Orkuskýrsla SI - rýni IV (lok)

Þetta er lokaáfangi rýni pistilhöfundar á skýrslu Samtaka iðnaðarins frá 16.10.2019:

"Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni".

Almennt má segja, að skýrsla þessi hafi valdið vonbrigðum fyrir þær sakir, að engin ný greining virðist búa að baki skýrslunni, sem þó ætti heiti sínu samkvæmt að fjalla um ein mikilvægustu mál íslenzks athafnalífs, mál, sem nú eru í deiglunni.  Hins vegar er hvað eftir annað kastað fram fullyrðingum um nauðsyn skefjalausrar markaðsvæðingar raforkuvinnslunnar og uppskiptingu Landsvirkjunar til að auka samkeppni á raforkumarkaðinum. 

Hér skal nú fullyrða, með vísun til röksemdafærslu í fyrri rýniritgerðum höfundar um þessa skýrslu, að hvorug aðgerðin mun verða aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins (SI) né almenningi í landinu til hagsbóta. Lítið til afleiðinga innleiðingar Orkupakka #1 og #2 frá ESB á Íslandi, sem áttu að auka frelsi og frjálsa samkeppni á raforkumarkaðinum.  Afleiðingin er sú, að Ísland er orðið ósamkeppnishæft við nágrannalöndin um raforku, eins og átakanlega er lýst efst á forsíðu Fréttablaðsins 11.11.2019 undir fyrirsögninni:

"Telja orkuverð hér allt of hátt".

Er ástæða fyrir fyrirtæki í þessum samtökum, SI, að krefjast útskýringa frá stjórn samtakanna á þeim vafasama málflutningi, sem þar er að finna.  Hann virðist vera úr tengslum við raunveruleikann, en reistur á markaðskreddum, sem eiga ekki við á raforkumarkaðinum, og jafnvel hagsmunagæzlu fyrir orkufyrirtækin, sem er andstæð hagsmunum neytenda og flestra félaga í SI.

Þessi gagnrýni á við veigamestu málin, en um ýmislegt smælki má taka undir með skýrsluhöfundum, t.d. um Orkuspárnefnd:

"Markmið Orkuspárnefndar er mikilvægt og góðra gjalda vert.  Hins vegar er mikilvægt að taka til skoðunar, hvort samráð og samtal nefndarinnar við stórnotendur sé í réttum farvegi, eða hvort bæta þurfi þar úr.  Mikilvægt er í því samhengi að huga að samtali við stórnotendur um þeirra framtíðaráform, hvað varðar uppbyggingu eða breytingar í sinni starfsemi í þeim tilgangi að tryggja áreiðanlegri tölur um raforkuþörf til lengri tíma litið.  Skýr sýn þarf því að liggja fyrir bæði um þróun eftirspurnar eftir raforku í gegnum raforkuspá, sem og mögulega þróun framboðs á raforku og möguleika framleiðenda á að mæta aukinni eftirspurn.  Þarfir raforkunotenda þurfa að endurspeglast í spánum."

Orkuspárnefnd þarf að vera kunnugt um bæði þá orku og afl, sem samið hefur verið um við stórnotendur, hvernig hún skiptist í forgangsorku og ótryggða orku og áfangaskiptingu að fullnýtingu. Pistilhöfundur getur staðfest, að gagnrýni á Orkuspárnefnd fyrir samráðsleysi við stórnotendur á við rök að styðjast.  Samráðsleysið hefur valdið stærstu skekkjunum í spánum, því að langmest munar um breytingar hjá stórnotendum. 

Þá skiptir þróunin til langs tíma ekki aðeins máli, heldur ekki síður til skamms tíma (næstu 2 ár) og meðallangs tíma (næstu 5 ár).  Hvort tveggja er þekkt með þokkalegri vissu hjá stórnotendum, en mikil óvissa er um langtímaþróunina (næstu 10 ár).  Sem dæmi má taka tilraunir móðurfyrirtækja álveranna hérlendis með eðalskaut.  Hugsanlega verður gerð tilraun hérlendis með slíka tækni innan 10 ára, og m.v. sama framleiðslumagn mun þá raforkunotkunin vaxa að óbreyttri framleiðslu, því að engin teljandi hitaorka kemur frá bruna eðalskauta eins og frá kolaskautunum nú, sem brenna upp á tæplega einum mánuði.  Mismuninn þarf að vinna upp, ef viðhalda á rafgreiningu í núverandi efnaupplausn, væntanlega með hærri spennu yfir rafgreiningarkerin (auknu spennufalli), sem krefst aukins afls við óbreyttan straum (framleiðslu). 

Þá er í skýrslunni næst með réttmætum hætti bent á bresti varðandi fjármögnun Landsnets:

"Allar fjárfestingar í flutningskerfinu eru greiddar af raforkunotendum, og er því lykilatriði, að forsendur fjárfestingarákvarðana séu traustar.  Ljóst er, að undirliggjandi þörf á uppbyggingu á raforkuflutningskerfinu er umtalsverð.  Við slíkar aðstæður er óeðlilegt, að núverandi raforkunotendur standi undir allri fjárfestingunni."

Í Kerfisáætlun Landsnets eru áform fyrirtækisins tíunduð.  Þar er um að ræða fjárfestingar til að mæta aflþörfinni, og leggur Landsnet sína eigin aflspá og skráða bilanatíðni til grundvallar niðurröðun framkvæmda í tímaröð.  Er einkennilegt, að í skýrslu SI skuli ekki vera minnzt einu orði á Skammtíma- og Langtímakerfisáætlun Landsnets í samhengi við Orkuspárnefnd.  Sýnir það ójafnvægi í skýrslunni, þar sem faglega þyngd á rafmagnssviði virðist vanta í hóp skýrsluhöfundanna.  Þar með fær skýrslan hagfræðilega slagsíðu, þar sem rangri hagfræði er beitt á viðfangsefnin.

Af nauðsynlegum umbótaverkefnum í Kerfisáætlun Landsnets má nefna 220 kV línu frá aðveitustöð á Brennimel og norður að Rangárvöllum við Akureyri, þar sem aflskortur hefur allt og lengi háð atvinnuþróun með tilheyrandi tapi fyrir íbúana, sveitarfélagið og hagkerfi landsins. 

Þá þarf að spennuhækka 33 kV kerfi Vestfjarða upp í 66 kV (fjórfaldar aflflutningsgetuna) og færa í jörð til að ná viðunandi rekstraröryggi.  Hröð og ánægjuleg atvinnuuppbygging á Vestfjörðum með tugmilljarða viðbót gjaldeyristekna kallar á þessar brýnu aðgerðir.  Það er til vanza, hversu mikillar olíubrennslu er þörf á Vestfjörðum til raforkuvinnslu í neyðarrafstöðvum.  Vesturlína er ótrygg, og þess vegna vilja flestir Vestfirðingar fjölga vatnsorkuverum þar. Þar eiga þeir nokkurra kosta völ. Vilji heimamanna í atvinnumálum og orkumálum á að vega þyngst. Núverandi rafkerfi Vestfjarða stendur atvinnuþróun þar fyrir þrifum. Skýrsla SI minnist ekkert á þetta.  Búa höfundarnir í fílabeinsturni ?  Til hvers var þessi skýrsla ætluð ?  Til að koma á framfæri sérvitringsviðhorfum á sviði, sem höfundarnir hafa ekki vit á ?

Orkustofnun hefur of strangt taumhald á viðhaldi og nýframkvæmdum Landsnets.  Fyrirtækið verður að fá að dreifa kostnaðinum á lengra tímabil með lántökum til arðbærra fjárfestinga. Neytendur eru viðkvæmir og óvarðir fyrir hækkunum á gjaldskrám fyrirtækisins vegna einokunarstöðu þess.

Í neðangreindu er komið við kaun stjórnvalda, en þó ekki rætt nægilega opinskátt um flækjurnar, sem stjórnvöld verða að greiða úr, svo að uppbygging innviða geti gengið greiðlegar án þess að flækjufætur þvælist fyrir sjálfsögðum framfaramálum:

"Ljóst er, að þörfin er mikil og nauðsynlegt að ráðast í styrkingu og/eða uppbyggingu kerfisins, og samhliða þarf að rýna, hvað stjórnvöld geta gert til að liðka fyrir slíkum framkvæmdum.  Í því skyni þurfa stjórnvöld að koma að vali varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins.  Finna þarf leiðir til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig og taki skemmri tíma, og tryggja þarf samræmi í vinnubrögðum milli aðila, sem koma að ferlinu.  Bæta þarf vinnu við undirbúning framkvæmda, sem ætti að gera alla málsmeðferð hraðari og skilvirkari.  Hér þarf hugsanlega að finna skýrara ferli og einfaldara lagaumhverfi."

Nú vinnur Landsnet að því að straumlínulaga ferli og búa til hraðvirkara ferli fyrir verkefni, sem ekki útheimta nýja virkjun.  Öflug tenging Eyjafjarðar var dæmi um það, en þörfin þar og annars staðar hefur vaxið mikið og mun vaxa til 2021-2022, svo að umframafl í kerfinu mun ekki hrökkva til. Afl- og orkuskortir blasir við.

Næst á eftir tengingu Eyjafjarðar frá vestri (2024) og austri (2021), sem dregizt hefur úr hömlu og þarf í raun að flýta, þarf að taka afstöðu til þess, hvernig loka á Byggðalínuhringnum í annað sinn í sögunni.  Þar er val um 220 kV línu frá Sigöldu austur um yfir erfitt og viðkvæmt land austur að Hryggstekk í Skriðdal, eða jafnstraumsjarðstreng frá aðveitustöð, t.d. innarlega í Bárðardal, og suður að Þjórsár/Tungnaársvæðinu.  Sá kostur er dýr (um mrdISK 40), en ekki mikið dýrari en hinn og hefur marga kosti, rekstrarlega og umhverfislega umfram loftlínukostinn um S-Austurland.  Í báðum tilvikum þarf 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Hryggstekk til að anna vaxandi almennri raforkunotkun á Austurlandi (laxeldi o.fl).  Ákvörðun um þetta þarf að taka um miðjan næsta áratug.

Sumir hérlendis halda, að orkukræfum iðnaði hafi verið úthýst frá Evrópu m.a. af umhverfisástæðum.  Það er öðru nær, enda eru slíkar verksmiðjur mikilvægur stólpi í þekkingarklösum og framleiðslukeðjum, sem veita fjölbreytilegu starfsfólki vinnu og skapa mikil verðmæti.  Þess vegna var vel til fundið hjá SI að vekja athygli á, að í Evrópu er reynt að halda verndarhendi yfir orkukræfum verksmiðjum með því í raun og veru að niðurgreiða raforkuverð til þeirra. Nú höfum við jafnframt séð, að einhvers konar ívilnanir fara fram til garðyrkjubænda, t.d. í Hollandi Danmörku og Noregi, sem fá fá rafmagnið mun ódýrar en íslenzkir garðyrkjubændur (40 % munur, Bbl. 07.11.2019).  Sýnir það vel villigöturnar, sem Landsvirkjun er á við verðlagningu afurða sinna, sem gerir fyrirtæki hér ósamkeppnishæf við núverandi markaðsaðstæður (20 % lægra í miðborg Stokkhólms til gagnavers en hérlendis (F.bl. 11.11.2019).

"Því er mikilvægt að hafa í huga, að í það minnsta [í] 11 [af] nágrannaríkjum Íslands standa stjórnvöld að endurgreiðslum vegna raforkukostnaðar, og hefur oftar en ekki verið litið framhjá þeirri endurgreiðslu í samanburði á raforkuverði.  Þar er um að ræða aðgerðir til að sporna við s.k. kolefnisleka (e. carbon leakage), þar sem tilteknar atvinnugreinar njóta endurgreiðslna vegna orkunotkunar, þ.e. veigamikil[s] kostnaðar, sem orkuver í Evrópu hafa af kaupum á losunarheimildum innan ETS-kerfisins.  Með kolefnislekalistanum er markmið ESB að sporna gegn því, að orkusækinn iðnaður færist úr álfunni vegna of hás framleiðslukostnaðar og þá oft til ríkja, sem grundvalla orkuframleiðslu meira og minna á jarðefnaeldsneyti eða óendurnýjanlegum orkugjöfum.  Enda væri þá ETS-kerfið farið að vinna gegn markmiðum sínum um að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda."

Með því að brjóta eigin reglur um bann við ríkisstuðningi við fyrirtæki á frjálsum markaði skekkir Evrópusambandið samanburð á raforkuverði á milli landa.  Fyrir orkukræf fyrirtæki er sem sagt ómarktækt að skoða raforkuverð í orkukauphöll, t.d. Nord Pool, sem getur hæglega samsvarað 56 USD/MWh, heldur getur það verið talsvert lægra, e.t.v. 25 % lægra, og er það þá orðið nálægt verðinu, sem Landsvirkjun hefur þröngvað upp á íslenzku stóriðjufyrirtækin við endurskoðun orkusamninga þeirra.  Þetta sýnir svart á hvítu, að þau og  verkalýðsfélög, sem hafa af rekstrar- og atvinnuöryggi í verksmiðjunum miklar áhyggjur, hafa rétt fyrir sér, af því að þær verða að búa við talsvert lægra orkuverð hér til að vega upp á móti kostnaðarliðum, sem eru hærri hér.  Þetta eru engin ný sannindi, en núverandi forstjóri Landsvirkjunar hlustar ekki, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið. 

Á bls. 18 í skýrslu SI er enn tekið til við að japla á nauðsyn orkuviðskipta hérlendis í orkukauphöll án þess, að nokkur greining á því, hvernig markaðsstýrt kerfi raforkuvinnslu fellur að íslenzkum aðstæðum, sýni jákvæða niðurstöðu.  Það er aftur á móti til um þetta greining, sem sýnir, að markaðsstýring hentar Íslendingum alls ekki.  Um það er hægt að lesa í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019 á vef samtakanna.

"Ólíkt því, sem hér þekkist, eiga viðskipti með raforku sér stað í gegnum markaði í mörgum nágrannaríkjum Íslands, þar sem verðmyndun er frjáls og gagnsæ.  Á Íslandi væri ákjósanlegt að koma á skammtímamarkaði með raforku, sem myndi auka gagnsæi í verðmyndun á raforku.  Með slíkum markaði gætu bæði raforkuframleiðendur og -kaupendur varið sig gegn áhættu, auk þess sem skammtímamarkaður með raforku er til þess fallinn að auka skilvirkni og samkeppni."

Í skýrslu af þessu tagi verður að gera meiri kröfur til röksemdafærslu fyrir nýju kerfi en þarna er flíkað.  Með framvirkum samningum er í raun verið að hvetja til spákaupmennsku með raforku.  Á henni hafa sumir grætt mikið, en stórríkir menn hafa líka orðið gjaldþrota á slíkum leikaraskap, og er skemmst að leita til Noregs um slíkt dæmi í fyrrasumar. Þá geta Samtök iðnaðarins ekki með góðu móti ráðlagt annað eins og þetta án þess að greina sérstöðu íslenzka raforkukerfisins og markaðarins, og hvaða afleiðingar hún hefur fyrir virkni markaðsstýrðrar raforkuvinnslu.  Stikkorð þessarar sérstöðu eru:
  1.  Hér er enginn markaður, sem sér fyrir öruggum aðföngum frumorkunnar, sem víðast hvar er jarðefnaeldsneyti, heldur eru Íslendingar háðir duttlungum náttúrunnar varðandi innrennsli í miðlunarlón og innstreymi jarðgufu í gufuforðabúr jarðgufuvirkjana.
  2.  Þessar tvær tegundir virkjana, vatnsfallsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir, hafa gjörólíka eðliseiginleika, sem ekki er tryggt, að markaðskerfi ESB sé hæft til að nýta með sjálfbærum hætti. Hætt er við, að markaðshlutdeild jarðgufuveranna minnki, en vatnsorkuverin munu koma hluta afgangsorku sinnar í verð. Vatnsorkuverin munu þó varla keyra hin í þrot, heldur hækka meðalverðið, svo að þau tóri. Iðnaðurinn mun tapa á dægursveiflum raforkuverðsins, en götulýsingin gæti orðið ódýrari. Iðnaðurinn þarf að móta viðbrögð sín, og þau munu kosta hann nokkuð.  Almennt talað er erfitt að láta virkjanir svo ólíkrar gerðar keppa, svo að gagnast megi neytendum til lengdar.  Fyrir þessu er t.d. gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.
  3.  Á Íslandi er fákeppnisumhverfi á raforkumarkaði, sem ekki verður breytt með vanhugsuðum ráðum á borð við uppskiptingu Landsvirkjunar.  Lögmál frjálsrar samkeppni munu þess vegna ekki virka hér neytendum í hag, eins og predikarar markaðstrúarinnar vilja vera láta. Ef Landsvirkjun verður sundrað, þá verður jafnframt að gefa öllum framleiðendum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki.  Ef þetta kemst á, verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsorkuna vegna skorts á sveigjanleika.  Afleiðingarnar eru lítt fyrirsjáanlegar, en munu leiða til enn meira markaðsráðandi stöðu vatnsaflsins.  Í stað eins ráðandi vatnsorkufyrirtækis nú, sem hefur tregan aðgang að almenna markaðinum, koma fáein í fákeppni með ráðandi stöðu á markaði, og það getur hæglega leitt til verðhækkana til almennings.  Hvorki Samkeppnisstofnun né Landsreglarinn munu ráða við þessar aðstæður, þegar Pandóruboxið hefur verið opnað í óvitaskap.
  4. Markaðsstýring raforkukerfisins hefur í ESB í sér fólginn nægjanlegan hvata til að orkufyrirtækin leggi út í nauðsynlegar fjárfestingar í tæka tíð.  Svo verður ekki hér, því að aðdragandi virkjana er lengri hér og orka og afl næstu virkjunar verður dýrari en frá síðustu virkjun, öfugt við aðstæður meginlandsins. Orkuverðið má ekki lækka í þessu markaðsstýrikerfi, því að þá mun gæta enn meiri tregðu markaðsaðila til að reisa nýjar virkjanir, sem eru dýrari en þær, sem fyrir eru, á hverja kWh. 

 Í kaflanum "Upprunaábyrgðir raforku" er skrifað af nokkurri skynsemi um þetta fyrirbrigði, sem Evrópusambandið kom á koppinn til að örva orkuskiptin hjá sér, þótt fyrirbærið feli í sér brenglun á frjálsri samkeppni, því að sá sem sendir frá sér koltvíildi við orkuvinnsluna kaupir sér syndaaflausn af þeim, sem hafa fjárfest í vistvænum orkulindum, og viðskiptavinir þeirra sitja uppi með "Svarta-Péturinn".  Það er tóm vitleysa, að Íslendingar taki þátt í þessari sýndarmennsku, því að hér standa menn ekki frammi fyrir vali á milli "svartrar" orku og hreinnar, en skýrsluhöfundar taka þó ekki af skarið um, að afnema beri þessi aflátsbréf með öllu  hérlendis, enda gerast þessi viðskipti innan vébanda EES:

"Aðstæður eru með öðrum hætti hér í landi endurnýjanlegra orkugjafa, enda hafa orkuskipti í raforkuframleiðslu og raunar húshitun fyrir löngu átt sér stað.  Engu að síður hafa íslenzk raforkufyrirtæki verið virk á þessum markaði.  Slík sala upprunavottorða út fyrir landsteinana grefur undan ímynd Ísland sem lands endurnýjanlegrar orku.

Sem afleiðing þessa kerfis er uppruni raforku hér á landi villandi, og má nefna sem dæmi, að samkvæmt útreikningum Orkustofnunar um uppruna raforku á Íslandi var árið 2018 55 % [úr] jarðefnaeldsneyti, 34 % [úr] kjarnorku, og 11 % [var] endurnýjanleg orka."
 
 Þetta fyrirkomulag gerir ekkert gagn hérlendis, en töluvert ógagn, því að það gerir íslenzkum fyrirtækjum, sem vilja sýna fram á notkun sjálfbærrar orku, óleik.  Bezt væri þess vegna, að íslenzk raforkufyrirtæki létu af þessari vitleysu; ella verði reynt að semja sig undan þessu fyrirkomulagi á vettvangi EES, en það getur orðið þrautin þyngri.
 
Við lok skýrslu SI er fjallað um langtímasamninga um raforkuviðskipti, en þeir eru undirstaða íslenzks raforkumarkaðar, um 85 % af honum, og hafa lagt grundvöllinn að uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins. Slíka samninga vill ESB ekki hafa, heldur fari öll orka á markað í orkukauphöll.  ESA gerði athugasemd við þetta viðskiptaform (langtímasamninga) í Noregi í byrjun þessarar aldar og stóð í stappi við norsku ríkisstjórnina, en henni tókst að lokum að semja um framhaldslíf þeirra með því skilyrði, að umsamið verð tæki mið af verðlagsþróun á markaði.  Orkukaupendur samþykktu þetta gegn því, að ríkisstjórnin tryggði, að viðmiðunarverðið gerði aldrei kaupendur  ósamkeppnishæfa. 
Hérlendis hefur verið farið framúr  þessum mörkum við endurnýjun samninga Landsvirkjunar miðað við verðþróun á mörkuðum orkukaupendanna.  Eins og verkalýðsforingjar hafa bent á, setur Landsvirkjun þar með fjölda framtíðarstarfa í stórhættu og dregur úr fjárfestingarvilja hérlendis.  Þröngsýn og illviljuð sjónarmið hafa um skeið ráðið för hjá Landsvirkjun í garð greinar, sem stendur undir rúmlega fimmtungi útflutningstekna og sennilega um 10 % af landsframleiðslu.  
"Í slíkum samningum eru m.a. ákvæði, sem draga úr áhættu raforkusala, en kaupandi orkunnar tekur á sig meiri áhættu.  Þetta eru s.k. "take or pay" ákvæði, sem fela í sér, að kaupendur skuldbinda sig að borga fyrir alla raforku, sem samið er um, hvort sem hún er fullnýtt eða ekki.  Slík ákvæði auk annarra samningsskilmála hafa gert raforkufyrirtækjum kleift að ráðast í uppbyggingu virkjana og raforkukerfis, sem landsmenn njóta góðs af í dag."
 
"Í raforkusamningum við stórnotendur eru einnig ákvæði, sem banna endursölu á umframorku.  Um er að ræða fyrirkomulag, sem er á margan hátt ólíkt því, sem þekkist víða í nágrannalöndum okkar, þar sem kaupendur hafa svigrúm til að ráðstafa allri umframorku, s.s. með sölu aftur inn á raforkukerfið.  Með þeirri aðferð er verið að tryggja hagræði bæði seljanda og kaupanda. Þannig er umsamin raforka afhent kaupanda, en þeim síðarnefnda heimilað ákveðið hagræði að ráðstafa áfram með endursölu orku, sem er ekki að fullu nýtt."
Þarna er farið ónákvæmlega með og af meiri vanþekkingu en sæmir í skýrslu Samtaka iðnaðarins um orkumál.  Það tíðkast ekki í langtímasamningum, að kaupskyldan spanni 100 % forgangsorkunnar, heldur nemur hún venjulega um 85 %, enda væri mikið hærra hlutfall óviðunandi spennitreyja fyrir kaupandann. Það er ennfremur ofmælt, að kaupskylduákvæðið hafi gert orkufyrirtækjunum "kleift að ráðast í uppbyggingu virkjana og raforkukerfis", heldur hefur ákvæðið tryggt, að þessi uppbygging varð hagkvæmari fyrir alla raforkunotendur en ella, af því að með slíkan samning til allt að 45 ára (í upphafi vega) fengust hagstæðari lánakjör (lægri vextir).  Í staðinn fékk orkukaupandinn lægra einingarverð á keyptri orku, og er þetta eina af nokkrum tækni-hagfræðilegum skýringum á því, að í slíkum langtímasamningum er samið um orkuverð, sem er lægra en almennt heilsöluverð raforku í landinu. 
Til hvers var bannið við endursölu raforku sett í slíka langtímasamninga ?  Það var sett til að koma í veg fyrir spákaupmennsku með rafmagn, sem kæmi niður á atvinnuöryggi starfsmanna orkukaupandans, því að ekki vill hann sitja uppi með aðgerðarlausa starfsmenn, á meðan hann dregur úr framleiðslu og selur rafmagn.  Rekstur stóriðjuveranna krefst stöðugleika til að hámarka nýtni framleiðslutækjanna.  Þar af leiðandi er dýrt að sveifla framleiðslunni til, og það borgar sig hreinlega ekki við íslenzkar aðstæður, þar sem heildsöluverð á markaði fyrir rafmagn er tiltölulega lágt.  Þess vegna er afar takmarkaður, ef nokkur, áhugi á því hjá stóriðjufyrirtækjum hérlendis að breyta orkusamningum að þessu leyti.  Þau þurfa að gefa upplýsingar um orku- og aflþörf sína viku og mánuði fram í tímann, og þannig getur orkuseljandinn ráðstafað umframorku í tæka tíð.  Fyrirkomulagið breytir þess vegna nýtni orkukerfisins ekki neitt.
Fyrirkomulagið getur á hinn bóginn valdið orkufyrirtækjunum talsverðum búsifjum, og slíkt leiðir til þrýstings til hækkunar orkuverðs framleiðenda, þar sem megnið af kostnaði þeirra er fastur og óháður framleiðslumagni.  Fyrirkomulagið mundi að líkindum leiða til hækkunar á almenna raforkumarkaðinum.  Tillagan er illa ígrunduð.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband