Ranghugmyndir og hálendisþjóðgarður

Orkumálasjóri birti gagnmerka jólahugvekju til landsmanna á jólaföstu 2019 eftir jólaföstuóveðrið á norðanverðu landinu og ófarir þess. Þar benti hann á varasamar ranghugmyndir Landverndar um, hverjum flutningskerfi raforku þjónaði, og lævíslega atlögu auðlindaráðuneytisins að fjölbreytilegri auðlindanýtingu hálendisins, sem virðist sjálfsögð, sé sjálfbærni gætt.  Verður nú gripið niður í þennan jólaboðskap Orkumálastjóra, sem nú, "nota bene", gegnir hlutverki Landsreglara á Íslandi samkvæmt Orkupakka 3 (e. National Energy Regulator) fyrir ACER (Orkustofnun Evrópusambandsins). Enn hefur þó ekki frétzt af beinum gjörningum hans í því hlutverki, en þeir eru þó óhjákvæmilegir áður en langt um líður. 

Hann getur væntanlega staðfest, að hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu setja stjórnvöld upp viðlíka girðingar gagnvart nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og auðlindaráðuneytið er með í undirbúningi hérlendis, og hvergi eru viðlíka kæruheimildir við lýði gagnvart stjórnvaldsákvörðunum um framkvæmdir og hér. Við erum eins og hross í hafti fyrir eigin tilverknað, af því að stjórnkerfi ríkisins gengst upp í því að vera kaþólskari en páfinn.  Sjálfskaparvítin eru verst.

Stjórnkerfi íslenzka ríkisins er á algerum villigötum með samspil nýtingar og verndunar, og framganga þess er í andstöðu við heilbrigða skynsemi og vinnur þess vegna beinlínis gegn orkuskiptum og loftslagsvænni orkunýtingu.  Alþingi verður hér að leiðrétta mjög rangan kúrs, svo að raforkukerfi og samgöngukerfi  landsins geti komizt á réttan kjöl sem fyrst.

Úr jólaboðskap Orkumálastjóra 2019:

"Þeir, sem hafa á undanförnum árum barizt harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda, hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast, þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu.  Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning, að þeir séu ekki andsnúnir línum, sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins, heldur einungis framkvæmdum, sem þjóna stóriðju.  

Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: "Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta [aðgreiningu álags eftir notendahópum-innsk. BJo] skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri, eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn, þar sem talað var um skert þjóðaröryggi.  Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins, þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.""

 Hér varpar Orkumálastjóri ljósi á fádæma ábyrgðarleysi Landverndar, sem snýr út úr eða misskilur gjörsamlega málflutning Landsnets og Orkustofnunar á undanförnum árum um hlutverk flutningskerfis raforku fyrir velferð landsmanna.

Þegar ákvörðun var tekin um 2. orkuskipti landsins vegna olíukreppunnar 1973 og a.m.k. 70 % hækkunar olíuverðs þá, var jafnframt tekin ákvörðun um að tengja alla landsmenn við stærstu og hagkvæmustu virkjanir landsins á Þjórsár/Tungnaársvæðinu með s.k. Byggðalínu.  Þessar hagkvæmu virkjanir voru eingöngu mögulegar sem slíkar vegna langtímasamninga um mikla raforkusölu frá þeim til stóriðjuvera.  Það er að snúa staðreyndum á haus að halda því fram, eins og Landvernd ítrekað gerir sig seka um, að Byggðalína sé fyrir stóriðju.  Það er ekki heil brú í slíkum boðskap, hvorki fyrr né síðar, og þessi málflutningur hennar er aðeins ósvífin tilraun til að sá ranghugmyndum á meðal landeigenda og alls almennings um hlutverk þessarar línu nú og í sögulegu samhengi.

Það verður svo að segja hverja sögu, eins og hún er, að sú staðreynd, að stjórnvöld skuli hafa opnað þröngsýnum og ábyrgðarlausum afturhaldsöflum leið til að þvælast nær endalaust fyrir sjálfsögðum framfaramálum landsins alls og þeim réttlætismálum landsbyggðar að sitja við sama borð og flestir íbúar Suð-Vesturlands gera nú, er vanrækslusynd, sem löggjafinn verður að lagfæra hið fyrsta.  

Hálendisþjóðgarður er gæluverkefni, sem fólk af sauðahúsi Landverndar, t.d. auðlindaráðherrann (fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og kæruglaður þar með afbrigðum), ber mjög fyrir brjósti. Að setja þetta gæluverkefni á oddinn nú vitnar um óábyrga forgangsröðun. Þegar innviðaþörfin hrópar á meira fjármagn, er ekki fjárhagslegt bolmagn til óþarfa leikaraskapar, sem setur skorður við fjölbreytilegri verðmætasköpun úr auðlindum hálendisins.  

Auðlindaráðherra veifar gatslitinni dulu um, að hver króna, sem varið er til þessa hálendisþjóðgarðs, muni skapa 22 krónur.  Þetta er blaður út í loftið.  Hálendisþjóðgarður er ekki gullgæs, heldur byrði og gæluverkefni forræðishyggjunnar, sem ekki getur skapað meira fé en sveitarfélög og fyrirtæki innan þeirra og/eða með starfsleyfi frá þeim geta skapað á þessum vettvangi. Virðisaukinn verður þar af leiðandi enginn við allt þetta umstang.

Það er alger óþarfi að svæla með þessum hætti þriðjung landsins undir forræði ríkisins, þegar ekki hefur enn komið í ljós neinn augljós kostur við eða þörf á miðlægri ákvörðunartöku ríkisins á hálendinu, eins og hins vegar hefur berlega komið í ljós varðandi ýmislegt annað, s.s. þjóðvegi og meginflutningskerfi rafmagns.

Orkumálastjóri, sem er í stöðu til að afla sér víðtækrar yfirsýnar um þessi mál, fordæmdi þessar hálendisþjóðgarðsfyrirætlanir auðlindaráðuneytisins í jólahugvekju sinni í desember 2019:

"Öll starfsemi þar [í auðlindaráðuneyti Íslands-innsk. BJo] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla, og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum.  Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja." [Undirstr. BJo.]

Orkumálastjóri skrifar hér beinum orðum, að undirbúningur auðlindaráðuneytisins fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs fari fram undir fölskum formerkjum og að með endemum einstrengingslegum aðferðum sé beitt, þar sem þröngsýni fremur en víð sýn á náttúruvernd ráði för.  Hér eru svo alvarlegar ásakanir um óheilindi og fúsk ráðuneytis á ferðinni, að nauðsynlegt er fyrir Alþingi að grafast fyrir um þetta mál og stöðva það, ef nauðsyn krefur.  Svona vinnubrögð verða engum til gagns, þegar upp er staðið, heldur munu enda sem bjúgverpill í fangi stjórnvalda. Á skal að ósi stemma. 

Í Morgunblaðinu birtist efst á bls. 2 þann 27. desember 2019 frétt Sigurðar Boga Sævarssonar með viðtali við Pál Gíslason, verkfræðing, frá Hofi í Vatnsdal, undir fyrirsögninni:

"Þjóðgarðurinn stöðvi landnýtingu".

Páll Gíslason er öllum hnútum kunnugur um sjálfbæra nýtingu hálendisins, enda hefur hann stundað starfsemi í Kerlingarfjöllum um árabil, sem þykir til fyrirmyndar.  Ljóst er af orðum Páls, að þjóðgarðsstofnun þessi leysir ekkert vandamál, heldur eykur kostnað ríkisins og verður öllum til ama með skrifræði og einstrengingslegri stefnumörkun og stjórnun, enda hræða sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Að óþörfu verður gengið hér á forræði sveitarfélaganna yfir skipulagsmálum innan þeirra núverandi vébanda.  Forræðishyggjan mun leggja dauða hönd sína á þróun hálendisins, en það er einmitt höfuðatriði að þróa það með aðstoð nútímatækni og fjölbreytilegum viðhorfum.  Fréttin hófst þannig:

"Hugmynd um um hálendisþjóðgarð ber að taka með fyrirvara, enda er ávinningurinn óljós.  Náttúruvernd á öræfum landsins er forgangsverkefni, en það starf mætti fyrst efla með svæðisbundnu samstarfi sveitarfélaga.  Ríkið á að vinna áfram að uppbyggingu stofnvega og flýta orkuskiptum.  Aðgerðir, er varða umgengni, byggingu og rekstur þjónustumiðstöðva og fleira eru dæmi um verkefni, sem sveitarfélög eða einkaaðilar gætu sinnt betur.  Þetta segir Páll Gíslason hjá Fannborg í Kerlingarfjöllum."

Ríkið á ekki að troða sér inn á svið, sem aðrir geta sinnt betur og eru þekkingarlega betur í stakkinn búnir til að annast.  Útþensla ríkisbáknsins er vandamál.  Báknið ræður ekki við öll þau verkefni, sem það gín yfir núna, þrátt fyrir mjög íþyngjandi skattheimtu, og ýmis innviðauppbygging, sem eðlilegt er að ríkisvaldið sinni, er í skötulíki.  Það er engin ástæða fyrir ríkisvaldið á þessari stundu að þenja sig yfir mestallt hálendi Íslands.

""Ég sé ekki ábata af þunglamalegu stjórnkerfi, þar sem ofuráherzla er lögð á að stöðva nýtingu fallvatna, en það virðist [vera] markmiðið.  Blönduð landnýting áfram væri farsælli, þar sem þróa má samspil landbúnaðar, ferðaþjónustu og afþreyingar og orkuvinnslu", segir Páll og heldur áfram:

"Í frumvarpsdrögunum greini ég sterkan vilja til að þrengja [að] eða stöðva frekari nýtingu lands, þ.e. þróun orkuvinnslu og ferðaþjónustu.  Slíkt tel ég hvorki mæta nútímakröfum um sjálfbærni né hugmyndum um afþreyingarmöguleika.  Virkjanir og uppistöðulón á hálendinu geta stungið í augun, en á móti kemur, að orkan, sem þaðan fæst, er umhverfisvæn og skilar samfélaginu miklu.""

Það er samhljómur með Orkumálastjóra og Páli Gíslasyni, þegar þeir færa fram röksemdir sínar gegn tillögu auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð.  Framgangsmáti ráðherrans er ótækur.  Við ákvörðun um það með hvaða hætti hálendið verður skipulagt og nytjað, er forkastanlegt að ganga einstrengingslega fram, þannig að aðeins eitt sjónarmið, verndunarsjónarmiðið, ráði ríkjum.  Þetta er hættan við að fela einu ráðuneyti í Reykjavík yfirstjórnun þessara mála. 

Sjálfbæra nýtingu og afturkræf mannvirki samkvæmt fjölþjóðlegri skilgreiningu á að leggja til grundvallar á hálendinu, þar sem öll sjónarmið mega sín nokkurs.  Aðeins þannig næst sæmileg sátt um fyrirkomulag hálendismála.  Ráðherrann er á annarri línu og mun þess vegna mæta harðri andstöðu. Saga hans sýnir, að hann á það til að vera nokkuð herskár, þótt mjúkur sé á manninn í fjölmiðlum nú um stundir. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Umhverfisráðherra má sín lítils gegna Landsreglara ESB. Þar pissuðu VG í skóinn sinn. 

Júlíus Valsson, 3.1.2020 kl. 18:31

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

... og munu brátt finna það á eigin skinni, að slíkt er skammgóður vermir með slæmar verkanir, er frá líður, enda skildu fáir, hvað VG gekk til, en hrossakaupin láta ekki að sér hæða frekar en fyrri daginn.

Bjarni Jónsson, 3.1.2020 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband