Sóttvarnir

Það leikur vart á tveimur tungum, að hegðun borgaranna og persónubundnar mótvægisaðgerðir gegn smiti eru áhrifaríkustu sóttvarnirnar. Skipulag og framkoma vinnuveitenda og þjónustuveitenda leikur jafnframt lykilhlutverk í þessu samhengi sem og mörgum öðrum.  Meir orka hins vegar tvímælis boð og bönn yfirvalda í þessum efnum. Það er sammæli hérlendis, að við inngrip ríkisins í daglegt líf borgaranna eigi yfirvöld að hafa meðalhóf að leiðarljósi, enda ber þeim lagaskylda til þess.  Nauðsyn aðgerða og afleiðingar þeirra verður að vega og meta hverju sinni áður en hlaupið er til og skellt á íþyngjandi aðgerðum. 

Á þessu hefur orðið mikill misbrestur hjá sóttvarnaryfirvöldum og ríkisstjórn að sumra mati.  Öll hamlandi inngrip verður að vera hægt að styðja skýrum rökum og sýna fram á, að vægari inngrip muni verða ófullnægjandi, en þessu er ábótavant. Rökstuðningur sóttvarnaryfirvalda er reyndar í skötulíki, og þess vegna missa aðgerðir marks.

Þá má jafnvel halda því fram, að í þeim veirufaraldri (SARS-CoV-2), sem nú gengur yfir heimsbyggðina, séu inngrip yfirvalda hérlendis gagnslítil a.m.k. í samanburði við gallana (skerðing einstaklings- og athafnafrelsis) og kostnaðinn (ásamt tekjutapinu), sem af þeim leiðir. 

 Það er samt enginn vafi á því, að öflugs atbeina ríkisins er þörf nú, en þó í enn meiri mæli við enn skæðari drepsóttir en um ræðir núna, t.d. ef eitthvað álíka og ebóla gysi upp, þar sem dánarhlutfall sýktra var 40 % og dánarhlutfall á sjúkrahúsum var 60 %.  Við slíkar aðstæður er hyggilegast að loka landinu gagnvart fólksflutningum og reyna að útrýma slíkum vágesti, berist hann til landsins.  Nú eru uppi allt aðrar aðstæður, sem ekki eiga að útheimta neitt í líkingu við einangrun landsins og alls konar skerðingu athafnafrelsis.

Meirihluti sýktra af SARS-CoV-2-veirunni verður lítið var við sýkinguna, 2,3 % hafa lagzt inn á sjúkrahús hérlendis,og dánarhlutfall sýktra má áætla 0,17 % á Íslandi.  Dánarhlutfallið gæti reyndar verið að stefna niður fyrir 0,1 %, sem er þekkt hlutfall í þessum faraldri fyrir aldurshópinn 0-35 ára og er einnig þekkt sem meðaltal allra aldurshópa í flensufaröldrum. Dánarhlutfallið fer væntanlega lækkandi hérlendis með aukinni þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á þessum sjúkdómi og lyfjum, sem tekið er að beita gegn honum.

Ýmsar ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda eru þó áhrifaríkar til að hefta útbreiðslu og draga úr smittíðni.  Þar er aðallega um að ræða smitrakninguna, sóttkví og einangrun.  Þessum ráðum er hægt að beita til að beina nýgengi sjúkdómsins í átt að getu heilbrigðiskerfisins.  Heildarnýgengi pestarinnar hérlendis fór upp í rúmlega 308 17. október 2020 í Bylgju 3, sem er með því hæsta í Evrópu, en þrátt fyrir það voru þá aðeins 26 á sjúkrahúsi og 4 í gjörgæzlu.  Í Bylgju 3 hefur aðeins 1,5 % þeirra, sem trúlega hafa sýkzt, þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 0,16 % þarfnazt gjörgæzlu, og dánarhlutfallið er 0,02 %.  Þessi tiltölulega lágu hlutföll gefa ástæðu til að íhuga að hverfa frá núverandi bælingarstefnu og að taka upp stýrða vegferð að hjarðónæmi á u.þ.b. 30 vikum.  Margumrætt hjarðónæmi fæst ekki við einhvern fasta sem hlutfall íbúanna með áunnið ónæmi, heldur er hlutfallið breytilegt með smitþættinum.  Ef tekst að halda honum við 1,5, eins og Thor Aspelund taldi hann vera um miðjan október 2020, þá næst hjarðónæmi, þegar 33 % íbúanna hafa öðlazt ónæmi gegn veirunni, sem veldur C-19.

Sóttvarnaraðgerðir hérlendis hafa haft mjög íþyngjandi  áhrif á atvinnulífið, svo að ekki sé nú minnzt á hag ríkissjóðs og sveitarfélagasjóða.  Það hefur verið sýnt fram á austan hafs og vestan mjög mikil tengsl langvarandi atvinnumissis við dánarlíkur þeirra, sem missa vinnuna.  Þannig má á þriggja ára tímabili frá atvinnumissi reikna með 30 ótímabærum dauðsföllum í hverjum 1000 manna hópi, sem vinnuna missir.  Að meðreiknaðri landamæraaðgerðinni að tvískima alla komufarþega f.o.m. 19. ágúst 2020 með 5 sólarhringa sóttkví á milli er líklegt, að 5000 manns missi vinnu sína af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða á árinu 2020.  Það þýðir, að ótímabær dauðsföll af þessum völdum verða líklega um 150 á árunum 2020-2022. 

Þótt yfirvöld mundu fella niður seinni skimun á landamærunum fyrir erlenda komufarþega, en halda henni til streitu fyrir íbúa landsins í hópi komufarþega (vegna meints hærri smitstuðuls þeirra), og fella niður allar takmarkanir á löglegum athöfnum manna öðrum en sóttkví og einangrun, en halda öllum kröfum um persónubundnar sóttvarnir til streitu (fjarlægðarregla, gríma, handþvottur, sprittun), þá mundi heilbrigðiskerfið að öllum líkindum anna álaginu og heildardauðsföllum af völdum veirunnar og sóttvarna gegn henni mundi fækka.  Aðgerðir heilbrigðiskerfisins yrðu miklu minna íþyngjandi fyrir atvinnulífið en nú er, og viðspyrna hagkerfisins mundi þá að langmestu leyti markast af ástandinu erlendis.  Mestur dragbítur í þeim efnum er hindrun Schengen-stjórnarinnar á för fólks frá flestum ríkjum utan Schengen inn á Schengen-svæðið. Þetta hefur auðvitað fækkað ferðamönnum mikið í Schengen-löndunum, og því miður hillir ekki enn undir stefnubreytingu í þessum efnum, þótt tvískima mætti þá, þar til almennt leyfi fæst fyrir þá inn á Schengen-svæðið.

Ríkisstjórn og sóttvarnaryfirvöld eiga sér fjölmarga gagnrýnendur, því að það blasir nú við, að bælingarstefna stjórnvalda er endileysa, hún leiðir yfir landsmenn hverja bylgjuna af sóttinni á fætur annarri, og heildaráhrif sóttvarnaraðgerðanna leiða til ofboðslegs tekjutaps og kostnaðar fyrir landsmenn, ekki sízt skattgreiðendur framtíðarinnar.  Þetta er algerlega óábyrgt fyrirkomulag, þegar annað betra býðst.  Hörður Ægisson skefur ekki utan af því frekar en fyrri daginn í leiðara Fréttablaðsins 9. október 2020:

"Versta stefnan":

"Það ætlar að reynast stjórnvöldum erfitt að viðurkenna þau afdrifaríku mistök, sem gerð hafa verið, og meta stöðuna upp á nýtt áður en tjónið verður enn meira.  Ráðstafanir, sem nú hefur verið gripið til, með því að stöðva nánast alla starfsemi í samfélaginu um ófyrirséðan tíma, eru bein afleiðing af lokunarstefnu Skimunarmeistarans, sem þríeykið studdi og ríkisstjórnin innleiddi, sem taldi fólki trú um, að hægt yrði að lifa næsta veirufríu og eðlilegu lífi innanlands með því einu að halda útlendingum frá landinu.  Það reyndist della.  Almenningur hélt, að minni hætta væri á smiti - þegar hún var í reynd óbreytt og magnaðist síðar upp - eftir að hafa fengið skýr skilaboð um það frá stjórnvöldum."  

Nú er komið í ljós, hvaða aðferðum sóttvarnarlæknir beitir stjórnvöld til að hafa sitt fram.  Hann málar skrattann á vegginn. Þetta sást í grein "þríeykisins" í Fréttablaðinu 15. október 2020, sem farið verður í saumana á hér á vefsetrinu síðar. Ef stjórnvöld ekki fari að tillögum hans, þá verði hér óheft fjölgun smita með voveiflegum afleiðingum, hruni sjúkrahúsþjónustunnar og hundruðum dauðsfalla.  Þetta er fyrir neðan allar hellur. 

Jákvæð áhrif af takmörkunum á athafnafrelsi fólks virðast vera stórlega ofmetin, en neikvæðu áhrifin eru gríðarleg á réttindi einstaklinganna, fjárhag þeirra og heilsufar.  Stjórnvöldum ber skylda til að meta ítarlega neikvæðu afleiðingarnar af tillögum sóttvarnarlæknis á móti hinum jákvæðu áður en þær eru afgreiddar af heilbrigðisráðherra og samþykktar af ríkisstjórn.  Það skal ítreka hér, að það eru einstaklingsbundnu sóttvarnirnar, sem öllu skipta til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Borgararnir þurfa að finna til ábyrgðar sinnar og finna, að þeim sé treyst fyrir öryggi sínu og meðborgaranna.  Það er bezta og áhrifaríkasta veiruvörnin. Lokanir og skerðingar á persónufrelsi standa lagalega á veikum stoðum, eru dýrkeyptar og óskilvirkar. 

 Annar maður, Jón Þórisson, skrifaði ekki síður athyglisverðan leiðara í Fréttablaðið 10. október 2020.  Sá bar fyrirsögnina:

"Úr lausu lofti",

og hófst þannig:

"Ein sú mest íþyngjandi ráðstöfun, sem gripið er til í samfélagi manna, er að svipta þá frelsi sínu. Til þess þurfa að liggja ríkar ástæður, og ákvörðunin þarf að styðjast við skýr lagafyrirmæli. 

Um þessar mundir eru þúsundir manna sviptir frelsinu hérlendis og þeim skipað í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga.  Að auki hefur frelsi hinna verið stórkostlega skert með því að setja fjöldamörk á samkomur, mæla fyrir um lágmarksfjarlægð á milli fólks, banna eða takmarka ýmiss konar starfsemi, svo sem íþróttastarfsemi og veitingahúsarekstur og tilmæli um að halda sig í heimahögum. Þá er ónefnt það misráð að loka landamærum. 

Allt setur þetta líf okkar úr skorðum, sem var þó nægjanlega úr lagi gengið fyrir.  Sumir hafa misst lífsviðurværi sitt að hluta eða öllu leyti, og ótti og kvíði grefur um sig. 

Þessar aðgerðir eru byggðar á minnisblöðum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra, sem eftir atvikum ræðir þær í ríkisstjórn áður en þær öðlast gildi stjórnvaldsfyrirmæla.  Einhver misbrestur hefur þó orðið á því síðastnefnda undanfarið. 

Við trúum því, að nauðsynlegt sé að berjast gegn eyðandi afli vágestsins, en höfum gripið til svo stórtækra viðbragða að líkja má við, að meðalið eyðileggi nú meira en því var ætlað að lækna."

Það eru vísbendingar um, að þessar frelsissviptingar yfirvalda, sem þarna eru tíundaðar, hafi lítil áhrif á nýgengi smita.  Þar með fellur lagalegur grundvöllur algerlega undan þessum aðgerðum, sem haft hafa íþyngjandi áhrif á mjög marga íbúa landsins og í heildina alvarleg efnahagsleg áhrif. 

Réttast er að afnema allar núverandi takmarkanir á athafnafrelsi fólks, en halda fast í almenna grímuskyldu, nándartakmörkun, tíðan handþvott, eins og kostur er, og sprittun, þar sem nokkrir koma saman.  Þar sem hópsmit koma upp, ber að loka um stundarsakir , sótthreinsa og rótargreina smitin.  Halda ber áfram smitrakningu og beitingu sóttkvíar.  Á landamærunum verði einföld skimun fyrir komufarþega, nema íbúar hérlendis sæti áfram tvöfaldri skimun og sóttkví. 

 

Að lokum verður hér vitnað til annars meginprentmiðils, sem af hógværð hefur gagnrýnt núverandi bælingarstefnu sóttvarnaryfirvalda.  Forystugreinin þar 9. október 2020 hét:

"Vantar alvöruleiðsögn".

"En vandinn  við aðferðina [sóttvarnaryfirvalda-innsk. BJo], sem við höfum ekki komizt fyrir, er, að við erum ekki ein í heiminum.  Felist okkar veirusigur í því, að einungis lítið sýnishorn af landsmönnum hafi komið sér upp virku mótvægi gegn henni, þá er það gott og blessað.  Það er að segja, ef við erum ein í heiminum.

Það þurfti ekki nema örfáa knáa skíðagarpa, sem komu meira eða minna úr sömu brekkunni, til að setja allt á hvolf hér.  

Ef við náum því í næstu viku að koma smitum aftur niður í núll, þá er eins gott, að umheimurinn láti okkur í friði um langa framtíð.  En það er ekki víst, að hann muni gera það.  Og hvað gerum við þá ?  Skellum við þá sjálf í lás, eins og umheimurinn gerði fyrir okkur síðast og bíðum eftir bóluefni ?  Og þá með hvaða afleiðingum ?"

Það er löngu tímabært, að s.k. stjórnvöld í þessu landi sýni í verki, að þau hafi völdin og valdi þeirri ábyrgð, sem völdunum fylgir, en séu ekki gúmmístimpill af ódýrustu gerð fyrir embættismenn.  

  

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

5. september 2020. Tvöföld skimun á landamærum hafi skilað ótvíræðum árangri

 

island araangur

"...að tvískima alla komufarþega f.o.m. 19. ágúst 2020 með 5 sólarhringa sóttkví á milli er líklegt, að 5000 manns missi vinnu sína af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða á árinu 2020. Það þýðir, að ótímabær dauðsföll af þessum völdum verða líklega um 150 á árunum 2020-2022."

Benedikt Halldórsson, 21.10.2020 kl. 15:25

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stóri vandinn er kannski að þarflausar og árangurslausar ráðstafanir yfirvalda njóta ótvíræðs stuðnings 90% þjóðarinnar. 

Þorsteinn Siglaugsson, 21.10.2020 kl. 17:42

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er gamla sagan, Þorsteinn, sameiginlegur óvinur og skefjalaus áróður úr öllum áttum, þótt kórinn sé hjáróma, er uppskrift að almennum stuðningi við stríðsreksturinn.  Þegar afleiðingar stríðsins hins vegar verða lýðum ljósar, þá breytast viðhorfin.  

Stríðsreksturinn er nú þegar haltrandi, og yfirvöldin vita ekki í hvora löppina á að stíga.  Síðasta svakalega dæmið er að senda hundruði barna í sóttkví.  Þá er það golfvallarvitleysan og sundlaugarnar.  Stríðsrekstur ofstjórnar er dýrkeyptur og árangurslítill, nánast árangurslaus.  

Bjarni Jónsson, 21.10.2020 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband