Útskýri stefnu á ögurstundu

Kveikjan að þessum vefpistli er stutt frásögn Morgunblaðsins 5. marz 2020 af ályktun Bæjarráðs Akraness undir fyrirsögninni "Útskýri stefnu"  og ljómandi góð og tímabær grein Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar hið sláandi heiti:

"Ögurstund í atvinnulífinu".

Víkjum fyrst að frásögn Morgunblaðsins undir áherzluatriðinu: 

"Skagamenn krefja Landsvirkjun svara":

"Útskýringar þarf frá Landsvirkjun á því, hver er stefna fyrirtækisins gagnvart orkusæknum iðnaði á Íslandi.  Þetta segir í ályktun bæjarráðs Akraness, sem vekur athygli á því, að Landsvirkjun hafi í krafti yfirburðastöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar.  

Slíkt telja Akurnesingar geta leitt til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Með slíku sé einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar, en ekki horft til heildarhagsmuna þjóðar." 

Hér er um eðlilega og löngu tímabæra ályktun bæjaryfirvalda Akranesskaupstaðar að ræða, en Elkem á Íslandi (Járnblendiverksmiðjan) glímir nú við afleiðingar raforkuverðshækkunar í kjölfar úrskurðar gerðardóms, sem fór bil beggja, en Landsvirkjun lýsti samstundis yfir óánægju sinni af því offorsi, sem nú einkennir afstöðu einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar til orkuverðs, með þeim afleiðingum, að hún tapar árlega nýjum viðskiptum og gamlir viðskiptavinir eru bókstarflega keyrðir í þrot. Þegar ferðamannageirinn hefur orðið fyrir rothöggi, eins og nú af völdum CoVid-19, ríður á sem aldrei fyrr að keyra allt annað í landinu á fullum afköstum.  Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun leggst þversum gegn því með kolvitlausri verðlagsstefnu sinni, sem er algerlega úr takti við þróun orkuverðs í heiminum.

Kannski er einmitt verst af öllu, að Landsvirkjun er ekki með á nótunum um þróun orkuverðs almennt til stórfyrirtækja í heiminum, en það hefur farið lækkandi frá 2011.  Ríkisstjórnir í ESB hafa greitt orkuverðið niður um 10,5 USD/MWh (9,5 EUR/MWh), og norska ríkisstjórnin um 6 USD/MWh.  Á sama tíma okrar ríkisorkufyrirtækið á iðnfyrirtækjum hérlendis, sem berjast í bökkum, og ríkisstjórnin hér, kaþólskari en páfinn að vanda, setur kíkinn fyrir blinda augað og þykist hvergi nærri mega koma (út af EES-samninginum og orkupökkum ESB). Hún bíður nú rétt einu sinni eftir skýrslu.  Núverandi ástand krefst skjótra ákvarðana og leiðtogahæfni.  Yfirvöld, ber að heybrókarhætti, þegar að sverfur, eru ekki á vetur setjandi.  

Viðkvæði forstjóra Landsvirkjunar þess efnis, að henni beri að hámarka ávöxtun náttúrulegra orkulinda þjóðarinnar (í anda orkupakkanna), verður ekki lengur tekið gott og gilt, af því að það á við samkeppnisumhverfi, en Landsvirkjun er hins vegar í einokunaraðstöðu, og þar verður þessi stefna stórskaðleg fyrir atvinnulífið.  Keppinautarnir hefðu einfaldlega hirt viðskiptavinina af Landsvirkjun við þessa hegðun hennar í samkeppnisumhverfi, sem þýðir, að þeir hefðu boðið verð, sem bæði þeir og viðskiptavinir þeirra gætu búið við.  Það þarf að vera sambærilegt verðinu, sem í boði er erlendis, að frádregnum öllum viðbótar kostnaðinum samfara staðsetningu viðskiptavinanna á Íslandi.  Þetta er núna, með flutningsgjaldi, talsvert undir 30 USD/MWh, og er samt vel yfir meðalkostnaði vatnsaflsvirkjana á Íslandi.  Í  gufuvirkjunum er hins vegar úr vöndu að ráða vegna niðurdráttar í virkjuðu gufuforðabúri, og þess vegna erfiðara að slá á meðalkostnað þeirra, en liklega er hann um eða undir 30 USD/MWh.

Í lok frásagnar Morgunblaðsins er þessi tilvitnun í téða ályktun bæjarráðsins:

""Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans, og því kallar bæjarráð eftir því, að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslenzku þjóðinni, hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti", segir bæjarráð Akraness.  Kallar ráðið því eftir útskýringum t.d. á því, hvort ráðagerðir fyrirtækisins samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku, styðji við atvinnustefnu og jákvæða byggðaþróun."

  Ekkert bólar á svari stjórnar Landsvirkjunar.  Er það með öllu ólíðandi framkoma hjá ríkisfyrirtækinu, ef í ljós kemur, að stjórn Landsvirkjunar ætlar að hundsa ósk Akranesskaupstaðar um útskýringar á því, sem gerzt hefur. Þetta er ekki heilbrigt ástand hjá Landsvirkjun. Eðlilegt væri, að stjórnin mundi skrifa bæjarráðinu svarbréf og bjóðast til að senda formanninn til fundar með bæjarráðinu.  Bréf og fundargerð ættu að vera opinber plögg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er rétt hjá bæjarráðinu, að stjórn Landsvirkjunar skuldar þjóðinni skýringar á stefnumörkun sinni.

Sú staða, sem virðist vera að koma upp í samskiptum Landsvirkjunar við landsmenn, er svo alvarleg, að ráðherra iðnaðar verður að kippa strax í taumana, þannig að Landsvirkjun magni ekki upp vanda aukins atvinnuleysis og minnkandi gjaldeyrisöflunar þjóðfélagsins, heldur stuðli að því að koma þeim hjólum atvinnulífsins, sem ekki eru stopp vegna CoVid-19, á fullan snúning.

Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, kom víða við í sinni ágætu grein, sem minnzt var á í upphafi.  Það, sem hann skrifaði um raforkumálin og ráðstöfun orkunnar, kom fram í undirgreininni: 

"Virðisauki raforkunnar":

"Miklu púðri hefur verið eytt í skýjaborgir um sæstreng til Bretlands, verkefni, sem á sér engar efnahagslegar forsendur, nema brezka ríkisstjórnin leggi til stórfelldar niðurgreiðslur í marga áratugi.  Við verðum að átta okkur á því, að draumurinn um sæstreng er áratuga gamall og mun eflaust lifa lengi í huga draumóramanna."

Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum, og sæstrengsverkefnið missir auðvitað æ meir fótanna með sífelldri raunlækkun orkuverðs síðan 2011.  Undir því er enginn viðskiptagrundvöllur með heildsöluverð rafmagns hjá Nord Pool undir jafngildi 100 USD/MWh (og er þá ekki tekið tillit til virðisaukans, sem rafmagnið myndar við nýtingu á Íslandi), og Nord Pool verðið er jafnvel aðeins 1/10 af þessu lágmarki um þessar mundir. 

Draumar voru bundnir við styrk til verkefnisins frá Evrópusambandinu, ESB, en líkur á slíku dofnuðu verulega við útgöngu Breta úr ESB, enda hefur "Ice-Link"-strengurinn verið tekinn út af forgangsverkefnaskrá ESB um innviðaverkefni innan EES. 

Þá er eftir, það sem Ásmundur nefnir, ríkisstuðningur Breta.  Hann er úr þessu næstum útilokaður, því að þeir hafa einskorðað ríkisstuðning við vindorkuver úti fyrir ströndum Bretlands. Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar iðnaðarráðherra gat þess um daginn, að hún vildi alls ekki útiloka þátttöku Íslands í enn einni fýsileikarannsókninni á aflsæstreng til útlanda.  Kannski er hún þá með annan lendingarstað í huga en Stóra-Bretland ?  Skattfé eða ráðstöfunarfé íslenzkra ríkisfyrirtækja er hins vegar betur varið í flest annað nú um stundir en sæstrengsdraumsýnina.  Það er ekkert vit í því fyrir stjórnmálamenn að ljá máls á peningum í svo vonlaust verkefni sem hér um ræðir.  Þeir ættu að láta einkaframtakið alfarið um slíkt. 

"Er staða ISAL kannski draumur þeirra, sem vilja [sjá] sæstreng rætast.  Að þar verði störfum og afkomu þúsunda fórnað fyrir rafstreng, sem tengir landið markaðsverði raforku í Evrópu og við flytjum út virðisauka endurnýjanlegrar raforku, sem þjóðin öll á ? Þeir, sem trúa blint á markaðshugsun og telja, að tenging við raforkumarkað Evrópusambandsins sé hin eina sanna lausn, eru að kalla yfir okkur fækkun starfa og stórkostlega hækkun á raforkuverði fyrir íslenzk heimili og atvinnulíf." 

Það er fagnaðarefni, að mætur þingmaður skuli hér velta fyrir sér opinberlega, hvort samhengi sé á milli núverandi orkuverðsvanda í Straumsvík og greinilegum áhuga á að selja raforku um sæstreng til útlanda.  Svo vill til, að þessi mál tengjast bæði einum manni, núverandi forstjóra Landsvirkjunar, sem gekk hart fram gegn RTA/ISAL 2010-2011 og hefur sýnt manna mestan áhuga á, að Evrópumarkaðirnir opnist fyrir Landsvirkjun.  Í ljósi viðbragða hans í febrúar 2020 við neyðarkalli RTA/ISAL 12.02.2020 berast böndin sterklega að forstjóra þessum.

Við þessar aðstæður verður þó að gefa gaum líka að ríkisstjórnarhliðinni, því að Landsvirkjun er alfarið í ríkiseign.  Á stóli iðnaðarráðherra situr nú manneskja, sem virðist "trúa blint á markaðshugsun".  Það kom berlega í ljós í umræðunni um Orkupakka 3 (OP#3), að hún taldi honum það mest til ávinnings, að hann mundi auka samkeppni á raforkumarkaði.  Hún hélt því þá fram, að orkukostnaður almennings hefði lækkað vegna aukinnar samkeppni frá innleiðingu OP#1 árið 2003, en það var hrakið í grein hagfræðiprófessors í skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019.  Hún hefur jafnframt sem iðnaðarráðherra verið jákvæð í garð frekari rannsókna á fjárhagslegum og tæknilegum fýsileika slíks sæstrengs. 

Með sæstreng tengjumst við uppboðsmarkaði Nord Pool í Norð-Vestur Evrópu.  Öll fyrirtæki og heimili munu þá lenda í bullandi samkeppni við fyrirtæki og heimili í NV-Evrópu.  Óneitanlega er þetta raunveruleg samkeppni, því að við munum geta flutt inn raforku, einkum að næturlagi, þegar Landsvirkjun skrúfar verð sitt upp úr öllu valdi.  Er þetta virkilega draumsýn iðnaðarráðherra ?  Almenningur á Íslandi veit lengra en nef hans nær og hefur alltaf gert.  Hann sér í hendi sér, að atvinnulífið á Íslandi verður ein rjúkandi rúst, ef þetta gerist, og að sjálfsögðu mun fólkið fylgja á eftir orkunni, sem þannig er seld úr landi. 

Alþingi endurspeglar ekki nákvæmlega þetta viðhorf, en það er samt að líkindum núna meirihluti gegn sæstrengstrengingu, og ekki væri nú að ófyrirsynju að staðfesta það, iðnaðarráðherra og öðrum til glöggvunar, með því að henda í eina þingsályktunartillögu þess efnis. Hún væri þá innlegg í orkustefnu, sem er í smíðum á vegum iðnaðarráðuneytisins. 

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku.  Ég mun berjast til síðasta manns fyrir því, að virðisauki raforkunnar verði til í landinu, svo [að] samfélagið njóti fjölbreyttra, vel launaðra starfa, sem raforkan mun skapa framtíðarkynslóðum þessa lands."

 "Svona eiga sýslumenn að vera."  Hér talar fulltrúi sannra sjálfstæðismanna, íhaldsmanna, sem vilja halda í upprunalega stefnu flokksins í þessum efnum, allt frá fyrsta formanni flokksins, Jóni Þorlákssyni, landsverkfræðingi, til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins.  Sú stefna, sem dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein náðu að hrinda í framkvæmd í samstarfi við Alþýðuflokkinn á Viðreisnarárunum, hefur gefizt svo vel, að fullyrða má, að átvinnulíf, raforkukerfi og lífskjör í landinu væru ekki svipur hjá sjón, ef þessi barátta frumkvöðlanna hefði ekki borið árangur.  Atvinnuuppbygging verður að njóta forgangs umfram auðhyggju.  Þá mun landinu vel vegna til lengdar, þótt mótvindar séu óhjákvæmilegir á öllum löngum siglingum.     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband