Vogarskálar, veiran og lögin

Ýmsir hérlendir lögmenn hafa tjáð sig í þá veru, að tillögur sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra, sem sá ráðherra virðist hingað til hafa gleypt með húð og hári og breytt í reglugerð, oftast með samþykki ríkisstjórnar, skorti nauðsynlega lagastoð og stangist í sumum tilvikum á við Stjórnarskrá.  Þetta er gjörsamlega óviðunandi og þarf að fá úr skorið sem fyrst. Ekki er nóg að boða framlagningu frumvarps um ný sóttvarnarlög.  Ákvæðum Stjórnarskrár um persónubundin réttindi og athafnafrelsi verður ekki breytt. Aðgerðirnar núna verða að vera reistar á núverandi löggjöf, og um það eru uppi alvarlegar athugasemdir.  Sóttvarnaryfirvöld hafa aldrei sýnt fram á, að aðgerðir þeirra séu nauðsynlegar, þ.e. að vægari aðgerðir hefðu ekki dugað til að koma í veg fyrir oflestun heilbrigðiskerfisins. Bælingarstefnan, þ.e. afar íþyngjandi aðgerðir til að þvinga smitstuðulinn langt undir 1,0, hafa verri aukaverkanir en nemur gagnseminni. 

Stjórnvöld ættu nú að sjá að sér og íhuga stefnubreytingu í sóttvörnum gegn SARS-CoV-2.  Stefnan hefur hingað til miðað við bælingu, sem krefst stjórnvaldsaðgerða, sem skortir lagastoð og hefur alvarlegar lýðheilsulegar afleiðingar í för með sér, svo að ekki sé nú minnzt á gríðarlegt fjárhagstjón af völdum harkalegra hafta. Bælingarstefnan mun leiða af sér hverja bylgju faraldursins á eftir annarri, þar til nothæft bóluefni er tiltækt almenningi, og það getur dregizt á langinn, e.t.v. til 2022. Bælingarstefnan getur átt við skæðar drepsóttir, þar sem reynt er að útrýma sóttkveikjunni, en á ekki við C-19 í sinni núverandi mynd.   

Nýju sóttvarnarstefnuna ætti að reisa á stýrðri leið til hjarðónæmis.  Á 30 vikum verður þá hægt að ná hjarðónæmi hérlendis, sem dugir til að fækka smitum verulega og koma Íslandi á s.k. grænt svæði, þar sem nýgengi smita er undir 25.  Nú hefur pestin geisað í þremur bylgjum í rúmlega 30 vikur, og nýgengi smita innanlands og á landamærum fór yfir 300, þrátt fyrir umfangsmikil ferða- og athafnahöft. Sumir mundu kalla þetta falleinkunn fyrir bælingarstefnuna.  

Til að sýna á hversu veikum lagalegum grunni höft heilbrigðisráðherra á starfsemi fyrirtækja og háttarlag einstaklinga standa, er nóg að vitna til greinarkorns Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu 17. október 2020, sem hann nefndi:

"Fyrirmæli eða tilmæli".

"Ástæða er til að vekja athygli manna á, að yfirvöld í landinu hafa afar takmarkaðar heimildir til að stjórna háttsemi manna í veirufárinu með valdboði.  Í sóttvarnarlögum er ekki að finna víðtækar heimildir til slíks. Reyndar er í ýmsum tilvikum vafasamt, að stjórnvöld gætu skert stjórnarskrárvarin réttindi manna með bindandi fyrirmælum til almennings, þó að styddust við sett lög.  Til slíkra fyrirmæla þarf heimildir í stjórnarskránni sjálfri."

Sóttvarnaryfirvöld hafa ekki haldið aftur af sér við útgáfu fyrirmæla, sem sum hafa haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið og eru líkleg til að hafa mjög neikvæð áhrif á lýðheilsu, er frá líður.  Mörg fyrirmælanna skerða bæði atvinnufrelsi og persónufrelsi. Það er allsendis óvíst, að fyrirmælin í reglugerðunum hafi verið nauðsynleg eða skilað meiri árangri en brýningar og tilmæli hefðu gert. 

Vegna þess hvernig í pottinn er búið með heimildir löggjafans, bar framkvæmdavaldinu þegar í upphafi að leggja áherzlu á meðalhóf í fyrirmælum og persónubundnar sóttvarnir fremur en almennar takmarkanir og lokanir.  Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir geta ekki talizt úr hófi íþyngjandi. 

Sóttkví er íþyngjandi skerðing á persónufrelsi og ber þess vegna að beita í meðalhófi, en sé henni beitt markvisst, er hún mjög áhrifarík aðferð til að hemja útbreiðslu og lækka meðalsmitstuðulinn, sem er höfuðatriðið í þessari baráttu. 

Áfram hélt Jón Steinar Gunnlaugsson:

 "Það er auðvitað sjálfsagt, að yfirvöld heilbrigðismála beiti tilmælum til borgaranna um æskilega hegðun þeirra við þessar aðstæður.  Það er líka sjálfsagt fyrir almenning að fara að þessum tilmælum í flestum tilvikum, því að öll viljum við takmarka útbreiðslu þessa vágests, sem veiran er.  Við ættum samt að hafa í huga, að ábyrgðin er okkar sjálfra.  Ef t.d. stjórnarráðið gæfi mér fyrirmæli um að halda mig í 2 m fjarlægð frá eiginkonunni, myndi ég ekki hlíta því.  Skítt með veiruna."

Það má taka undir það, að borgararnir eru sjálfir ábyrgir fyrir öryggi sínu og þeirra, sem í kringum þá eru.  Þeir verða sjálfir að vega og meta, hvað er einfaldlega of íþyngjandi fyrir þá, en ráðleggingar sóttvarnayfirvalda um persónubundnar varnir eiga fullan rétt á sér.  Það veikir hins vegar mjög fyrirmælin í reglugerðunum, að löggjafinn virðist ekki hafa veitt heimildir til íþyngjandi fyrirmæla.  Þeim mun undarlegra er, að aðkoma þingmanna virðist vera af skornum skammti.  Í Noregi er áskilið, að Stórþingið fjalli um frelsistakmarkanir almennings og ljái þeim lögmæti.  

Þann 15. október 2020 birtist í Fréttablaðinu grein, sem "þríeykið", Alma D. Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason, er skrifað fyrir.  Hún bar fyrirsögnina:

"Vogarskálar veirunnar og lýðheilsa".

Grein þessi virðist á yfirborðinu vera málefnaleg, en hún er í raun mjög gagnrýniverð, því að hún einkennist um of af hræðsluáróðri gegn þeirri leið, sem ein getur leitt til varanlegs árangurs í baráttunni, en það er leið stýrðs hjarðónæmis.  Þau gefa sér, að eina leið hjarðónæmis sé hömlulaus vöxtur smita með mjög háum smitstuðli og að hjarðónæmi náist ekki fyrr en 60 % íbúanna hafi smitazt.  Þetta heitir að mála skrattann á vegginn.  Með áherzlu á persónubundnar smitvarnir, nándarmörk, grímuskyldu, sótthreinsun og þvott ásamt markvissri beitingu smitrakningar og sóttkvía, en án annarra takmarkana á persónufrelsi og án takmarkana á atvinnufrelsi, nema allt annað hafi verið reynt, má væntanlega halda smitþættinum undir eða við 1,5, og þá næst hjarðónæmi við ónæmi 33 % íbúanna. Ef tekinn yrði álíka tími í að ná þessu marki og tekið hefur að ná fram ónæmi 2 % íbúanna hingað til, um 30 vikur, þá verður fórnarkostnaðurinn enginn, þ.e. færri munu látast af völdum C-19 en af afleiðingum bælingarstefnunnar á hagkerfið og vinnumarkaðinn.

Verður nú vitnað í grein "þríeykisins":

"Það er mat okkar, að fórnarkostnaður við leið hjarðónæmis verði allt of hár, eins og rakið verður.  Álit okkar er, að bezt sé að halda áfram aðgerðum við að halda veirunni í skefjum, en með sem minnstri röskun á deglegu lífi, þar til bóluefni er fram komið.  Annað, sem vinnst við að þreyja þorrann, er að þekking á meðferð og sjúkdómnum eykst, m.a. á langtímaáhrifum.  Þá er hugsanlegt, að veiran veikist með tímanum líkt og gerðist í spænsku veikinni, þó [að] enn séu engin merki um slíkt."

Þessi málflutningur er reistur á röngum forsendum og draumórum.  Þau nota tölfræði úr "Bylgju 1" á Íslandi, en tölfræði "Bylgju 2-3" gefur allt aðra og sakleysislegri niðurstöðu.  Það hlýtur að vera réttara að nota nýjustu gögn.  Það er óráðlegt að búast við nothæfu, öruggu, varanlegu, og skilvirku bóluefni á einhverjum tilgreindum tíma á næsta ári.  Þegar slíkt kemur, verður það til að létta róðurinn, hvor leiðin sem valin er.  Sama má segja um stefnuna, sem stökkbreytingar veirunnar kunna að taka.

Nú verða bornar saman tölur úr 2.-3. bylgju og 1. bylgju.  Tölur úr 1. bylgju eru úr grein "þríeykisins" og eru hafðar í sviga:  

Í 2.-3. bylgju fram til 18.10.2020 greindust 2255 (1800) með veiruprófi.  Þá má reikna með, að 8000 manns eða 2,2 % (1,0 %) íbúanna búi að mótefni m.v. niðurstöður mótefnamælinga eftir 1. bylgju.  Af hópi greindra í 2.-3. bylgju höfðu 18.10.2020 64 (115) verið lagðir inn á sjúkrahús eða 1,5 % (3,2 %).  Í 2.-3 bylgju hafa hafa 7 (30) þarfnazt meðferðar gjörgæzludeildar eða 0,16 % (0,8 %), og 1 (10) hefur látizt eða 0,02 % (0,3 %). 

Það má halda því fram, að himinn og haf sé á milli hlutfallstalnanna í síðustu tveimur bylgjum m.v. þá fyrstu.  Þess vegna fæst gjörólík niðurstaða, þegar reynt er að áætla líklega þróun faraldursins, ef létt verður á samfélagshöftum til að beina þróuninni með stýrðum hætti í átt að hjarðónæmi, svo að ekki sé nú minnzt á svartnættið, sem "þríeykið" dregur upp af því öfgaástandi, sem gæti myndazt, ef engar varúðarráðstafanir eru viðhafðar.  Þar málar "þríeykið" skrattann á vegginn í því skyni að verja bælingarstefnu sína, sem er árangurslaus haftastefna, sem við höfum ekki ráð á.  Hún er árangurslaus, af því að hún veldur meira tjóni en sparnaði á alla mælikvarða, þ.e. lýðheilsu, fjölda dauðsfalla og efnahag landsmanna.

Þríeykinu verður starsýnt í baksýnisspegilinn, en slíkt háttarlag getur leitt til rangra ályktana og rangra ákvarðana: 

 "Þegar farsóttin skall á, var samstaða um að verja nauðsynlega innviði, ekki sízt heilbrigðiskerfið, og vernda viðkvæma hópa.  Árangur Íslands byggði á víðtækum aðgerðum: upplýsingum til almennings [mjög mikilvægt-innsk. BJo], áherzlu á einstaklingsbundnar sóttvarnir [lykilatriði, þó vantaði grímuskyldu-innsk. BJo], snemmgreiningu og einangrun sýktra [mjög mikilvægt-innsk.BJo], markvissu eftirliti ásamt snemmtækri íhlutun við versnun veikinda [lykilatriði til að draga úr sjúkrahússálagi-innsk. BJo], smitrakningu [mikilvægt hjálpartæki-innsk.BJo], beitingu sóttkvíar [mjög mikilvægt, en gæta verður meðalhófs] og samfélagslegum aðgerðum [margar þeirra orka tvímælis-innsk.BJo]. Samfélagslegar aðgerðir fólu í sér heimsóknabann á hjúkrunarheimilum [nauðsynlegt-innsk.BJo], samkomutakmarkanir [orka tvímælis-innsk. BJo], lokun mennta- og háskóla [of langt gengið-innsk. BJo], lokun þjónustu með mikilli nánd [of langt gengið-innsk. BJo] og takmörkun á annarri, en nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu [þetta gengur ekki til lengdar-innsk.BJo]. 

Ein misráðin aðgerð er ónefnd hér, en hún er sú að skylda alla komufarþega til landsins í tvöfalda skimun með um 5 sólarhringa sóttkví á milli.  Aðgerðin hafði lítil sóttvarnarleg áhrif (tiltölulega lágur smitstuðull almenns ferðafólks), en olli miklum tekjumissi ferðageirans (a.m.k. 70 %) og atvinnumissi þúsunda manna.  Nauðsynlegt og nægjanlegt er að skima erlenda ferðamenn einu sinni við komuna vegna smitstuðuls, sem vart er hærri en 1, og að skima íbúa hérlendis tvisvar með sóttkví á milli vegna tiltölulega hás smitstuðuls þeirra. 

Lýðheilsuáhrifin af almennri tvöfaldri skimun geta orðið slæm og miklu verri en ávinningurinn.  Rannsóknir hafa sýnt, að langtímaatvinnuleysi veldur fjölda ótímabærra dauðsfalla, jafnvel 30 á þriggja ára tímabili fyrir hverja 1000, sem missa vinnuna.

"Þríeykið" viðurkennir hættuna á slæmum langtímaáhrifum sóttvarnaraðgerða á lýðheilsuna, en neitar að horfast í augu við, að sú áhætta mælir með að feta brautina að hjarðónæmi með stýrðum hætti, t.d. á um 30 vikum:

"Þótt áhrif sóttvarnaraðgerða hérlendis á lýðheilsu virðist væg til skemmri tíma litið, er ástæða til að óttast langtímaáhrif, ef ástandið dregst.  Áhrif sóttvarnaraðgerða á lýðheilsu eru ekki þekkt, en gætu hugsanlega verið verri heilsuhegðun, t.d. minni hreyfing og svefn, verra mataræði og aukin streita og minni heilbrigðisþjónusta, ef minnka þarf framboð þjónustu og/eða fólk veigrar sér við að leita þjónustu. Fleiri afleiðingar gætu verið aukin félagsleg einangrun og einmanaleiki, ofbeldi, kvíði og áhyggjur.  Þá gæti meira atvinnuleysi og fátækt valdið neikvæðum afleiðingum fyrir heilsu og líðan.  Það getur hins vegar reynzt erfitt að greina áhrif sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu frá beinum áhrifum faraldursins."

Það er vitað um aukningu atvinnuleysis á Íslandi í ágúst 2020, um 3000 manns, og hún varð nær einvörðungu vegna snarfækkunar ferðamanna til landsins og afbókana í kjölfar innleiðingar tvöfaldrar skimunar allra komufarþega og um 5 sólarhringa sóttkvíar á milli, sem illu heilli var innleidd hér 19. ágúst 2020 sem einn af valkostum (ekki tillaga) sóttvarnarlæknis. Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn völdu þennan valkost, af því að hann hefði mestu sóttvarnaráhrifin, en virðast ekki hafa gefið nægan gaum að öfgakenndum neikvæðum tekjuáhrifum, víðtækum atvinnumissi og neikvæðum lýðheilsuáhrifum.  Með öðrum orðum: illa ígrunduð ákvörðun.

Það er hald sumra innan ferðageirans, að þessi ákvörðun valdi því, að 5000 manns missi atvinnu sína á þessu ári.  Hversu lengi veit enginn, en langtímaáhrifin eru geigvænleg á heilsufar þessa fólks, ef marka má rannsóknir á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.  Á næstu 3 árum gætu 150 manns misst lífið hérlendis af völdum hjartasjúkdóma, heilablóðfalls og andlegrar örmögnunar.  Fjölgun dauðsfalla á leið til hjarðónæmis með stýrðum hætti yrði innan við 1/10 af þessu mannfalli, eins og fram kemur síðar í þessum pistli. 

Þegar "þríeykið" fer síðan að skrifa um "Leið hjarðónæmis", fer það algerlega út af sporinu.  Það kveður smitstuðul veirunnar vera talinn 2,5-6,0, en samkvæmt https://plus.maths.org er hann 2,25-2,50. Síðan skrifa þau, að sé smitstuðullinn 2,5, þurfi 60 % þjóðarinnar að smitast til að hjarðónæmi náist.  Í viðtali við dr Thor Aspelund, prófessor, mætan líftölfræðing, sem rýnt hefur í þróun líklegs smitstuðuls með sínu samstarfsfólki, taldi hann um miðjan október 2020, að smitstuðullinn væri kominn niður í 1,5.  Ef tækist að halda honum þar að jafnaði, næðist hjarðónæmi, þegar 33 % íbúa hafa öðlazt ónæmi gegn SARS-CoV-2.  Nú verður þessi leið rakin, og tölur "þríeykisins" settar í sviga á eftir, en þar er satt bezt að segja hrollvekja sett á svið:  

Ef 33 % (60 %) þjóðarinnar eða 86 k (k=þús) (219 k) sýkist, þá gætu 1290 (7000) þarfnazt innlagnar á sjúkrahús, 138 (1750) þarfnazt gjörgæzlu og 17 (660) látizt m.v. hlutfallstölur úr bylgju 2-3. Forsenda  hryllingsmyndar "þríeykisins" er, að veiran fái að valsa um þjóðfélagið næstum óáreitt (hár smitsuðull), en það er ekki stýrð leið að hjarðónæmi.  Þar er grímuskylda, strangar persónubundnar sóttvarnir, smitrakning, sóttkví og tímabundin lokun staða, þar sem hópsmit hafa smyndazt, en annars losað um athafnahöftin, nema í neyðir reki.  Þetta mundi þýða mikið álag á heilbrigðiskerfið í a.m.k. 30 vikur, en ekki ofálag.

Hámarki nær hræðsluáróður "þríeykisins" með því að gera grein fyrir öfgasviðsmynd án persónubundinna sóttvarna og nándartakmörkunar.  Hún getur verið fræðilega áhugaverð, en eru nokkrir talsmenn hennar ?  Hún er hins vegar vel til þess fallin að skjóta fólki skelk í bringu, svo að það meðtaki bælingarstefnuna gagnrýnislítið:

"Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt, er augljóst, að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur [sýktra, innlagðra og látinna-innsk. BJo] yrðu mun hærri.  

Í nýju finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 k smitum næstu 2,5 mánuði hérlendis, ef engar sóttvarnaraðgerðir væru í gangi, og myndu allt að 3 k einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember.  Hafa þarf þetta í huga, þegar sóttvarnarráðstafanir verða ákveðnar næstu mánuði."

Í þessari dökku sýn myndu 1170 manns smitast daglega að jafnaði, og um 18 innlagnir yrðu daglega á sjúkrahús.  Heilbrigðiskerfið mundi alls ekki ráða við þennan fjölda.  Þess vegna má alls ekki slaka á persónubundnum sóttvörnum.  Smitrakningin er líka öflugt tæki, og í raun er hægt að stýra þróun faraldursins í nokkrum mæli með sóttkvíum á grundvelli smitrakninga.  Allt of langt er gengið með því að hneppa börn í sóttkví, því að smitstuðull þeirra er lágur, jafnvel undir 1,0.  Með því að afnema athafnahöft og ferðahömlur, nema sóttkvína, en viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum, má stýra smittíðninni að u.þ.b. 40 % af þeirri óheftu og ná hjarðónæmi (33 %) á um 30 vikum. 

 

Næst tók "þríeykið" sér fyrir hendur að reifa yfirlýsingu "Great Burlington" hópsins.  Það er hópur lækna og faraldursfræðinga, sem telur lýðheilsu stefnt í voða með bælingarstefnunni og samfélagslegan kostnað verða miklu hærri en ávinninginn af sóttvörnunum.  Þannig muni fleiri látast af völdum bælingarstefnunnar en hún bjargar.  "Great Burlington" hópurinn mælir þess vegna með stýrðri leið til hjarðónæmis.  

Síðan skrifar "þríeykið": 

"Í þessari nálgun væri gert ráð fyrir, að ungt fólk fengi að lifa eðlilegu lífi.  Það gætti einstaklingsbundinna sóttvarna, skólar yrðu opnir og íþróttir leyfðar.  Veitingahús og öll þjónusta sem og menningartengdir viðburðir héldu áfram."

Síðan skrifa þau, að grípa hafi þurft til hertra aðgerða í 3. bylgjunni "til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið".  Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun.  Dagleg smit urðu flest 08.10.2020 106 talsins, og nýgengið varð hæst 9 sólarhringum síðar, 308,4, og hefur víða orðið hærra án þess, að heilbrigðiskerfið færi að þolmörkum. Sjúklingafjöldinn náði hámarki 19.10.2020, 1252.  Á sjúkrahúsum voru hins vegar flestir 27 talsins þann 18.10.2020 á tímabilinu, sem var til athugunar, og á gjörgæzlu voru flestir 4 15.-17.10.2020.  Þessar tölur benda ekki til, að nærri hafi legið, að þolmörkum heilbrigðiskerfisins væri náð.  Það verður hægt að feta stýrða leið að hjarðónæmi án þess að oflesta heilbrigðiskerfið. Þar verður hægt að færa starfsemina nær venjulegu horfi, sem er afar brýnt, að náðu hjarðónæmi. 

Að lokum skal tilgreina hér 4 liði, sem "þríeykið" telur nauðsynlegt að halda áfram með.  Höfundur þessa vefpistils er sammála þeim öllum og telur, að þessi atriði varði einmitt stýrða leið (meðalsmitstuðull 1,5) að ónæmi þriðjungs þjóðarinnar, sem þá virkar sem hjarðónæmi:

  1. "Einstaklingsbundnar sóttvarnir; nándartakmörk, handhreinsun, grímunotkun, sótthreinsun snertiflata og að vera heima/sækjast eftir sýnatöku við einkenni, sem samræmast COVID-19.
  2. Vernd þeirra, sem tilheyra áhættuhópum.
  3. Vandaða og samræmda upplýsingamiðlun.
  4. Snörp viðbrögð, þegar upp koma smit; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi staðbundnum aðgerðum, eins og þarf. "

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Strax í upphafi slógu nokkur fyrirtæki saman og keyptu talsvert af öndunarvélum. Nú eru til einhverjir tugir öndunarvéla. Þessar vélar eru raunverulegi flöskuhálsinn. Annað er allt leysanlegt. Það er nóg til af aðgerðalausu fólki, þökk sé aðgerðum stjórnvalda á landamærum, það er nægt hótelrými og hægt að leysa fráflæðisvanda spítalans þannig.

Þegar 30-40 verða komnir á öndunarvél í einu er kannski hægt að fara að tala um afkastagetu heilbrigðiskerfisins, ekki meðan það eru 2-3. Þetta er augljóst.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.10.2020 kl. 11:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Eftir Landakotsáfallið eru 50 á sjúkrahúsi, en aðeins 3 í gjörgæzlu, þrátt fyrir háan aldur margra sjúklinganna. Sjúklingum hefur fækkað undanfarna daga, þrátt fyrir þetta hópsmit.  Samt var spítalinn settur í neyðarham, væntanlega vegna fjölda starfsfólks í sóttkví.  Allt valkvætt verður nú undan að láta.  Það verða ljótu biðlistarnir, þegar þessari bylgju lýkur, og þá er líklegt, að sú 4. ríði yfir um jól og áramót.

Bjarni Jónsson, 26.10.2020 kl. 17:17

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það er ekkert sem réttlætir viðbrögðin við veiru sem er í rénun. Eða, eigum við að trúa því, að ekki sé samhengi milli þess hversu margir veikjast og hversu margir deyja? Þótt "tilfellinn" fari úr 100 þúsund á dag, í 400 þúsund, breytir það litlu sem engu.  

case og dauði

Benedikt Halldórsson, 27.10.2020 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband