Orkumál í öngstræti

Þann 3. júní 2021 birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu:"Raforkuverð tekur kipp".  Tilefnið var mikil verðhækkun á náttúruafurð Landsvirkjunar (LV), þar sem heildsölugjaldskrá LV hafði nýlega verið hækkuð um 7,5 %-15,0 % eftir flokkum.  Þetta er birtingarmynd óstjórnar orkumálanna, sem lengi hefur verið gagnrýnd á þessu vefsetri, þar sem einn þáttur gagnrýninnar snýst um fullkomið fyrirhyggjuleysi um öflun nýrrar og nægilegrar orku til að verða við óskum viðskiptavina um aukin raforkukaup, jafnvel þegar illa árar í vatnsbúskapinum, eins og nú.

Gildandi orkulöggjöf landsins einkennist af Orkupakka 3 (OP3), og samkvæmt honum á markaðurinn að ráða framboði raforku, og ekki má gera neitt fyrirtæki ábyrgt fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort, því að það gæti skekkt samkeppnisstöðuna. Nú hefur komið í ljós, eins og ítrekað var varað við, að þetta framandi fyrirkomulag í vatnsorkulandi býður hættunni á alvarlegum orkuskorti heim og er sannarlega mjög andsnúið hagsmunum neytenda og atvinnustarfsemi vegna hærra raforkuverðs en nokkur þörf er á, sem af þessu leiðir. 

Ef hér væri nú komið uppboðskerfi raforku, eins og orkustjóra ACER á Íslandi ber að koma á laggirnar hér, og er í undirbúningi, þá hefði heildsöluverð á markaði í byrjun júní 2021 ekki hækkað um 7,5 %-15,0 %, heldur að öllum líkindum tvöfalt meira og færi enn hækkandi, þegar nálgast haustið meira, ef vatnsbúskapurinn braggast ekki í sumar. Þetta má marka af verðþróuninni í Noregi. 

Markaðurinn hér getur ekki brugðizt við með auknu framboði fyrr en eftir nokkur ár vegna langs aðdraganda nýrra virkjana á Íslandi. Þess vegna er þetta kerfi stórslys hérlendis, þar sem engrar fyrirhyggju gætir.  Á framboðshlið eru örfá fyrirtæki, og eitt þeirra gnæfir yfir önnur.  Það hefur markaðinn í greip sinni og hefur nú gengið á lagið.  Þessi staða mála sýnir, að það er vitlaust gefið og að OP3 hentar ekki hér, heldur gerir illt verra. Hvað segir iðnaðarráðherra nú, sem barðist fyrir innleiðingu OP3 á þeim grundvelli, að hann leiddi til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta ? Raunveruleikinn getur reyndar orðið verri en nokkurn grunaði þá, ef Murphys-lögmálið fer að gilda um þessi mál.

Það eru fá rök fyrir því, að ríkisvaldið eigi hér ríkjandi fyrirtæki á raforkumarkaði, nema það beri jafnframt ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna ásamt flutningsfyrirtækinu Landsneti að sínu leyti og sérleyfisfyrirtækjunum í dreifingu að þeirra leyti. Réttast væri að setja lög, hvað þetta varðar strax, og láta reyna á þau fyrir EFTA-dómstólinum, ef ESA   (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir athugasemd.  Um er að ræða nauðsynlega lagasetningu vegna sérstöðu Íslands.  Almannahagsmunir liggja við. 

Þessi hækkun Landsvirkjunar er bæði óþörf og þjóðhagslega illa ígrunduð.  Landsvirkjun er spáð 14 % tekjuaukningu árið 2021 m.v. árið á undan, og lánshæfismat fyrirtækisins var nýlega hækkað af einu matsfyrirtækjanna.  Þessi hækkun kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er atlaga að samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem þessi hækkun bitnar á og hafa verið að krafla sig upp úr öldudalnum.  Það er líklegt, að hinir birgjarnir á heildsölumarkaði raforku fylgi í kjölfarið, og þannig mun hækkunin bitna á öllum heimilum landsins.  Hækkunin mun kynda undir verðbólgu, sem þegar er utan við ytri viðmiðunarmörk Seðlabankans.  Það er svo mikil efnahagsleg áhætta tekin með hækkuninni, að fulltrúi eigandans, fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að beita sér fyrir afturköllun hennar, því að hún vinnur gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og peningastefnu Seðlabankans.  Hlutdeild þessa heildölumarkaðar er svo lítill af heildarraforkumarkaðinum, að minni raforkunotkun af völdum þessarar hækkunar mun vart hafa mælanleg áhrif á stöðu miðlunarlónanna auk þess, sem það er fjarri því öll nótt úti um fyllingu þeirra, þótt útlitið sé slæmt núna, einkum með Þórisvatn.

Staðan í Blöndulóni er yfir meðaltali, en miðlunargeta þess er lítil.  Hálslón er 40 m neðan yfirfalls og undir meðaltali.  Þórisvatn er 13 m neðan yfirfalls og nálægt lágmarksstöðu árstímans. 

Morgunblaðið reyndi að leita skýringa á stöðunni, en fékk ekki góð svör:

"Sérfræðingur, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði afar óvanalegt, að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð á þessum tíma árs og að það væri helzt til marks um, að fyrirtækið teldi hættu á, að framboðshlið markaðarins stefndi í ranga átt.  [Loðið orðalag um minnkandi framboð, en 50 MW brottfall í jarðgufuvirkjun í 3 vikur hefur lítil áhrif, þótt sú orka verði tekin úr miðlunarlónum, og er ekki meira en búast má við vegna venjulegs viðhalds - innsk. BJo.]  Annar sérfræðingur, sem blaðið ræddi við, sagði stöðu lónanna, auk erfiðleikanna í Reykjanesvirkjun, vekja spurningar um, hvort orkufyrirtækin gætu lent í vandræðum með að afhenda ótryggða orku til kaupenda á komandi mánuðum.  Horfa menn þar sértaklega til fiskimjölsverksmiðja, sem hafa verið rafvæddar á síðustu árum, en geta einnig gengið fyrir jarðefnaeldsneyti, ef í harðbakkann slær."

Ekki eru allar fiskimjölsverksmiðjurnar búnar varakötlum fyrir olíu, gas eða kol.  Samningar þeirra um ótryggða orku eru smáræði hjá samningum álveranna þriggja og kísilverksmiðjanna tveggja um ótryggða orku.

Þessi slæma staða orkumálanna var fyrirsjánleg að skella mundi á í nánustu framtíð vegna sleifarlags orkufyrirtækjanna við orkuöflun, og ef vatnsbúskapur þessa árs verður undir meðallagi, þá mun verða orkuskortur og stórtap fyrir atvinnuvegina í vetur.  Vonandi fer þetta ekki á versta veg, svo að skerða þurfi forgangsorkuafhendingu, jafnvel til heimila.  

Hver svarar til saka fyrir þetta ?  Að nokkru er sökudólgurinn Orkupakki 1 frá ESB, en með orkulögunum 2004 í kjölfar hans var afnumin skylda Landsvirkjunar til að sjá þjóðinni fyrir nægri raforku á hverjum tíma.  Það var réttlætt með innleiðingu samkeppni á milli virkjanafyrirtækjanna og smásölufyrirtækjanna.  Það eru ekki góð rök af ástæðum, sem blasa við. Ekkert virkjanafyrirtækjanna virðist vilja reyna að ná stærri markaðshlutdeild með því að virkja.  Það sýnir betur en nokkur orð, að samkeppnin, sem orkupakkarnir áttu að koma á á milli birgjanna, virkar ekki við núverandi aðstæður á Íslandi.  Það eru ekki tíðindi fyrir alla, þótt fólk kunni að vera hissa í iðnaðarráðuneytinu.  

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Henda fyrri athugasemd.

Góð grein.

Ég fór að hugsa betur, er vísvitandi verið að búa til skort, til að geta margfalda verðið eins og í Kaliforníu?

Egilsstaðir, 07.06.2021   Jónas Gunnlaugsson

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2232923/

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2232395/

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2231251/

Jónas Gunnlaugsson, 7.6.2021 kl. 01:45

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, það er sérstaklega mikil hætta á því, þar sem fákeppni ríkir, eins og hér.

Bjarni Jónsson, 7.6.2021 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband