Með skipun nýs orkumálastjóra var brotið blað

Halla Hrund Logadóttir, stjórnmálafræðingur BA, var skipuð Orkumálastjóri f.o.m. 19.06.2021. Það eru engin tíðindi, að kona skuli hafa verið valin úr hópi 15 umsækjenda af báðum kynjum. Það eru út af fyrir sig ánægjuleg tíðindi, að kona skyldi nú verða fyrir valinu í fyrsta sinn í 54 ára sögu þessa embættis.

  Segja má, að kvenfólki hafi vegnað betur á framhaldsskólastigi undanfarin ár, og það hefur verið í meirihluta háskólanemenda um skeið. Þess vegna er eðlilegt, að konum fjölgi nú talsvert í stöðum, þar sem krafizt er háskólamenntunar.  Annað mál er, að það þarf að komast fyrir rætur hás brottfalls drengja úr skóla. 

Nú vantar iðnaðarmenn af margvíslegu tagi, en þá bregður við svo við, að skólakerfið er vanbúið að taka við efnilegum nemendum, sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig þær spennandi greinar, sem iðnnámið býður upp á. 

 

Embætti Orkumálastjóra í sinni núverandi mynd var stofnað árið 1967 með raforkulögum.  Síðan hafa 3 gegnt því og allir haft raunvísindamenntun, og voru 2 verkfræðingar. Það, sem pistilhöfundi þykir aðallega brjóta blað við þessa ráðningu, er, að 4. Orkumálastjórinn (raunverulega 5., ef talið er frá 1947) hefur ekki raunvísindalegan bakgrunn úr háskóla, eins og allir hinir.  Engum vafa er undirorpið, að sá bakgrunnur og í flestum tilvikum verkfræðileg reynsla reyndist forverunum vel.  Hvort hún var þeim nauðsynleg í starfi Orkumálastjóra, skal ósagt láta, en hvorki hæfnisnefndin né ráðherrann, sem veitti stöðuna, hafa látið svo lítið að útskýra þetta fráhvarf frá hefðinni. 

Höfundur þessa pistils ætlar sér ekki þá dul að leggja að öðru leyti nokkurt mat á störf hæfnisnefndarinnar eða að bera saman hæfni umsækjenda, enda væri slíkt harla marklítið úr þessu.  Aðeins verður að vona, að hæfnisnefnd og ráðherra hafi komizt að réttri niðurstöðu um val á einstaklingi til að veita mikilvægri eftirlitsstofnun og rannsóknarstofnun á sviði orkumála frjóa og skapandi forstöðu á tímum orkuskipta, sem í hönd fara. Er Höllu Hrund Logadóttur óskað velfarnaðar í krefjandi og mikilvægu embætti fyrir land og þjóð:

Laugardaginn 2. október 2021 birti Morgunblaðið, sem lætur sig orkumál landsins miklu varða, viðtal við hinn nýja Orkumálastjóra.  Það hófst þannig: 

""Orkumál hafa gjörbreytzt á fáum árum, og loftslagsmálin eru þar helzti drifkrafturinn", segir Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri.  "Ríki heims eru einbeitt í því að leita lausna á vanda.  Þetta er eins og kapphlaupið um að komast til tunglsins var.  Þegar slíkur metnaður er settur í mál af allri heimsbyggðinni, hraðar það allri nýsköpun og tækni fleygir fram.  Á Íslandi þurfum við að leggja okkur eftir að skilja, hvaða áhrif þetta hefur á samkeppnishæfni og tækifæri í víðu samhengi.  Hlutverk Orkustofnunar er að stuðla að því, að þessir möguleikar nýtist til hagsældar fyrir þjóðina."" 

       Orkumálin á Íslandi hafa í sjálfu sér enn ekki tekið neinum stakkaskiptum vegna baráttunnar við hlýnun jarðar, þrátt fyrir Kyotosamkomulagið og Parísarsáttmálann.  Ástæðan er sú, að mikilsverður hluti þeirra orkuskipta, sem felst í að hætta nánast alfarið að framleiða rafmagn og að hita upp húsnæði með jarðefnaeldsneyti, hafði þegar farið fram fyrir árið 1990. 

Það orkar ennfremur tvímælis að bera þessa loftslagsbaráttu saman við kapphlaupið um að verða fyrstur til tunglsins, því að enn draga margar þjóðir  lappirnar.  Ríkið, sem mest losar af CO2 árlega út í andrúmsloftið, Kína, eykur enn losun sína og reisir kolaorkuver, heima og erlendis.  Ríkið, sem næstmest losar, Bandaríkin, hefur náð árangri með því að fækka stórlega kolaorkuverum í rekstri og taka í staðinn í notkun jarðgasknúin raforkuver.  Þriðja í röðinni er Evrópusambandið, ESB.  Þar horfir óbjörgulega, því að vegna gasskorts undanfarið hafa kolaorkuver verið endurræst, og fyrir árslok 2022 ætla stjórnvöld í ríki mestu losunar ESB, Þýzkalandi, að loka öllum starfandi kjarnorkuverum landsins. Það mun kalla á aukinn innflutning raforku, aðallega frá eldsneytisorkuverum, og aukinn rekstur kolaorkuvera í Þýzkalandi. 

Það, sem vantar þarna, er vel ígrundaður boðskapur forystumanns í orkumálum Íslands til landsmanna um það, hvernig þeir ættu nú að snúa sér gagnvart þeirri stöðu, sem við blasir, þ.e. að áætlun ríkisins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda stendst ekki, og hvernig vænlegast er að losa virkjunarmálin úr þeirri kyrrstöðu, sem þau eru föst í.  Gjarna hefðu mátt fylgja niðurstöður útreikninga um virkjunarþörf á þessum áratugi og næsta.  Því miður eru landsmenn engu nær eftir þetta fyrsta viðtal. 

"Regluverk orkumála í Evrópu er í örri þróun, sem hefur auðvitað bein áhrif á löggjöf hér heima.  Það er stór áskorun, að við náum að innleiða nýjar reglur hratt og vel.  Stuðla verður að því, að útfærslurnar skili ávinningi fyrir Ísland og efli tækifærin.  Við þurfum að vera framsýn í allri nálgun." 

Hér talar orkustjóri ESB á Íslandi (National Energy Regulator - landsreglari orku), þ.e. embættismaður, sem hefur það hlutverk að framfylgja fyrirmælum og reglum gildandi orkulöggjafar ESB á Íslandi, nú Orkupakka #3. Hvers vegna er það "auðvitað", að þróun orkulöggjafar ESB "hafi bein áhrif á löggjöf hér heima" ?  Við höfum engin áhrif á mótun þessarar löggjafar, og hún er sniðin við ósambærilegar aðstæður þeim, sem eru fyrir hendi á Íslandi. Þessi löggjöf er framandi í okkar umhverfi og er fremur til vandræða en hitt. 

Þegar orkustjóri ESB á Íslandi talar um, að við eigum að innleiða nýjar reglur ESB hratt og vel, á hún væntanlega við Orkupakka #4 (OP#4).  Því eru margir ósammála, bæði hérlendis og í Noregi. Það er mjög ólíklegt, að ný ríkisstjórn Noregs (stjórnarmyndunarviðræður standa yfir í Noregi) muni hafa forgöngu um það gagnvart Stórþinginu að innleiða OP#4, eins og hann kemur af skepnunni. 

Fyrir tilstilli andstöðunnar við OP#3 á Íslandi innleiddi Alþingi OP#3 með t.d. þeim veigamikla varnagla, að enginn aflsæstrengur verður lagður frá útlöndum til Íslands án fyrirfram samþykkis Alþingis. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti hins vegar hæglega gert alvarlega athugasemd við að innleiða ekki samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar undanbragðalaust. 

Nú þarf norskur almenningur og norskt atvinnulíf að blæða fyrir afleiðingar öflugra sæstrengstenginga raforkukerfis Noregs við útlönd með margföldu raforkuverði m.v. vinnslukostnað þess í Noregi.  Þetta er ógæfulegur boðskapur nýs Orkumálastjóra. 

""Ef við ætlum að ná markmiðunum okkar um að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050, eykst [raf]orkuþörfin.  En til að mæta þessari þörf þarf að nýta betur þá orku, sem þegar er í framleiðslu, skoða möguleika, þegar samningar við stóra kaupendur losna, og meta nýja orkukosti. Einnig skiptir máli fyrir orkuskiptin, hvernig tæknin þróast, s.s. rafhlöður. Því nýtnari sem tæknin er fyrir farartækin okkar, [þeim mun] minna þurfum við af orku.  Almennt skiptir máli, að orkan rati í innlend orkuskipti", segir Halla ...  ." 

 Þetta er nú fremur rislágur og loðinn boðskapur frá nýjum Orkumálastjóra.  Hvað á hún við með að nýta betur þá orku, "sem þegar er í framleiðslu".  Á hún við að bæta nýtni núverandi orkuvera eða að bæta nýtni flutningskerfisins eða nýtni notendanna.  Hvert um sig er gott og blessað, en gefur aðeins brot af raforkuþörf orkuskiptanna.

Áttar nýr orkumálastjóri sig ekki á umskiptunum, sem eru að verða í orkumálum heimsins ?  Vegna tilkomu kolefnisfrírrar orku hafa fjárfestingar í leit að nýju jarðefnaeldsneyti dvínað, og það mun brátt leiða til orkuskorts og hás orkuverðs.  Nú þegar er jarðgasskortur víða, t.d. í Evrópu, þrátt fyrir hina þýzk-rússnesku NORD-STREAM 2-lögn.  Við þessar aðstæður og hátt verð á málmum og kísli munu stóriðjuverin ekki verða á förum frá Íslandi.  Sú ráðlegging að vera á varðbergi, "þegar samningar við stóra kaupendur losna", er eins og útúr kú haustið 2021.  

 Þá er og nokkuð véfréttarlegt að segja, að það skipti almennt máli, að orkan rati í innlend orkuskipti.  Er hún að tala gegn almennri atvinnuuppbyggingu, sem krefst nýrrar orku, eða er hún á móti útflutningi vetnis eða annars rafeldsneytis ?  Á hvaða vegferð er þessi nýi Orkumálastjóri eiginlega ?

"Auðlindir eru þó aðeins það, sem skilar arði til þjóðarinnar, og nú vantar að útfæra leikreglur varðandi vindorku, bæði á landi og hafi.  Hingað til hafa fyrirtækin, sem hafa verið í orkuauðlindanýtingu, verið að stærstum hluta í eigu hins opinbera.  Í breyttu lagaumhverfi orkugeirans í dag verða fleiri á markaðinum, sem kallar á leikreglur, sem tryggja, að auður skili sér til almennings."

Þarna fjallar Orkumálastjóri á óhlutlægan hátt um pólitískt viðfangsefni, sem er alls ekki orkutæknilegs eðlis og varla í hennar verkahring að taka afstöðu til sem Orkumálastjóra, þ.e. álagningu auðlindagjalds.  Hæstiréttur hefur fellt dóm í deilumáli Fljótsdalshrepps og Landsvirkjunar um álagningu fasteignagjalda á orkumannvirki, og sá dómur getur hæglega verið fordæmisgefandi fyrir vindmyllur og aðrar gerðir orkumannvirkja.

"Halla segir arðgreiðslur fyrir  auðlindir orkunnar útfærðar á ólíka vegu erlendis.  T.d. sé greitt gjald fyrir hlutfall af tekjum vindgarða á hafi til ríkisins í Bandaríkjunum.  Sama eigi við t.d. í Evrópu, þar sem sveitarfélög fá einnig skerf. 

Spurð um rammaáætlun um orkunýtingu tekur Halla undir, að hún hafi gengið hægt undanfarin ár.  Fyrir því séu margar ástæður, bæði pólitískar og varðandi vinnulag.  Því séu nú tækifæri til að sníða af vankanta, eins og oft þurfi, þegar reynsla kemst á flókin kerfi.

"Hér verðum við að vanda okkur.  Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að vera í deilum.  Því þurfum við að vera ábyrg gagnvart tillögum um umturnun á þessu sviði, en á sama tíma gera kröfu um úrbætur, þannig að kerfið sé skilvirkt og gegnsætt.  Án þess er erfitt að sækja fram."

Það verður ekki séð, hvernig vindorkugarðar undan strönd (off-shore) geta greitt auðlindagjald, þegar orkan frá þeim er stórlega niðurgreidd af hinu opinbera, enda vinnslukostnaðurinn víða yfir 150 USD/MWh.

Guðni A. Jóhannesson, verkfræðingur, forveri Höllu, kvað í jólahugvekju sinni 2020 fast að orði um það öngstræti, sem Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda hefði ratað í.  Hann lagði þar til ákveðna leið til að komast með virkjanamálin úr þeirri sjálfheldu, sem þau nú eru í.  Það, sem nýi Orkumálastjórinn hefur um stöðu Rammaáætlunar að segja, er hvorki fugl né fiskur og gæti eins vel komið frá blaðafulltrúa ríkisstjórnar, sem er ráðalaus í þessu máli. Betur má, ef duga skal.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það virðist deginum ljósara að andstæðingar op#4 þurfa að fara að spýta í lófana. Takk fyrir þennan fróðlega pistil. 

Ragnhildur Kolka, 9.10.2021 kl. 11:06

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Skörin er tekin að færast upp í bekkinn, þegar Orkumálastjóri er orðinn málpípa pólitískra afla, sem heimta hömlulausa og gagnrýnislitla innleiðinga á þeim tilskipunum og reglugerðum, sem Evrópusambandinu þóknast að troða ofan í kokið á EFTA-ríkjunum í EES.  Slíkur boðskapur held ég, að aldrei áður hafi heyrzt úr ranni Orkustofnunar.  Getur verið, að keyptur hafi verið köttur í sekknum ?

Bjarni Jónsson, 9.10.2021 kl. 11:43

3 Smámynd: Emil Þór Emilsson

vilja menn í alvöru frekar vindmyllur en vatnsaflsvirkjanir ?

Emil Þór Emilsson, 9.10.2021 kl. 14:42

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er von, að spurt sé, Emil Þór, þegar jafnvel hefðbundið vatnsorkufyrirtæki virðist á köflum (af málflutningi forstjóra Landsvirkjunar að dæma) leggja höfuðáherzlu á að bæta við uppsett afl sitt með vindmyllum.  Ég tel, að þar séu menn á villigötum.  Vatnsorkuvirkjanir, hannaðar til að falla sem bezt að umhverfinu, eru okkar náttúruvænsti virkjanakostur, og þess vegna á að leggja áherzlu á þær í hópi virkjanakosta í nýtingarflokki.  Það þarf að gæta vel að sér með jarðgufuvirkjanir varðandi sjálfbærni jarðgufugeymisins, og þessar virkjanir menga með alls konar efnum, sem beita þarf mótvægisaðgerðum gegn, eins og kunnugt er.  Við íslenzkar aðstæður eru vindmyllulundir sízti kosturinn út frá umhverfisáhrifum og áreiðanleika.

Bjarni Jónsson, 9.10.2021 kl. 21:05

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þessi ráðning Orkumálastjóra minnir á þegar forsetaefnið Guðni dumpaði upp og ekkert mál að láta hann birtast sem oftast á Rúv,þegar sjálf þjóðin réði í embættið. 

Helga Kristjánsdóttir, 9.10.2021 kl. 21:57

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt, Helga; eins og skrattinn úr sauðarleggnum.  Hæfnimatið ankannalegt og framandi í báðum tilvikum.

Bjarni Jónsson, 10.10.2021 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband