Hálendisþjóðgarður þenur út ríkisbáknið

Það hefur ekki verið sýnt fram á neina raunverulega þörf á að stofna Miðhálendisþjóðgarð á Íslandi. Það þýðir að um gæluverkefni einstaks ráðherra eða smáflokks er að ræða, sem að öllu eðlilegu næði ekki langt í þingsal, þar sem brýn fjárþörf fjölmargra þjóðþrifamála ætti að krefjast allrar athygli þingmanna.  Vonandi sópa þeir þessum óþarfa undir teppið. 

Málefnum þjóðlendna á miðhálendinu er einfaldlega vel fyrir komið núna í samvinnu heimamanna, sveitarstjórna og forsætisráðuneytisins.  Það eru ekki haldbær rök, að með slíkri stofnun yrði til stærsti þjóðgarður í Evrópu, sem tæki yfir stjórnsýslu á allt að 2/5  landsins. Ásókn í hálendisferðir gæti aukizt við slíka auglýsingu , en umhverfisvernd á þessu viðkvæma svæði yrði enginn greiði gerður með slíku.

Spor stjórnsýslu ríkisins á þessu sviði hræða frá Vatnajökulsþjóðgarði.  Þar ku nú vera 40 stöðugildi, og fjármálastjórnunin þar var a.m.k. um tíma í svo miklum ólestri, að tiltökumál þótti í fréttaumfjöllun, og kalla landsmenn þó ekki allt ömmu sína, þegar kemur að meðferð opinbers fjár, því miður.  Fróðlegt væri að sjá árangursmælikvarða þessarar stofnunar borna saman við árangurinn eða ánægjumælingar viðskiptavina hennar. Í stuttu máli er óheillavænlegt að fá "kontóristum" í Reykjavík umsjón með viðkvæmri náttúru. Þar er umsjón heimamanna eðlilegri og heillavænlegri.  Ferill miðstýringaráráttunnar er almennt ókræsilegur frá sjónarmiði skattborgara og neytenda.

Núna hvílir stjórnun á þjóðlendum miðhálendisins á sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, sem spanna þessar þjóðlendur, og uppgræðslustörf hvíla að miklu leyti á bændum í sjálfboðastarfi.  Nauðsynleg samræming þessara starfa er fyrir hendi samkvæmt lagasetningu þar um, og það er mjög mikill kostur, að frumkvæðið komi frá heimamönnum á hverjum stað, enda eiga þeir mestra hagsmuna að gæta, að vel takist til um hið gullna jafnvægi náttúrunýtingar og náttúruverndar.  Ríkisbákn mun kæfa þetta frumkvæði byggðanna og draga úr því, að þekking og reynsla þeirra, sem bezt þekkja til á hverjum stað, fái notið sín.  Ríkisvæðing þessarar starfsemi er þess vegna algerlega óþörf og alvarlegt skref aftur á bak í náttúruvernd og náttúrunýtingu á Íslandi. Einhæfni er aldrei til góðs. 

Ætlun umhverfisráðherra er að koma upp ríkisbákni með háu flækjustigi, sem verður ópersónulegt og ófært um að veita almennilega þjónustu og með óljósa ábyrgðarskiptingu.  Nýtt silkihúfuapparat, Þjóðgarðastofnun, verður yfir öllum þjóðgörðum, þ.á.m. Miðhálendisþjóðgarði, og síðan verður stjórn yfir hverjum þjóðgarðsverði.  Hér gengur "Parkinson" ljósum logum, og ábyrgðin týnist í holtaþoku.  Það er með ólíkindum, ef þetta gæluverkefni umhverfisráðherra fær framgang á Alþingi, sem þarf að kljást við mörg brýnni verkefni, t.d. innviðauppbyggingu, um þessar mundir.  

Forystugrein Morgunblaðsins 20. janúar 2020 bar nafnið 

"Hálendisþjóðgarður" ,

og þar voru viðraðar réttmætar efasemdir um réttmæti þessa þjóðgarðs:

"Áform um hálendisþjóðgarð hljóma vel, en hvað þýða þau í raun, og hverju eiga þau að skila, sem ekki má ná með einfaldari hætti og í meiri sátt ?  Á vef umhverfisráðuneytisins segir, að markmiðin með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu séu "margþætt, svo sem að vernda náttúru og sögu miðhálendisins og skapa umgjörð um svæðið, sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningu og sögu."  Með þessu er líklega aðallega átt við að koma upp gestastofum, sem veita upplýsingar um þjóðgarðinn, ráða landverði og kynna reglur um umgengni um svæðið.  Ekkert hindrar stjórnvöld í að ná þessum markmiðum og ýmsum öðrum, svo sem um rannsóknir á svæðinu, án stofnunar þjóðgarðs."  

Hætt er við, að Þjóðgarðastofnun og Miðhálendisþjóðgarður skari hlutverk ýmissa annarra stofnana, og hefur Minjastofnun þegar kvartað undan því.  Bendir það til, að hér sé ætlunin að koma gaukseggi fyrir í stofnanahreiðri ríkisins á forsendum annarlegra stefnumiða græningja.  Þegar þannig er um hnútana búið, er hugmyndin í rauninni andvana fædd.  

"Enn fremur segir:"Þjóðgarðinum er einmitt ætlað að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi, ekki sízt heima í héraði."  Þetta er umdeilanlegra, og þegar hafa komið fram efasemdir um, að svo víðtækur þjóðgarður sé til þess fallinn að ná þessu markmiði.  Þá hafa heimamenn áhyggjur af því, að áhrif þeirra um, hvernig gengið skuli um svæðið, og hvernig það skuli nýtt, færist frá þeim og til annarra.  Og þeir hafa fulla ástæðu til að óttast, þegar þeir sjá, að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarðsins er að tryggja aðkomu félagasamtaka að stefnumótun svæðisins og ákvarðanatöku um landnýtingu." 

Valddreifing og metnaður heimamanna fyrir hönd síns sveitarfélags varðandi þróun þjóðlendna innan marka þess er lykilatriði fyrir lýðræðislega málsmeðferð og stjórnun verndar og nýtingar þessara verðmætu landssvæða.  Það hefur ekkert verið upp á heimamenn að klaga í þessum efnum, svo að vitað sé, og heilbrigð samkeppni á milli sveitarfélaganna er miklu vænlegri til árangurs en dauð hönd miðstýringar skrifstofufólks  í Reykjavík með yfirborðslega þekkingu á hagsmunum þjóðarinnar á hálendinu.  Gullfoss er víti til varnaðar.  Bláskógabyggð vildi reisa þar gestamóttökuaðstöðu til heiðurs Sigríði í Brattholti, en þegar ríkið komst með klærnar í málið, var húsinu breytt í salerni, og nú mun ríkið vera að gefast upp á rekstri þessara salerna.  

Miðstýring á þessum vettvangi hentar illa og er alger óþarfi, enda málum vel fyrir komið, eins og er.  Útgjaldaauki ríkissjóðs verður ærinn, og fjárveitingar munu illa nýtast til þarfra umbóta, en brenna upp í vafstri í kringum kerfið sjálft.  

"Augljóst er, þegar þau sjónarmið, sem umhverfisráðherra hefur sett fram, eru skoðuð, að meginmarkmiðið með þjóðgarði, sem spannar allt hálendi landsins, er að koma í veg fyrir frekari virkjanir á svæðinu.  Öðrum markmiðum mætti ná fram á annan hátt." [Undirstr. BJo.]

Þessi niðurstaða Morgunblaðsins er kjarni þessa máls og meginástæða þess, að því fer víðs fjarri, að víðtækt samkomulag geti náðst um það.  Þetta er heldur ekki stefna ríkisstjórnarinnar.  Þetta kunna að vera blautir draumar umhverfisráðherrans og forsætisráðherrans, en enginn borgaralegur stjórnmálaflokkur getur lagt nafn sitt við svo öfgafulla verndunarstefnu og þar með tekið brauðið frá komandi kynslóðum.  Það er ábyrgðarleysi núna, þegar við sjáum, hversu fallvaltur ferðamannaiðnaðurinn er, að ætla að útiloka aðrar orkuframkvæmdir en þær, sem nú þegar eru í nýtingarflokki á miðhálendinu. Þessi gamla nauðhyggja um, að eitt útiloki annað, er fyrir löngu orðin óviðeigandi, því að tækniframfarir gera nú kleift að velja framkvæmdakosti, sem falla afar vel að umhverfinu. 

Orkuskiptin munu skapa fjölbreytileg orkunýtingartækifæri, sem öll eru gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisskapandi.  Af hinum síðar nefndu má nefna rafgreiningu vatns til útflutnings á vetni.  Sveitarfélög á NA-Englandi hafa í hyggju að leysa jarðgas af botni Norðursjávar til upphitunar húsnæðis af hólmi með vetni, og Íslendingar geta með verkfræðikunnáttu sinni framleitt hundruði þúsunda tonna af vetni á sjálfbæran hátt, ef þeir láta ekki þröngsýna og fordómafulla stjórnmálamenn taka frá sér lífsbjörgina með brögðum.  Með nútíma tækni og verkkunnáttu má fella virkjanamannvirki mjög vel að umhverfinu.  Framtíðin ber væntanlega í skauti sér jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands.  Inn á slíkan streng gæti orka virkjana á hálendinu farið.  Það þarf þess vegna ekki að óttast loftlínur þar.  

"Annað, sem stjórnvöld verða að svara, er, hvernig það að hindra uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu fer saman við markmið í loftslagsmálum, þar sem allt kapp er lagt á að draga úr losun kolefnis (nema e.t.v.,þegar flogið er með flokk manna á ráðstefnur um loftslagsmál). 

Fram hefur komið, að framleiðsla á áli er t.d. að færast til Kína, sem framleiddi um aldamót 10 % áls í heiminum, en framleiðir nú 56 % alls áls.  Þessi framleiðsla er að langstærstum hluta með jarðefnaeldsneyti.  Væri ekki nær fyrir Ísland, í ljósi loftslagsmarkmiða, að auka orkuframleiðslu og draga þannig úr notkun kola og olíu við margvíslega framleiðslu eða rekstur gagnavera ?

Þetta er meðal þess, sem stjórnvöld verða að taka afstöðu til og útskýra fyrir landsmönnum, hvernig markmið í loftslagsmálum fara saman við að hindra frekari uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku."

Hér fitjar Morgunblaðið upp á gríðarlega mikilvægu máli, sem spannar miðlægt mál í stjórnmálaumræðu dagsins.  Það hefur dregið mjög úr trúverðugleika fullyrðinga stjórnvalda í Þýzkalandi, að þau á sama tíma og þau leggja þungar byrðar á skattgreiðendur og neytendur (sama fólkið) til að stemma stigu við losun koltvíildis út í andrúmsloftið, hafa fyrirskipað lokun kjarnorkuvera 2021 og lagt bann við nýjum, þótt kjarnorkan ein sé í færum til að leysa kolaorkuverin af hólmi án áfalla fyrir hagkerfið og afhendingaröryggi raforku. 

Það er heldur ekki hægt að taka íslenzk stjórnvöld alvarlega og hástemmdar yfirlýsingar þeirra um hlýnun sjávar og andrúmslofts af völdum gróðurhúsaáhrifa CO2, á sama tíma og þau leggja stein í götu nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Sú nýtingarfjandsemi er blind afturhaldsstefna, reist á bábiljum um skaðsemi hagvaxtar og annað í þeim dúr, en sama fólk hefur þó ekki opinberlega enn lagzt gegn kjarabótum almennings.  Þær kjarabætur verða aðeins tryggðar með aukinni verðmætasköpun, sem verður í askana látin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Já sporin hræða með þennann hálendisþjóðgarð og ég er sammála, hann er með öllu óþarfur.

Það þarf að virkja meira og skynsamlega, einnig þarf að vera skynsamlegt verð á rafmagni, álverið í straumsvík afþakkar 15% af framleiðslugetu og elkem mun eflaust fara við fyrsta tækifæri.

Hverjum ætlar landsvirkjun að selja allt rafmagnið ?

Emil Þór Emilsson, 10.2.2020 kl. 14:54

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eftir kynnisferð mína um 32 þjóðgarða í níu löndum blasir gagnsemi þeirra við, sumir orðnir allt að 140 ára gamlir og engum dettur í hug að leggja þá niður. 

Ómar Ragnarsson, 10.2.2020 kl. 15:46

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Því miður er sennilega búið að semja um þennan þjóðgarð innan ríkisstjórnarinnar. Þar á bæ er vilji almennings lítt skrifaður.

Vissulega má ná öllum þeim markmiðum sem umhverfisráðherra telur gild rök fyrir stofnun þjóðgarðs. Einnig aukningu á ferðafólki, þó það sé fjarri því að vera í anda umhverfisverndar, þvert á móti. Það skiptir þó engu máli, markmiðin eru einungis nýtt til raka um eitthvað sem ráðherrann ætlar sér að koma á og hann er klárlega búinn að kaupa þá hugmynd sína innan hinna stjórnarflokkanna. Sennilega lítið þurft að greiða til Framsóknar en líklegt að gjaldið til Sjálfstæðisflokks hafi verið eitthvað hærra. Hvað það var á eftir að koma í ljós. Þannig virka ríkisstjórnir sem stofnaðar eru um hrossakaup.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 11.2.2020 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband