Atvinnuleysi kostar mannslíf

Það hefur verið sýnt fram á það með ítarlegum tölfræðilegum rannsóknum, bæði austan hafs og vestan, að marktæk aukning verður á fjölda dauðsfalla í kjölfar efnahagssamdráttar, sem leiðir til atvinnumissis margra og fækkunar nýráðninga.  Áhrifin á dánartölur koma fram næstu árin á eftir uppsagnahrinum, og er dauðdaginn af völdum alvarlegra sjúkdóma, andlegs og líkamlegs eðlis.

Núverandi efnahagskreppa er af völdum sóttvarnaraðgerða yfirvalda um heim allan.  Morgunblaðið er farið að efast um þá stefnu að reyna að fækka smitum sem mest í þeirri von, að bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni sé á næstu grösum. Forystugrein blaðsins í dag, 09.10.2020, ber vott um þetta. Núverandi bælingarstefna skilar okkur í sömu sporum gagnvart veirunni, en sýnu nær fátæktarmörkum. Hún gengur engan veginn upp. Um valkosti er þó ekki á vísan að róa.  Skynsamlegast er að móta sóttvarnarstefnu, sem er reist á því, að "öruggt" bóluefni verði ekki í hendi á næsta ári og jafnvel ekki fyrr en árið 2023. Þá þarf að spila sóttvarnir samkvæmt álagi hverju sinni á heilbrigðiskerfið. Þar er lítið borð fyrir báru vegna skorts á viðeigandi húsnæði.  E.t.v. mætti bæta úr skák með því að virkja aðstöðu einkageirans, en þar sem heilbrigðisráðherra hefur horn í síðu hans, er það sennilega "tabú". Nú eru á sjúkrahúsi 2,6 % C-19 sjúklinganna eða 24 og í gjörgæzlu 0,33 % sjúklinganna eða 3.  Óljóst er, hversu marga sjúklinga sjúkrahúsin ráða við, e.t.v. aðeins tvöfaldan núverandi fjölda, en þyrftu að ráða við tífaldan fjölda, og sæti þá óvenju margt á hakanum. Það er nauðsynlegt að auka athafnafrelsi í samfélaginu og þar með tekjuöflun um leið og horfið er frá bælingarstefnunni.  Ekkert lát verður á núverandi ófremdarástandi fyrr en vísir að hjarðónæmi er kominn upp í samfélaginu.  Viðkvæma hópa ber að vernda, eins og kostur er.   

Morgunblaðið var mjög hógvært í gagnrýni sinni á íslenzku sóttvarnarstefnuna í forystugrein sinni 24. september 2020, en efasemdir eru þó ljóslega uppi þar á bæ um árangur hennar:

"Margt tekizt vel, en erum við nær ?"   

"Dansinn í kringum veiruna hefur nú staðið í 7 mánuði, og var því ekki spáð í upphafi.  Og við höfum litið svo á, að sú staðreynd, að einungis rúmt prósent þjóðarinnar hafi tekið smit og mun færri dáið vegna þess en gerist í árlegum flensufaraldri, sé fagnaðarundur.  En hitt blasir einnig við, að á 7 mánuðum hefur aðeins örlítið úrtak komið sér upp virku mótefni og þjóðin því nánast í sömu sporum og í byrjun fársins.  

Varla verður lengur komizt hjá að taka alvarlega umræðu um það, hvort okkar stríðsáætlun hafi að öllu leyti gengið upp.  Þótt ekki sé dregið í efa, að áætlunin sjálf hafi lukkazt, er spurningin enn opin um það, hvort hún hafi verið rétt og við því betur sett, eða hvort aðrar leiðir hefðu verið raunsærri, þegar til lengri tíma er horft. 

Verði nú tekin önnur og dýpri umræða, þá ættu þeir, sem fara með ábyrgð í umboði almennings ekki að koma sér undan því að axla hana með svipuðum hætti og tíðkast í "löndunum í kringum okkur", nú þegar svo mikið er undir."  

Hver er "stríðsáætlun" yfirvalda á Íslandi gagnvart þessu veirufári ?  Það veit enginn almennilega, og það er gjörómögulegt.  Hún virðist vera sú að halda fjölda smitaðra í lágmarki.  Það er kolröng stefna, því að hún leiðir ekki til neins annars en að draga þennan faraldur á langinn, bylgju eftir bylgju, með ógurlegum kostnaði, og það er stórskaðlegt heilbrigði þjóðarinnar og efnahag. 

Þessi stefna er rekin við bumbuslátt lyfjaframleiðenda, sem vinna að þróun bóluefnis, en slíkt hefur af tæknilegum og öryggislegum ástæðum hingað til tekið 5-10 ár.  Betri er 1 fugl í hendi en 2 í skógi.  "Spádómar" um 1-2 ára þróunartíma bóluefnis núna eru óáreiðanlegir og jafnvel hættulegir.  Verst af öllu væri, að í flaustri yrði farið að bólusetja almenning með vanþróuðu efni, sem ylli jafnvel verri aukaverkunum en veiran sjálf.

Það á ekki að reisa sóttvarnarstefnu hérlendis á tálsýn.  Það á að reisa hana á ströngum persónulegum vörnum, sem gera kleift að halda úti allri venjulegri virkni samfélagsins án tálmana, markvissri vernd viðkvæmra hópa og stýringu á álagi heilbrigðiskerfisins innan getu þess.  Þannig næst eitthvað, sem nálgazt getur að kallast hjarðónæmi á sem stytztum tíma og með lágmarkstjóni á sviði heilsu og mannslífa.  Höfum í huga, að brotið atvinnulíf hefur alvarlega slæm áhrif á heilbrigðiskerfið, veikir það og eykur álag þess.  Ef öruggt bóluefni skyldi koma á markaðinn áður en hjarðónæmi næst (60 %), verður það "fagnaðarundur".  

 Viðbrögð ríkisstjórna við þessum heimsfaraldri, COVID-19, hafa ýmist verið í ökkla eða eyra.  Þau hafa víðast hvar orðið þjóðfélögunum miklu kostnaðarsamari en efni standa til.  Efnahagssamdrátturinn hefur leitt til uppsagna mikils fjölda fólks, sem kemur niður á heilsufari þeirra og mun lenda á heilbrigðiskerfunum í nánustu framtíð.  Af þessum sökum er brýnt, að yfirvöld beiti markvissri stjórnun og virði  meðalhófsreglu. Að draga allan mátt úr fyrirtækjunum magnar vandann.  Alþýðusamband Íslands "hefur stimplað sig út úr vitrænni efnahagslegri umræðu" með því að viðurkenna ekki þessa staðreynd.  Þar með fórnar ASÍ óþarflega mörgum félagsmanna sinna á altari atvinnuleysis.

Óli Björn Kárason ritaði í Morgunblaðspistli sínum 2. september 2020 m.a. eftirfarandi:

"Fyrir þá, sem gera sér grein fyrir því, að atvinnulífið - fyrirtækin í landinu - skapa þau verðmæti, sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu, er það sérstakt áhyggjuefni, hve atvinnuvegafjárfesting hefur dregizt saman.  Á öðrum ársfjórðungi minnkaði hún um 17,8 % og um 4,7 % á fyrstu 6 mánuðum ársins m.v. sama tímabil 2019.  Ný tækifæri og ný störf  verða ekki til án fjárfestinga.  Það er því eitt helzta verkefni stjórnvalda að örva atvinnuvegafjárfestingu til lengri og skemmri tíma."

Þetta skilur ekki forysta ASÍ, sem vill ganga enn harðar að fyrirtækjunum með launahækkunum um næstkomandi áramót, þrátt fyrir grundvallarforsendubrest kjarasamninga, með þeim afleiðingum, að sum hinna betur stæðu fyrirtækja verða að leggja fjárfestingaráform sín á hilluna, en sum hinna verr settu fyrirtækja munu verða að fækka í starfsliði sínu og önnur munu leggja upp laupana.

  Halldór Benjamín Þorbergsson hefur orðað þetta svo, að forysta ASÍ hafi "stimplað sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál". Þegar hægt er að líkja forseta ASÍ við Münchhausen, sem togaði sig upp á hárinu, er ljóst, að verkalýðsforkólfar eru heillum horfnir í Kófinu og vita ekki sitt rjúkandi ráð.  Formaður Einingar er sprenghlægilegur, þegar hún blæs sig út í anda löngu steindauðrar hugmyndafræði Komintern, sem afneitar staðreyndum og boðar þess í stað stöðuga baráttu við auðvaldið.  Formaðurinn ætlar að nota Kófið til að skella á einum leikþætti um hina heilögu stéttabaráttu, sem er niðurrifsstarfsemi, sem engu skilar í vasa verkalýðsins.  Verkalýðurinn verður leiksoppur í pólitísku skaki forystumannanna. 

Í stað hinnar stöðugu stéttabaráttu, þar sem útsæðið er étið og féð jafnan án hirðis,  gefst slagorðið "Stétt með stétt" ásamt hugmyndafræði Óla Björns Kárasonar betur:

"Markmiðið er að fjölga tækifærunum, bæta lífskjör allra og búa í haginn fyrir framtíðina.  Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu okkar hægri manna er mannhelgi einstaklingsins. Við lítum svo á, að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins.  Virðing fyrir frumréttinum tryggir betur en nokkuð annað velsæld samfélaga.  Þegar stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga á þennan frumrétt, þó [að] ekki sé nema í takmarkaðan tíma í nafni almannaheilla, er nauðsynlegt, að byggt sé á skýrum lagalegum grunni.  Almenningur verður að skilja rökin, sem liggja þar að baki og fá skýrar upplýsingar um, hvenær og undir hvaða skilyrðum hömlum verður aflétt.  Annars missa stjórnvöld trúverðugleika, samstaða samfélagsins brestur, og aðgerðir til varnar almenningi snúast upp í andhverfu sínu.  Í stað þess að takast á við ný verkefni situr samfélagið í heild sinni með hendur í skauti.  Fjárfesting - trúin á framtíðina - gufar upp."  

Þetta er gagnrýni á framkvæmd sóttvarnarstefnu, sem er loðin, teygjanleg, illskiljanleg og gengur freklega á athafnafrelsi og frelsi einstaklingsins.  Árangur óhófsviðbragða við tiltölulega vægri sóttkveikju er mjög lítill miðað við tilkostnað og tekjutap.  Það er ófært að leggja upp með að hjakka í þessu fari þar til nothæft bóluefni verður aðgengilegt almenningi á Íslandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Í grunninn höfum við tvo hópa, A og B. Og það er frekar auðvelt að aðgreina þá, það er fyrst og fremst eftir aldri.

Hópur A er í umtalsverðri hættu. Hópur B er nánast í engri hættu. Rökrétta niðurstaðan er að vernda hóp A, en láta hóp B eiga sig.

En sóttvarnayfirvöld hér (og reyndar annars staðar líka) gera þveröfugt. Þau reyna, með ómarkvissum, síbreytilegum og loðnum fyrirmælum að vernda alla. Og svo lengi að það endar með því að fólk hættir að fara eftir fyrirmælunum.

Markvissar aðgerðir eru lífsnauðsyn ef við ætlum ekki að fá hundruð, jafnvel þúsundir ónauðsynlegra dauðsfalla.

Hver mun taka ábyrgð á þessum yfirgengilegu heimskupörum?

Þorsteinn Siglaugsson, 9.10.2020 kl. 19:41

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er rétt athugað hjá þér, Þorsteinn, að mínu mati.  Við eigum að viðhafa persónulegar sóttvarnir, vernda hjúkrunar- og dvalarheimilin ásamt sjúkrahúsunum alveg sérstaklega.  Við getum líka beitt skimunum með markvissum hætti, t.d. einfaldri á landamærunum, ásamt sóttkví og einangrun, allt til að takmarka álag á heilbrigðiskerfið.  Annars ætti lífið að fá að ganga sinn vanagang, þ.e. opinberar samkomutakmarkanir innanhúss ættu að miðast við 1000 og grímuskyldu, þar sem 1 m reglunni er ekki hægt að fylgja.  Öll leyfileg þjónusta ætti að vera opin, eins og venjulega.  Þannig held ég, að Svíar hafi það.  S.k. Þriðja bylgja stafar að mestu af því, að hraust fólk í yngri kantinum er ekki lengur hrætt við afleiðingar þess að smitast, enda veikjast fæstir í þessum hópi meira en af flensuveiru.  Þetta fólk gerir mikið gagn í baráttunni með því að stuðla að hjarðónæmi.

Núverandi stefna er endileysa.  Hver bylgjan mun reka aðra, og efnahagurinn fer í rúst.  Þetta kalla ég ósjálfbæra sóttvarnarstefnu.  Stjórnmálamenn munu búa til blóraböggla í aðdraganda komandi Alþingiskosninga.  Það blasir nú við, hverjir eða hverjar það verða.  

Bjarni Jónsson, 10.10.2020 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband