Landamærin

Styrr hefur staðið um, hvernig haga beri móttöku farþega með flugi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á varaflugvöllunum eða í höfn á Seyðisfirði, þar sem færeyska ferjan Norræna leggur að. Þar sem dæmi eru um það, að farþegar virði reglur um sóttkví að vettugi, hefur sóttvarnarlæknir lagt til og ríkisstjórnin samþykkt, að f.o.m. 1. apríl 2021 fari allir í sóttkví ríkisins undir eftirliti, sem koma frá s.k. rauðum svæðum í ESB og hvorki hafa verið fullbólusettir né veikzt og náð sér af C-19.  Rauð svæði eru með nýgengi sjúkdómsins, NG>50.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta nýgengi hátt, og í ljósi þess, að PCR-prófið er ónákvæmt, reyndar í báðar áttir (26 % sýnagjafa reynast neikvæðir í fyrri skimun, en jákvæðir í seinni), þá er ekki óeðlilegt, að sóttvarnaryfirvöld vilji draga úr líkum á "sóttkvíarleka" veirunnar.  Þá má reyndar spyrja sig, hvort ekki sé eðlilegra við íslenzkar aðstæður að miða við nýgengið 25, en undir því flokkast lönd sem "græn". Hins vegar ber yfirvöldum að leita vægustu úrræða til að ná fram ætlun sinni, sem í þessu tilviki virðist vera veirulaust Ísland.  Þetta stefnumið er óraunhæft.  Við verðum þvert á móti að læra að lifa með veirunni, SARS-CoV-2, eins og öðrum veirum af kórónuættinni, sem valda inflúensu og lungnabólgu. Móðursýkinni verður að linna. 

Vægara úrræði er t.d. ökklaband.  Sóttkví ríkisins felur í sér frelsissviptingu, sem er þungbær, einkum fyrir íbúa hérlendis.  Með henni eru allir undir sömu sök seldir vegna líklega örfárra, sem brugðizt hafa trausti yfirvalda og hundsað sóttkvíarskilyrðin. Er það réttmætt og réttlætanlegt í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu og stöðu faraldursins á Íslandi, þar sem aðeins 1 liggur á sjúkrahúsi vegna C-19 og alls enginn veldisvöxtur er á útbreiðslunni í samfélaginu ?  Frá sjónarhóli leikmanns í lögum fór heilbrigðisráðherra offari, þegar hún setti reglugerð um sóttkví ríkisins fyrir alla frá svæðum með hátt nýgengi C-19, hún virðist ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni um vægari úrræði, og nýju sóttvarnarlögin heimila hreinlega ekki þessa frelsisskerðingu. Á annan páskadag, 05.04.2021, kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nokkurra komufarþega í sóttkví ríkisins, sem vissulega áttu í önnur hús að venda til að fullnusta sóttkvíarskyldum sínum.  Dómurinn var eðlilegur og skiljanlegur á grundvelli gildandi sóttvarnarlaga.  Nú hefur sóttvarnarlæknir hvatt ráðherra til að leggja fyrir Alþingi frumvarp, sem heimili nauðungarvistun vissra komufarþega í sóttkví ríkisins, óháð aðstæðum þeirra varðandi sóttkvíarúrræði hérlendis.  Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir áfrýjað dóminum til Landsréttar.  Í báðum tilvikum fer sóttvarnarlæknir offari og fer með óafsakanlegan hræðslu- og falsáróður, þar sem hann lætur að því liggja, að dómurinn muni setja sóttvarnir hérlendis í uppnám og tefja fyrir afléttingu sóttvarnarráðstafana innanlands. Hann verður þá að láta af störfum, ef hann getur ekki starfað eftir lögum landsins. Þessi málflutningur er fullkomlega óboðlegur, og fyrir neðan virðingu læknisins. Frelsisskerðingarúrræðið, sem dæmt var ólöglegt, er óalandi og óferjandi mannréttindabrot hérlendis og stríðir gegn varðstöðu um einstaklingsfrelsi gegn valdníðslu, sem er undirstaða lýðræðislegra stjórnarhátta, hvorki meira né minna.    

Þeir, sem ekki sæta sóttkví undir eftirliti, fara á sóttkvíarstað í 5 sólarhringa að eigin vali, nema þeir geti framvísað gildu bólusetningar- eða ónæmisvottorði.  Þá fara þeir í eina skimun og smitgát. Allt er þetta gríðarlega viðamikið, kostnaðarsamt og sennilega einsdæmi í heiminum. Sennilega er sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir hér að skjóta spörfugl með kanónu og ekki í fyrsta sinn.  Kerfið virkar hamlandi á fjölda ferðamanna hingað og veldur þannig miklu tekjutapi og kostnaði.  Spurning er, hvort yfirvöld hafa nægileg gögn í höndunum til að sýna fram á réttmæti sóttkvíarhótela undir eftirliti. Svo reyndist alls ekki vera við málaferlin í Héraðsdómi. 

Um lögmæti þessara aðgerða hafa birzt opinberlega efasemdir, einkum gagnvart fólki, sem heimilisfast er á Íslandi.  Formaður lögmannafélagsins taldi víst, að fljótlega yrði látið reyna á þetta fyrir dómstólum, og það raungerðist 2. apríl 2021 með framlagningu a.m.k. tveggja kæra á hendur sóttvarnaryfirvöldum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir skrifaði frétt um þetta laugardaginn 3. apríl 2021 í Morgunblaðið:

  "Skorið úr um lögmæti dvalar".

"Ómar [R. Valdimarsson, lögmaður] sagði í samtali við mbl.is í gær heldur hæpið, að reglugerð ráðherrans ætti sér lagastoð:

"Ég á erfitt með að sjá, að það sé lagaheimild fyrir setningu [reglugerðarinnar].  Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið", sagði hann.  "Ef dómari kemst að því í þessu máli, að þetta sé ólögmæt frelsissvipting, þá er þessi reglugerð bara úr sögunni."

Sigríður Á. Andersen, lögfræðingur og Alþingismaður, sat í þeirri þingnefnd, sem fjallaði um frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga, sem Alþingi setti í vetur, veit gjörla, hver fyrirætlunin var með þeirri lagasetningu.  M.v. túlkun hennar eru sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra algerlega úti á túni eða öllu heldur í kargaþýfi með þessa umdeildu reglugerð sína.  Hún er þess vegna í einu orði sagt valdníðsla:

""Umræða í nefndinni um sóttvarnahús hafi verið á einn veg - tryggja ætti borgurunum samastað, ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en ekki að skylda þá í sóttvarnahús", segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í velferðarnefnd, þegar núgildandi sóttvarnalög voru tekin til umfjöllunar."

""Sóttvarnahús voru ekki tekin fyrir sérstaklega í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum að öðru leyti en því, að til þeirra var vísað í þeim tilvikum, er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví", segir hún.  Þá hafi frumvarpið kveðið á um, að heimilt væri að vista þá í sóttvarnarhúsi."

Af þessu má ráða, að sóttvarnarlækni með minnisblaði sínu og heilbrigðisráðherra með reglugerð sinni hafi orðið á fingurbrjótur, eða með talshætti Norðmanna hafi þau traðkað í salatinu.  Útgáfa reglugerðar um frelsissviptingu fjölda manns án lagastoðar er grafalvarlegt mál og afsagnarsök fyrir ráðherra.  Kemst Svandís Svavarsdóttir upp með hvað sem er í sinni embættisfærslu, án þess að Alþingi grípi til sinna ráða ?  Enginn býst við neinu af fundarstjóranum Katrínu Jakobsdóttur, viðhlæjanda.  

Það er einnig rætt um litakóðanotkun f.o.m. 01.05.2021, en hún er annars eðlis.  Þá er rætt um að aflétta sóttkvínni fyrir óbólusett fólk frá grænum svæðum með því að láta eina skimun duga við komuna hingað og smitgát fram að niðurstöðu sýnatöku.  Það virðist eðlilegt fyrsta skref til afléttingar hafta við komuna frá útlöndum.   

Þann 20. marz 2021 skrifaði ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, um sóttvarnareftirlit á landamærunum undir fyrirsögninni:

"Þrætuepli".

Forystugreinin hófst þannig:

"Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs, sem við þekktum, eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt, að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu, án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví. 

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana.  Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til o.s.frv..  Þetta er eftir öðru, sem tengt er þessum faraldri.  Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur. 

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar.  Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt.  Og þannig hefur það verið lengi. 

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: "Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít, sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls."

 Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur.  Hvernig við högum málum á landamærunum, ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins." 

Með hverri vikunni sem líður verður minni ástæða til að láta efnahagslega endurreisn landsins lönd og leið, þegar hertar sóttvarnarráðstafanir eru ákveðnar.  Vægi sóttvarnarsjónarmiða hlýtur að dvína, eftir því sem bólusettum fjölgar. Frelsissjónarmiðin vega þyngra, eftir því sem höftin vara lengur.  Líklegt er, að túlkun laganna muni taka mið af þessari þróun.  Erlendis er því haldið fram, að núverandi afbrigði veirunnar hérlendis, hið brezka, sé meira smitandi og valdi meiri veikindum, en á sú lýsing við hérlendis ?  Engin rannsókn á smitstuðlum hefur verið birt hérlendis, svo að erfitt er að fóta sig á þróuninni, en hitt er víst, að undanfarnar 2 vikur hefur enginn veldisvöxtur nýsmita verið merkjanlegur hérlendis. Smitstuðullinn er minni en 0 og hin ströngu höft innanlands út í hött.

Það var mjög jákvætt, þegar ráðherra ákvað að mismuna ekki farþegum eftir því, hvort þeir koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins. Breytingin tók gildi í dag, 06.04.2021. Nú er Bretum að vísu meinað að fara í skemmtiferðir til útlanda, en  það mun ekki vara lengi, því að bólusetningin gengur a.m.k. þrefalt hraðar þar en í EES. Okkur ber að halda jafnræðisreglu í heiðri, og þetta getur orðið þungvægt hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna og atvinnustigið í landinu í sumar.  Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjamönnum. 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband