Veiruvarnir unnar fyrir gýg ?

Viðbrögð yfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni hafa verið yfirdrifin, ef tekið er mið af hættunni, sem lífi og heilsu fólks er búin af að sýkjast af henni.  Hún er bráðsmitandi, og sýktir geta smitað einkennalausir ("ofurdreifarar"), en hún virðist ekki hættulegri en skæður infúensufaraldur, og aldurshópnum 0-35 ára er hún jafnvel síður skeinuhætt en hefðbundinn flensuvírus.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur áætlað, að 2. október 2020 hafi 760 M jarðarbúa smitazt af veirunni og að 1,0 M hafi þá látizt.  Það er 0,13 % dánarhlutfall sýktra. Sennilega er það vanmat á fjölda látinna, og John Ionnadis, faraldursfræðingur, áætlaði þetta hlutfall 0,27 % um miðjan júlí 2020.  Þetta þýðir, að um 10 mánuðum eftir, að veirunnar varð varð vart í Kína, hafa 10 % jarðarbúa sýkzt af henni. Í Svíþjóð er rekin mjög áhugaverð sóttvarnarstefna, og sóttvarnarlæknir Svía, dr Anders Tegnell, áætlaði í byrjun október 2020, að 20 % Svía væru þá orðnir ónæmir fyrir veirunni, margir án þess að hafa orðið veirunnar varir í eigin skrokki. 

Er þetta er skrifað, hefur 3172 sýkinga opinberlega orðið vart hérlendis á rúmlega 7 mánuðum.  Ef 100 % fleiri hafa raunverulega sýkzt, eins og eftir "Bylgju 1", eru sýktir orðnir rúmlega 6000 og dánarhlutfallið hérlendis er þá 0,16 %. Innan við 2 % þjóðarinnar hefur sýkzt eða aðeins um 1/10 af sams konar hlutfalli Svía.  Það gæti verið lítils háttar hærra á höfuðborgarsvæðinu. Yfir þriðjungur íbúa New York er kominn með ónæmi.  Okkur miðar mjög hægt í átt að hjarðónæmi hérlendis vegna þeirrar skefjalausu bælingarstefnu, sem hér er stunduð.  Hún er í raun veru endileysa.  Við þurfum að búa við fyrirkomulag, sem er lífvænlegt í a.m.k. heilt ár héðan í frá, og kannski er enn lengra í öruggt og gott bóluefni.  Síðustu sóttvarnaraðgerðir fyrir um viku virðast engu hafa skilað öðru en skertu persónufrelsi, sem felst t.d. í að mega hvorki fara í heilsurækt né sund og ekki leika golf. Það er kominn tími til að snúa við blaðinu hérlendis, losa um alls kyns opinberar hömlur, en einblína á persónubundnar smitvarnir og opinberar varnir fyrir þá, sem höllum fæti standa gegnvart veirunni, eins og tölfræðin sýnir.  

Hérlendis virðist stefnan vera að lágmarka fjölda smita. Það er kölluð bælingarstefna og er óviðeigandi baráttuaðferð við þessa veiru (SARS-CoV-2). Höfuðborgarsvæðið er þess vegna í léttu útgöngubanni um þessar mundir, sundstaðir og þrekstöðvar m.m. lokaðir.  Tekin var sú dýrkeypta stefna um miðjan ágúst 2020 að skima alla komufarþega til landsins tvisvar og að skipa þeim í um 5 daga sóttkví á milli.  Þegar þetta er skrifað hafa 28 komufarþegar af 41´777  greinzt jákvæðir í seinni skimun, en neikvæðir í hinni fyrri, eða 0,07 %.  Ef fjórðungur þessara komufarþega er búsettur í landinu og er látinn sæta tvöfaldri skimun vegna hærri smitstuðuls en yfirleitt hjá erlendum ferðamönnum, mundu 21 sýktir ferðamenn hafa sloppið framhjá einfaldri skimun af 41´777 alls eða 0,05 %. Á sama tímabili hafa komið upp 1240 C-19 sýkingar í landinu.  Ef smitþáttur þessara erlendu ferðamanna er 0,7, hefði smitum í landinu fjölgað um 36 á þessu tímabili eða um 2,9 % með því að halda áfram með einfalda skimun á landamærunum 19.08.2020, en setja farþega búsetta hér í tvöfalda skimun.  Þetta hefði sáralitlu breytt um gang sýkinganna og væntanlega ekki fjölgað alvarlegum tilvikum C-19 neitt, en a.m.k. 3000 færri launþegar hefðu orðið fyrir barðinu á uppsögnum, sem þýðir 30-90 færri dauðsföll á þriggja ára skeiði af völdum atvinnuleysis, ef ekki rætist úr atvinnuástandinu (samkvæmt erlendum tölfræðirannsóknum). 

Þetta sýnir, hversu misráðin sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda var, með blessun ríkisstjórnar, að skipa fyrir um almenna tvöfalda skimun á landamærunum. Hún er þó aðeins einn þátturinn í rangri sóttvarnarstefnu hér, eins og fram kemur í greinum Þorsteins Siglaugssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 8. október 2020 og Hauks Arnþórssonar í Morgunblaðinu sama dag.  

Hér verður nú vitnað í forystugrein Fréttablaðsins 2. október 2020 undir heitinu:

"Skipbrot".

"Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið efnahagslegum hamförum.  Afleiðingarnar birtast okkur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Tekjur ríkissjóðs, vegna minni umsvifa í hagkerfinu, dragast stórkostlega saman, á meðan útgjöldin vaxa, einkum til að standa undir kostnaði við aukið atvinnuleysi.  Niðurstaðan er, að samanlagður fjárlagahalli næstu tveggja ára verður um mrdISK 600. 

Minnkandi umfang sóttvarna, bæði hér innanlands og við landamærin, mun ráða miklu um, hversu vel tekst til í viðspyrnunni.  Þeir hinir sömu og töluðu fyrir því að skella landinu í lás í ágúst, stefna, sem hefur beðið skipbrot og orsakað enn meira atvinnuleysi, þrýsta hins vegar nú á hertar aðgerðir - sem er jafnan þeirra eina svar við veiru, sem er ekkert á förum.  Vonandi mun sóttvarnalækni bera gæfa til að horfa ekki á málið með sömu rörsýn að leiðarljósi."

 "Við vitum núna, að lokun landamæranna hefur ekki skilað þeim árangri, sem lagt var upp með.  Það ætti ekki að koma neinum á óvart.  Sóttvarnalæknir Svíþjóðar hefur sagt, að slíkar aðgerðir - þar í landi hafa ferðamenn aldrei þurft að fara í sóttkví - skipti engu máli í stóra samhenginu, og að sagan hafi sýnt, að þær virki aldrei til lengri tíma.  Í stað þess að fylgja sömu stefnu og nágrannaríki okkar kusum við að fara aðra og harkalegri leið með ómældum kostnaði. Rúmlega mánuði síðar er nýgengi smits hérlendis samt með því hæsta, sem þekkist í Evrópu.  Í Þýzkalandi, sem ekki hefur séð ástæðu til að fara að ráðum Skimunarmeistarans og loka landinu, er nýgengi smits t.d. aðeins fjórðungurinn af því, sem það er hér."

 Þess má geta, að hópur lækna í Bandaríkjunum, starfandi við bandaríska háskóla og á háskólasjúkrahúsum, hefur ráðlagt, að þar verði slakað á klónni. "The Great Burlington" hópinn skipa heilbrigðisvísindamenn og faraldursfræðingar.  Þeir vara við því, að bælingarstefnan gegn þessari kórónuveiru muni valda meiru heilsufarstjóni en veiran sjálf, og efnahagstjónið keyri fjölda fólks í fátækt, algerlega að óþörfu.  

Hérlendis virðist vera rekin að ýmsu leyti harðari sóttvarnastefna en annars staðar.  Hún felur í sér sóun verðmæta án árangurs, af því að almenningur hefur nú allt aðra og hættuminni mynd af veirunni en í Bylgju 1.  Þess vegna viðhefur  hann ekki lengur persónulegar sóttvarnir í sama mæli og áður, heldur treystir á opinberar aðgerðir, sem eru vanhugsaðar og hafa litlu skilað, nema vanlíðan og óhamingju margra.  Smitstuðullinn var hár, þegar aðgerðir voru hertar, og hélt áfram að vera um 3, en er nú tekinn að lækka.  Það hefði mjög líklega gerzt, þótt sundstöðum, þrekstöðvum og golfvöllum hefði ekki verið lokað.      Það er sjálfsagt að viðhafa persónubundnar smitvarnir af samvizkusemi, svo að afnema megi sem flestar opinberar takmarkanir. 

Hallmundur Albertsson, lögmaður, hefur borið saman sóttvarnarráðstafanir á Norðurlöndunum, og skrifaði um þennan samanburð í Fréttablaðið 1. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Einangrun - er of langt gengið ?"

"Eins og sést á framangreindri umfjöllun er tímalengd einangrunar verulega meira íþyngjandi á Íslandi en í samanburðarlöndunum.  Upphaf einangrunar miðast við þann dag, þegar sjúkdómseinkenni koma fram í samanburðarlöndunum, en miðast við sýnatökudag á Íslandi. Þar getur munað nokkrum dögum.  Þá er tímalengd umtalsvert lengri. Undantekningarlaust skal sá, er greinist á Íslandi, sæta að lágmarki 14 daga einangrun frá sýnatökudegi, en sá frestur er 7-8 dagar frá því sjúkdómseinkenni komu fram í samanburðarlöndum.  Á Íslandi er gerð krafa um 7 einkennalausa daga, en 2-3 í samanburðarlöndunum.  

Á upplýsingasíðum sóttvarnayfirvalda á Íslandi er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því, af hverju frelsissvipting einstaklinga er umtalsvert lengri hér en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við og verður ekki haldið fram, að standi okkur að baki í þekkingu á læknisfræði. 

Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr 37/1993 er meðalhófsreglan lögfest.  Þar er kveðið á um, að stjórnvöld skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem stefnt er að, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Vart þarf að fjölyrða um, að frelsissvipting felur í sér skerðingu á helgustu mannréttindum einstaklinga, sem varin eru af 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu."

 Hér hefur lögmaður fært sannfærandi rök fyrir því, að sóttvarnayfirvöld hérlendis hafi með með óhóflega íþyngjandi og órökstuddum aðgerðum brotið lög landsins, Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.  Árangur aðgerðanna er ekki sjáanlegur með eitt hæsta nýgengi smita í Evrópu.  Fulltrúi Almannavarna gagnvart almenningi í þessum málum bítur svo höfuðið af skömminni, þegar hann bregst ókvæða við eðlilegri spurningu frá fréttamanni RÚV, sem útvarpað var á Gufunni í hádegi 11. október 2020, um bann við golfiðkun, með þeim útúrsnúningi, að hann skilji ekki umræðuna.  Er ekki löngu orðið tímabært, að Alþingi taki í tauma þessarar gandreiðar og stöðvi hana ?

Það er nefnilega hárrétt, sem Brynjar Níelsson, Alþingismaður, hefur haldið fram opinberlega, að þessi gandreið heilbrigðisyfirvalda með blessun ríkisstjórnar veldur meira tjóni en gagni.  Sú niðurstaða fæst líka, þegar mælikvarði heilsufars og mannslífa er lagður á verknaðinn, því að efnahagsafleiðingarnar og atvinnumissir, sem leitt hefur af ákvörðunum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar, hafa alvarlegar afleiðingar á heilsufar og lífslíkur fleira fólks en aðgerðirnar þyrma. Þess vegna má halda því fram, að yfirþyrmandi aðgerðir sóttvarnayfirvalda á Íslandi gegn þessari veiru, SARS-CoV-2, séu unnar fyrir gýg.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það sem sóttvarnalæknir og landlæknir eru að gera er stóralvarlegt. Þau eru að eyðileggja framtíð þúsunda ungmenna með heimskulegum og skammsýnum aðgerðum. Með því að vernda ekki gamla fólkið sérstaklega, sem er hópurinn sem er í raunverulegri hættu, eru þau að valda fjölda ótímabærra dauðsfalla meðal þess hóps næstu mánuði og ár. Og með því að þvinga þúsundir til atvinnuleysis valda þau dauða fjölda fólks.

Ábyrgð þessa fólks er mikil. Og það rís ekki undir henni.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.10.2020 kl. 17:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sammála þessu, Þorsteinn.  Þau beina kröftunum í ranga átt.  Þau hugsa mest um að hindra fullfrískt og hraust fólk í að taka sér það fyrir hendur, sem það helzt vill, en ættu að hafa yfirumsjón með sóttvörnum hinna, sem höllum fæti standa heilsufarslega.  Að loka sundlaugum og þrekstöðvum er atlaga að heilsufari almennings.  Við getum ekki búið við þessa rússíbanareið í allan vetur.  Við verðum að geta búið við um 100 smit á landinu á sólarhring af þessari veiru, sem gerir aðeins fáum mikið mein.  

Bjarni Jónsson, 16.10.2020 kl. 18:23

3 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir góða og málefnalega grein Bjarni. Það er grafalvarlegt mál þegar ríkisstjórn kemur sér hjá því að taka ákvarðanir og kemur sér hjá því að móta stefnu í sóttvarnarmálum, en stimplar bara upp á tillögur sóttvarnarlæknis sem er ekki ætlað að taka tillit til heildarhagsmuna. Góð sjónarmið sem þú færir fram fyrir því hvað vitlaus lokun landamæranna með tvöfaldri skimun var. En nú á enn að herða reglur án þess að málefnaleg rök séu færð fram fyrir þeim.

Jón Magnússon, 17.10.2020 kl. 07:58

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir umsögnina, Jón.  Það hefur komið fram opinberlega hjá nokkrum góðum lögmönnum, að þeir telja sóttvarnarlögin ekki heimila þær takmarkanir á persónufrelsi og atvinnufrelsi, sem ríkisstjórnin hefur efnt við með takmörkuðu samráði við Alþingi. Mér sýnist árangurinn afar takmarkaður, sem mætti útskýra með því, að fólk taki nú meiri áhættu af að smitast, af því að afleiðingarnar fyrir fæsta eru alvarlegar.  Af heimildum löggjafans leiðir, að sóttvarnaryfirvöldum og ríkisstjórn bar að höfða til ábyrgðartilfinningar almennings og sleppa flestum höftum, sem hér hefur verið beitt.  Sum haftanna hafa valdið hagkerfinu stórfelldu tjóni, og er þar krafan um tvöfalda landamæraskimun með 5 daga sóttkví afdrifaríkust.  Hvorki lýðheilsa né hagkerfi hefðu orðið fyrir tjóni af einfaldri skimun komufarþega, nema íbúa hérlendis, sem rétt er að sæti tvöfaldri skimun vegna hærri smitstuðuls en hjá almennu ferðafólki.  Ég tel yfirgnæfandi líkur á því, að barnaleg ofurtrú heilbrigðisyfirvalda á miðstýringu, sem er ekkert annað en ofstjórn, muni leiða til verri lýðheilsu en sú stefna að treysta borgurunum fyrir sóttvörnum sínum og annarra.  Þó ber að vernda viðkvæma hópa. Það ber að hvetja alla til að beita öllum ráðum til persónubundinna sóttvarna, virða nándarmörk, grímuskyldu, sótthreinsun, hreinlæti o.þ.h., en hér í fámenninu er engin knýjandi ástæða fyrir yfirvöld að fótumtroða réttindi borgaranna og valda efnahag einstaklinga, fjölda fyrirtækja og hins opinbera stórtjóni í ofanálag.  Við verðum að lifa með þessari veiru í a.m.k. 1 ár enn, kanski lengur, þá gengur ekki þessi barnalega bælingarstefna upp.  

Bjarni Jónsson, 17.10.2020 kl. 14:34

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir góða grein Bjarni. Tek undir kommentin.

Fólk er að missa allt. Fyrir hvað? Það er látið bíða eftir bóluefni við flensu sem drepur ekki fólk á besta aldri en hysterískar aðgerðir leiða hins vegar til fjöldagjaldþrota. Stjórnvöld munu ekki geta afsakað sig með fáfræði. 

Í mörgum fátækum löndum sem sluppu við PCR test hefur engin dáið úr veirunni / flensunni En þó á að bólusetja alla heimsbyggðina. Í 58 löndum hafa færri en 10 dáið úr veirunni. Íbúarnir eru 85 milljónir. Það gera 85 milljónir skammtar af bóluefni. 

í 26 löndum hafa á milli 11 og 49 látist en 230 milljónir bíða eftir bólefni. 

Benedikt Halldórsson, 17.10.2020 kl. 16:01

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Benedikt.  Tek undir með þér.  Yfirvöldin geta ekki afsakað lögbrot sín með neins konar neyðarrétti, t.d. af því að heilbrigðiskerfið sé að springa á limminu.  Ég geri ekki lítið úr því, að álagið þar sé mikið.  Þetta eru erfiðir tímar, en ríkisstjórnin magnar erfiðleikana og gerir lýðheilsunni í vetur mikinn óleik með öllum þeim höftum, sem sóttvarnaryfirvöldum dettur í hug að setja á.  Þótt smit komi upp á einni heilsuræktarstöð, á ekki að loka þeim öllum og sundlaugunum með, heldur að loka þessari einu um sinn og sótthreinsa hana og leyfa svo opnun.  Grímuskylda á heilsuræktarstöðvum er slæm, en samt engin goðgá og betri en lokun.  Skyldi smit hafa verið rakið til einhverrar sundlaugar ?  Þetta eru allt of tréhestalegar aðfarir, sem hafa slæm áhrif á lýðheilsuna.  Engum atvinnuhamlandi aðgerðum ætti að beita, nema í ýtrustu neyð, því að atvinnumissir núna í kreppunni er dauðans alvara.  

Bjarni Jónsson, 17.10.2020 kl. 17:35

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er gríðarlega mikilvægt þegar bæði yfirvöld og almenningur upp til hópa tapa týrunni að þeir sem halda henni dragi ekki af sér. Þið, Bjarni, Jón og Benedikt haldið uppi merki skynseminnar. Það eru ekki margir sem gera það, en það munar um hvern mann. Nú í kvöld bárust fréttir af stórum kosningasigri Verkamannaflokksins á Nýja-Sjálandi, sem hefur lagt efnahag landsins í rúst, valdið meira atvinnuleysi en dæmi eru um frá heimskreppunni, og náð þeim frábæra árangri í sóttvörnum að þar er dánarhlutfall fjórfalt það sem það er hérlendis. Og lögregluríkið mun komið á það stig að þar er fólk snúið niður, handjárnað og fangelsað sjáist til þess á götu án grímu. 

Galdrafárið á 17. öld stóð í yfir hundrað ár. Og það voru "allir" sammála, alveg eins og núna. Jafnvel virtustu vísindamenn á borð við Francis Bacon. Það sem öllu skipti var að vinna bug á galdranornunum. Raunveruleikinn var alveg hættur að skipta máli. Og þetta var svo sannarlega ekki í síðasta skiptið. Hvað er langt liðið frá fjöldamorðunum í Rúanda svo dæmi sé tekið?

Af einhverjum fáránlegum ástæðum hef ég samt enn trú á að fólk muni átta sig. Rétt eins og John Lennon: "You may call me a dreamer. But I'm not the only one". Hann var að vísu skotinn, en byssulöggjöfin er blessunarlega strangari hér en í BNAembarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 17.10.2020 kl. 23:31

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er engum blöðum um það að fletta, Þorsteinn, að hér hafa stjórnvöld farið offari.  Þau hafa ekkert tilefni til þess að fara fram úr heimildum sóttvarnarlaga, enda þyrfti þá atbeina þingsins til.  Það merkilega hefur gerzt hér, að stærstu prentmiðlarnir hafa "haldið sönsum" og birt leiðara fulla af efasemdum um hina opinberu sóttvarnarstefnu.  Sérstaklega hefur Fréttablaðið kveðið fast að orði, enda full ástæða til.  Prestarnir ærðu almenning af ótta hér áður fyrr, og nú hafa aðrir tekið það að sér, og er nóg af þeim.  Það verður ömurlegt fyrir ríkisstjórnarflokkana að ganga til kosninga með þjóðfélagið lamað af höftum yfirvalda og e.t.v. 25´000 á atvinnuleysisskrá.  Ríkisstjórnin verður að fara að taka sjálfstæða og vitræna afstöðu í stað þess að láta skeika að sköpuðu.  Hún ætti að byrja á því að losa um höftin á landamærunum þannig, að almennir ferðamenn frá löndum samþykktum af Schengen fari í einfalda skimun, en íbúar hérlendis og ferðamenn frá löndum, sem Schengen almennt hleypir ekki inn, fari í tvöfalda skimun og sóttkví á milli.  Þá er og lokun sundstaða, heilsuræktarstöðva og golfvalla, versta meinloka og styðst ekki við sóttvarnarlög. Við höfum orðið vitni að því, að stjórnlyndir stjórnmálamenn á stóli forsætis- og heilbrigðisráðherra hafa fótumtroðið réttindi borgaranna í heimildarleysi og látið hjá líða að leita skoðunar þingsins á gjörðum sínum.  Þetta er alvarlegt hættumerki fyrir þá, sem virða vilja lög og Stjórnarskrá landsins.

Hvað gerist á Íslandi, ef þar verður neyðarástand, t.d. af völdum mannskæðrar veiru á borð við ebólu-veiruna ? 

Bjarni Jónsson, 18.10.2020 kl. 10:44

9 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það er svo sannarlega ekkert gert til að draga úr óttanum og hysteríunni. Við eigum að bíða saman í samstöðu þar til bóluefni berst, um sjö hundruð þúsund skammtar eða hvað?

Í gamla daga var eldspýtustokkur stundum settur við hliðina á hlut sem fjallað var um. Hér fyrir neðan er kvarðinn leiðréttur með "eldspýtustokk" ef svo má segja. 

réttur kvarði

 

Benedikt Halldórsson, 18.10.2020 kl. 11:40

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er gert út á óttann, því miður.  Fyrsta frétt dag eftir dag er frétt um smitfjölda hér og þar og dánartölur.  Ég hef þó grun um, að andsefjun hafi þó átt sér stað hjá hluta íbúanna og það sé ástæðan fyrir "Þriðju" bylgjunni hér og því umfangi, sem hún hefur náð.  Sama má segja um Aðra bylgjuna erlendis.  Afleiðingar smits af SARS-CoV-2 eru ekki jafnalvarlegar og virtist í Fyrstu bylgju.  Það hefur áhrif á hegðun fólks m.t.t. sóttvarna, hvarvetna. 

Bjarni Jónsson, 18.10.2020 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband