Að taka upp þráðinn við ESB-smjörklípa ?

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Nú vill Viðreisn endurræsa viðræður um myntsamstarf og aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Þetta er svo ótrúleg pólitísk glópska á kosningaári til Alþingis, að tiltækinu hlýtur að vera ætlað að slá ryki í augu kjósenda - sem sagt smjörklípa til að draga athyglina frá ægilegum vandræðum ESB í kjölfar BREXIT, en Sambandið mátti lúta í gras í viðureigninni við Breta út af bóluefnaútvegun, og ríki Sambandsins og reyndar EFTA-hækjunnar innan EES standa Bretum langt að baki, hvað framvindu bólusetninga við C-19 varðar og þar af leiðandi þróun heimsfaraldursins og hags almennings í kjölfarið. 

Að tengja gengi ISK við EUR með þröngu leyfilegu sveiflubili er undarlegt keppikefli, því að mikill hluti viðskipta Íslendinga innanlands og utan á sér stað með USD.  Nefna má, að raforkuviðskiptin við álverin og bókhald Landsvirkjunar og álfyrirtækjanna er í USD, og svo er um fleiri fyrirtæki.  Eldsneytisinnflutningurinn er í USD og sama gildir um ýmis önnur viðskipti.  Evrópusambandið er tollabandalag, og innan þess er ekki eftirsóknarvert að festast, því að Íslendingar vilja eiga viðskipti vítt og breitt um heiminn, auðvitað einnig við evrusvæðið og önnur ríki Evrópusambandsins, en meiri vöxtur er þó á flestum öðrum svæðum heimsins.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess, að Bretar kusu að yfirgefa ESB.  Þeir standa frjálsir að viðskiptasamningum við önnur ríki, og það vilja flestir Íslendingar líka fyrir sína parta.  Það er nauðhyggja að sækjast eftir að binda trúss sitt við stórríki Evrópu, þar sem stjórnarhættir eru ekki til fyrirmyndar í ESB, og lýðræðið er þar í skötulíki.  Áhrifaleysi okkar um eigin málefni yrði meira en flestir Íslendingar mundu sætta sig við, en næstum ómögulegt virðist vera að komast skaðlaust út úr þessum nána félagsskap. Það er ótrúlega barnalegt af Viðreisnarforystunni að reyna nú að sannfæra landsmenn um, að nú sé rétti tíminn til að gera gangskör að því að bæta hag sinn með því að innlima Ísland í Evrópusambandið og fela þar með embættismönnum og stjórnmálamönnum á meginlandinu öll örlög landsins.  Lýðræðislegt vald almennings á Íslandi færi þá fyrir lítið.  Það er með ólíkindum, að Viðreisn, Samfylking o.fl. skuli ætla að kyrja þennan kveðskap á árinu 2021.  Þeim er ekki sjálfrátt. 

Morgunblaðið er gáttað.  1. apríl 2021 var fyrri forystugreinin með fyrirsögnina:

"Furðutillaga".

"Önnur tillagan [Viðreisnar til þingsályktunar] kveður á um það, að ríkisstjórnin skuli óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum.  Þessi tillaga virðist, ef marka má texta tillagnanna, eiga að vera viðbragð við ímynduðum bráðavanda í þessum efnum, og samkvæmt henni á ríkisstjórnin að kynna viðræðurnar fyrir þinginu fyrir 1. júní n.k.."

Eins og áður segir fjallar þetta um að festa gengi ISK við EUR.  Það er ígildi fastgengisstefnu, sem hefur aldrei gefizt vel á Íslandi, og stjórnmálamenn hafa gefizt upp á henni, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir afleiðingunum, sem eru ósamkeppnishæfir útflutningsatvinnuvegir, samdráttur gjaldeyristekna og fjöldaatvinnuleysi.  Þess vegna höfnuðu Svíar þessu gjaldmiðilssamstarfi SEK og EUR á sínum tíma.  Halda menn, að Íslendingar stæðu eitthvað betur að vígi nú með ISK rígneglda við EUR eftir þriðjungssamdrátt útflutningstekna ?  EUR fór þá úr tæplega 140 ISK í rúmlega 160, sem er breyting um tæplega 20 %, en nú er EUR komin undir 150 ISK.  Flestir gjaldmiðlar hafa verið á rússíbanareið undanfarið ár.  Er ekki ósköp eðlilegt, að verðmæti gjaldmiðils taki mið af viðskiptajöfnuði lands og eigna- skuldastöðu í útlöndum ?

"Hin tillagan, sem þingmennirnir vilja gefa heldur rýmri tíma, kveður á um "endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu", hvorki meira né minna.  Það er gert ráð fyrir að skipa nefnd og hefja mikinn undirbúning að aðild, og svo verði aðildarviðræður bornar undir þjóðaratkvæði eigi síðar en í janúar á næsta ári [2022]."

Óbeint hafnaði þjóðin áframhaldandi aðildarviðræðum við ESB með því að henda Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði út úr Stjórnarráðinu með tilþrifum vorið 2013.  Það er fáránlegt núna í djúpri Kófskreppu að vilja þá eyða tíma, kröftum og fjármagni, í dauðadæmda og útjaskaða hugmynd.  Forgangsröðun Viðreisnar er fyrir meðan allar hellur og sýnir fullkomið ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi.  

"Falsrökin, sem fram koma í greinargerð með tillögunum, eru margvísleg og kunnugleg.  Þar segir t.d., að tilgangurinn sé "að styrkja fullveldi landsins", sem er þekkt öfugmæli þeirra, sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, en hafa áttað sig á, að almenningur hér á landi kærir sig ekki um að láta stjórna Íslandi frá Brussel.  Í stað þess að viðurkenna, að fullveldi landsins myndi skerðast verulega við inngöngu í ESB, þá kjósa þessir talsmenn aðildar að rugla umræðuna með því að halda fram hreinni firru í þeirri von, að einhhverjir bíti á það auma agn."

Aðildarsamningur við ESB er ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur felur hann í sér að selja landið undir erlenda löggjöf, sem hefur bindandi og endanlegt lagagildi hér.  Nýtt réttarfar yrði tekið upp, þar sem Alþingi yrði í algeru aukahlutverki.  Dómstóll ESB mundi dæma í fjölmörgum málum Íslendinga, og dómar hans eru ekki áfrýjanlegir.  Það er mjög léleg kímnigáfa fólgin í því og raunar alger uppgjöf að halda því fram, að þetta jafngildi "styrkingu" fullveldis lýðveldisins Íslands.  Þau verða að finna annan betri. 

Íslendingar eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þeir munu ekkert gagn hafa af aðild þar, og hagur þeirra mun versna þar, enda er hagvöxtur evrusvæðisins minni en annars staðar í Evrópu að jafnaði, svo að ekki sé nú minnzt á önnur viðskiptasvæði Íslendinga.  Ef þeir einhvern tímann slysast þar inn, mun verða að áhrínsorðum orðtakið, að þangað leitar klárinn, þar sem hann er kvaldastur.

Mistakaslóði misheppnaðra blýantsnagara í Brüssel, sem ferðinni ráða í þessu gæfusnauða ferlíki, er svo fráhrindandi, að það er sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig heill þingflokkur læmingja getur í alvöru lagt það til á þingi landsins lengst norður í ballarhafi, að mál málanna sé nú aðild þessa lands að ólánsfjölskyldu Frakka og Þjóðverja á meginlandinu og að þjóðin verði að kjósa um, hvort banka beri upp á  þessu ólánsheimili eigi síðar en 2022.  Hvað er að ?

Morgunblaðið telur ekki eftir sér að benda á vankantana, t.d. í forystugrein 26.03.2021:

"Einn bílfarmur - 71 síða !":

"Kommisserar þessa nútíma sovétkerfis, sem klúðruðu bóluefnamálum sínum með sögulegum hætti, náðu hins vegar að bólusetja almenning svo hressilega gegn sér, að það þarf ekki fleiri skammta í bráð gegn þeirri veiru.

En það eru fleiri tilefni til sömu niðurstöðu.  Á það benti Ásgeir Ingvarsson í prýðilegri grein sinni nýlega.  Þar sagði m.a.:

"BBC fjallaði nýlega um það skýrslufargan, sem núna fylgir útflutningi á brezkum fiski til Evrópu.  Mig grunar, að það hafi vakað fyrir blaðamönnunum að sýna, hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB, en þvert á móti sýnir umfjöllunin, hvað Evrópusambandið er orðið mikið óhræsi.

Í dag þarf, samkvæmt úttekt BBC, að framvísa samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn, Evrópumegin.  Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir, og vitaskuld má ekkert klikka, því [að] minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða, að viðkvæm varan situr föst á landamærunum.  Geta brezkir útflytjendur sjávarafurða núna vænzt þess, að vörur þeirra séu u.þ.b. sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu.

En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB.  Einu sinni var hún algerlega ómótstæðileg: létt og lipurt bandalag sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum.  Í dag er hún orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni."

Sú gamaldags kaupauðgistefna (merkantílismi), sem þarna er lýst, er runnin undan rifjum Frakkanna, sem eru verstu miðstýringarsinnar Evrópu, og skilja illa mátt valddreifingar og samkeppni.  Fyrir þjóðfélög innan þessa múrs, sem reyndar hefur hlotið þýzka stríðsheitið "Festung Europa" eftir gríðarlegum mannvirkjum  "des Dritten Reiches" á vesturströnd Evrópu, ber slík stefna í sér stöðnun.  Hagkerfin verða ósamkeppnishæf við umheiminn, og þjóðfélögin hrörna.  Íslenzka hagkerfið er allt öðru vísi saman sett en hagkerfi evru-landanna.  Hagsveiflan hérlendis er og verður þess vegna ekki alltaf í fasa við hagsveiflu evrusvæðisins, og peningamálastefna evru-bankans í Frankfurt am Main mun þess vegna hafa tilhneigingu til að auka sveiflur hagkerfisins hér í báðar áttir, sem er ekki eftirsóknarvert. 

Meginstefnumál Viðreisnar eru öll því marki brennd að fela í sér aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins að svo miklu leyti, sem sú aðlögun hefur ekki átt sér stað með aðild landsins að EES.  Verður sýnt fram á þetta í pistli síðar með hliðsjón af Morgunblaðsgrein formanns og varaformanns Viðreisnar um auðlindastjórnun og Stjórnarskrárbreytingar 25. marz 2021.  Þannig fara þar úlfar í sauðargæru, því að auðlindastjórnun ESB felur í sér markaðsvæðingu auðlindanna á Innri markaði Evrópusambandsins. Eftir þann hráskinnaleik mun lítið standa eftir af íslenzkum nýtingarrétti orku- og sjávarauðlinda.    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband