Á heljarþröm í hörðum bardaga

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir 10. marz 2020, daginn sem framtalsfresti lauk, að forsendur fjárlaga ríkisins væru fallnar.  Ástæðuna kvað hann efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við SARS-CoV-2 veiruna. Merkilegar raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) leiða í ljós, að á meðan sóttvarnaryfirvöld töldu meginhættuna stafa af skíðasvæðum Norður-Ítalíu og Austurríkis, þá smyglaði veiran sér inn í landið annars staðar frá, t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá voru yfirvöld þessara landa ekki meðvituð um vágestinn hjá sér, sem stafar sennilega af því, að sjúklingarnir hafi sjálfir talið sig vera með "venjulega" inflúensu, enda einkennin í mörgum tilvikum svipuð. Þetta er umhugsunarvert fyrir næsta faraldur.  Á þá að setja alla farþega í sóttkví við komuna strax og vitnast um faraldur til að koma í veg fyrir það, sem nú gerðist, að hlutfallslegur fjöldi sýktra af skeinuhættum faraldri yrði í upphafi langhæstur á Íslandi ?   Ítalir sýndu þessum kínverska vágesti í upphafi linkind og kæruleysi, en seint og um síðir (09.03.2020) hafa yfirvöldin séð sitt óvænna og sett alla þjóðina í sóttkví.  Það mundi Þórólfur seint ráðleggja íslenzkum stjórnvöldum, enda var þessi ráðstöfun einstæð í sögunni, þegar til hennar var gripið.  Það, sem verra er, það sér ekki fyrir endann á sóttkví Ítala.  Til að takmarka heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar veirufaraldra er lykilatriði að grípa þegar í stað til strangra gagnráðstafana.  

Stjórnvöld hérlendis guma af styrkri stöðu íslenzka efnahagskerfisins og nefna til sögunnar stóran (mrdISK 900) gjaldeyrisvarasjóð og lágar skuldir ríkis og einkageira. Því miður eru undirstöðurnar ótraustar, svo að nú blasir við mikið tekjutap ríkisins og kostnaðarauki þess og þar af leiðandi skuldasöfnun. Ferðabann Bandaríkjastjórnar gagnvart Schengen svæðinu kippti grundvellinum undan fjölda fyrirtækja hér í ferðamennskunni.  Sá geiri er svo fallvaltur og ósjálfbær, að óráðlegt er, að hlutfallslegt umfang hans verði jafnmikið í þjóðarbúskapinum og verið hefur.  Það eru fleiri vaxtarbroddar til, sem verðugt er að gefa meiri gaum. 

Við svo búið í ríkisrekstrinum má ekki standa, svo að við blasir, að endurskoðun fjármálaáætlunar verður ekki áhlaupaverk og líklega sársaukafull.  Undirstöðurnar eru auðvitað atvinnulífið, en við blasir tímabundið hrun í ferðageiranum, sem er búinn að fjárfesta töluvert undanfarið, svo að fækkun fyrirtækja verður ekki umflúin. Vegna efnahagsáfalls heimsins mun ferðageirinn ekki ná sér hratt á strik.

Launakostnaður hins opinbera og atvinnulífsins hefur hækkað langt umfram framleiðniaukningu, sem þýðir, að verkalýðsfélögin hafa með kröfugerð sinni valdið því, að fjöldi atvinnulausra hefur og mun vaxa hratt.  Þau voru búin að verðleggja félagsmenn sína út af markaðinum áður en reiðarslagið reið yfir, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í krafti einokunarstöðu sinnar á stórsölumarkaði raforku verðlagt fyrirtækið út af raforkumarkaðinum, en vegna einokunarstöðu þess tekur það tíma fyrir afleiðingarnar að birtast. Þetta er ógæfulegt og sýnir, að skipulag vinnumarkaðar, kjarasamningagerð og orkustefnan (orkulöggjöfin) eru í ógöngum og þjóna í raun engum, en hjakka í gamla stéttabaráttu- og okurfarinu.  

Veiran hefur jafnvel eyðilagt sjávarvörumarkaðina um hríð, svo að allar bjargir gætu virzt bannaðar sem stendur.  Sjávarútvegurinn hefur einnig orðið fyrir barðinu á breytingum í lífríkinu, sem engan veginn sér fyrir endann á.  Fisksendingar frá Kína til Evrópu hafa stöðvazt, sem skapar fiskskort í Evrópu, en fiskmarkaðir þar og í BNA hafa lamazt.  Óvíst er, hversu ginnkeyptir Evrópumenn munu verða fyrir matvælakaupum frá Kína, þegar fram í sækir, en þeir hljóta að ranka við sér fyrr en síðar og treysta þá á matvælagæði úr norðurhöfum.  Nú stendur fastan sem hæst á meðal kaþólskra, og þá er venjulega hámark fiskneyzlunnar þar á bæ.  Hvað eru Evrópumenn eiginlega að éta nú um stundir ? Framtíð skilvirks, sjálfbærs og tæknivædds sjávarútvegs, fiskiðnaðar og fiskeldis á Íslandi, er þó björt að nokkrum vikum liðnum í samanburði við aðra atvinnuvegi landsins. 

Ekki er sömu söguna að segja af iðnaðinum almennt og allra sízt hinum orkusækna þungaiðnaði.  Þar hafa lagzt á eitt offramboð á mörkuðum og hár tilkostnaður innanlands.  Sérstaklega munar um verðkröfur Landsvirkjunar, sem hafa síðastliðinn áratug verið úr öllum takti við raunveruleikann.  Á meðan alþjóðlegt orkuverð hefur lækkað, hefur raforkuverð til atvinnurekstrar hækkað á Íslandi.  Það er engin skynsamleg skýring til á þessu, en öfugþróunina má rekja til fordildar stjórnenda Landsvirkjunar, skorts á viðeigandi orkustefnu í landinu og orkulaga, sem ekki henta hagsmunum Íslands.  

Í þessu sambandi gefur skelegg afstaða Alþingismannsins Ásmundar Friðrikssonar þó góða von um önnur viðhorf á Alþingi en í stjórn Landsvirkjunar, en Ásmundur skrifaði þetta m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar heitið: 

"Ögurstund í atvinnulífinu":

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku".

Þetta er hverju orði sannara hjá Ásmundi, og þess vegna ætti ríkisstjórnin að láta það verða sem lið í aðgerðum sínum gegn taprekstri fyrirtækja í fordæmalausri stöðu, þar sem heilu löndin hafa verið sett í sóttkví og farþegaflug liggur nánast hvarvetna niðri, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að lækka raforkuverð sitt á heildsölumarkaði umtalsvert og endursemja við þá aðila, sem búið hafa við mestar hækkanir raforkuverðs frá 2011. 

Þann 27. febrúar 2020 birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra, Samáls, með heitinu:

"Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum".

Hún hófst þannig:

"Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því, að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða, hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram, eða hvort hún verði lögð niður.  Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenzkt efnahagslíf. 

Vitaskuld er ekkert "óviðeigandi" við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess, að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði.  Skárra væri það nú." 

Það var búið að reifa vandamál stóriðjunnar á Íslandi svo rækilega í fjölmiðlum áður en SARS-CoV-2 var flutt til landsins, að aðvörunarbjöllur hljóta þá að hafa klyngt í eyrum ríkisstjórnarinnar og þar að auki rauð ljós að blikka á skrifstofu iðnaðarráðherra. Hún fer reyndar líka með málefni ferðageirans, sem yfirgnæfa öll önnur vandamál atvinnulífsins um þessar mundir vegna stöðvunar, sem enginn sá fyrir.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig hún og ríkisstjórnin bregðast við sérstökum vanda, sem stafar af ósjálfbærri verðlagningu Landsvirkjunar, en ef sú verður raunin í sumar, að RTA/ISAL tilkynni lokun verksmiðjunnar í Straumsvík, þá mun sú tilkynning koma á versta tíma fyrir hagkerfi landsins og bæta gráu ofan á svart. Ber ekki iðnaðarráðherra pólitíska ábyrgð á því, ef ekkert raunhæft hefur verið gert til að hindra það ? Að sama skapi, ef í ljós kemur, að hún hefur náð að beita áhrifum sínum í þá átt, að samningar takist á milli RTA/ISAL og Landsvirkjunar, sem tryggi rekstur fyrirtækisins áfram út samningstímabilið til 2036, þá fær hún pólitíska rós í hnappagatið fyrir sinn þátt.

RTA hefur mikið reynt til að selja ISAL, en án árangurs.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt á markaðnum með núverandi raforkusamning. Hann er líkið í lestinni.  RTA vill draga sig út úr álgeiranum, og þá er ekki annarra kosta völ en að loka verksmiðjunni.  Það yrði mikið áfall fyrir starfsmenn verksmiðjunnar og nærsamfélagið, aðallega Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn bæjarfélagsins lýst yfir miklum áhyggjum vegna málsins og beita sér vonandi gagnvart þingmönnum SV-kjördæmis, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir hag kjördæmisins að ræða, að ISAL fái að þróast og dafna eðlilega á sinni lóð á næstu árum. 

Pétur Blöndal skrifaði meira í téðri grein sinni:

"Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík, eftir að dregizt hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins, að kaupverðið var einungis mrdISK 35 [MUSD 350 - innsk. BJo].  Til að setja það í samhengi má nefna, að Rio Tinto hafði nýlokið við mrdISK 60 fjárfestingarverkefni í Straumsvík, hið stærsta á Íslandi frá hruni.  Sú fjárfesting skilaði 15 kt/ár framleiðsluaukningu, og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini." 

 Norsk Hydro hefur að líkindum misst áhugann á þessum kaupum í líkingu við aðra, sem orðaðir hafa verið við kaup á starfseminni í Straumsvík.  Það er ekki vegna uppsetts verðs og ekki vegna þess, að framleiðslan sé ófýsileg.  Hluti af ofangreindum fjárfestingum voru nýjar mengunarvarnir til að mæta kröfum um losun á enn minna af flúoríðum í gasi og ryki á hvert framleitt áltonn.  Mjög góð tæknileg tök eru á rafgreiningunni, svo að losun koltvíildis er niðri við fræðilegt lágmark. 

Áratuga hefð er fyrir framleiðslu á sérhæfðum vörum í steypuskála ISAL.  Það, sem gert var 2011-2013, var að umbylta framleiðslulínum hans, sem áður framleiddu völsunarbarra eftir pöntun viðskiptavina, yfir í að framleiða sívalninga af ýmsum gildleikum, lengdum og melmum.  Þetta var gert til að skapa sér aukna sérstöðu á markaðinum og enn hærra afurðaverð.  

RTA samþykkti árið 2008 fjárveitingu til gríðarlegrar styrkingar raforkukerfisins í Straumsvík, og 2009 var ákveðið að auka afkastagetu þess til að geta séð kerskálunum fyrir enn hærri straumi til framleiðsluaukningar. Það var þannig mikill hugur í eigandanum á þessum tíma, og hann var staðráðinn í að gera verksmiðjuna eins samkeppnishæfa og unnt væri, en því miður heyktist hann á að stíga skrefið til fulls með því að styrkja leiðarakerfi rafgreiningarkeranna, eins og áformað hafði verið til að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 230 ktAl/ár.  Er áreiðanlegt, að framkoma Landsvirkjunarmanna með forstjórann, Hörð Arnarson í broddi fylkingar, í viðræðunum um nýjan raforkusamning, átti þátt í að drepa niður áhuga RTA á þeim auknu raforkukaupum, sem áform voru um.  Er líklegt, að allt verði þetta rifjað upp, ef til málaferla kemur á milli RTA og Landsvirkjunar út af stöðvun starfseminnar og þar með stöðvun orkukaupanna.

Álverin eru stórir kaupendur alls konar annarrar þjónustu innanlands. Þar koma við sögu alls kyns verktakar og birgjar.  Pétur skrifaði um þetta:

"Á hverju ári kaupa íslenzk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi, og nam sá kostnaður mrdISK 23 árið 2018; er þá raforka undanskilin.  Það er því rangt, sem stundum er haldið fram, að sala á orku til íslenzkra álvera jafngildi útflutningi á orku - í raun er minnihluti þess mrdISK 86 kostnaðar álvera, sem til féll hér á landi árið 2018, kominn til vegna raforkukaupa."

Þessi heildarkostnaður innanlands jafngildir um 62 USD/MWh.  Þetta er lágmarksviðmiðun um nettó verðið, sem fást þyrfti fyrir orku um sæstreng til útlanda.  Með nettó verði er átt við markaðsverðið að frádregnum flutningskostnaði og kostnaði vegna orkutapa.  Markaðsverðið á Nord Pool var þann 12.03.2020 8,7 EUR/MWh, sem jafngildir 9,7 USD/MWh.  Það er ekkert, sem bendir til þess, að á næsta áratugi geti orðið hagkvæmt að flytja út orku um sæstreng, þótt Landsvirkjun hóti því jafnan í viðræðum um raforkuviðskipti hérlendis eða láti skína í þann möguleika sem valkost fyrir sig.    

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband