Lífeyrissjóðirnir eru kjölfesta velferðarkerfisins

Það hefur verið óviðkunnanlegt, jafnvel hráslagalegt, að fylgjast með gjamminu í sumum verkalýðsleiðtogum landsins gagnvart t.d. Icelandair, sem er hryggjarstykkið í íslenzkri ferðaþjónustu. Þar róa stjórnendur og starfsfólk nú lífróður.  Heyrist þá ekki það hljóð úr horni, að verkalýðsleiðtogar muni beita áhrifum sínum til að refsa Icelandair fyrir aðgerðir sínar á vinnumarkaði með því að lífeyrissjóðir, t.d. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, muni ekki fjárfesta meira í Icelandair ?  Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur, er brot á stjórnarháttayfirlýsingu lífeyrissjóðsins, og slíkt athæfi varðar sennilega við lög.  Sumir verkalýðsleiðtogar nútímans virðast vera úti á þekju og ekki skilja núverandi stöðu íslenzka hagkerfisins. Þeir virðast ennfremur telja sig hafna yfir lög og rétt eða geta tekið geðþóttaákvörðun um það, hvenær þeim þóknast að hunza lagafyrirmæli og aðrar leikreglur þjóðfélagsins.  Slíkt vitnar um alvarlega persónuleikabresti, sem eru lítt til forystu fallnir.  

Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, er hins vegar réttur meður á réttum stað.  Hann er með fingurinn á þjóðarpúlsinum og hefur tjáð sig opinberlega með snöfurmannlegum hætti um, að tilburðir verkalýðsforkólfa til að skuggastjórna lífeyrissjóðunum séu fullkomlega óboðlegir og að girða verði með lögum fyrir möguleika þeirra til ógnarstjórnar, en þeir hafa hótað nú og áður látið verða af hótun sinni um að afnema umboð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, af því að gjörðir þeirra væru verkalýðsforkólfum ekki þóknanlegar. 

Eftir nýjasta frumhlaup Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í þessum efnum hefur hann að vísu dregið í land og virðist nú vera einhvers konar ómerkingur á flæðiskeri staddur.  Þetta varð Herði Ægissyni tilefni leiðaraskrifa í Fréttablaðið 24. júlí 2020 undir yfirskriftinni:

"Skaðinn skeður".

Þar stóð m.a.:

"Ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem komu síðast að endurreisn Icelandair fyrir hartnær áratug, að leggja félaginu til aukið fjármagn, getur aðeins verið tekin á viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi.  Hagsmunir sjóðsfélaga, sem treysta stjórnendum sjóðanna fyrir því ábyrgðarmikla hlutverki að ávaxta skyldusparnað sinn, eru þar undir.

Sumir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir þessu samhengi hlutanna.  Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins [Icelandair].  Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur þar farið fremstur í flokki með því að beina því til fulltrúa stéttarfélagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn fjárfestingu í útboði Icelandair vegna óánægju með, hvernig staðið var að kjaraviðræðum við FFÍ. Færu fulltrúar VR ekki að þeim tilmælum, yrði þeim skipt út.  Engu breytir, þótt formaður VR hafi síðar dregið í land, eftir að samningar náðust við flugliða.  Skaðinn er skeður, og vegið hefur verið að sjálfstæði stjórnar lífeyrissjóðsins.  Það má ekki standa án eftirmála. 

 

Augljósir tilburðir formanns VR til skuggastjórnunar með því að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum eru ekki nýmæli.  Aðeins rúmt ár er síðan Fjármálaeftirlitið beindi því til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að endurskoða samþykktir sjóðsins sérstaklega með það í huga, hvort og við hvaða aðstæður hægt væri að skipta út stjórnarmönnum.  Var það gert, eftir að fulltrúaráð VR hafði afturkallað umboð stjórnarmanna stéttarfélagsins í stjórn og sett inn nýja stjórnarmenn til bráðabirgða vegna ákvörðunar um vexti verðtryggðra sjóðfélagalána, sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um.  Með því að ætla enn á ný að hafa áhrif á ákvörðunartöku lífeyrissjóðs, sem er ekki í eigu eða undir stjórn VR, hefur Ragnar Þór sýnt Fjármálaeftirliti Seðlabankans lítilsvirðingu og skeytt ekkert um þau tilmæli, sem stofnunin hefur sent frá sér."

   Það er jafnan eins og téður Ragnar Þór sé nýdottinn ofan úr tunglinu, því að annaðhvort skilur hann ekki þær leikreglur, sem gilda í samfélaginu, eða hann vill ekki skilja þær.  Téðum Ragnari verður hins vegar tíðrætt um spillinguna í samfélaginu.  Hvað er spilling ?  Felst hún ekki einmitt líka í því að gefa skít í leikreglurnar með eigin hag eða skjólstæðinga sinna í fyrirrúmi ?  Hvað er þá hegðun þessa verkalýðsforkólfs annað en spilling, því að hann er augljóslega að slá sig til riddara í augum félagsmanna sinna og annarra verkalýðsfrömuða með athæfi sínu ? Þetta eru auðvitað ótæk vinnubrögð af hálfu formanns verkalýðsfélags, enda hefur nú Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, brugðizt við þessum flumbruhætti.  Við hann var viðtal í Fréttablaðinu 24. júlí 2020 undur fyrirsögninni:

"Höfum slæma reynslu af skuggastjórn":

Ásgeir Jónsson er ómyrkur í máli, enda hefur verkalýðsforkólfurinn Ragnar Þór Ingólfsson orðið að gjalti.  Óprúttið framferði hans er VR til skammar:

""Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna.  Ég tel, að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa", segir í samtali við Fréttablaðið."

Miðað við einarða afstöðu Óla Björns Kárasonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í Morgunblaðsgrein hans, 22. júlí 2020:

"Grafið undan lífeyrissjóðum",

má hiklaust reikna með, að þingið verði góðfúslega við óskum Seðlabankastjóra um lagasetningu til að girða fyrir sóðaleg vinnubrögð varðandi það gríðaröfluga og mikilvæga velferðarkerfi, sem lífeyrissjóðir landsmanna eru orðnir.  Aðeins í Danmörku og Hollandi, af öllum löndum heims, er lífeyrissparnaður meiri m.v. verga landsframleiðslu, og hún er enn tiltölulega há hér.  

"Ásgeir segir, að tilmæli stjórnar VR séu þörf áminning um mikilvægi þess að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóðanna."

Þetta er hverju orði sannara hjá Seðlabankastjóra í ljósi þess feiknamikilvæga þjóðhagslega hlutverks, sem lífeyrissjóðirnir eiga að gegna.  Að lýðskrumandi fúskarar úti í bæ geti fjarlægt stjórnarmenn og sett aðra sér þóknanlega þar í staðinn áður en skipunartíminn rennur út, býður hættunni heim fyrir hagsmuni sjóðfélaganna. 

"Það er óþolandi, ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geti ekki gengið að því vísu, að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra", 

sagði Seðlabankastjóri.  Þegar furðufuglar, sem skolað hefur á fjörur stjórna verkalýðsfélaga fyrir tilstilli lítils minnihluta félagsmanna vegna lítillar kosningaþátttöku, fá þá flugu í höfuðið, að þeir séu handhafar eignarhalds á lífeyrissjóðunum, þá verður Fjármálaeftirlitið auðvitað að geta sett þeim stólinn fyrir dyrnar.  Þá þýðir nú lítið sú aumkvunarverða vörn, sem téður Ragnar hefur uppi með allt á hælunum, að hann hafi málfrelsi. 

""Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu.  Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum.  Sérstaklega í ljósi þess, hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslenzku atvinnulífi", segir Ásgeir."

Þetta er kjarni málsins.  Ábyrgðarlausir aðilar á þessu sviði, verkalýðsformenn og aðrir "úti í bæ", geta gasprað að vild, en það á ekki að hafa áhrif á fjármálavafstur stjórnenda lífeyrissjóðanna.  Lífeyrissjóðirnir eru allra aðila umsvifamestir í fjármögnun íslenzks atvinnulífs og mynda hryggjarstykkið í mörgum öflugum félögum.  Stjórnir þeirra sinna vandasömum og ábyrgðarmiklum störfum og verða þess vegna að fá starfsfrið. 

Að lokum verður hér vitnað í fróðlega og skelegga grein Óla Björns, sem áður var nefnd til sögunnar:

"Okkur Íslendingum hefur tekizt það, sem fáum öðrum þjóðum hefur auðnazt; að byggja upp lífeyriskerfi, sem launafólk hefur getað treyst á.  Styrkleiki lífeyriskerfisins er einn mikilvægasti hornsteinn efnahagslegrar velferðar þjóðarinnar. Hrein eign lífeyrissjóðanna í lok síðasta árs nam tæpum mrd ISK 5000.  Samkvæmt nýlegri úttekt OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum lífeyrissjóðanna (samtrygging og séreign) um 167 % af vergri landsframleiðslu og um 177 % að meðtöldum sparnaði á vegum innlendra og erlendra vörzluaðila séreignarsparnaðar.  Aðeins í Danmörku og Hollandi er lífeyrissparnaðurinn meiri." 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Skuggastjórnun á ekki að líðast. En hvað sem því líður hefur Ragnar Þór einnig bent á atriði varðandi fjárfestingar fyrirtækja sem lífeyrissjóðir eiga hlutdeild í sem virðast orka mjög tvímælis. 

Þorsteinn Siglaugsson, 7.8.2020 kl. 09:35

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Óli Björn Kárason á sæti á Alþingi og getur þar talað við sjálfan sig og Vinstri græna um lagasetningu, í stað þess að skæla út í eitt á síðum Moggans um vonda menn í stjórnum verkalýðshreyfingarinnar, sem voru kosnir, rétt eins og Óli Björn. cool

Það er kallað lýðræði, sem Óla Birni finnst greinilega hið versta mál vegna þess að hann stjórnar ekki sjálfur verkalýðshreyfingunni.

Menn sem gapa nær daglega um nauðsyn aukins lýðræðis, til dæmis Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Moggans, hafa engan áhuga á því ef það hentar ekki þeim sjálfum, eins og til að mynda þjóðaratkvæðagreiðslan hér á Íslandi um nýja stjórnarskrá árið 2012, sem samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða. cool

Hitt er svo annað mál að fáir nenna að taka þátt í kosningum í verkalýðshreyfingunni og vilja láta aðra gera allt fyrir sig.

Á Alþingi eru engir furðufuglar og Óli Björn er að sjálfsögðu ekki skrýtinn fugl, enda ber þjóðin gríðarlega mikið traust til karlsins, eins og skoðanakannanir sýna. cool

Og Sjálfstæðisflokkurinn vill endilega vera í ríkisstjórn með Vinstri grænum en þessi ríkisstjórn er fyrir margt löngu kolfallin, samkvæmt skoðanakönnunum.

Icelandair er ekki nauðsynlegt til að halda uppi flugsamgöngum á milli Klakans og annarra landa en menn geta að sjálfsögðu ákveðið að leggja meira fé í fyrirtækið ef þeir eru bjartsýnir hvað snertir áhuga Mörlendinga á að fljúga til annarra landa og erlendra ferðamanna hingað til Íslands.

Og full ástæða er til þessarar bjartsýni, þrátt fyrir daglegt svartagallsraus í einangrunarsinnanum Styrmi Gunnarssyni.

Mörlenskir hægrimenn hafa aldrei haft rétt fyrir sér hvað snertir ferðaþjónustuna hér á Íslandi, sem er sá atvinnuvegur sem hér hefur skapað langmestu gjaldeyristekjurnar mörg undanfarin ár.

Í miðju kóvítinu lenda nú rúmlega tvö þúsund erlendir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli á degi hverjum en árið 2012 voru þeir um 1.500. cool

Og vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hefur verið hægt að auka hér kaupmátt um tugi prósenta en áður fyrr var oft engin innistæða fyrir launahækkunum, þannig að þeim fylgdi aukin verðbólga.

Laun eru hins vegar ekki hækkuð almennt nema vegna verkfalla eða hótana um þau og þar kemur öflug verkalýðshreyfing til sögunnar.

Og að sjálfsögðu vilja einangrunarsinnarnir Óli Björn Kárason og Styrmir Gunnarsson hafa verkalýðshreyfinguna í vasanum en lífeyrir þeirra hefur hækkað mikið að raungildi vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hér á Klakanum, sem mörlenskir hægrimenn og einangrunarsinnar hafa fundið allt til foráttu, eins og mýmörg dæmi sanna hér á Moggablogginu allt frá árinu 2007. cool

Þorsteinn Briem, 7.8.2020 kl. 12:04

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þorsteinn Siglaugsson;

Umfang lífeyrissjóðanna er gríðarlegt á íslenzkan mælikvarða og umsvif þeirra í fjárfestingum í atvinnufyrirtækjum hérlendis má segja, að séu orðin óeðlilega mikil út frá samkeppnissjónarmiðum og æskilegri áhættudreifingu.  Það væri skrýtið, ef einstakir gjörningar þeirra orkuðu ekki tvímælis, þegar svo er í pottinn búið.  

Bjarni Jónsson, 7.8.2020 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband