Hagsmunaárekstrar innan Evrópusambandsins

Það fer ekki framhjá þeim, sem utan við standa, að Evrópusambandið (ESB) fjarlægist sífellt meir að geta kallast kærleiksheimili. Þegar fátt virðist lengur réttlæta tilvist þessa skrifræðisbákns flestra Evrópuríkja, er samt iðulega gripið til þess ráðs að þakka Sambandinu það, að herir gömlu stórveldanna í Evrópu skuli enn ekki hafa farið í hár saman eftir 1945.  Þessi söguskýring er þó ekki upp á marga fiska. 

Það hefur vakið athygli, að COVID-19 virðist hafa veitt efnahag t.d. rómönsku ríkjanna slíkt högg, að nálgist rothögg, svo að greiðsluþrot blasi við.  Það eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu víða, og í Þýzkalandi eru miklar efasemdir um lagalegan grundvöll Seðlabanka evrunnar, ECB, fyrir stórfelldum kaupum hans á ríkisskuldabréfum. Allt annað mál er, þegar ríkisstjórnir með samþykki þjóðþinga ákveða að efna til samskota úr digrum (mrdEUR 750) sjóði á vegum ESB.

Ágreiningurinn um gjörðir stofnana Evrópusambandsins er ekki einvörðungu á pólitíska og peningalega sviðinu, heldur einnig á lagalega sviðinu.  Sá einstæði atburður gerðist 5. maí 2020, að Stjórnlagadómstóll Þýzkalands bað stjórnendur Seðlabanka evrunnar með Frakkann Christine Lagarde í broddi fylkingar, að útskýra innan 3 mánaða, hvernig "kórónuskuldabréfakaup" bankans samræmist Evrópurétti um meðalhóf.  Stjórnlagadómstóllinn setti jafnframt ofan í við dómstól ESB fyrir ósjálfstæði gagnvart öðrum stofnunum ESB og að virka sem "stimpilstofnun" fyrir þær, eins og Seðlabanka evrunnar.  

Strax 6. maí 2020 gerði Markaður Fréttablaðsins grein fyrir þessum sögulega atburði undir fyrirsögninni:

"Krefja Seðlabanka Evrópu um svör":

"Dómstóllinn skipaði þýzkum stjórnvöldum og þinginu að tryggja, að seðlabankinn framkvæmdi "hlutfallsmat" á víðtækum skuldabréfakaupum sínum til að tryggja, að áhrif aðgerðarinnar á hagkerfið og ríkisfjármál væru í samræmi við markmið peningastefnu bankans."

Verkefni ríkisstjórnar og Sambandsþingsins í Berlín úr hendi dómaranna er að ganga úr skugga um það með lögformlegum hætti, að ECB hafi haldið sig innan þeirra heimilda, sem honum eru formlega veittar í sáttmálum og lagabálkum ESB. 

"Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir mrdEUR 2200 frá árinu 2014 til þess að viðhalda verðbólgu, en stefna bankans hefur verið umdeild í Þýzkalandi.  Gagnrýnendur segja, að bankinn fari þannig út fyrir heimildir sínar með því að fjármagna ríkisstjórnir með ólöglegum hætti."  

Hér er fast að orði kveðið, en ekki um of.  Segja má, að nú hafi Þjóðverjar dregið fram Stóru-Bertu (risafallbyssa af Vesturvígstöðvunum í Fyrri heimsstyrjöldinni), þegar Stjórnlagadómstóll þeirra lætur í senn skothríðina dynja á Evruseðlabankanum og Dómstóli ESB út af glæfralegri meðferð fjár, sem þeir telja vera bæði ólöglega og skaðlega fyrir peningakerfið.  Líklega má líkja aðgerðum Lagarde við  heftiplástursaðgerð á blæðandi sár án sóttvarnaraðgerða, svo að illvíg bólga mun hlaupa í sárið, sem valdið getur blóðeitrun líkamans.

"Stefnendurnir [fyrir Stjórnlagadómstólnum] - hópur 1750 manns - höfðuðu málið árið 2015, en það fór fyrir Dómstól ESB, sem dæmdi seðlabankanum [evrunnar] í hag árið 2018.  Málið fór aftur til stjórnlagadómstóls Þýzkalands, sem hafnaði rökum fyrrnefnds dómstóls og sagði þau ekki halda vatni. 

Með því að hafna rökum Dómstóls ESB hefur dómstóllinn í Karlsruhe velt upp veigamiklum spurningum um beitingu Evrópulöggjafar. 

"Þetta er fyrsta tilvikið, þar sem þýzkur dómstóll segir, að dómur Dómstóls ESB hafi ekki lögsögu", segir Panos Koutrakos, prófessor í Evrópurétti við háskólann í City í London, í samtali við Financial Times. 

Hæstirétturinn gaf margar ástæður fyrir því, af hverju Seðlabanki Evrópu hefði farið út fyrir heimildir sínar, en sagði jafnframt, að ekki væri unnt að ákvarða, hvort Seðlabankinn hefði brotið gegn Evrópulöggjöfinni án frekari upplýsinga um, hvernig bankinn samrýmdi áhrif skuldabréfakaupanna og markmið peningastefnunnar. 

Clemens Füst, forstöðumaður hagfræðistofnunarinnar Ifo í München, segir, að höfnun hæstaréttar Þýzkalands á rökum Dómstóls Evrópusambandsins "lesist eins og stríðsyfirlýsing"." 

Það hefur komið í ljós í kjölfar dóms Stjórnlagadómstólsins, að ályktun Clemens Füst er rétt.  Dómstóll og framkvæmdastjórn ESB hafa gefið út hortugar yfirlýsingar og dómari í Stjórnlagadómstólnum (sá sem samdi dóminn) hefur gert athugasemd við þær.  Það er ljóslega grundvallarágreiningur á ferðinni um hlutverk og lagaheimildir Evrubankans.  Það sést á texta Stjórnlagadómstólsins hér að ofan, að Þjóðverjar telja meginhlutverk Evrubankans vera stjórnun peningamála evrusvæðisins og að stórfelld verðbréfakaup, eins og bankinn hefur stundað síðan 2014, rúmist ekki innan Evrópuréttarins og reglna bankans.  Þarna skilur algerlega á milli viðhorfa norðan og sunnan Alpafjalla.  Þessi gjá er nú orðin af því tagi, að hún verður ekki brúuð úr þessu.  Þýzkaland getur greinilega ekki sætt sig lengur við þessa lögleysu, sem Miðjarðarhafsríkin leggja höfuðáherzlu á að viðhalda.  COVID-19 fárið mun leiða til þess, að sverfa mun til stáls um stjórnun Evrubankans.  

Að lokum sagði í þessari umsögn Markaðarins:

""Við vissum, að það væru pólitískar hindranir í skiptingu kostnaðar milli sambandsríkjanna, og nú eru einnig lagalegar hindranir", bætir McGuire [hjá Rabobanka] við.

Flestir höfðu búizt við, að dómstóllinn í Karlsruhe myndi samþykkja, þó með miklum semingi, að skuldabréfakaup Seðlabanka Evrópu væru lögleg. Dómstóllinn sagðist þó ekki hafa fundið brot gegn banni við fjármögnun aðildarríkja."

Stjórnlagadómstóll Þýzkalands hefur sett fram veigamiklar spurningar.  Svara verður krafizt.  Öll kurl eru ekki enn komin til grafar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það væri nú harla einkennilegt ef engir hagsmunaárekstrar væru innan Evrópusambandsins, þar sem um 450 milljónir manna búa í 27 sjálfstæðum ríkjum.

Eru engir hagsmunaárekstrar hér á Íslandi?! cool

Og með aðild Íslands og Noregs að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) eru þau ríki de facto einnig í Evrópusambandinu en án atkvæðisréttar í sambandinu.

Þar að auki eru nær öll ríki Evrópusambandsins í NATO, eins og Ísland og Noregur.

"Túlkun Dómstóls Evrópusambandsins á Evrópurétti er bindandi fyrir aðildarríkin."

"Þá kemur fram í 3. og 6. gr. EES-samningsins að EES-ríkin skuldbindi sig til að skýra og beita ákvæðum samningsins í samræmi við úrskurði og dóma Dómstóls ESB og EFTA-dómstóllinn vísar nær alltaf til fordæma Dómstóls ESB í niðurstöðum sínum."

Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). cool

Þorsteinn Briem, 27.5.2020 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband