Vetnisvæntingar og virkjanaþörf

Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun.  Sú hugmynd er algerlega út í hött.  Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ?  Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests"). 

Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu.  Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.

Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ?  Það hefur þá farið mjög lágt.  Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi.  Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.    

Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:

"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".

Hún hófst þannig:

""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.  

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt.  Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."

Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns).  Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun".  Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi.  Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %.  Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030.  "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga.  Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði.  Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða.  Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar. 

Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi.  Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni.  Greinin hét:

"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".

Þar stóð í innganginum m.a.:

"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku.  Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár).  Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."

Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði.  Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja.  Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns.  Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær. 

Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks.  Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi.  Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle.  Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar.  Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga.  Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda.  Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.

"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð.  Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.  Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni.  Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk.  Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."

Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku.  Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum.  Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?

Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU.  Viðtalið bar fyrirsögnina:

"Áform um vetnisgarða á Íslandi".

Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:

"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi.  Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama." 

 

""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði.  Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni.  M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180.  Þetta er aðeins vindorkuþátturinn.  Svo er vetnisþátturinn eftir.  Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo]. 

   Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir.  Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu.  Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur.  Það mun samt verða nóg af andmælendum.  Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni. 

Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:

""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi.  Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega.  Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo].  Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning.  Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."  

Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar.  Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi.  Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin. 

Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar.  Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi.  Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil.  Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar.  Þessi hugmynd er sem út úr kú.

Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:

"Vetni framleitt við Ljósafoss",

stóð þetta m.a.:

"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði.  Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg.  Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW.  Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."

 Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu.  Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Hvernig væri að nota vetnið innanlands, t.d. framleiða metanól úr vetni og CO2?

Jacob Beautemp er fræðandi og skemmtilegur, hér fjallar hann um metanól sem orkugjafa á bifreiðar:                            Neues Elektroauto: Tanken statt laden! Methanol-Brennstoffzelle           

Hörður Þormar, 17.6.2021 kl. 18:56

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Afar áhugavert myndband.  Ef hér kemst vetnisframleiðsla á legg, verður hluti þess væntanlega nýttur með ýmsum hætti innanlands, þótt megnið verði flutt út.

Bjarni Jónsson, 18.6.2021 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband