Orkumál í deiglu

Nú hefur olíu- og gasverð á heimsmarkaði rúmlega helmingazt og raforkuverð u.þ.b. helmingazt.  Á þessu verður vart mikil breyting í bráð, því að allir vita, að lágt orkuverð mun mjög flýta fyrir efnahagsbatanum, nema í olíu- og gasframleiðslulöndunum. 

Það hefur lengi verið stefnumið Evrópusambandsins, að orkuverð sé hátt, þótt kalla megi Evrópu orkusnauða af náttúrunnar hendi. ESB hefur því rekið upp á sker í orkumálum, eins og í fleiri mikilvægum málum, þar sem Sambandið virðist vera komið á endastöð. 

Hvers vegna hefur ESB rekið þessa stefnu, sem hefur reynzt íbúunum dýrkeypt og verið dragbítur á hagvöxt innan ESB ?  Hátt orkuverð átti að tryggja nægar fjárfestingar einkageirans í orkuvinnslu til að hindra aflskort.  Eldsneytismarkaðurinn hefur svo séð um, að næg orka væri fyrir hendi.  

Hátt orkuverð átti líka að beina fjárfestingum í endurnýjanlegar orkulindir, sem eru enn dýrari á hverja MWh en eldsneytisstöðvarnar.  Þessi stefna er ágætlega samþættanleg metnaðarfullri markmiðssetningu ESB varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.  Ljóst er, að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka miklu meira alls staðar í heiminum en ráð var fyrir gert árið 2020 og líklega einnig 2021 án beitingar skattalegra þvingana á borð við síhækkandi gjald fyrir losun koltvíildis, CO2, umfram heimildir, eða háa opinbera gjaldtöku af rafmagni til almennings.  Hagkerfi heimsins hafa öll veikzt umtalsvert, og þá er spurning, hvort stjórnmálamenn telji sig hafa umboð lengur til íþyngjandi ráðstafana vegna losunar út í andrúmsloftið. Mál málanna víðast hvar verður að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og fólki aftur til starfa.  Ný verðmætasköpun mun vonandi spretta fram, og jafnvægi verða komið á rekstur ríkissjóðs að nýju á fyrri hluta næsta kjörtímabils ásamt minnkun skulda hans.  Að öðrum kosti stöndum við of berskjölduð gagnvart næsta efnahagsáfalli, sem mun mjög líklega verða innan áratugar af hvaða tagi, sem það verður.  

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði fróðlega grein um orkumálin að vanda í Morgunblaðið 13. nóvember 2019, sem hann kallaði:

"Rautt viðvörunarljós".

Segja má, að umfjöllunarefnið sé, hversu illa orkustefna ESB, eins og hún birtist í orkulöggjöf Sambandsins, s.k. orkupökkum 1-4, samræmist íslenzkum þjóðarhagsmunum.  Verður nú vitnað í greinina:

"ESB ásælist ekki eignarrétt yfir orkulindunum, heldur stjórnun orkuvinnslunnar eftir sínum þörfum.  ESB vill ekki takmarka rétt okkar til að nýta orkulindirnar, heldur tryggja, að fjárfestar innan EES hafi þar sömu tækifæri og opinberu íslenzku fyrirtækin."

Þetta er að mati pistilhöfundar kjarni orkupakkamálsins og nauðsynlegt að átta sig á honum.  Með Orkupakka 3 (OP#3) öðlaðist ESB ítök í stjórnkerfi landsins á sviði orkumála með sérstökum fulltrúa sínum, Landsreglara, sem á Íslandi gegnir einnig starfi Orkumálastjóra, en er í Noregi sjálfstætt embætti, RME (Reguleringsmyndighet for energi), til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.  RME rekur þá stefnu ESB, en norski Orkumálastjórinn mun starfa í anda norsku kenningarinnar um "handlingsrommet", "aðgerðasvigrúm" Norðmanna gagnvart Evrópuréttinum. 

Landsreglarinn situr í samkundu landsreglara allra EES-landanna, sem starfar innan vébanda ACER (Orkustofnunar ESB).  Þar er framkvæmd orkulöggjafar ESB samræmd og ágreiningsmál um fyrirkomulag og rekstur samtenginga á milli landa rædd. Ný reglugerð, (ESB) 2019/942, sem er endurskoðuð reglugerð um ACER, er hluti af OP#4.  EES/EFTA metur nú, hvort hún á erindi inn í lagasafn EFTA-ríkjanna í EES.  Hún felur í sér aukna valdtilfærslu frá aðildarlöndunum til ACER og gæti þar af leiðandi valdið lagalegum og stjórnmálalegum ágreiningi í Noregi og á Íslandi.  Eigi síðar en í september 2021 verða þingkosningar í báðum löndunum, og fáir munu hafa hug á að bæta OP#4 við deilumál í kosningabaráttunni. 

Stjórnun orkuvinnslunnar eftir þörfum ESB þýðir einfaldlega markaðsvæðingu hennar, þannig að orkan fari til hæstbjóðanda hverju sinni. Þeir, sem borið geta hæst orkuverð, eru að öðru jöfnu þeir, sem eru með starfsemi sína næst mörkuðum sínum. Allt ber að sama brunni.  Kerfið þjónar ekki hagsmunum jaðarríkjanna. 

Raforkuverðið hefur að sjálfsögðu hrunið á uppboðsmörkuðum ESB, t.d. Nord Pool, í "Kófinu", enda hefur eftirspurnin lamazt.  Nú er Landsnet að hanna uppboðsmarkað fyrir Ísland með hjálp aðallega erlends ráðgjafa, og hafa margir áhyggjur af því, hvernig til muni takast, í ljósi samsetningar íslenzka markaðarins. Slæm niðurstaða yrði hækkun raforkuverðs til heimila og atvinnurekstrar á þessum markaði. 

Hitt atriðið, að ESB vilji með orkulöggjöf sinni og Landsreglara tryggja jafnræði allra áhugasamra fjárfesta við innlenda aðila, ekki sízt opinber fyrirtæki, er sýnu alvarlegra.  Norska ríkisstjórnin með stuðningi Stórþingsins hefur einarðlega hafnað þessu, en sú íslenzka ekki.  Það er afar slæm staða. 

"Samkvæmt skilningi ESB á EES-samningnum skulu öll samskipti hins opinbera við aðila á raforkumarkaði og í raforkuvinnslu byggjast á markaðslögmálum og tryggt skal vera, að markaðurinn starfi óáreittur af hálfu hins opinbera.  ESB hagræðir síðan viðskiptareglum og kostnaðarforsendum raforkumarkaðarins til að ná fram sínum markmiðum.  Eins og í öllu öðru, sem EES-samninginn varðar, er aðeins tekið eitt skref í einu, þar til við ráðum ekki lengur eign okkar, orkulindunum."  (Undirstr. BJo.)

   ESB aftengir með löggjöf sinni bein áhrif og stjórnun ríkis og sveitarfélaga á raforkumarkaðnum. Norðmenn hafa farið í kringum þetta, væntanlega á grundvelli kenninga sinna um "aðgerðasvigrúm" og niðurgreitt stórlega orkuverð til stóriðju undanfarin misseri úr opinberum sjóðum.  Það er þess vegna engin goðgá, að eignarhaldi hins opinbera á orkufyrirtækjum hérlendis sé beitt í sama augnamiði, enda tíðkast enn ýmis opinber inngrip í orkumarkaðinn í Evrópusambandinu sjálfu. Síðasta málsgrein Elíasar hér að ofan er mjög umhugsunarverð fyrir íslenzka fullveldissinna.  Ísland verður í raun nýlenda þeirra erlendu afla, sem ná að klófesta stjórnun auðlinda landsins, t.d. fiskveiða og orkulinda. 

Síðan gerði Elías að umtalsefni samþykkt ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 á kröfu ESA um markaðsvæðingu nýtingarréttar hins opinbera á landi og auðlindum þess, t.d. orkulindum.  Þessi eftirgjöf íslenzkrar ríkisstjórnar er reginhneyksli, enda tóku Norðmenn algerlega öndverðan pól í hæðina gagnvart sams konar kröfu ESA og höfnuðu henni einfaldlega.  Hér hafa Nefjólfssynir sótt í sig veðrið á seinni árum, en Þveræingar andæfa. 

 "Það er erfitt að sjá, hvernig þessum úrskurði [ESA] verður framfylgt án þess að bjóða vinnsluleyfi fyrir raforkuver út innan EES, þannig að erlendir fjárfestar geti keppt á jafnræðisgrundvelli við íslenzk fyrirtæki í almannaeigu.  Það er ekki alveg í samræmi við hugmyndir almennings um full yfirráð yfir orkulindunum."

Þetta er hárrétt athugað, og það er alveg með ólíkindum, ef íslenzk stjórnvöld hafa ekki áttað sig á þessu í maímánuði 2016, þegar þau samþykktu að framfylgja úrskurði ESA á Íslandi, sem jafngildir að gefa öflugum erlendum orkufyrirtækjum tækifæri til að klófesta íslenzkar orkulindir í opinberri eigu í nafni markaðsvæðingar orkugeirans og frjálsrar samkeppni, eins og orkulöggjöf ESB kveður á um.  Íslenzk stjórnvöld eru ekki svo skyni skroppin, að þau hafi ekki áttað sig á afleiðingum þessa ESA-úrskurðar.  Þau skulda Alþingi og þjóðinni allri útskýringar á því, hvað þeim gekk til að gangast við úrskurði, sem opnar greiða leið að afsali yfirráða yfir íslenzkum orkulindum í hendur erlendum lögaðilum, sem lúta lögsögu Evrópuréttar. Föðurlandssvik hafa verið nefnd af minna tilefni.   

Í lok tímabærrar greinar sinnar, reit Elías:

"EES-samningurinn er lifandi samningur og tekur tíðum breytingum með nýjum og breyttum reglugerðum.  Úrskurðir ESA og dómar EFTA-dómstólsins hafa mikið gildi og stundum óvænt áhrif. Alþingi taldi, að orkulindir Íslands hefðu fulla vernd í EES-samningnum, en nú er ESB á annarri skoðun.  Hafi ekki við samþykkt EES-samningsins verið í honum fótfesta fyrir ásókn ESB í íslenzkar orkulindir, þá er svo nú.  Þarna logar stórt, rautt viðvörunarljós.  Við þessar aðstæður verður smáríki, eins og Ísland, að gæta vel að fullveldi og yfirráðum yfir auðlindum sínum." 

Frá tímanum, þegar gengið var frá EES-samninginum, 1992-1993, hefur ESB tekið miklum breytingum, og nægir að nefna stjórnarskrárígildið - Lissabonsáttmálann, þar sem Evrópusambandinu voru færðar heimildir gagnvart orkumálum aðildarlandanna, og er síðari tíma orkulöggjöf Sambandsins reist á þessum heimildum.  Þá má nefna dómsuppkvaðningu EFTA-dómstólsins, sem er bundinn við Evrópurétt og dómafordæmi ESB-dómstólsins, um eignfærslu norskra vatnsréttinda og virkjana frá einkafyrirtækjum, oft í eigu erlendra fyrirtækja, til norska ríkisins, án bóta eftir 65-80 ár í rekstri.  Þetta dæmdi EFTA-dómstóllinn óleyfilega mismunun eignarhaldsfyrirkomulags, en Norðmenn eru sleipir og beittu "aðgerðasvigrúmi" sínu til að taka bitið úr þessum dómi.  Þeir settu lög um lágmarkseignarhaldshlutfall ríkisins í vatnsréttindum og virkjunum yfir ákveðinni stærð, og hvorki ESB né Carl I. Baudenbacher hafa gert opinbera athugasemd við þessa málsmeðferð.  Á Íslandi hefðu þessi gömlu lög um "hjemfallsretten" einfaldlega verið tekin úr sambandi til að þóknast Carl I. Baudenbacher, sbr það að taka lögin frá 2009 um sóttvarnir vegna innflutnings matvæla úr sambandi eftir EFTA-dóm.

Það er hægt að fá það á tilfinninguna, að hérlendis kasti skessur á milli sín fjöreggi fullveldis landsmanna með hlátrasköllum, eins og í þjóðsögunum.  Full yfirráð Alþingis yfir auðlindum Íslands eru grundvöllur raunverulegs fullveldis landsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

24.8.2019:

"Sex vís­inda­menn og fjór­ir sér­fræðing­ar á sviði orku­mála hafa kom­ist að þeirri niður­stöðu að í Evr­ópu er pláss fyr­ir 11,6 millj­ón­ir vind­mylla sem gætu fram­leitt 139 þúsund tera­vött stund­ir á ári, eða 497 exajoule, sem myndi mæta allri áætlaðri orkuþörf jarðar árið 2050, sem tal­in er verða 430 exajoule.

Þetta kem­ur fram í vís­inda­grein sem birt hef­ur verið á vef Science direct og í tíma­rit­inu Energy Policy. Til­gang­ur grein­ar­inn­ar er ekki að leggja til að þess­um fjölda vind­mylla verður komið fyr­ir í Evr­ópu, held­ur að kort­leggja mögu­lega fram­leiðslu­getu vindorku, einkum á landi.

Grein­in er rituð með hliðsjón af mark­miði Evr­ópu­sam­bands­ins um að koma fyr­ir 100 þúsund vind­myll­um fyr­ir árið 2050."

Hægt að mæta allri orkuþörf heimsins með vindorku

Þorsteinn Briem, 3.6.2020 kl. 12:22

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"About 323 GW of cumulative wind energy capacity would be installed in the European Union (EU) by 2030, 253 GW onshore and 70 GW offshore.

With this capacity, wind energy would produce 888 TWh of electricity, equivalent to 30% of the EU power demand."

Wind energy in Europe: Scenarios for 2030 - WindEurope - September 2017

Þorsteinn Briem, 3.6.2020 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband