Mörgu er logið í nafni umhverfisverndar

Komið hefur fram, að margir hinna voveiflegu gróðurelda í Ástralíu í vetur (2019-2020) eru beinlínis af mannavöldum, þ.e. brennuvargar hafa kveikt þá.  Gríðarlegur eldsmatur er þarna, af því að græningjar hafa lagzt gegn grisjun og hreinsun, sem þó hefur verið stunduð frá landnámi þarna, og frumbyggjarnir notuðu þetta sem ráð til að draga úr eldhættunni, því að hún er síður en svo ný af nálinni.  Úrkoman í Ástralíu hefur verið lotubundin, og nú er hún í lágmarki, svo að hættan er í hámarki.  Þar sem eldar geisa í þjóðgörðum Ástralíu eiga slökkviliðsmenn í miklu meiri erfiðleikum en áður, því að græningjar hafa fengið því framgengt, að miðlunarlón, sem þar voru, hafa verið tæmd.  Hvassviðri hefur svo gert eldana óviðráðanlega, en sem betur fer hefur rignt duglega í Ástralíu undanfarna sólarhringa, þar sem eldar hafa verið hvað hræðilegastir. 

Græningjar kenna auknum styrk koltvíildis í andrúmsloftinu um ófarirnar, því að CO2 skermi varmaútgeislun jarðar og valdi þar af leiðandi hlýnun lofthjúpsins.  Því er svarað með því, að þessi útgeislun sé á bylgjulengdarsviðinu 8-12 míkrón, og gastegundin CO2 sjúgi ekki í sig orku á því sviði.  Græningjar hafa jafnvel verið sakaðir um að kveikja í til að æsa til reiði í garð þeirra, sem mest losa af CO2, og Ástralir sjálfir hafa vissulega frekar dregið lappirnar við að draga úr losun. Minnir þetta óhugnanlega á bruna Reichstag 1934, sem Adolf Hitler, kanzlari, notaði sem átyllu til að sölsa undir sig forsetaembætti Þýzkalands og þar með æðstu stjórnun hersins, og varð þannig einvaldur. Ekkert slíkt vofir yfir Ástralíu.

Þann 9. janúar 2020 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra, sem hann nefndi:

"Hamfarahlýnun - Dómsdagur eða blekking".

Af greininni má ráða, að hann sé efasemdarmaður um "hamfarahlýnun" og vitnar sér til halds og trausts til hins erna öldungs og veðurspámanns Páls Bergþórssonar, eins og síðar verður getið í pistlinum.  Framarlega í greininni gerir hann ofstæki "koltvíildissinna" að umræðuefni:

"Í umræðunni eru efasemdarmenn, sem einnig styðjast við vísindalegar forsendur, sagðir falsspámenn, og um þá marga er rætt sem boðbera fáfræðinnar.  Ef þú vilt hafa frið, ferðu í umræðuna með kór "rétttrúnaðarins" og velur þér að gráta og fylgja fjöldanum og fullyrðingunni um, að jörðin farist innan 30 ára og hamfarirnar séu manninum einum að kenna."

Það er ekki vænlegt til árangurs að reka trippin með þessum hætti, enda er árangur fjölda blaðurráðstefna nánast enginn, og engin samstaða þjóða heims í nánd, af því að boðskapurinn um afleiðingar aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu er ótrúverðugur, enda reiknilíkön IPCC eðlilega enn í mótun, þar sem flækjustigið er gríðarlegt. Samstaða þjóða heims er þó skilyrði fyrir árangri við að draga úr styrk koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þar er ógnarlangt í land, og fundahöld og ráðstefnur um málið farsakennd. Guðni vitnar í Pál Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóra: 

"Ég vil taka undir hógvær orð, sem Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, setti inn á "Fasbókina" sína, en Páll er dáður af þjóð sinni sem rökfastur og stilltur maður í öllum boðskap.  Páll segir: "Hamfarahlýnun jarðar er vonandi markleysa".  Svo rakti hann fjölgun mannkynsins úr 2 milljörðum árið 1950 í 8 milljarða árið 2020. Með sömu þróun væri mannfjöldinn orðinn 14 milljarðar árið 2090.  Og 20 milljarðar árið 2160."

Páll Bergþórsson er vel að sér í veðurfarslegum efnum, og það segir mikla sögu um veikan fræðilegan grundvöll kenningarinnar um "hamfarahlýnun" af mannavöldum, að "nestor" veðurfræðinga hérlendis telur mestar líkur á, að hún sé "markleysa".  Þá er nú engin furða, þótt minni spámenn í þessum fræðum kokgleypi ekki allan "bolaskítinn" frá IPCC og áhangendum. Það þarf ekki annað til en hlutfallslega minna af nýju koltvíildi stigi upp í efstu lög lofthjúpsins ("stratosphere") til að gróðurhúsaáhrif lofttegundarinnar verði minni en IPCC reiknar með. 

Hlýnun frá "Litlu ísöld", sem lauk um 1900, er sem betur fer staðreynd, en enginn veit, hversu mikil hún verður.  Hvers vegna varð "Litla ísöld" ?  Jörðin er nú við lok 10 þúsund ára hlýindaskeiðs, og á næstu 10 þúsund árum verður sennilega mikil kólnun. Málflutningurinn um "hamfarahlýnun" er mjög orðum aukinn. Það er ekki þar með sagt, að óskynsamlegt sé að minnka og að lokum losna við bruna jarðefnaeldsneytis áður en þær orkulindir þrýtur, enda fylgja þeim ýmsir ókostir, en það er ekki sama, hvernig það er gert, sbr vindmyllufárið.  

Það er þegar tekið að hægja mjög á fjölgun mannkyns þrátt fyrir minnkandi barnadauðsföll.  Minni viðkoma fylgir bættum efnahag, en örsnauðum í heiminum hefur fækkað mikið á síðastliðnum 40 árum, og er miklum vestrænum fjárfestingum í "þriðja heiminum" þakkaðar hækkandi tekjur þar, þótt sú jákvæða þróun hafi nú stöðvazt um sinn á meðan "merkantílismi" (kaupauðgistefna) tröllríður húsum tímabundið.

  Það er hægt að taka undir boðskap Guðna um mikilvægi dyggðugs lífernis og virðingar fyrir náttúrunni í umgengni við hana.  Það er þó algjör misskilningur hjá græningjum, að sú virðing verði aðeins sýnd með því að snerta hana ekki.  Hófsemi er hinn gullni meðalvegur í þessum efnum sem öðrum. "Að nýta og njóta." Guðni skrifar:

"Verkefnið er hins vegar eitt: að bjarga jörðinni fyrir komandi kynslóðir.  Mikilvægt er að brauðfæða og mennta allt fólk jarðarinnar og framleiða matinn sem næst hverjum munni.  Í því sambandi ber að minna á, að landbúnaðarvörurnar framleiðist hér heima, en komi ekki til okkar erlendis frá með flugvélum.  Draga þarf úr öllu bruðli og muna, að sjórinn tekur ekki endalaust við.  Þetta er verkefni hverrar fjölskyldu, atvinnulífsins og ríkisstjórna þjóðanna.  En stærsti sigurinn mun vinnast, ef Sameinuðu þjóðirnar koma sér saman um markvissar reglur og þeim verði fylgt."

Ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna hefur hingað til mistekizt að komast að samkomulagi t.d. um jafnháa gjaldtöku af koltvíildislosun um alla jörð.  Ef þessi skattheimta er ólík, flýja fyrirtæki með mikla losun, þangað sem hún er lægri.  Þetta er s.k. kolefnisleki.  Það er svo misjöfn efnahagsleg staða þjóða heimsins, að vel skiljanlegt er, að sameiginlegt samkomulag sé ekki í augsýn um skilvirkar aðferðir, sem innleiða þarf til að draga úr koltvíildislosun með skilvirkum hætti.

Ríkar þjóðir hafa varið háum fjárhæðum til að koma upp hjá sér "vistvænni" raforkuvinnslu, og þar hefur mest borið á fjárfestingum í vindorkuverum og sólarhlöðum. Í Danmörku eru t.d. um þessar mundir um 6100 vindmyllur, sem framleiða 13,9 TWh/ár, um 60 % af raforkuvinnslu Íslands.

Það gleymist í írafári umhverfisumræðunnar að taka kolefnisspor og mengun við framleiðslu á þessum "grænu" orkubreytum með í reikninginn. Sem dæmi má taka 2,0 MW vindmyllu.  Í henni eru um 250 t af stáli, og það fara um 125 t af kolum í að framleiða þetta stál.  Við framleiðslu sementsins í undirstöðuna þarf ekki minna en 25 t af kolum að jafnaði.  Þessi 150 t 

  
  
  

kola á hverja vindmyllu mynda a.m.k. 450 t CO2, sem fara út í andrúmsloftið.  

Vindmylla þarf um 200 sinnum meira af hráefnum per uppsett MW en nútímalegt samtvinnað raforku- og fjarvarmaver með orkunýtni yfir 50 %. Nýting uppsetts afls vindmyllu er lélegt eða um 28 % að jafnaði á landi í heiminum (betri úti fyrir ströndum).  Kolefnisspor vindmyllna á MW, svo að ekki sé minnzt á GWh/ár vegna lélegrar nýtingar, er tiltölulega hátt og þetta val á orkugjafa til að draga úr koltvíildislosun er þess vegna sérlega óheppilegt. Miklu nær er að reisa kjarnorkuver í stað kolaorkuvera eða jafnvel gasorkuver sem millibilslausn, en þrýstihópar kolanámanna hafa haft sitt fram, nema á Bretlandi, þar sem síðasta kolaorkuverinu verður lokað 2025. Í Þýzkalandi var hins vegar nýlega gangsett eitt stærsta kolaorkuver þar í landi, 1 GW að rafafli. Öruggari kjarnorkuver eru í þróun, t.d. s.k. saltlausnarkjarnakljúfur.

Út frá orðum Guðna hér að ofan er það bruðl með hráefni jarðar að nýta þau á svona óskilvirkan hátt fyrir raforkuvinnslu með vindmyllum.  Frá umhverfislegu sjónarmiði er miklu nær að reisa í staðinn gasorkuver, þangað til tæknin býður upp á notkun öruggrar kjarnorku, t.d. með kjarnakljúfum fyrir frumefnið þóríum.  Á Íslandi er umhverfisvænst og hagkvæmast að reisa vatnsorkuver, og jarðgufuver koma þar á eftir, vissulega með miklu lægra kolefnisspori en vindorkuver á hvert MW eða MWh/ár.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar kemur að endurmati á virkjanakostum í biðflokki Rammaáætlunar.  Auðvitað á að afgreiða Rammaáætlun á Alþingi á undan frumvarpi um allsendis ótímabæran og reyndar óþarfan hálendisþjóðgarð, sem er ekki til annars en að þenja út ofvaxið ríkisbákn, sem ræður reyndar ekki við verkefni sín þrátt fyrir skattheimtu í hæstu hæðum í alþjóðlegum samanburði. Formaður umhverfis- og auðlindanefndar Alþingis hefur rétt fyrir sér um þessa verktilhögun.   

Í Morgunblaðinu birtist 10. janúar 2020 lítil frétt undir eftirfarandi fyrirsögn:

"Vilja beizla vind á Laxárdalsheiði":

Hún hófst þannig:

"Áform eru um að reisa vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð, og gætu 27 vindmyllur risið á svæðinu í tveimur áföngum með hámarksafköst upp á 115 MW.  Fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarðsins.

Samkvæmt matstillögu er verkefninu við Sólheima skipt í tvo áfanga.  Í þeim fyrri yrðu 20 vindmyllur með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga 7 vindmyllur til viðbótar með hámarksafköst upp á 30 MW.  Áfangi 2 yrði í biðstöðu, þar til afkastagetan næst í raforkukerfinu [svo ?]. 

 Hér er um að ræða fremur stórar vindmyllur m.v. stærðir, sem oft hefur verið minnzt á í umræðunni hérlendis, eða 4,25 MW, og er það út af fyrir sig ánægjuefni vegna minni landþarfar á MW, en slíkur "vindmylluskógur" mun sjást úr 40-50 km fjarlægð, því að líklega munu spaðar ná 180 m yfir undirstöðu súlunnar og hver vindmylla þurfa um 0,25 km2.  Sé þetta nærri lagi, þá er landnýting Fljótsdalsvirkjunar (aðallega Hálslón) 35 % betri en Sólheimavindorkugarðsins í GWh/ár/km2, og landnýting virkjananna neðan Þórisvatns reyndar margfalt betri; landnýting jarðgufuvirkjananna er líka betri en vindorkugarðsins.  Spurningin er, hvað rekur menn á Íslandi til að setja tiltölulega mikið land undir vindmyllur í km2/MWh/ár ?

  1. Ekki er það umhverfisvernd, því að kolefnisspor við framleiðslu og uppsetningu vindmyllna er stórt m.v. orkuvinnslugetu þeirra í GWh/ár í samanburði við virkjanir á Íslandi úr þeim tveimur "endurnýjanlegu" orkulindum, sem nýttar eru nú þegar á Íslandi að einhverju ráði.  Hráefnanotkun er tiltölulega mikil og skilar litlu til umhverfisins á endingartímanum. Þá hefur verið bent á hættuna, sem fuglum stafar af spöðunum.  Örninn flýgur e.t.v. hærra en spaðarnir ná, en samt berast fréttir frá Noregi af mjög mörgum dauðum örnum í grennd við vindmyllur, þar sem er arnarvarp í grennd.  Þá kemur lágtíðnihljóð frá vindmyllum, sem er bæði óþægilegt og er talið heilsuskaðlegt fyrir íbúa til lengdar innan 2 km frá vindmyllum.  Því er haldið fram, að í segla vindmyllurafala fari sjaldgæft efni, sem grafið sé upp í Innri-Mongólíu og með því fylgi geislavirk og eitruð efni.  Gera þarf grein fyrir þessu í umhverfismati, ef það á að vera vandað.  
  2. Er afl- eða orkuskortur skýring á vindmylluáhuga hérlendis ? Hvort tveggja gæti verið í vændum á Íslandi á næstu árum, af því að markaðinum hefur verið afhent forsjá orkumálanna með innleiðingu löggjafar Evrópusambandsins (ESB) á þessu sviði, en hún virkar illa hér, af því að hún er ekki hönnuð fyrir raforkumarkað af því tagi, sem hér er.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu, þeim mun betra fyrir alla aðila, vegna þess að orkuöryggi hefur nú verið viðurkennt að falla undir þjóðaröryggi, og fyrir því eru ríkisstjórn og Alþingi ábyrg.  Ekki er hægt að reiða sig á vindmyllur í aflskorti, þar sem þær gefa aðeins frá sér fullt afl talsvert minna en 3 sólarhringa vikunnar, og stöðva verður þær í hvassviðri og ísingarveðri.  Hins vegar er vissulega unnt að spara dálítið vatn í miðlunarlónum með því að kaupa af þeim raforku inn á stofnkerfið. Sólheimavindorkuverið ætti t.d. að geta framleitt 380 GWh/ár, ef/þegar það nær fullum afköstum.  Þetta er um 2,5 % af orkuvinnslugetu núverandi vatnsorkuvera landsins, og má um það segja, að allt er hey í harðindum, en dýrt er það.
  3. Vindmyllur hafa orðið hagkvæmari í rekstri með tímanum.  Annað vindorkuver hefur verið á döfinni í Dalasýslu, og er það á Hróðnýjarstöðum við Búðardal.  Þar reiknaði höfundur vinnslukostnaðinn 53 USD/MWh, en við bætist tengikostnaður við stofnrafkerfi landsins.  Annaðhvort þarf að leggja jarðstreng frá Sólheimum að aðveitustöð Glerárskógum eða Hrútatungu, því að ólíklegt er, að Landsnet samþykki nýjan tengistað á Laxárdalsheiði.  Þetta verð frá orkuveri er ósamkeppnisfært á Íslandi sem stendur, og verður vonandi svo lengi, og þess vegna er vindorkugarður hér ekki góð viðskiptahugmynd.  Grundvöllur mikilla fjárfestinga í vindmyllugörðum í Noregi er orkusala inn á sæstrengi Statnetts. Góð viðskiptahugmynd, en óvinsæl, í einu landi, getur verið slæm í öðru landi, þótt þeim svipi saman. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég las grein núna um daginn í Spectator sem fjallar einmitt um það, að nú séu miklar hindranir komnar lagalega gagnvart þeirri aðferð, sem á uppruna sinn hjá frumbyggjum, að brenna gróður til að hindra að óviðráðanlegir eldar geti brotist út. En þetta er hins vegar ekki alveg nýtt af nálinni, og skýrir því ekki endilega þessa gríðarlegu elda sem eru þarna núna. Hvort skýringin á þeim liggur í veðrabreytingum vegna hlýnunar loftslags veit ég ekki því ég á eftir að kynna mér rökin fyrir þeim tengslum.

Samsæriskenningum, á borð við getgátur um að græningjar séu að kveikja í, eða einhverjar amerískar leynistofnanir, eða jafnvel geimverur, finnst mér ávallt rétt að taka með fyrirvara. En ég bendi þeim sem eru spenntir fyrir þeim á bloggið hans Jónasar fyrir austan og athugasemdir nafna míns Scheving þegar hann er í stuði. Þar fær maður þær svo sannarlega ekki með neinum refjum!

Þorsteinn Siglaugsson, 20.1.2020 kl. 19:50

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er "Smoky bear" effektinn í praxís.  Umhverfissinnar hindruðu litla skógarelda, (og fleiri ráðstafanir) nú uppskera þeir stóran skógareld.

Og nú kenna þeir öllu um nema sinni eigin heimsku.

Og vindmillur... þær munu setja Þýzkaland á hausinn.  Það er varla samkeppnishæft núna, og þeir vilaj meira af dýru vindmillu-rafmagni.

Ásgrímur Hartmannsson, 20.1.2020 kl. 21:02

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þorsteinn;

Ég sá graf um úrkomu í Ástralíu, og þar kom fram, að hún hefur verið lotubundin, síðan mælingar hófust.  Þurrkurinn núna slær ekki met, en er við neðri mörkin, þannig að vonandi fer nú að rætast úr fyrir Áströlum. Hvassviðri, mikill eldsmatur og vatnsskortur gerðu eldinn óviðráðanlegan.  Húseigendur, sem settur vatnsúðarakerfi utan á hús sín, björguðu þannig húsum sínum.   

Það er staðreynd, að "pyromanar", brennuvargar (er líklega andlegur sjúkdómur), hafa kveikt skógarelda í Kaliforníu, Brasilíu, Ástralíu og víðar.  Þeir finnast sjálfsagt í röðum græningja einnig, sbr "Tilgangurinn helgar meðalið".  

Bjarni Jónsson, 20.1.2020 kl. 21:48

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ásgrímur: það er ekki hægt að framkvæma "die Energiewende" með vindmyllum, og vindmylluvæðing er ofboðslega dýr fyrir raforkukaupendur (og skattgreiðendur) og óhagstæð fyrir umhverfið.  Þjóðverjar eru í stórvandræðum með orkustefnu sína, og eins og fyrri daginn geta bara "Wunderwaffen" bjargað þeim frá skipbroti.  Ég held, að þeir muni sjá að sér með gasi frá "Nordstream 2", tímabundið, þangað til þeir hafa þróað kjarnorkutækni, sem þeir sætta sig við.  Frakkar halda sig við sína úraníum-kjarnakljúfa, og Bretar hafa á prjónunum að reisa fleiri "Hinkley-Point C", þar sem kostnaðurinn verður miklu lægri en samsvarar 150 USD/MWh frá frumsmíðinni.  

Bjarni Jónsson, 20.1.2020 kl. 22:01

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir að kynna blogið mitt, Þorsteinn Siglaugsson.

 Þú segir : Samsæriskenningum, á borð við getgátur um að græningjar séu að kveikja í, eða einhverjar amerískar leynistofnanir, eða jafnvel geimverur,

Segðu mér hvar ég get lesið um þessi málefni sem þú nefnir.  Er þetta virkilega satt?

Er það satt, að þeir sem tala um samsæriskenningar sem grín séu að reyna að fela það sem ekki þolir dagsljósið?

Margir eru á fullri ferð við að afvegleiða fólkið.

Það virðist vera barátta á milli hluta af hernum og Trump, og svo gamla stjórnkerfinu, er það Deep State?

Marg þakka þér.

Egilsstaðir, 22.01.2020  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 23.1.2020 kl. 00:01

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það virðist vera barátta á milli hluta af hernum með Trump, og svo gamla stjórnkerfisins, er það Deep State?

Jónas Gunnlaugsson, 23.1.2020 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband