Loftslagstrúboðið yfirskyggir stéttabaráttuna

Ofstækisfull stjórnmál eiga margt sammerkt með trúarbrögðum.  Nú hefur loftslagstrúboðið tekið á sig mynd og er eins konar krossför gegn hlýnun jarðar. Vinstri menn á Íslandi hafa gripið þetta mál fegins hendi, enda staddir í hugsjónalegu tómarúmi eftir skipbrot sameignarstefnunnar hvarvetna.  Sá er galli á gjöf Njarðar fyrir þessa trúboða hérlendis, að Ísland er fámennt hreinorkuland á sviði raforkuvinnslu og þess vegna eftir svo litlu að slægjast, að öll núverandi losun Íslands í 100 ár mundi engin teljanleg áhrif hafa á hlýnun jarðar. 

Það er sjálfsagt að fara í orkuskiptin með skipulegum hætti, en allt flas þar er ekki til fagnaðar, t.d. nýjasta markmið forsætisráðherrans um 55 % samdrátt 2030 m.v. 2005, sem á eftir að verða efnahagslega íþyngjandi fyrir þjóðina algerlega að þarflausu.

Æðsti prestur loftslagstrúboðsins, umhverfisráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður vinstri græningjanna, hefur nú hlotið efsta sætið á lista VG í SV-kjördæmi (Kraganum).  Það verður sjón í sólskini að sjá íbúa þessa kjördæmis veita þessum trúboða fánýtra kenninga og bíllauss lífsstíls brautargengi til setu á Alþingi. Maðurinn á ekkert erindi á þing. Framganga hans við ríkisvæðingu miðhálendisins með þjóðgarði til að drepa í dróma alla nýtingu náttúruauðlinda þar er víti til varnaðar.  Það er engin þörf á að stofna rétt eitt silkihúfuapparatið til að torvelda landsmönnum með krumlu ríkisvaldsins að nýta og njóta, en það tvennt fer saman, þegar vel er haldið á spilunum.  Þetta er montverkefni sófagræningja til að geta státað sig af "stærsta þjóðgarði" Evrópu. 

Helzt vill afturhaldið drepa alla nýtingu náttúruauðlinda í dróma og breyta landinu öllu í einn allsherjar þjóðgarð, þar sem fágæt eintök tegundarinnar "homo sapiens" verða til sýnis umheiminum á eldfjallaeyju, sem er í stöðugri mótun, lengst norður í Atlantshafi.  Gæluverkefni afturhaldsins í landinu eiga sér engin takmörk, enda hefur þeim verið hossað langt umfram það, sem samræmist fjölbreytilegum atvinnuháttum og gjaldeyrisöflun í landinu. Það verður engin sátt í landinu um fórnir íbúanna, sem engum gagnast. 

Þann 27. apríl 2021 reit téður Guðmundur Ingi grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Kyrrstaðan hefur verið rofin á kjörtímabilinu".

 Af fyrirsögninni mætti ætla, að maðurinn væri framfarasinni, en framfarir í hans huga eru varla það, sem flestir kjósendur í Kraganum mundu kalla framfaramál.  Hann átti við minnkun losunar gróðurhúsagasa, sem hann telur hafa markað tímamót árið 2019:

 gær greindi Umhverfisstofnun frá nýjum losunartölum, sem sýna, að á milli áranna 2018 og 2019 dró úr losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands um 2 %.  Þetta eru frábærar fréttir.  Samdráttur frá árinu 2005 er 8 %."

Litlu verður vöggur feginn.  Vaxandi fjöldi rafmagnsbíla fer að vigta inn til minni benzín/dísilolíunotkunar, en mest munar hér um færri ferðamenn í kjölfar falls WOW-air, og þar af leiðandi minni akstur á vegum úti. Það er varla tilefni til fagnaðarláta, þegar minni losun stafar af minni efnahagsumsvifum, minni atvinnu og minni hagvexti, en þar sannast enn andstaða vinstri grænna við hagvöxt.  Ef um það er val, er of langt gengið í loftslagstrúboðinu að fórna hagvexti fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem hvort eð er hefur engin áhrif á hlýnun andrúmslofts. 

"Aðgerðir í loftslagsmálum eru stærsta velferðar- og efnahagsmálið á þessari öld.  Þær eru grundvöllur fyrir því að geta rétt af misskiptingu og félagslegt óréttlæti í heiminum og stöðvað ósjálfbæra nýtingu auðlinda okkar." 

Í íslenzku umhverfi virkar þessi texti mjög framandi og ankannalegur, og í alþjóðlegu samhengi orkar hann tvímælis.  Ráðherrann er þess vegna hér að fiska í gruggugu vatni. Þetta er tilraun hans til að skapa VG tilverugrundvöll, eftir að stéttabaráttan varð sjálfdauð með yfirtöku heimspekinga, félagsfræðinga og þvílíkra á vinstri hreyfingunni. Losun Íslands hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar, og megnið af iðnaðarlosuninni á Íslandi veldur beinlínis minni losun á heimsvísu. Losun landsins tengist hagkerfinu beint, svo að valdbeiting ríkisins í anda ráðherrans til að minnka hér iðnaðarlosun mundi koma Íslendingum á vonarvöl og auka heimslosunina.  Fyrir landsmenn er þess vegna engin vitglóra í þessum boðskapi ráðherrans. Þarna er um að ræða nýju fötin keisarans.

Asíulönd hafa mörg hver rifið sig upp úr sárri fátækt og til bjargálna með erlendum (mest vestrænum) fjárfestingum, sem leitt hafa til rafvæðingar fjölmennra landa og þar af leiðandi mikillar raforkunotkunar, og þetta viðbótar rafmagn kemur að mestu frá kolaverum og jarðgaskyntum orkuverum, en einnig frá stórum vatnsorkuverum og kjarnorkuverum.  Ætlast Guðmundur Ingi til þess, að þessar þjóðir gefi lifibrauð sitt upp á bátinn ? 

Kínverjar, svo að dæmi sé tekið, glíma við hroðalega loft- og jarðvegsmengun af völdum stefnu sinnar, og þess vegna leita þeir ráða til að snúa á braut orkuskiptanna.  Þeir hafa nú bæði fjárhagslegt og tæknilegt bolmagn til þess, sem þeir höfðu ekki fyrir 30-40 árum.  Líklega eru þeir að þróa kjarnorkuver til að leysa kolaverin af hólmi.  Það verður ekki séð, að nokkra skynsemi sé að finna í tilvitnuðum orðum íslenzka umhverfisráðherrans. Þau eru falsboðskapur. Þetta er marklaust pólitískt kvak loftslagstrúboða með engar haldgóðar lausnir fyrir hagsmuni alþýðu manna. 

"Markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda voru um áramót uppfærð úr 40 % samdrátt til ársins 2030  í 55 % samdrátt. En við þurfum að stefna enn hærra. 

Við þurfum að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins og sjá til þess, að það verði auðveldara og ódýrara að gera við og nýta það, sem til er, heldur en að kaupa nýtt.  

Við þurfum sérstaka áætlun um vernd víðerna, sem óvíða eru meiri en einmitt hér á Íslandi.  Við eigum að vera fremst í því að vernda náttúruna - verða þjóðgarðalandið Ísland.  Og, við þurfum stefnu um verndarsvæði í hafi. 

Í rauninni mætti draga þetta saman í þessa setningu: Við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti.  Á því byggist velferð samfélags okkar til framtíðar.  Svo einfalt er það." 

Hér kennir ýmissa grasa og ekki allra kræsilegra.  Ráðherrann sýnir þarna, að VG-ráðherrarnir, hann og forsætis, hafa algerlega tapað áttum, þegar þau bleyttu á sér þumal, stungu honum upp í loftið og fundu þannig, að Íslendingar gætu dregið úr losun CO2 um 55 % frá losuninni 2005 fyrir árslok 2030.  Það blasir við, að þetta verður þolraun fyrir fjölskyldur og hagkerfið í heild og næst ekki án þungbærra þvingunarráðstafana ríkisins.  Ávinningurinn verður enginn fyrir hitastig andrúmsloftsins.  Samt ógnar ráðherrann með enn meiri samdrætti.  Er ráðherrum vinstri hreyfingarinnar græns framboðs skítsama um lífskjörin í landinu og skeyta ekki um annað en að baða sig í sviðsljósinu með ráðherrum annarra landa ?

Ráðherrann kemur þarna út úr skápnum með það hugarfóstur sitt og VG "að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins".  Þetta þýðir m.a. enn meiri hækkanir opinberra gjalda á benzín og dísilolíu og einhvers konar vörugjald á heimilistæki og aðrar fjárfestingarvörur heimilanna, til að heimilin eigi enn erfiðara með að endurnýja tækjabúnað sinn.  Stækkandi heimili þurfa að stækka þvottavélar, ísskápa o.s.frv.  Hvaða heilvita maður er tilbúinn að taka þátt í þessari gandreið ráðherrans fyrir hégómleika vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og ekkert annað.  

Umhverfisráðherrann vill "Þjóðgarðalandið Ísland".  Hvers vegna í ósköpunum ? Hugdetta ráðherrans um miðhálendisþjóðgarð er allt of stórkarlaleg til að vera fýsileg.  Fyrir hvern er ávinningurinn ?  Náttúruna ?  Búrókratana ?  Hér er um að ræða útþenslu ríkisbáknsins undir umsjón umhverfis- og auðlindaráðherra til að takmarka mjög arðsama nýtingu þessa landsvæðis. Það er engin boðleg stefna um miðhálendið önnur en sú, sem tryggir áframhaldandi stjórnsýslu aðliggjandi sveitarfélaga og hófsama og sjálfbæra nýtingu allra náttúruauðlinda þjóðlendnanna í þágu þjóðarinnar allrar. 

Ráðherrann opinberar mannfjandsamleg viðhorf sín með því að skrifa, að "við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti".  Andstæð stefna við þetta er að setja fólkið í fyrsta sæti. Stefna ráðherrans er að hindra alla nýja nýtingu náttúruauðæfa, sem þó er þjóðinni til hagsbóta, og skattleggja almenning í drep í nafni loftslagsguðsins, sem hann tilbiður.  Ráðherrann boðar helsi og afturhald.  Valkosturinn við stefnu þessa ráðherra er frelsi og framfarir.  "Svo einfalt er það."  D2409TQ37

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þú ert íbúi í ráðstjórnaríki kommúnisma 21. aldarinnar. Meirihluti alþingis íslendinga og meira og minna öll íslensk stjórnsýslan er sýkt af sama vírus og umhverfisráðherra, þau bara fela það, því kommar eru ekki beint vinsælir meðal kjósenda. Taktu eftir að Guðmundur Ingi og Joe Biden eru á nákvæmlega sömu blaðsíðu í þessu.

Forset íslands var fremstur í röðinni að óska Joe Biden til hamingju og Guðlaugur Þór utanríkisraðherra taldi það mikið happ fyrir alþjóðasamfélagið að fá Joe Biden í embættið. Kannski er Guðni bara svona saklaus og einfaldur en ég veit að Guðlaugur þór er ekki nógu vitlaus til að vita ekki að Biden er útsendari Xi og var ekki valin í stafið af kjósendum í bandaríkjunum. 

Guðmundur Jónsson, 8.5.2021 kl. 15:32

2 Smámynd: Jón Magnússon

Frábær grein Bjarni. Takk fyrir hana.

Jón Magnússon, 9.5.2021 kl. 08:59

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir uppörvandi athugasemd, Jón.  Það er sitthvað í pípunum eða eins og sagt var: "You ain´t seen nothing yet".  

Bjarni Jónsson, 9.5.2021 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband