ritstjórn skýrslunnar til þess að uppfylla þessar væntingar, og hún hefur ekki haft gáning á að afla slíkrar utan frá.

"Það er staðreynd, að ef ekki er framleiðslufyrirtækjum til að dreifa, þar sem raforkan er aðeins einn af mörgum framleiðsluþáttum, þá er verðmætasköpunin hverfandi af orkuauðlindinni."

Þetta er rétt athugað og stingur í stúf við boðskap sumra, t.d. Landsvirkjunar, um útflutning á rafmagni um sæstreng.  Gallinn er sá, að SI studdi innleiðingu OP#3 hérlendis, sem stórlega jók hættuna á því, að hingað yrði lagður aflsæstrengur, því að Landsreglaranum eru falin mikil völd á orkusviðinu, og hann er algerlega óháður vilja innlendra stjórnvalda og hagsmunaaðila. Hlutverk löggjafarinnar OP#3 er aðallega að ryðja hindrunum úr vegi millilandatenginga.  Það væri Guðsþakkarvert, ef SI myndi nú sjá að sér fyrir hönd umbjóðenda sinna og leggjast gegn innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans) sem fyrst og helzt á fyrsta ársfjórðungi 2020 til að styrkja stjórnvöld við gerð yfirlýsingar til ESB og EFTA þess efnis, að Ísland muni hafna OP#4 í Sameiginlegu EES-nefndinni.

Forysta SI hlýtur að hafa smíðað sér, að OP#3 muni gagnast íslenzkum iðnaði.  Því miður er það á misskilningi reist, að markaðsvæðing raforkuvinnslunnar og umsetning raforkunnar í orkukauphöll geti gagnast notendum við íslenzkar aðstæður.  Til þess að spila á kerfið og gera hagstæðari viðskipti en nú tíðkast þarf sérfræðiþekkingu, sem borgar sig ekki fyrir flest fyrirtækin að afla sér.  Að fara út í afleiðuviðskipti er hrein spákaupmennska, sem margir hafa farið flatt á.  Ef á að sveifla framleiðslunni eftir verði á rafmagni, kostar það endurskipulagningu framleiðslunnar, sem getur kostað aukin útgjöld til mannahalds og aukningu birgðahalds.  Hvort tveggja vinnur gegn framleiðniaukningu, sem ætti að vera helzta keppikefli iðnaðarins.

Stærstu kaupendurnir, álverin, geta ekki með góðu móti tekið þátt í þessu af tæknilegum ástæðum, af því að stöðugleiki er alfa og omega fyrir rafgreiningarkerin.  Fyrirvaralitlar aflsveiflur eru dýrar og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðni (straumnýtni og orkunýtni keranna) dögum og jafnvel vikum saman.  Markaðsvæðing raforkuvinnslunnar í anda Innri markaðar ESB eykur hættu á orkuskorti, og mótvægisaðgerðir í anda orkulindastýringar verða líklega dæmd óleyfileg opinber markaðsinngrip.  Málið horfir þannig við pistilhöfundi, að SI hafi með stuðningi sínum við OP#3 keypt köttinn í sekknum.

Í næstu vefgrein verður haldið áfram að rýna í umrædda skýrslu Samtaka iðnaðarins.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Ég er ansi hræddur um að Landsvirkjun sé að hækka verðið til að losa sig við stórnotendur til að geta selt rafmagn um sæstreng.

Það er ansi margt á bak við þessa stórnotendur, störf og afleidd störf

Ætlar Ísland að vera ein stór virkjun ?

Emil Þór Emilsson, 5.11.2019 kl. 11:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú er komið í ljós, að vandamálið er víðtækara.  OR er að verðleggja sig út af markaðnum fyrir stórnotendur heits vatns og rafmagns samkvæmt viðtali Bændablaðsins við Lambhagabóndann, Hafberg Þórisson, í dag.

Bjarni Jónsson, 7.11.2019 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband