Aukið rekstraröryggi laxeldis í sjókvíum

Það er leitun að jafnefnilegri útflutningsgrein á Íslandi um þessar mundir og laxeldi.  Að megninu til er það um allan heim stundað í sjókvíum, en í haust bárust óvænt og ánægjuleg tíðindi af því, að Samherji væri að rannsaka fýsileika þess að kaupa kerskálana í Helguvík á Suðurnesjum af Norðuráli og breyta þeim í fiskeldisskála, líklega aðallega fyrir laxeldi.  Tæknilega virkar það spennandi hugmynd, ef viðskiptahliðin reynist vera arðbær, en kostnaður hefur staðið landeldi fyrir þrifum.  

Laxeldi úti fyrir Íslandsströndum býr við ótrúlega tilfinningaþrunginn og á köflum ofstækisfullan andróður á opinberum vettvangi, sem stundum má jafnvel flokka undir atvinnuróg. Einkennandi fyrir málflutninginn eru dylgjur og órökstuddar fullyrðingar eða jafnvel frásagnir um atburði erlendis, sem almennur lesandi á Íslandi hefur varla tíma til að sannreyna.  Gagnrýnin er aðallega af fernum toga:

1) Að hætta sé á erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn, sem er annað afbrigði Norður-Atlantshafslaxins, en norskrar ættar.  Þessi hætta er útbásúnuð, en það er búinn til úlfaldi úr mýflugu, og enn hefur ekki frétzt neitt um, að blendingar íslenzkra stofna og eldislaxins hafi fundizt. Með erfðarannsóknum er þó hægt að ganga úr skugga um þetta.  Þótt eldislax sleppi, þá er ólíklegt, að honum takist að eignast lifandi afkvæmi í íslenzkum ám, og mjög ólíklegt, að slíku fyrirbrigði yrði langra lífdaga auðið. 

2) Að úrgangur frá eldiskerum skaði lífríki eldisfjarða.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, eftir að Hafrannsóknarstofnun þróaði þá mótvægisaðgerð gegn þessu að meta burðarþol fjarðanna, þar sem fiskeldi er leyfilegt.  Þar sem náttúrulegri hreinsun er ábótavant, er kveðið á um árshvíld eldissvæða. Hafró fylgist síðan með þessu og getur endurmetið burðarþolið upp eða niður eftir þörfum. 

3) Að laxalús berist úr eldiskvíum í göngulax.  Laxalús er miklu minna vandamál í íslenzkum eldiskvíum en í færeyskum, skozkum eða norskum (nema norðurnorskum) eldiskvíum vegna þess, að hún þrífst illa í svölum sjó.  Gagnráðstafanir við lús án kemískra efna eru í þróun, enda er lúsin skaðræði, þar sem hún nær sér á strik.

4) Að sjónmengun sé af sjókvíum og starfseminni við þær.  Þetta er smekksatriði, sem er ekki hægt að fallast á sem neikvæðan umhverfisþátt við þessa starfsemi, því að kvíarnar og þjónustubúnaður þeirra eru lágreist.  Til að sýna um hversu persónubundin sjónarmið er að ræða, þegar "sjónmengun" ber á góma, má geta þess, að sumir gagnrýnendur sjókvíanna láta sér í léttu rúmi liggja farþegaskipin, sem liggja við í sumum íslenzkum fjörðum, gnæfandi mjög áberandi upp yfir hafflötinn og eru reyndar sum hver án góðra mengunarvarna. Mengun er mikil frá 3000 manna skipum, eins og nærri má geta, nema um borð séu mengunarvarnir á útblæstri og losun úrgangs frá þeim.

Helgi Bjarnason birti fróðlega baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28.11.2020 með fyrirsögninni:

"Laxar raktir til heimakvíar".

Henni lauk þannig:

"Hafrannsóknastofnun vaktar nokkrar ár sérstaklega m.a. með myndavélum, sem hægt er að skoða á netinu.  Margir fylgjast með þessum myndböndum, þannig að starfsmenn Hafró og Fiskistofu fá mikla hjálp við að greina, hvort laxar, sem ganga upp í árnar, eru líklegir eldislaxar.  Enginn slíkur sást á myndböndunum í ár að sögn Ragnars [Jóhannssonar, sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafró]. Einnig fær Hafró margar ábendingar um hugsanlega eldislaxa frá veiðimönnum m.a. með ljósmyndum í umræðum í hópum þeirra á samfélagsmiðlum.  Ekki eru því líkur á, að eldislaxar sleppi framhjá þessu eftirliti. 

Frá árinu 2018 hefur Hafró látið greina 76 laxa vegna gruns um, að þeir væru úr eldi.  Reyndust 20 þeirra [26 %] vera eldislaxar, en afgangurinn "Íslendingar".   12 þúsund seiði hafa verið tekin úr laxveiðiám til rannsóknar frá árinu 2017.  Verið er að rannsaka þau m.t.t. þess, hvort þau eru undan eldislöxum eða blendingar eldislaxa og laxa af stofni viðkomandi ár. Unnið er að þessum rannsóknum í samvinnu við norsku náttúrufræðistofnunina og er ekki lokið.  Enn sem komið er hafa ekki fundizt nein dæmi um lax af annarri kynslóð undan eldislaxi í íslenzkum ám." 

Undirstr. BJo.  Á meðan hin undirstrikaða fullyrðing er í gildi, verður að vísa orðræðu um hættu á skaðlegri erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn á bug sem hverjum öðrum hugarburði. Eldislaxar sleppa í mun minni mæli upp í árnar nú en áður.  Árið 2018 var staðfest, að 12 eldislaxar hefðu verið veiddir í íslenzkum laxveiðiám, árið 2019 voru þeir 6 og árið 2020 2.  Bættur tæknilegur rekstur og traustari búnaður eldisfyrirtækjanna á hér hlut að máli.  Það er mikilvægt að muna, að þótt eldislax sleppi upp í á, er engan veginn hægt að álykta, að þar með hljóti erfðablöndun hans við villtan lax að eiga sér stað. 

Fiskeldi hefur hleypt alveg nýju blóði í þær byggðir, þar sem það er stundað.  Húsnæðisverð hefur náð húsnæðiskostnaði, skólar og félagslíf hafa gengið í endurnýjun lífdaganna.  Íbúarnir geta með gildum rökum krafizt sómasamlegra innviða á sviði samgangna og raforku, enda er fiskeldið búið að ná þjóðhagslegri stærð, sem munar verulega um í þjóðarbúskapinum.  Til marks um þetta hafði Baldur Arnarson eftirfarandi eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, í Morgunblaðinu 2. desember 2020:

""Það er í raun með nokkrum ólíkindum í ljósi þess, hvað höggið á útflutningstekjurnar er mikið, að ekki skuli vera meiri halli á utanríkisviðskiptunum", segir Jón Bjarki.

Uppgangur í fiskeldi eigi þar hlut að máli.  "Fiskeldið hefur bjargað heildartekjum sjávarútvegsins.  Þróunin hefur verið mótdræg í sumum sjávarafurðum og verðið gefið eftir, en aðrar hafa haldið sér í verði.  Selt magn dróst saman, en nú eru markaðir með sjávarafurðir að jafna sig aftur.  Það ásamt veikari krónu vegur upp verðlækkun í sumum afurðum", segir Jón Bjarki.

Niðurstaðan sé, að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé nánast jafnmikið fyrstu 9 mánuði ársins og [á] sama tímabil[i] í fyrra."

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband