Hentar Orkupakki #4 okkar umhverfi ?

Evrópusambandið (ESB) heldur áfram vegferð sinni um samræmingu og yfirtöku stjórnunar orkumála aðildarlanda sinna samkvæmt Lissabonssáttmálanum (stjórnarskrárígildinu), og stórt skref í þessa átt var samþykkt orkulöggjafar undir heitinu Orkupakki #4.

Þetta er orkulöggjöf, sem er samtvinnuð loftslagsstefnu ESB og hönnuð til að auðvelda Sambandinu að ná markmiðum sínum á því sviði.  Ísland glímir ekki við neitt svipuð viðfangsefni í þessum efnum, þar sem næstum 100 % raforkunnar kemur úr endurnýjanlegum orkulindum samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.  Þegar af þeirri ástæðu á OP#4 ekkert erindi til Íslands, enda höfðu íslenzk stjórnvöld augljóslega engin áhrif á mótun þessarar löggjafar.

 Til að stikla á mjög stóru má nefna eftirfarandi 12 atriði úr OP#4:

  1. Innlend löggjöf má ekki hindra framgang stefnu ESB
  2. Landsreglarinn mun fara með æðsta vald raforkumála í landinu
  3. Landsreglarinn mun handstýra Landsneti
  4. Landsreglarinn mun stjórna raforkumarkaðinum
  5. Völd innlendra stjórnvalda til afskipta af gjaldskrám verða mjög skert
  6. Embætti samræmingarstjóra undir Landsreglara mun tryggja, að Landnet fylgi áætlunum, sem ESB hefur samið og/eða samþykkt.
  7. Erfitt verður að koma í veg fyrir sæstrengi til útlanda
  8. Fjárfestingaráætlun Landsnets, sem ESB hefur samþykkt, er skuldbindandi fyrir Landsnet gagnvart ESB.  Þetta jafngildir valdayfirtöku á Landsneti.
  9. Svæðisbundnar samræmingarmiðstöðvar verða nýtt yfirþjóðlegt verkfæri ESB
  10. Það verður framkvæmdastjórn ESB, sem ákveður, hvernig rafmagnsflutningum um sæstrengi verður háttað, en ekki íslenzk yfirvöld, stofnanir eða Landsnet.
  11. ESB mun móta forsendur leyfisveitinga fyrir ný vind- og vatnsorkuver
  12. Öllum raforkunotendum á að standa til boða kvikur verðsamningur, þar sem verð hverrar klukkustundar ræðst af framboði og eftirspurn.  Þeir, sem velja þetta samningsform, fá upp settan hjá sér snjallorkumæli, sem sýnir einingarverð hverrar klukkustundar, mælir raforkunotkunina og reiknar út raforkukostnaðinn.

Eins og sést á þessari upptalningu, verður ekki um neitt smáræðis valdaafsal að ræða, ef stjórnvöld kokgleypa þetta á samráðsvettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Túlkun Stjórnarráðsins er sú, að það jafngildi riftun EES-samningsins, ef Alþingir síðan gerir slíkar samþykktir afturreka.  Slík sjónarmið stangast á við skýran texta EES-samningsins sjálfs um heimild löggjafarvaldsins til að synja gjörðum Sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfestingar, ef þingið telur stjórnlagaheimildir skorta til staðfestingar.  Það er leikmanni í lögum ljóst, að samþykkt OP#4 án undanþága varðar broti á Stjórnarskrá Íslands.

Í kjallaragrein á síðu forystugreina Morgunblaðsins þann 16.06.2020 birtist áhugaverð hugleiðing og varnaðarorð Ólafs Ísleifssonar, Alþingismanns, undir fyrirsögninni:

"Fjórði orkupakkinn vofir yfir".

Kjallaragreinin hófst þannig:

"Iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni á Alþingi um mat á fjórða orkupakkanum.  Þar er lýst hefðbundinni meðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr, en ekkert minnzt á, að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir, sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann.  Þær komu fyrst fram fáum vikum áður en málið var rætt á Alþingi vorið 2019. Þá voru tvö ár liðin frá því Ísland skuldbatt sig á vettvangi EES til að innleiða þriðja orkupakkann.  Talið var af hálfu stjórnvalda, að þá skuldbindingu mætti ekki afturkalla þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins í gagnstæða átt."

 Þetta eru ill tíðindi af starfsháttum og "verkstjórn" iðnaðarráðherra við stórmál, en koma því miður ekki á óvart, því að hún sýndi Þriðja orkupakkanum hvorki skilning né áhuga.  Sama kæruleysið kemur fram núna og boðar illt, eld og eimyrju.  Um orkupakka 1-2 hélt hún því fram, að þeir hefðu með uppskiptingu raforkugeirans lækkað raforkukostnað neytenda vegna "samkeppninnar".  Þetta var rækilega hrakið af hagfræðiprófessor í riti "Orkunnar okkar, ágúst 2019.  

Það, sem Ólafur Ísleifsson nefnir hér að ofan, að vanti hjá ráðherra, hefur gríðarlega þýðingu.  Ef ekki verður strax fengin bitastæð, fagleg lögfræðileg álitsgerð óvilhallra fræðimanna á borð við Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst um það, hvort innleiðing OP#4 í landslög á Íslandi standist Stjórnarskrá, þá verður að lýsa yfir vantrausti á iðnaðarráðherra og/eða utanríkisráðherra.  Þau hafa þá brugðizt skyldum sínum sem ráðherrar gagnvart Stjórnarskrá. 

Hin hlið orkupakkamálsins er efnahagsleg.  Það er bráðnauðsynlegt að leggja þjóðhagslegt mat á afleiðingar innleiðingar OP#4 og reikna þá bæði með tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi Innri markaðar ESB og engri slíkri.  Slík skýrsla yrði mikils virði, og leita þyrfti í smiðju höfunda ofannefndrar skýrslu "Orkunnar okkar", sem talizt geta verið sérfróðir um orkumál.  Hér skal fullyrða, að líkan Evrópusambandsins fyrir orkumarkaðinn á illa við hér vegna þess, að orkukerfið á Íslandi er í eðli sínu gjörólíkt hinu miðevrópska, og þess vegna mun innleiðingin virka á Íslandi eins og há skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem veikir samkeppnisstöðuna gagnvart útlöndum. 

Í lok kjallaragreinarinnar skrifaði Ólafur Ísleifsson:

"Svar ráðherra ber með sér, að engir lærdómar hafi verið dregnir af þriðja orkupakkanum.  Hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var.  Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er orðið of seint."

Íslenzk stjórnvöld verða að reka af sér slyðruorðið í EES-samstarfinu.  Það er lítilmótlegt hlutskipti að reiða sig á leiðsögn Norðmanna, enda er Stjórnarskrá þeirra öðruvísi en okkar.  Hagsmunamat norska stjórnarráðsins er bæði á öndverðum meiði við hagsmunamat norskrar alþýðu og íslenzkrar.  Íslenzka Stjórnarráðið verður að fara að sýna festu og dug, frumkvæði vit og áhuga, þegar kemur að málefnum íslenzkra orkuauðlinda og ráðstöfun þeirra. 

Þann 19. júní 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Elías Elíasson, verkfræðing og sérfræðing í orkumálum, þar sem bent er á mikilvægi öruggrar og ódýrrar raforku fyrir vöxt og viðgang byggðarlaga og hagvöxtinn í landinu.  Orkupakkarnir stefna í þveröfuga átt, enda hefur ESB ekki lágt raforkuverð á sinni stefnuskrá, heldur nægilega hátt til að hvetja til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem þar á bæ geta þó aðeins framleitt slitrótt eftir duttlungum náttúrunnar.  Þeir henta markaðinum mjög illa.  Grein Elíasar hét:

"Öngstræti orkupakkanna".

Þar gat m.a. að líta:

"Afleiðing hás orkuverðs og ótryggs framboðs raforku lýsir sér þannig, að í viðkomandi byggðarlögum fækkar tækifærum fólks til virðisaukandi starfsemi, fjárfestar koma ekki með fé og verðmætasti mannauður byggðanna, frumkvöðlarnir, leita annað.  Þeim byggðum hrakar, og laun hækka minna."

Áhrif hás orkuverðs, eins og verða mun í fákeppnisumhverfi með markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis, sem reynir að hámarka arð sinn, eru hin sömu og áhrif ótryggrar raforku, sem þekkt eru á Íslandi.  Það verður þess vegna að berjast gegn innleiðingu fyrirkomulags, sem er aðeins örverpi í íslenzku umhverfi, þar sem kostir frjálsrar samkeppni geta ekki notið sín á raforkumarkaði. 

Úrelt raforkuflutnings- og dreifikerfi landsins er landinu að nokkru leyti dulin efnahagsbyrði.  Aðbúnaður Vestfirðinga að þessu leyti er til skammar, en þar á sér nú stað mikil iðnvæðing (sjókvíaeldi og fiskvinnsla), sem krefst stöðugleika á öllum sviðum.  Vestfirðingar geta orðið sjálfum sér nógir með rafmagn, og vegna óstöðugleika Vesturlínu, sem ekki verður jarðsett, munu rafmagnsmál Vestfirðinga standa þeim fyrir þrifum, þar til þeir verða sjálfum sér nógir um rafmagn.  Stuðningur iðnaðarráðherra við Vestfirðinga í orkumálum virðist enginn hafa verið, þótt straumleysistími Vestfirðinga sé sá langhæsti á landinu.  Mun slíkt áhugaleysi ráðherra ekki koma henni í koll, þegar/ef hún leitar eftir endurkjöri í kjördæminu ?  

Fjárfestingar í flutnings- og dreifikerfum eru svo arðsamar, að þær standa vel undir lántökukostnaði.  Þar sem þörfin er brýnust á ekki að hika við slíkt nú á tímum lágra vaxta.  Ráðherra hefur þó beitt sér fyrir verulegri flýtingu á jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins, og á því verki að ljúka árið 2025 samkvæmt áætlun stjórnvalda.  Þar með kemst líka á þrífösun sveitanna, sem er forsenda blómlegra byggða og orkuskipta. 

Nokkru síðar í greininni fjallaði Elías um orkulagasetningu ESB í samanburði við stefnu Roosevelts, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í "New Deal" um lágt raforkuverð:

"Orkupakkalög ESB, sem hér hafa verið innleidd, gera okkur erfitt fyrir að gera hliðstæðar ráðstafanir [ríkið taki ekki hagnað af raforkusölu, heldur á formi beinna og óbeinna skatta af virðisaukandi starfsemi í krafti ódýrs rafmagns-innsk. BJo].  Þau lög hindra, að þjóðin, eigandi auðlindafyrirtækjanna og flestra raforkufyrirtækjanna, geti ákveðið, að arðurinn af orkusölunni skuli koma fram á síðari stigum virðisaukakeðjunnar og skuli skattlagður þar. Að minnsta kosti virðast raforkufyrirtækin túlka lögin með þeim hætti, að einhver skilgreind jafnréttissjónarmið, sem þó skapa ójöfnuð, skuli ráða verðlagningu raforku, en eðlileg viðskiptasjónarmið verði að víkja. 

Garðyrkjubændur hafa fengið að finna fyrir þessu og fá nú niðurgreiðslur á rafmagni eftir hinni margfalt dýrari leið gegnum ríkissjóð. Engum má heldur vegna fjórfrelsisákvæða EES-samningsins veita tækifæri, sem ekki standa til boða öllum þegnum Evrópska efnahagssvæðisins."

   Þetta öfugsnúna fyrirkomulag, sem þarna er lýst, framkallast, þegar erlend löggjöf, sem tekur mið af gjörólíkum aðstæðum, er innleidd á Íslandi.  Þeir, sem halda, að slík afglöp veiki ekki efnahaginn, vaða í villu og svíma.  Evrópulöggjöf á sviði orkumála verður óhjákvæmilega þjóðhagslega óhagkvæm á Íslandi og leiðir þar af leiðandi til minni hagvaxtar en ella.  Það er ástæðulaust að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, heldur þarf þegar í stað að vinna að því að fá undanþágur fyrir Ísland frá þessari orkulöggjöf að einhverju eða öllu leyti, og ætti að taka stefnuna á undanþágu frá öllum tilskipunum og gerðum Orkupakka #4.  

Í lokin reit Elías:

"Hætt er við, að með tíð og tíma muni orkupakkarnir og önnur ákvæði EES-samningsins setja Ísland í þá sömu aðstöðu gagnvart hinum stóru iðnaðarsvæðum ESB eins og mörg afskekkt sjávarpláss eru nú í gagnvart stóru útgerðarstöðunum hér á landi.  Stjórnvöld verða að horfa á þessa hættu og vinna landið út úr orkupökkunum, þannig að þjóðin hafi fullt sjálfræði yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirrar raforku, sem frá þeim fæst."

Það blasir við til hvers refirnir eru skornir hjá ESB.  Í anda Lissabon-sáttmálans er ætlunin að sölsa undir ESB stjórnun orkumála aðildarlandanna og að tryggja framleiðslukjörnum Evrópu næga raforku á hverjum tíma.  Jaðarsvæði Evrópu eiga að sjá kjarnanum fyrir orkunni, sem hann vantar, og borga á hærra verð fyrir orku úr endurnýjanlegum og kolefnisfríum lindum til að örva fjárfestingar í slíkum virkjunum.  Forsendan fyrir því, að ná megi þessu stefnumiði fram, eru öflugar millilandatengingar og öflugt flutningsnet innan hvers lands.  Að kokgleypa þessa stefnu setur Ísland á bekk hjálendu ESB, því að áhrif Íslendinga á stefnumótun ESB eru sama og engin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ef að þú hefðir bara tvo slæma valkosti:

1.Að segja EES-samningnum upp, með og öllu því sem að honum fylgir.

2.Að samþykkja 4.Orkupakkann og halda EES-samstsarfinu áfram.

Myndir þú þá vilja bakka alveg út úr EES-samstarfinu?

Jón Þórhallsson, 8.7.2020 kl. 11:57

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón.  

Þessi spurning er ekki uppi núna, því að EFTA er að vinna að sameiginlegri samningsafstöðu gagnvart ESB.  Þar og í SAmeiginlegu EES-nefndinni hefur Island fullgildar ástæður til að hafna OP#4 eða veigamiklum hlutum hans (fá undanþágur).  Áður en kæmi að uppsögn EES-samningsins þarf Ísland að hafa náð hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB.  Eftir úrsögn Breta úr ESB eru viðskiptamál Evrópu í deiglunni.  Ísland mun gera fríverzlunarsamning við Bretland og að afloknum fríverzlunarsamningi á milli Breta og ESB gæti verið komið eftirtektarvert fordæmi fyrir öll EFTA-ríkin.  

Bjarni Jónsson, 8.7.2020 kl. 14:22

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirskriftir gegn Orkupakkanum, sem safnað var í fimm vikur í fyrra, frá 8. apríl til 14. maí, voru 13.480, eða 5,4% af þeim sem voru á kjörskrá, 248.502, í alþingiskosningunum í október 2017.

Og örfáir mótmæltu Orkupakkanum á Austurvelli.

Það er nú allt og sumt. cool

Þorsteinn Briem, 8.7.2020 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband