Röng viðbrögð magna vandann

Sóttvarnarráðstafanir hérlendis hafa verið mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið, efnahagslífið og líf fólksins í landinu. Þær hafa verið of viðamiklar m.v. nýgengi smita og með hliðsjón af notagildi þeirra fyrir smitvarnir. Nýlegar rannsóknir frá t.d. Danmörku benda til, að sóttvarnarleg áhrif þeirra hafi verið stórlega ofmetin. Að skikka einkennalaust fólk í sóttkví orkar tvímælis, og lagagrundvöllur fyrir slíku er ótraustur, eins og yfirvöld hafa nú játað vegna tillagna sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærunum. Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, ritaði afar fróðlega grein um áhrif sóttvarna á heilsufarið í Morgunblaðið 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Geðheilsan í kófinu".

"Óttast var í fyrstu, að um drepsótt sambærilega spænsku veikinni væri að ræða, sem þurrkaði út 2,3 % mannkyns, aðallega yngra, heilsuhraust fólk.  Flestir veikjast vægt, en hjá sumum þeirra, sem sýkjast, getur tekið langan tíma að jafna sig líkamlega og andlega."

Það var ekki að ástæðulausu, að þetta ofmat á hættunni af C-19 átti sér stað, því að lýsingarnar og tölurnar frá Kína í janúar-febrúar 2020 gafu til kynna, að um nýja drepsótt væri að ræða.  Það var áróðursvél Kínverja, sem matreiddi þessar upplýsingar ofan í fjölmiðla Vesturlanda, sem skaut öðrum þjóðum skelk í bringu og leiddi til rangra viðbragða á Vesturlöndum og víðar.  Þessi röngu viðbrögð hafa reynzt þjóðunum dýrkeypt bæði í almennt versnandi heilsufari, sem vart var á bætandi víða, og í fjármunum, því að tilfinnanlegur samdráttur hagkerfa og skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og einstaklinga, hefur átt sér stað, sem mun taka langan tíma að bíta úr nálinni með, en á meðan siglir auðvaldskerfi Kína undir stjórn Kommúnistaflokksins hraðbyri að því að verða stærsta hagkerfi heims. Kína er líka farið að sýna tennurnar að ráði, t.d. Áströlum fyrir að hafa Huawei 5-G-tækni.  Beita þeir nú Ástrali, sem hafa verið gagnrýnir á framkomu þeirra gagnvart Hong Kong, viðskiptabanni.  

Til að fást við fjárhagsvandamál í kjölfar Kófsins á Íslandi dugar hið pólitíska Reykjavíkurlíkan alveg áreiðanlega ekki, því að þar ríkir alger óstjórn óhæfra stjórnenda undir blindri leiðsögn Samfylkingar.  Blindur leiðir haltan. Þau söfnuðu skuldum í góðæri, og í hallæri stefnir þar í þrot. 

Nú eru a.m.k. 3 bóluefnaframleiðendur, sem fengið hafa samþykki lyfjastofnana BNA, ESB, Bretlands og víðar, í blóðspreng við að framleiða bóluefni.  Fjölmiðlar hafa lítinn gaum gefið að rannsóknarskýrslum þeirra, þótt þar sé ýmislegt nýstárlegt á ferðinni.  Er ástæða til að bæta úr því og verður gert á þessu vefsetri. Meiri gaumur er þó í fjölmiðlum gefinn að því, hvernig gengur að útvega bóluefni, enda ríður á að koma á hjarðónæmi, svo að hagkerfin hafi einhverja möguleika á að hjarna við.  Ísraelar, 9 milljón manna þjóð, hefur orðið vel ágengt.  Hefur þar tekizt að sprauta um 20 % þjóðarinnar einu sinni gegn C-19. Afköst Ísraela í bólusetningum gegn C-19 eru a.m.k. tíföld á við Íslendinga.  Það er rós í hnappagat stjórnenda Gyðingaríkisins og oppinberar vesældóm íslenzkra valdhafa á sviði heilbrigðismála.  

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld eru alveg arfaslök í þessum samanburði, því að aðeins rúmlega 1 % Íslendinga hefur fengið fyrri sprautu, þegar þetta er skrifað. Er sú innkaupastefna vinstri grænna ráðherra heilbrigðis- og forsætisráðuneytis að hengja sig aftan í búrókratí ríkjasambands með böggum hildar vegna þunglamalegrar ákvarðanatöku og eilífs hrepparígs yfir Rínarfljótið algerlega metnaðarlaus, mun valda óþarfa sýkingum og seinka endurræsingu hagkerfisins og venjulegra lifnaðarhátta. 

Ólafur Ó. Guðmundsson hélt áfram:

"Að meðaltali fæðast á Íslandi u.þ.b. 12 börn á dag og 6 manns deyja.  Á þeim 10 mánuðum, sem liðnir eru frá því nýja veiran greindist hér, hafa hafa því um 1800 manns látizt og þar af um 30 [29] úr Covid-19, sem þýðir, að yfir 98 % deyja úr öðrum sjúkdómum, slysum og og sjálfsvígum á tímabilinu."

Nú er litlum vafa undirorpið, að talsvert fleiri andlát hefðu átt sér stað vegna C-19 hérlendis, ef ekki hefðu verið uppi hafðar strangar sóttvarnarráðstafanir á dvalar- og hjúkrunarheimilum og ef íslenzka heilbrigðiskerfisins, með frábæru starfsfólki á hverjum pósti, með sjúkrahúsin í broddi fylkingar, hefði ekki notið við.  Þessar tölur bera hins vegar með sér, að algerlega ofmælt er, að um drepsótt sé að ræða um C-19, nema taka eigi upp á þeim fjára að kalla inflúensu drepsótt.  

Afleiðingar ofvaxinna og jafnvel ólöglegra sóttvarnaraðgerða eru hins vegar þannig, að þær munu sennilega kosta fleiri mannslíf áður en öll kurl koma til grafar.  Hvað hafði geðlæknirinn að segja um áhrifin á geðheilsuna ?:

"Að veikjast af Covid-19 getur haft áhrif á geðheilsu vegna bólguviðbragða ónæmiskerfisins og meðferða, sem beitt er.  Aðrir áhættuþættir geðsjúkdóma geta legið í sóttvörnunum sjálfum; þær hafa í för með sér félagslega einangrun og geta magnað upp viðvarandi ótta, atvinnumissi, fjárhagslega erfiðleika og aukið vímuefnanotkun. 

Nýr formaður brezka geðlæknafélagsins, Adrian James, telur faraldurinn mestu ógn okkar kynslóðar við geðheilsuna á næstu árum.  Ef áætluð þjónustuaukning Breta er yfirfærð beint á okkur, mætti gera ráð fyrir, að um 50 þúsund Íslendingar og þar af um 8 þúsund börn þurfi geðheilbrigðisþjónustu vegna faraldursins, fyrst og fremst vegna kvíða og þunglyndis.  Þótt faraldurinn í Bretlandi hafi orðið verri en hér á landi og sóttvarnaraðgerðir meira íþyngjandi, þarf að gera ráð fyrir sams konar afleiðingum á geðheilsu landsmanna á næstu misserum og árum." 

Þarna lyftir geðlæknirinn a.m.k. gula spjaldinu framan í landlækni og sóttvarnalækni.  Þau hafa með blessun heilbrigðisráðherra valdið hér vanlíðan og angist, sem á ekki sinn líka síðan Kalda stríðið var upp á sitt versta eða jafnvel þurfi að leita allt aftur til Heimsstyrjaldarinnar síðari til að finna viðlíka geðheilbrigðisvandamál og nú, þegar geðlæknir telur allt að 14 % þjóðarinnar eða einn af hverjum 7 þurfa að leita sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála af völdum sóttvarnaaðgerða.  Þetta er hrikaleg staða í ljósi þess, að sóttvarnaraðgerðir verða eðli málsins samkvæmt alltaf persónubundnar í höfuðdráttum.  Ofurtrú á ríkisvæddar sóttvarnir gegn bráðsmitandi inflúensu er út í hött og hefur valdið ofboðslegu tjóni. Nýlegar rannsóknir hníga í þessa átt.

Nú í vikunni gengu unglingar berserksgang í skóla einum á höfuðborgarsvæðinu, svo að vissara þótti að kalla sérsveit Ríkislögreglustjóra á vettvang.  Atburður með þeim hætti, sem þarna átti sér stað, hefur ekki gerzt í manna minnum áður á Íslandi.  Er þessi sorglega ofbeldishneigð afleiðing sóttvarnarráðstafana heilbrigðisráðherra, sem Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, gerði að umtalsefni.  Sóttvarnalæknir, landlæknir og heilbrigðisráðherra leika sér að eldinum.  Að færa völd í hendur slíkra er eins og að færa óvitum eldspýtur.   

Næst fjallaði geðlæknirinn um þátt fjölmiðla í að mynda þá samfélagslegu spennu í kringum þennan faraldur, sem komið hefur hart niður á samfélaginu af tilbúnum ástæðum.  C-19 hefur nú verið fyrsta frétt fjölmiðla í næstum ár.  Það er ekkert rökrétt samhengi á milli hinnar gríðarlegu og einsleitu umfjöllunar fjölmiðla, sem stjórnvöld og s.k. þríeyki Almannavarna vissulega hafa ýtt undir, og hættunnar, sem almenningi stafar af þessum sjúkdómi, eins og ljóslega má ráða af því, að dauðsföll 2020 alls urðu færri en árin 3 þar á undan.  Nú gætu hins vegar ýmsar heilsufarslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða farið að láta á sér kræla:

"Síðan faraldurinn fór af stað, hafa fjölmiðlar lagt áherzlu á endurteknar tölulegar upptalningar án þess samhengis, sem nauðsynlegt er til skilnings á þeim.  Þessi yfirborðskennda og villandi framsetning hefur orðið til þess að vekja yfirdrifinn ótta hjá almenningi, sem ekki hefur forsendur til að skilja þær öðru vísi en eitthvað mun skelfilegra sé í gangi en í raun er.

Það er ekki nýtt, að staðreyndir mála séu ekki leiðarljós fjölmiðla, heldur sá ótti, sem fær móttakandann til að veita miðlinum sjálfum þá athygli, sem hann byggir tilveru sína á. Sænski læknirinn Hans Rosling sá af þeirri ástæðu tilefni til að stofna Gapminder Foundation, sem er ætlað að gefa staðreyndamiðaða heimsmynd til að sporna við skelfilegri fáfræði, sem heimsmynd fjölmiðla elur af sér.  Ótti, sem í eina tíð tryggði það, að forfeður okkar héldu lífi, tryggir núna, að fjölmiðlafólk haldi vinnunni, segir Rosling í síðustu bók sinni, Raunvitund, þar sem rakin eru fjölmörg dæmi þessu til stuðnings."

Þarna stingur geðlæknirinn á einu af þeim kýlum samtímans, sem sök eiga á því, að frá því að áróðursmyndir úr Kófinu í Kína birtust í vestrænum fjölmiðlum og umrædd kórónuveira stakk sér niður á meðal okkar, hefur ríkt stórvarasamt andrúmsloft í vestrænum samfélögum, sem gert hefur yfirvöldum kleift að beita almenning harkalegri frelsisskerðingum en nokkur fordæmi eru fyrir á friðartímum í háa herrans tíð.  Heilsufarstjónið af þessum langvinnu aðgerðum er ótvírætt og fjárhagstjónið af þeim sökum miklu meira en hægt er að réttlæta með vísun til heilsu og mannslífa. 

Sinni góðu grein lauk geðlæknirinn þannig:

"Sá merki og á sínum tíma umdeildi frumkvöðull, Guðmundur Björnsson, landlæknir, benti m.a. á þýðingu geðheilsunnar í smáriti, sem gefið var út af Stjórnarráðinu í nóvemberlok 1918, þegar drepsóttin stóð sem hæst:

"Gegndarlaus sótthræðsla er miklu háskalegri en flesta menn grunar; þeir, sem æðrast og hleypa hræðslu og hugleysi í fólk, eru allra manna óþarfastir og vinna miklu meira tjón en almennt er talið", og á eftir fylgdu ýmis sígild ráð um það, hvernig fólk geti forðazt inflúensuna og brugðizt við, ef það veikist.  Þessi orð landlæknis eiga ekki síður við í dag, einni öld síðar."

  Þetta er hverju orði sannara hjá geðlækninum og landlækninum, sem hann vitnar í.  Sem dæmi um óþurftarmenn má nefna þá, sem kalla C-19 drepsótt.  Spænska veikin var drepsótt.  Úr henni dóu tæplega 500 Íslendingar.  M.v. mannfjölgun á Íslandi síðan þá svarar þessi fjöldi látinna líklega til 1800 manns nú, en það er aðeins um 18 % færra en árlega deyr á Íslandi um þessar mundir.  Talið er, að um 2,3 % mannkyns hafi látizt úr Spænsku veikinni á heimsvísu, svo að sennilega hefur Íslendingum tekizt bærilega upp við sóttvarnir og aðhlynningu sjúkra í þeim skæða heimsfaraldri.  Nú hafa dáið 29 manns hérlendis úr C-19, sem er aðeins um 1,5 % af framreiknuðum dauðsföllum úr Spænsku veikinni.  C-19 er ekki drepsótt, þótt fólk geti látizt úr sjúkdóminum, eins og líklega flestum sjúkdómum. Drepsóttir hafa nýlega herjað, t.d. ebóla í Afríku, og drepsóttir munu væntanlega herja á Evrópu aftur.  Þeim verður að bregðast við með mjög ströngum sóttvarnaraðgerðum, en það þjónar ekki almannahagsmunum að fást við bráðsmitandi flensusjúkdóm, eins og hann sé drepsótt.

Sóttvarnarráðstafanir hafa hægt mjög mikið á hagkerfinu hérlendis og í flestum öðrum löndum, svo að landsframleiðslan hefur minnkað, nema í Kína, þar sem hagvöxtur varð 2020.  Er nú svo komið, að því er spáð, að verg landsframleiðsla Kínverja muni ná þeirri bandarísku árið 2028. Það eru tíðindi til næsta bæjar.

Hérlendis hefur snarazt á merinni í opinberum rekstri vegna yfirdrifinna Kófsviðbragða, m.a. á landamærunum.  Geigvænlegur hallarekstur er á ríkissjóði, og flest stærstu sveitarfélögin eru rekin með halla.  Það er algerlega ábyrgðarlaust gagnvart unga fólkinu, sem tekur við landinu, að halda svona áfram. 

Því miður höfðu íslenzk stjórnvöld, heilbrigðisráðuneyti með landlækni og sóttvarnarlækni undir yfirumsjón forsætisráðuneytis, hvorki framsýni né metnað til að gera ráðstafanir til útvegunar bóluefnis á svipuðum hraða og Ísraelsmenn, sem stefna á að hafa fullnaðarbólusett tæplega 60 % þjóðarinnar í síðari hluta marz 2021. Forsætisráðherra Íslands lifir í fílabeinsturni án tengsla við raunveruleikann og "segist enn gera ráð fyrir, að meirihluti Íslendinga verði bólusettur um mitt ár", samkvæmt Morgunblaðinu 11. janúar 2021.  Engin gögn styðja annað en þessi stjórnmálamaður eigi við árið 2022.  Kjósendur vita, hvað er hið eina, sem svona forsætisráðherrar eiga skilið í næstu kosningum, enda er það óhæfa að bíða svo lengi með endurræsingu ferðaþjónustunnar, sem hefst með því að liðka til á landamærunum og fjölga störfum þannig á nýjan leik.

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Torgs ehf, birti hugvekju sína um slæma fjárhagsstöðu ríkisins í Kófinu og mjög hæpna meðferð skattfjár í Fréttablaðinu 30. desember 2020.  Greinin bar fyrirsögnina:

"Gegndarlaus útþensla ríkisbáknsins er ógnvekjandi".

Hún hófst þannig:

"Fyrir utan veiruvandann, sem hrjáð hefur landsmenn, er taumlaus útþensla ríkisbáknsins ein helzta ógnin við íslenzka hagkerfið, nú sem stendur.  Vonandi sjáum við fyrir endann á veiruvandanum, þegar bólusetningar fara að hafa áhrif til góðs, sem væntanlega verður fljótlega á nýja árinu [2021].  Aftur á móti bendir ekkert til þess, að við munum sjá nokkurt lát verða á útþenslu ríkisbáknsins.  Það er stórháskalegt og getur haft alvarlegar afleiðingar, ef ekki verður hugarfarsbreyting meðal æðstu ráðamanna ríkisins."

Það eru engir samningar fyrir hendi né annað handfast, sem styðja, að "bólusetningar far[i] að hafa áhrif til góðs" fljótlega í ár, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi.  Um það er ekkert til, nema gasprið í ráðherrum vinstri grænna, Svandísi og Katrínu.  Þær sváfu á verðinum og ætluðust til, að aðrir leystu viðfangsefnið fyrir þær. Hverjir voru þessir aðrir ?  Það voru auðvitað búrókratar í Brüssel, sem þær sóttu um náið pólitískt samneyti með árið 2009.  Með þessu háttarlagi núna  sýndu þær af sér vanrækslu í starfi, því að þeim láðist að ganga úr skugga um, hvernig í pottinn var búið hjá Úrsulu von der Leyen. Um slíkt gerðu ekki allir stjórnendur smáþjóða utan ESB sig seka.

Ísrael á talsverða samleið með Evrópuþjóðunum og Bandaríkjunum, eins og kunnugt er, en ekki datt stjórnendum landsins í hug að hengja þessa lífshagsmuni þess aftan í vagn risanna.  Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael hafa nú tilkynnt, að þau hafi upp á eigin spýtur tryggt Ísraelum nægt bóluefni til að fullnaðarbólusetja 58 % þjóðarinnar síðari hluta marzmánaðar 2021.  Á fyrsta ársfjórðungi geta Ísraelar aflétt öllum opinberum sóttvarnarhömlum, en Íslendingar sitja líklega uppi með alls konar ferða- og samkomuhömlur auk banns við sumri þjónustu megnið af árinu 2021.  Það mun hafa hrikalegar afleiðingar á heilsufar og efnahag. Þetta lýsir mismuninum á leiðtogum og pólitískum bulluskjóðum.  

Einu geta kjósendur gengið að sem vísu varðandi fjármálin, þegar þeir ganga að kjörborðinu, og það er, að kjósi þeir yfir sig Reykjavíkurlíkanið í landsstjórnina, þar sem Samfylkingin hefur lengi ráðið ríkjum með hverri hækjunni á fætur annarri, þá verða hér skattahækkanir, gegndarlaust sukk gæludýra með ríkissjóðinn, sem kalla munu á vaxtahækkanir Seðlabanka til að slá á verðbólgu.  Afleiðingin verður lítill sem enginn hagvöxtur og stórhætta á "stagflation", sem er stöðnun í dýrtíð.

Ef þetta óheillavænlega bandalag læsir klóm sínum í Stjórnarráðið, er næsta víst, að viðræður um aðild Íslands að fyrirheitna ríkinu á meginlandi Evrópu, verða teknar upp að nýju með lítilli fyrirhöfn, því að í skrifborðsskúffu í Berlaymont bíður nú gamla aðildarumsóknin frá árinu 2009, sem aldrei var afturkölluð. Samfylking og Viðreisn snúast um fátt annað en drauminn, blauta, að gera Ísland að jaðarhreppi stórríkis Evrópu, sem vitaskuld er fullkomin tímaskekkja og ekkert annað en sjúkleg þráhyggja.   

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband