Veiran hefur afhjúpað vítahring Landsspítalans

Landsspítalinn er staddur í vítahring, sem miðstýringarárátta stjórnvalda hefur skapað. Þessi miðstýringarárátta ríkisbúskaparins hefur í heilbrigðisgeiranum t.d. lýst sér sem söfnun allra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu undir Landsspítalann, sem ekki hefur einu sinni eigin stjórn, heldur aðeins framkvæmdastjórn starfsmanna, aðallega lækna, og yfir öllu saman gín síðan heilbrigðisráðuneytið.

Þetta þýðir, að sjúkrahússtarfsfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur aðeins einn vinnuveitanda. Slík einsleitni og einokun býður hættunni heim, og yfirþyrmandi veikleiki þessa fyrirkomulags hefur nú afhjúpazt.  Nefna má neyðarkall 985 heilbrigðisstarfsmanna Landsspítalans í sumar og bréfaskriftir lækna á bráðadeildinni til fjármála- og efnahagsráðherra.  

Af þessari einokun á vinnumarkaði sjúkrahússtarfsmanna á höfuðborgarsvæðinu hefur nú leitt sívaxandi mannekla.  Fólk er óánægt í starfi og segir upp.  Landsspítalanum gengur illa að ráða í stöðurnar með þeim afleiðingum, að vaktirnar eru stundum bara hálfmannaðar.  Þetta leiðir til yfirálags á starfsfólkið, sem eftir er, sem sagt vítahringur.

Þess vegna er Landsspítalinn að kikna undan viðbótar álaginu vegna C-19. Kerfið hefur getið af sér spítala, sem er ekki í stakkinn búinn til að fást við alvarlegan faraldur, eins og þann, sem nú var að fréttast af frá Vestur-Afríku, eða hópslys af verri gerðinni. Flumbrugangur setur mark á stjórnunina.  Yfirlæknum hefur verið fækkað, eins og spítalinn væri kominn undir eitt þak.  Þannig er nú í sumum tilvikum einn yfirlæknir fyrir starfsemi, sem fram fer bæði við Hringbraut og í Fossvogi.  Þetta skapar enn aukið álag og streitu á meðal starfsfólksins, sem leitar annað.  

Enn er Landsspítalinn á föstum fjárlögum í stað þess að taka upp einingarkostnaðarkerfi í líkingu við kostnaðarkerfi sjálfstæðu læknastofanna, sem hefur reyndar verið undirbúið á spítalanum.  Hvað dvelur orminn langa ?

Hvað hefur heilbrigðisráðherra núverandi ríkisstjórnar gert til að leysa vaxandi "mönnunarvanda" Landsspítalans ? Í stuttu máli hefur hún hellt olíu á eldinn.  Í stað þess að beita sér fyrir því að létta álagi af Landsspítalanum með því að færa verkefni til læknastofanna og frjálsra félaga, hefur hún leitazt við að færa fleiri verkefni til Landsspítalans og þrengja  að starfsemi læknastofanna. 

Þetta er gert í flaustri og algerri vanþekkingu á aðstæðum Landsspítalans, sem er í engum færum aðstöðulega eða þekkingarlega til að taka við aðgerðunum, sem framkvæmdar eru í Klíníkinni, Orkuhúsinu og annars staðar í þessum geira.  Það er ekki nóg að kalla Landsspítalann hátæknisjúkrahús í snotrum ræðum. Hann stendur varla undir því, en mun vonandi gera það, eftir að starfsemin flyzt í nýtt húsnæði.  Þetta kom t.d. fram í Morgunblaðinu 9. ágúst 2021 í frétt á bls. 4:

"Starfsfólk LSH taki of mörg skref".

"Ragnheiður H. Magnúsdóttir, vélaverkfræðingur og formaður tækninefndar, en hlutverk hennar er að undirbúa stefnu ríkisstjórnarinnar, er lýtur að tækniþróun og nýsköpun, kveðst sannfærð um, að auka mætti framleiðni Landsspítalans með stafrænni umbreytingu. Það sé skrýtið, að enginn tæknimenntaður einstaklingur sé í framkvæmdastjórn spítalans. "Ég held, að það sé hægt að hagræða töluvert með því að fjárfesta í stafrænum verkefnum." 

Það er tímaskekkja, að enginn verkfræðingur eða tæknifræðingur skuli sitja í framkvæmdastjórn LSH, og hér skal taka svo djúpt í árinni, að hátæknisjúkrahús geti vart verið réttnefni á slíkum vinnustað, enda virðist upplýsingakerfi sjúkrahússins vera ósamstætt og úrelt.  Það er engin stjórn yfir spítalanum, og framkvæmdastjórnin er allt of einsleit.  Af samtölum við starfsfólk má greina bullandi starfsóánægju og halda mætti, að hver höndin væri þar uppi á móti annarri á köflum.  Það er þó náttúrulega ekki svo við skurðarborðið. 

"Á Landsspítalanum séu allir í stjórninni ýmist læknar eða hjúkrunarfræðingar að undanskildum einum viðskiptafræðingi.  Það sé ekki kjörið að vera með svo keimlíkan hóp fólks með svipaðan bakgrunn."

""Það eru ótal hlutir að breytast í okkar heimi, en við erum enn þá eins og árið sé 1995 á þessum spítala", segir Ragnheiður.  Með því að nýta stafrænar lausnir færðu hamingjusamara starfsfólk og sjúklinga að mati Ragnheiðar.  Stytta megi ferla, spara sporin og veita betri þjónustu. "Ef þetta væri hátæknisjíkrahús, þá væri starfsfólk að flykkjast hingað." 

Stjórnendur, sem láta tækniþróun vinnustaðarins dankast með þessum hætti, eru ekki starfi sínu vaxnir.  Það verður að stokka stjórnkerfi spítalans upp, skipa honum stjórn fjölbreytilegs fólks og gera áætlun um tæknivæðingu hans.  Líklega væri rétt að skilja Fossvogsspítala frá LSH.  Hann gæti verið einkarekinn eða sjálfseignarstofnun, sem fengi greitt frá Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt einingarkostnaðarkerfi, eins og læknastofurnar. Þar með kemur samkeppni um þjónustu og vinnuafl.  Starfsfólkið hefur þá raunverulegt val, sem er lykilatriði.  Það er ekki nú, enda er Landsspítalinn að veslast upp, þrátt fyrir gríðarlegar auknar fjárveitingar úr ríkissjóði.

Um skeið hefur þróun á fjölda daglegra smita hérlendis bent til, að búast megi við svipaðri þróun og varð á Englandi í kjölfar "frelsisdagsins", sem þeir nefna þar, þ.e. 19.07.2021, þegar allar samkomutakmarkanir voru afnumdar á Englandi.  Þess vegna varð tilkynning heilbrigðisráðherra 10.08.2021 vonbrigði, því að hún mun framlengja takmarkanirnar, sem í gildi voru, um 2 vikur.  Tilgreind ástæða er að venju illa rökstudd.  Nú var því borið við, að ekki væri vitað, hvernig Delta færi með bólusett fólk yfir sjötugu.  Þetta er rangt.  Frá Ísrael berast þær fregnir, að þeim farnist vel, og reynslan héðan bendir til hins sama. Eftir Tom Jefferson, prófessor í Oxford, er eftirfarandi haft:

"Ég er ekki sannfærður um, að hegðun faraldursins ráðist mikið af inngripum okkar.

Höfundur þessa vefpistils hefur miklar efasemdir um gagnsemi opinberra hafta í sóttvarnarskyni, og þau valda ótvírætt tjóni, einnig á heilsufari, eins og ýmsar tölur frá 2020 sýna.  Með þjóðina yfir 15 ára fullbólusetta, er ástæðulaust og óverjandi að vera með nokkrar opinberar fyrirskipanir lengur.  Félögum og einstaklingum er þá í sjálfsvald sett, hvað þau gera í sóttvarnarefnum, enda komi ráðleggingar frá yfirvöldum. T.d. að takmarka aðgang að sundlaugum og þreksölum við 75 % er kjánalegt. 

Höfundur þessa vefpistils sér heldur enga skynsemi í þeirri ráðstöfun stjórnvalda að bólusetja unglinga 12-15 ára, því að þeir veikjast yfirleitt mjög lítið af C-19.  Til hvers á þá að taka áhættuna með þá af neikvæðum áhrifum og jafnvel sjúkdómum af völdum bólusetninga ?  Ónæmi þeirra er öflugra og endist betur, ef þeir mynda það á náttúrulegan hátt, þ.e. við það að smitast af veirunni.  Hér er verið að leggja í kostnað og áhættu að óþörfu. Englendingar bólusetja yfirleitt ekki þennan aldurshóp, svo að einhverjir séu nefndir. 

 

Hörður Ægisson hefur ritað gagnmerkar forystugreinar í Fréttablaðið um hræðsluáróður fyrir höftum í sóttvarnarskyni.  Ein birtist 30. júlí 2021: 

"Að hræða þjóð":

"Munum, hvert verkefnið hefur verið frá upphafi.  Markmiðið er ekki, að enginn smitist eða þurfi að leggjast inn á sjúkrahús, heldur að verja heilbrigðiskerfið fyrir of miklu álagi, og að koma landsmönnum í var með bólusetningum.  

Það vekur furðu, að einungis 2 innlagnir þurfi nú til þess, að Landsspítalinn lýsti yfir hættustigi.  Einn af yfirlæknum hans skellti skuldinni þar á stjórnvöld í stað þess að líta á þá stöðu til marks um heimatilbúinn vanda, sem hefði eitthvað með slælegan rekstur og stjórnun spítalans að gera. 

Vert er að nefna, að þegar svínaflensan herjaði á heimsbyggðina 2009, þurftu 170 manns á sjúkrahúsinnlögn að halda, þar af 16, sem voru lagðir inn á gjörgæzlu á innan við tveimur mánuðum, en samt var það mat þáverandi stjórnenda, að ástandið væri viðráðanlegt."

Það hefur gætt hringlandaháttar í boðskap sóttvarnaryfirvalda til þjóðarinnar.  Það er óskiljanlegt, að allan tíma Kófsins skuli Sóttvarnarráð aldrei hafa verið kallað saman til að móta stefnuna, en núverandi fyrirkomulag með einn mann, sóttvarnarlækni, í lykilhlutverki er ófært, enda hefur hann reynzt anzi mistækur, t.d. í yfirlýsingum sínum um mátt bóluefnanna, hjarðónæmi og ofurtrú á samkomutakmarkanir og sóttkví, jafnvel eftir að "fullu" bólusetningarstigi landsmanna er náð.  Þá orkar mjög tvímælis, að réttmætt sé að bólusetja 12-15 ára. 

Samanburður Harðar á þanþoli Landsspítalans nú og 2009 staðfestir, hversu mjög hefur sigið á ógæfuhliðina á LSH á rúmum áratugi, enda er LSH ekki fær um að fullmanna mikilvægar vaktir, jafnvel utan sumarorlofstíma. Hann býr við trénað stjórnkerfi, sem heilbrigðisstarfsfólk þrífst illa í.  Núverandi heilbrigðisráðherra hefur magnað vandann með því að færa fleiri verkefni til spítalans, sumpart með óhugnanlegum afleiðingum, í stað þess að létta á spítalanum með því að færa verkefni til læknamiðstöðvanna, en tækniþróunin hefur gert að verkum, að þær eru nú í stakk búnar til fleiri og fjölbreytilegri aðgerða en áður.  Heilbrigðisstefnuna hefur rekið upp á sker, og fyrir því eru vinstri-græningjarnir Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ábyrgar.  Þær valda ekki sínum erfiðu hlutverkum. 

"Við þurfum að fara að horfa til framtíðar.  Það, sem ætti að valda fólki mestum áhyggjum nú, er ekki farsóttin, sem tæpast er rétt að kalla lengur því nafni, heldur hvað það ætlar að reynast erfitt að koma lífinu aftur í sem eðlilegast horf þrátt fyrir víðtæka bólusetningu, sem er að skila því, sem henni var ætlað.

Áfram er kynt undir hræðsluáróðrinum á öllum vígstöðvum með látlausum ekki-fréttum af fjölda smita bólusettra, hversu margir séu í sóttkví og síbylju í fjölmiðlum um, að ekki sé nóg að gert í sóttvarnaaðgerðum. 

Niðurstaðan af þessu fári öllu saman er, að allt áhættumat samfélagsins er orðið verulega skekkt. Reynt er í sífellu að réttlæta víðtækar takmarkanir, jafnvel til langrar framtíðar, þegar hættan, sem stafar af veirunni, er hverfandi.  Við svo búið má ekki lengur standa. Það er undir stjórnvöldum komið, ekki sóttvarnalækni, að rétta af kúrsinn."

   Það er rétt hjá Herði, að það gætir allt of mikillar tregðu að afnema kófshöftin, nú þegar sýkingareinkennin eru væg fyrir langflesta, með því fororði, að þeir, sem umgangast viðkvæma á borð við dvalargesti á hjúkrunarheimilum, undirgangist hraðpróf áður en þeir nálgast viðkomandi.  Þá ætti að leysa sóttkví af hólmi með hraðprófum, því að sóttkví er mjög íþyngjandi og dýr.  Sóttkví ætti ekki að tíðkast lengur í skólastarfi, en einangrun á enn við um sýkta í þjóðfélaginu. 

Það eru furðumargir, sem enn trúa á réttmæti opinberra sóttvarnarhafta á borð við 1 m eða jafnvel 2 m reglu að viðlagðri grímuskyldu, 200 manna samkomuhámark eða 75 % aðgangsmark að sundlaugum og þreksölum.  Þessar stjórnvaldstilskipanir eru íþyngjandi fyrir landsmenn og hafa sennilega ekkert sóttvarnargildi.  Þess vegna ber að afnema þær og predika persónubundnar varnir. 

Það er líka rétt hjá Herði Ægissyni, að búið er að brengla áhættumat almennings, og á þríeykið s.k. nokkra sök á því.  Málflutningur lögreglumannsins þar  hefur iðulega sætt furðu, en hann er anzi fullyrðingasamur.  Það er brenglað áhættumat, þar sem ætluð nytsemi er talin meiri en ætlað tjón af bólusetningum unglinga 12-15 ára.  Enskir sérfræðingar vara margir hverjir við bólusetningum 16-17 ára, sem komið hafa til tals þar í landi. 

Bólusetningum við þessari  kórónuveiru virðist aldrei ætla að linna.  Þann 11.08.2021 var tilkynnt um, að ríkisstjórnin brezka hefði pantað 30 M skammta frá Pfizer á 22 GBP/stk (=3855 ISK/stk) fyrir 2022, en skammtar ársins 2021 kostuðu 18 GBP/stk (=3155 ISK/stk).  Hækkunin er 22 %, sem kemur spánskt fyrir sjónir, ekki sízt í ljósi þess, að verndunarvirknin er miklu minni en Pfizer-Biotech upplýstu um, að væri niðurstaða tilrauna þeirra. Í þeim tilraunafösum var sleppt tilraunum á dýrum, en síðar hafa komið í ljós skelfilegar afleiðingar af tilraunum með kófsbóluefni á dýrum.  Það eru e.t.v. mrd 50 ár á milli í þróunarstiganum, svo að e.t.v. má ekki draga of miklar ályktanir af þessu.     

 

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband