Afleiðingar hækkandi koltvíildisstyrks í lofthjúpinum

Árið 1994 birtu samstarfsmennirnir dr John Christy (JC), loftslagsfræðingur og prófessor við UAH (University of Alabama-Huntsville), og Dick McNider (DMN) fræðigrein í Nature um hitastigsþróunina í lofthjúpi jarðarinnar á tímabilinu 1979-1993 (15 ár), en þeir höfðu þá nýlokið við að safna hitastigsmæligögnum frá gervitunglum á braut um jörðu. Sennilega var hér um brautryðjendaverkefni að ræða af þeirra hálfu, og enginn hefur véfengt há gæði þessara mæligagna til að leggja mat á varmaorku lofthjúpsins og breytingar á henni á þessu skeiði.

Að sjálfsögðu var IPCC (loftslagsvettvangur SÞ) í lófa lagið að nýta sér þessi verðmætu gögn til að sannreyna spálíkan sitt, sem reiknaði út hitastigshækkun lofthjúpsins sem fall af aukningu koltvíildisígilda í lofthjúpnum. Þróun hitastigsins helzt í hendur við aukinn koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en IPCC ýkir hins vegar áhrifin af CO2 á hitastigið stórlega.

Líkan James Hansens o.fl. gaf þá stigulinn 0,35°C/áratug, en mæligögn JC og DMN sýndu allt annan raunveruleika eða 0,09°C/áratug, sem var fjórðungur af hitastigsstigli IPCC í þá daga. Ef IPCC hefði haldið sígildum heiðarlegum vísindavenjum í heiðri, þá hefði þessu líkani verið kastað fyrir róða og ný spá verið birt síðar með endurbættu líkani, sem a.m.k. tækist að fylgja raunveruleikanum í fortíðinni. Það var ekki gert, heldur mæligögnum JC og DMN stungið undir stól og reynt að þegja niðurstöður þeirra í hel, en það er mjög ótraustvekjandi hegðun, sem bendir til, að fiskur liggi undir steini hjá þeim. Í raun glataði IPCC öllum vísindalegum trúverðugleika, svo að ekkert vit er í að reisa löggjöf og íþyngjandi regluverk á upphrópunum og allt of háum hitastigsspám þaðan.

Árið 2017 endurtóku félagarnir JC og DMN úrvinnslu sína á gríðarlegu gagnasafni hitastigsmælinga úr gervitunglum, sem nú náði yfir 37,5 ár, 1979-2017. Endurtekin athugun þeirra nú leiddi til nánast sömu niðurstöðu.  Að vísu hafði stigullinn hækkað um tæplega 6 %, enda gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda bætzt við í lofthjúpnum á síðari hluta tímabilsins, 1994-2017. Stigullinn fyrir allt tímabilið var nú orðinn 0,095°C/áratug, en var enn aðeins 27 % af viðteknum stigli IPCC.  

Þessi mismunur á útreiknuðum (IPCC) og mældum (úr gervihnöttum) hitastigli hefur auðvitað gríðarlega þýðingu fyrir mat á þróun hitastigs á jörðunni.  Ef losun koltvíildisígilda eykst um 1,0 % á ári, þá mun koltvíildisstyrkurinn hafa tvöfaldazt að 70 árum liðnum. CMIP 5 meðaltalslíkan IPCC reiknar út hækkun hitastigs á slíku 70 ára tímabili um 2,31°C +/- 0,20 °C, en Christy og Nider hins vegar 1,10°C +/- 0,26°C. Við þetta þarf að bæta núverandi hitastigi til að fá áætlað hitastig að 70 árum liðnum.

Á þessu tvennu er reginmunur, sem hefur þær afleiðingar, að stefnumörkun flestra eða allra ríkja, t.d. í orkumálum, væri að öllum líkindum með allt öðrum hætti en raunin er, ef ríkin hefðu réttar upplýsingar. Tækniþróuninni væri gefið meira ráðrúm til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með ódýrari hætti en flestum býðst nú (Íslendingar eru í sérstaklega góðri stöðu), og fyrir vikið hefði raforkuverðið til neytenda ekki hækkað jafnmikið og raunin er (sums staðar þrefaldazt síðan 2010). 

Evrópusambandið (ESB) hefur sýnt talsverðan metnað til að vera leiðandi á heimsvísu við orkuskiptin. Engum vafa er undirorpið, að dómsdagsspár IPCC hafa átt mestan þátt í að flýta miklum og kostnaðarsómum lagabálkum ESB.  Þannig sá losunarkvótakerfi ("cap-and-trade scheme") dagsins ljós árið 2005, en þar fylgdi sá böggull skammrifi, að skyldukaup fyrirtækja á losunarheimildum skákaði þeim í lakari samkeppnisstöðu en áður á heimsmarkaðinum. Loftslagsstefna og orkustefna ESB eru fléttaðar saman í Orkupakka 4.  Vegna ólíkra aðstæðna hér og þar á þessi löggjöf Evrópusambandsins lítið sem ekkert erindi hingað norður eftir.

Fyrirtæki í ESB færðu þess vegna starfsemi sína þangað, sem losunarkostnaður var lítill að enginn, og þessi "kolefnisleki" leiddi í raun til heildaraukningar á losun koltvíildis út í andrúmsloftið.  Þetta frumhlaup búrókrata ESB má væntanlega skrifa á hræðsluáróður IPCC. 

ESB reyndi að stoppa upp í lekann með niðurgreiðslum á og fjölgun losunarheimilda, en verð á CO2 hefur aftur hækkað og er nú komið upp í 50-60 EUR/t (fimmföldun). Íslenzk fyrirtæki hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á ETS-kerfi ESB (kolefniskvótakerfi), því að hér hafa engar opinberar niðurgreiðslur tíðkazt á þessu sviði.

Í stað niðurgreiðslanna á að koma kolefnistollur á innflutning til að jafna samkeppnisstöðuna.  Þann 14. júlí 2021 (á Bastilludaginn) var kynnt áætlun um kolefnistoll á innflutning ("carbon border-adjustment mechanism"-CBAM). Á árabilinu 2025-2035 munu framleiðendur áls, sements, áburðar og stáls smám saman missa niðurgreiðslurnar, en innflytjendum þessara vara verður gert að kaupa nýja útgáfu af losunarheimildum.  Hversu margar losunarheimildir þeir verða að kaupa fer eftir því, hvað ESB áætlar, að mikil óskattlögð kolefnislosun hafi átt sér stað við framleiðsluna í útflutningslandinu. 

Búizt er við, að þetta geti leitt til þess, að í framleiðslulöndunum verði lagt kolefnisgjald á þessar útflutningsvörur til að fá gjaldheimtuna heim, en við framleiðslu þessara útflutningsvara myndast minna en 10 % losunar þessara útflutningsríkja. Þetta skriffinnskukerfi ESB breytir þess vegna litlu fyrir lofthjúpinn. Óánægja er með þetta kerfi á meðal sumra viðskiptalanda, t.d. Ástralíu og Indlands og Bandaríkin hafa mótmælt þessu sem rétt einum tæknilegu viðskiptahindrununum af hálfu ESB. Miklar flækjur geta myndazt, þegar farið verður að leggja tollinn á, enda í mörgum tilvikum óvissa töluverð um raunverulega losun.  Þannig ratar heimurinn í alls konar vandræði og kostnað vegna tilfinningarinnar um, að mjög skammur tími sé til stefnu, svo að ekki sé nú minnzt á angistina, sem dómsdagsspádómarnir valda mörgu fólki, ekki sízt ungu fólki. Engin teikn eru á lofti um, að IPCC muni á næstunni sjá að sér, játa villu síns vegar og lofa bót og betrun. Á meðan verður hamrað á þeim með hitastigsmælingum Johns Christy og Dicks McNider. 

Athygli hefur vakið, að einum stjórnmálaflokki á Íslandi virðist ætla að takast að móta sér ígrundaða loftslagsstefnu án teljandi áhrifa þess heilaþvottar, sem rekinn er af talsmönnum IPCC-skýrslanna.  Þetta er Miðflokkurinn, en formaður hans skrifaði 12. ágúst 2021 grein í Morgunblaðið, sem ætla mætti, að væri reist á upplýsingum um raunhitamælingar dr Johns Christy o.fl., þótt þeirra sé hvergi getið í greininni:

"Öfgar og heimsendaspár leysa ekki loftslagsmálin".

"Í ljósi reynslunnar [af Kófinu-innsk. BJo] blasir við, að stjórnvöld muni nú vilja nýta aukin völd sín í nýjum tilgangi. Það munu þau gera með vísan í loftslagsmál.  Það er því tímabært að ræða, hvort og þá hvernig þeim verði heimilað að beita auknum hömlum. Ef íslenzk stjórnvöld gera það á grundvelli loftslagsstefnu undanfarinna ára, mun það fela í sér mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið, minnkandi framleiðslu [og] lífskjaraskerðingu og skila nákvæmlega engum árangri í loftslagsmálum."   

Hömlur í nafni loftslagsváar, sem IPCC boðar stöðugt, hafa þegar verið innleiddar eða boðaðar á öllu EES-svæðinu.  Þar má nefna kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti, kolefnisgjald af losun atvinnurekstrar og bann við innflutningi bifreiða, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti auk krafna um íblöndun lífeldsneytis í innflutt benzín og dísilolíu. Bann við kaupum á slíkum nýjum gripum á víða að taka gildi árið 2040, en íslenzka ríkisstjórnin valdi árið 2030 til þessa banns, og hinn öfgafulli umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir árinu 2025 í ríkisstjórninni, en varð undir, sem betur fór.

Þessi maður er líka þekktur sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar.  Í því starfi stóð hann fyrir endalausum tafaleikjum og kærum vegna innviðaframkvæmda, sem tvímælalaust voru í þágu almannahags. Viðhorf hans til náttúruverndar eru bæði einstrengingsleg og langt handan þess meðalhófs, sem gæta ber, svo að bezta þekking fái notið sín við nýtingu orkulindanna.  Þeir, sem standa gegn framfaramálum í þágu aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar, svo að ekki sé talað um orkuskiptin, eru afturhaldsmenn. 

Þannig átti alræmt hálendisfrumvarp ráðherrans að vera gambítur afturhaldsins gegn nýframkvæmdum á hálendinu á sviði vegalagninga, virkjana og orkuflutnings. Yfir þessu landflæmi, Miðhálendinu, átti að gína stjórn og embættismannaklíka í stað virkrar verndunar og uppgræðslu íbúa aðliggjandi sveitarfélaga undir eftirliti forsætisráðuneytis, sem fer með þjóðlendumál í landinu.  Vissulega mundi felast frelsisskerðing í slíku, þó varla í nafni loftslagsváarinnar, heldur náttúruverndar á villigötum.

 "Ólesin hefur skýrslan [6. skýrsla IPCC-innsk. BJo] verið gripin fegins hendi og notuð sem rökstuðningur fyrir þeim heimsendaspám, sem haldið var mjög á lofti, þar til þær féllu í skugga veirunnar um sinn.  Í hvert skipti, sem verða hamfarir tengdar veðurfari, eru þær tengdar við loftslagsbreytingar (sem nýaldarpólitíkusar vilja nú gefa nýtt nafn að hætti Orwells og kalla "hamfarahlýnun"). Þótt popúlistar stökkvi á alla slíka atburði og telji þá tilefni til að veita stjórnvöldum aukin völd til að hefta framþróun og skerða frelsi almennings, gleymist alltaf eitt mikilvægt atriði. Það kallast samhengi."

Hér markar formaður Miðflokksins flokknum sess, sem á sér engan líka á meðal núverandi flokka á Alþingi. Kenningin um "hamfarahlýnun" stendur á brauðfótum, af því að reiknilíkanið, sem hún er reist á, er ónýtt.  Það er órafjarri raunveruleikanum og þess vegna hrein gervivísindi til að halda uppi falsáróðri, sem miðar að því að stöðva framfarasókn þjóða og hagvöxt hagkerfa þeirra.  Þetta er sami boðskapurinn og í "Endimörk vaxtar" ("Limits to Growth"), þar sem líka voru settir fram alls kyns spádómar um 1960, sem áttu að verða að raunveruleika á síðustu öld, en það hefur ekki gerzt, af því að hugsunin að baki var meingölluð. 

Síðan vitnar Sigmundur Davíð í Björn Lomborg hjá "Copenhagen Consensus", en niðurstöður hans eru í samræmi við tölfræðilega samantekt dr Johns Christy á stórum veðurfarsatburðum yfir langan tíma, þar sem hann sýnir fram á, að engin tilhneiging er til fjölgunar eða stækkunar ýmissa atburða í tímans rás, nema síður sé:

"Með vísan í opinber gögn hefur Björn sýnt fram á, að tíðni náttúruhamfara, sem tengja má veðurfari, hafi síður en svo aukizt (þótt veðurfarsbreytingar geti haft áhrif). Einnig það, að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun mannfólks og mjög aukna byggð á þeim svæðum, sem líklegust eru til að verða fyrir áhrifum veðurfarstengdra hamfara, sé fjöldi þeirra, sem látast af slíkum völdum, aðeins brot af því, sem áður var.  Fjöldinn hefur fallið um meira en 99 % á einni öld.

Framfaraþrá og vísindaleg nálgun hafa skilað mannkyninu gríðarlegum árangri.  Það er því mikið áhyggjuefni, ef því verður nú fórnað á altari öfgahyggju, sem lítur á manninn sem vandamál fremur en uppsprettu lausna og framfara."[Undirstr. BJo]

Í undirstrikaða hlutanum hittir Sigmundur Davíð naglann á höfuðið.  Vanhugsuð öfgahyggja um endimörk vaxtar klæðir sig óverðskuldað í búning vísinda og hefur tekizt að ná fyrirsögnum í fréttunum með kukli og þöggun vísindamanna, sem standa undir nafni.  

Tilvitnaðar athuganir Björns Lomborgs afsanna ekki hlýnun lofthjúps jarðar, enda hefur hún átt sér stað, en aðeins í miklu minni mæli en IPCC hefur reiknað út.  Mæliniðurstöður afsanna hins vegar útreikninga IPCC.  Málflutningur Björns Lomborgs getur komið heim og saman við mæliniðurstöðurnar, því að aukning varmaorku lofthjúpsins er lítil frá 1850 vegna sjálfreglandi eiginleika lofthjúpsins (hækkað hitastig veldur aukinni hitageislun út í geiminn).

"Stjórnvöld víða á Vesturlöndum hafa ofurselt sig ímyndarnálguninni í loftslagsmálum, sama hvað það kostar.  Þegar brezk stjórnvöld samþykktu markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, upplýsti þáverandi fjármálaráðherra, að það myndi kosta talsvert yfir mrdGBP 1000 að ná markmiðinu (yfir ISK 175.000.000.000.000). Síðar var sú tala álitin vanáætluð.  Fyrir slíka peninga væri hægt að ná miklum framförum og bæta líf margs fólks."  

Á íslenzkan mannfjöldamælikvarða nemur þessi upphæð tæplega mrdISK 950 eða um 30 % af vergri landsframleiðslu á ári.   Þótt upphæðin kunni að verða lægri á Íslandi, af því að þegar hefur orðið græn umbylting á sviði raforkuvinnslu og húsakyndingar, verður um risavaxinn kostnað að ræða í virkjunum, orkuflutnings- og dreifimannvirkjum, hleðslustöðvum fyrir bíla, skip og flugvélar o.s.frv. vegna orkuskiptanna. Það er mikið til í því, að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem helzt vilja eigna sér loftslagsmálin, þótt þeir beri lítið skynbragð á þau, hafi gerzt sekir um ótilhlýðilega tækifærismennsku.  Þar hefur forsætisráðherra verið sýnu verst, t.d. þegar hún kynnti til sögunnar nýja og enn strangari skuldbindingu Íslands á alþjóðavettvangi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55 % árið 2030 m.v. 1990 án þess, að nokkur tilraun til kostnaðargreiningar væri þá fyrir hendi, hvað þá fjármögnun.  Þannig gerði hún sig bera að hreinræktuðu lýðskrumi.  Þannig á ekki að stjórna ríki. 

 Hvað hefur Sigmundur að segja um það, hvernig skuldbindingar forsætisráðherra verða uppfylltar ?:

"Það er í öllu falli ljóst [ísl.: a.m.k.], að ekki er hægt að ná markmiðinu, nema með því að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neyzluhegðun og hefta ferðafrelsi.  Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda.  Minni framleiðslu og neyzlu má svo auðveldlega endurorða sem lakari lífskjör.

Störf og framleiðsla munu í auknum mæli færast frá Vesturlöndum til Kína og annarra vaxandi efnahagssvæða.  Allt þetta leiðir til aukinnar misskiptingar, þar sem færri hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur.  Það verður ekki leyst með grænum styrkjum (sem að mestu hafa farið í að niðurgreiða dýra bíla) eða nýjum "grænum" hátæknistörfum."

Þetta er ein af ýmsum mögulegum sviðsmyndum, sem gætu rætzt á næsta áratug, ef glundroðaflokkarnir á vinstri vængnum verða hér með tögl og hagldir á Alþingi og í borgarstjórn eftir næstu kosningar. Af þessu sést líka, að stefna forsætisráðherra og umhverfisráðherra í loftslagsmálum er komin í blindgötu, þangað sem útilokað er, að meirihluti þjóðarinnar kjósi að fylgja þeim. 

Þarna opinberast til hvers refirnir eru skornir með loftslagsáróðri IPCC.  Það á með skefjalausum hræðsluáróðri að telja fólki trú um, að "der Kreislauf des Teufels" eða djöfulleg hringrás síhækkandi hitastigs á jörðunni sé handan við hornið, nema þjóðir heims hverfi af braut hagvaxtar og samþykki að taka á sig allar þær hörmungar, sem af langvarandi samdrætti og stöðnun hagkerfanna leiðir.  Sem betur fer vitum við núna, að þetta er falskur tónn, reistur á gervivísindum, sem reikna út miklu meiri hitastigshækkun af völdum viðbótar koltvíildis í lofthjúpnum en hitamælingar með beztu þekktu aðferðum sýna.  Það er kominn tími til að endurskoða þá vitleysu, sem er hér í gangi. Forystu um það eru stjórnmálamenn með samúð með kenningum "Endimarka vaxtar" ófærir um að veita.

Eftir þessa frásögn rakti Sigmundur Davíð í lokin viðhorf sín til þess, hvernig stjórnmálamönnum ber að fást við loftslagsmálin, og undir þessi viðhorf skal hér taka heilshugar:

"Raunin er sú, að það er bezt fyrir loftslagsmál heimsins, að við framleiðum sem mest á Íslandi.  Eftirspurn eftir vörum og lífsgæðum mun bara aukast í heiminum.  Milljarðar manna vilja að sjálfsögðu vinna sig upp úr fátækt, og skert lífskjör á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum munu ekki koma í veg fyrir það. 

Það er ekki hægt að hverfa af braut framfara.  Þvert á móti; við þurfum að leysa loftslagsmálin, eins og önnur stór viðfangsefni, með vísindum og annarri mannlegri hugkvæmni.  Á því sviði eigum við Íslendingar mikil tækifæri, ef við látum ekki heimsendaspámenn og önnur afturhaldsöfl stöðva okkur. 

Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku.  Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur.  Það mun þýða, að losun landsins aukist í stað þess að minnka, en á heimsvísu mun það draga úr losun [og] reynast það bezta, sem við getum gert í loftslagsmálum og bæta lífskjör Íslendinga."  

Hér eru rökréttar ályktanir dregnar út frá raunverulegri stöðu loftslagsmálanna og hagsmunum landsmanna og raunar allrar jarðarinnar um framfarastefnu í orkumálum.  Við erum hins vegar ekki sjálfstæð þjóð í loftslagsmálum, heldur bundin á klafa loftslagsstefnu ESB, þótt Evrópusambandið búi við allt aðrar aðstæður en við.  T.d. er um 20 % heildarorkunotkunar ESB úr endurnýjanlegum orkulindum, en hérlendis um 80 %.  

Nú er eitt glatað kjörtímabil í orkumálum að renna sitt skeið, þar sem ekki hefur verið hafizt handa við neina virkjun > 100 MW og ekki hefur verið samið við neinn nýjan stórnotanda raforku.  Afleiðingin af því er lægra atvinnustig en ella, óþarflega litlar erlendar fjárfestingar og hagvöxtur, sem að mestu er borinn uppi af erlendum ferðamönnum, sem eru ófyrirsjáanlegir. Nú stefnir í raforkuskort á komandi vetri.  

Það verður að losa um hreðjatak afturhaldsins í landinu á nýjum virkjanaáformum, því að tækniþróunin mun senn gera kleift að framleiða ýmsar vörur hagkvæmt með engri eða sáralítilli losun koltvíildis, t.d. ál, og "grænt" vetni, þ.e. rafgreint vetni úr vatni með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum er þegar tekið að hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar.  Norðmenn eru nú þegar að fjárfesta í vetnisverksmiðjum hjá sér.  Við megum ekki láta afturhaldsöfl, sem berjast í raun gegn hagvexti, verða þess valdandi, að hvert viðskiptatækifærið á fætur öðru renni okkur úr greipum.  

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Ég sé það fyrir mér að Grímseyingar verði útflytjendur á orku í formi vetnis.

En væntanlega verður það eftir minn dagkiss.

Hörður Þormar, 20.8.2021 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband