Almannahagsmunir verða að ráða för

Hnökralausir raforkuflutningar á milli landshluta og innan þeirra þjóna almannahagsmunum.  Það er stórfellt hagsmuna- og öryggismál íbúa í hverjum landshluta, að þangað sé næg flutningsgeta fyrir hámarksnotkun raforku á hverju ári og auðvitað, að nægt framboð sé á rafmagni í landinu til að anna alltaf þessari hámarksþörf. 

Það eru enn nokkur svæði á landinu, sem ekki njóta þessara sjálfsögðu réttinda og lífsgæða, og má nefna Vestfirði og Suðurnesin.  Báðir landshlutarnir eru háðir geislatengingu, þ.e. stakri 132 kV loftlínu, á meðan sjálfsögð krafa svo veigamikilla landshluta er hringtenging við stofnkerfi landsins eða að hafa nægt raforkuframboð innan svæðisins í (n-1) rekstri (þ.e. m.v. að öflugasti rafalinn falli úr rekstri). 

Þetta þýðir útflutning orku af svæðinu til stofnkerfisins í venjulegum rekstri.  Á Vestfjörðum er mun fýsilegra að virkja vatnsföll en að tvöfalda tenginguna við meginstofnkerfið.  Þar hefur verið þvælzt fyrir framkvæmdum af dæmafárri þrákelkni, þótt almennur vilji heimamanna sé fyrir þeim og viðkomandi virkjun sé í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Hegðun af þessu tagi er tímaskekkja á tímum orkuskipta, þótt enn heyrist í þokulúðrum, jafnvel innan úr einstaka orkufyrirtæki (OR), að þörfina megi leysa með orkusparnaði. Landsnet hefur í nafni "umhverfisverndar" verið tafin von úr viti við sitt mesta orkusparnaðarverkefi, sem er ný Byggðalína á milli Vestur- og Austurlands á 220 kV í stað gömlu 132 kV línunnar. Það er ekkert gagn af þessum þokulúðrum samtímans, en hinir upprunalegu stóðu þó fyrir sínu. Það er ekki nóg að henda fram einhverjum slagorðum, heldur verða tölur og grófar verklýsingar að fylgja.   

 

Á Suðurnesjum hefur raforkuþörfin vaxið hratt, og jarðgufuvirkjanir á svæðinu hafa ekki haft undan aukningunni.  Þess vegna má eina 132 kV línan frá meginstofnkerfinu heita fulllestuð, og brýn þörf hefur lengi verið fyrir 220 kV línu og hringtengingu fyrir Suðurnesin.  Allir vita, hvernig kraumað hefur í iðrum jarðar undanfarið á Suðurnesjunum, en samt er HS Orka með metnaðarfull verkefni í gangi í Reykjanesvirkjun og Svartsengi til aflaukningar og nýtnibóta. 

Ásmundur Friðriksson, hinn skeleggi Alþingismaður Suðurlandskjördæmis, ritaði áhrifamikla grein í Fréttablaðið 26. nóvember 2021 undir fyrirsögninni:

"Varðar staða í raforkumálum á Suðurnesjum þjóðaröryggi ?".

    Hún hófst þannig:

"Í dag er ein lína, sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum.  Fari hún úr rekstri, er engum öðrum leiðum til að dreifa.  Atvinnurekstri og heimilum er veruleg hætta búin, komi upp alvarleg tilvik straumleysis.  Flutningsgetan annar ekki þörf, og hafa Suðurnesin orðið af uppbyggingu og atvinnutækifærum, þar sem fyrirtækjum hefur verið neitað um raforku, þar sem innviðirnir eru sprungnir, orkan fæst ekki flutt.  Í 18 ár hefur nú verið barizt fyrir afhendingaröryggi raforku með lagningu Suðurnesjalínu 2, en vegna 3 landeigenda og 7 manna sveitarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd er framkvæmdin stopp.  Þessi fámenni hópur kemur í veg fyrir, að 30 þúsund manna samfélag búi við orkuöryggi.  Framkvæmd, sem er hornsteinn mikillar uppbyggingar, sem framundan er, svo sem orkuskipti með hliðsjón af staðsetningu Keflavíkurflugvallar og vistvæn[s] auðlindagarð[s]."

Grundvöllur lýðræðisins er einstaklingsfrelsi og einkaeignarréttur.  Þetta frelsi og þessi réttindi mega þó ekki valda öðrum tjóni, og það eru ekki mannréttindi að mega hindra framfarir í landinu, s.s. innviðauppbyggingu, sem er forsenda aukinnar verðmætasköpunar. 

Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um almannahagsmuni, og þegar örfáir einstaklingar taka sig saman um að valda tjóni á heildarhagsmunum nærsamfélagsins og í þessu tilviki þjóðarinnar allrar (miðstöð alþjóðaflugs og hervarna landsins), þá ber stjórnvöldum að grípa til þeirra ráða, sem duga til að losa íbúana úr "umsátrinu". Það verður að ætlast til skjótra viðbragða af hálfu nýkjörins Alþingis, og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson hefur einmitt gert ráðstafanir til þess:

"Staðan er grafalvarleg og fer að varða almannavarnir á Suðurnesjum, bregðist Alþingi ekki við lagafrumvarpi greinarhöfundar um framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Suðurnesjalínu 2.  Frumvarpið er í skráningu og verður lagt fram ekki síðar en í næstu viku [v.48/2021].  Ábyrgð Alþingis er algjör, og verður þingið að taka skipulagsvald af sveitarfélaginu í þessu mikilvæga máli, ef ekki á illa að fara."

Það verður fróðlegt að sjá, hvernig innviðaráðherrann bregst við þessu lagafrumvarpi Ásmundar.  Ásmundur metur stöðu orkumála svæðisins rétt og bregst líka rétt við.  Það hefur hann áður gert, þegar mikið lá við.  

Lok þessarar þörfu hugvekju Ásmundar hljóðuðu þannig:

"Alþingi verður að hafa í sér dug og setja nýja löggjöf um uppbyggingu mikilvægra innviða.  Að sveitarfélög, eða örfáir einstaklingar, geti komið í veg fyrir það árum og áratugum saman, að innviðaframkvæmdir, eins og lagning vega, flutningskerfi raforku, línur og möstur fyrir fjarskipti, rísi, er óásættanlegt.  Suðurnesjalína 2 er framkvæmd, sem er mikilvæg út frá þjóðarhagsmunum og er orðin svo brýn, að sveitarstjórnarmenn hafa beint áhyggjum sínum til þjóðaröryggisráðs.  Grípa þarf í taumana í þessu mikilvæga máli til að koma í veg fyrir frekari tafir á uppbyggingunni og flýta því, að framkvæmdir geti hafizt."

Ljóst er, að reynt hefur á þolrif sveitarstjórnarmanna, þegar þeir leita ásjár hjá Þjóðaröryggisráði.  Þeir telja þá fokið í flest skjól og biðja ríkisvaldið einfaldlega að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bjarga þessu máli úr herkví sérhagsmuna og afturhalds. Vonandi falla hvorki Alþingi né stjórnvöld á þessu mikilvæga prófi. Ásmundur Friðriksson er með svörin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Væri ekki í stuttu máli til viðbótar við uppbyggingu raforkuflutningakerfis, skynsamlegt að reisa tvær háhita sorpbrennslur til raforkuframleiðslu á Íslandi sem fyrst. Aðra á Álfsnesi fyrir Reykjanes og Suðurland og hina í anda hugmyndar Halldórs verkfræðings, þ.e.a.s. staðsettri á orkulitlum Vestfjörðum, sem myndi anna með einu flutningaskipi öllum úrgangi landsbyggðarinnar í gámum á vikulegri hringferð.

Jónatan Karlsson, 19.12.2021 kl. 11:11

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er brýnt að reisa nútímalega sorpbrennslu með raforkuvinnslu og hitaveitu. GAJA SORPunnar fyrir rúmlega mrd ISK 6,1 reyndist að miklu leyti misheppnuð.  Hún framleiðir að vísu metan, en moltan fullnægir ekki gæðakröfum um heilsusamlegan áburð. Nú verður að standa verkfræðilega að verki, því að fjárfestingin verður mikil. 

Vestfirðingar eru ríkir af virkjanlegum vatnsföllum, og geta orðið sjálfum sér nógir með rafmagn, einnig til upphitunar, með því að virkja, og 60 kV flutningskerfið þar ásamt dreifikerfinu þarf allt að fara í jörð.  Á Íslandi er einn orkufrekur staður, sem státar ekki af slíkum hlunnindum og er að mestu háður einum sæstreng.  Þetta eru Vestmannaeyjar.  Þar gæti risið öflug sorpbrennsla, og orkan frá henni kæmi sér mjög vel fyrir íbúana.  

Bjarni Jónsson, 19.12.2021 kl. 11:57

3 Smámynd: Jónatan Karlsson

Fyrst suma dreymir um sæstreng til Evrópu, væri þá ekki einfalt að bæta við einum til Vestmannaeyja - svona til vonar og vara?

Jónatan Karlsson, 19.12.2021 kl. 15:10

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæstrengssóttin er að renna af mönnum, eins og sinnaskipti orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra benda til, enda er líklega að renna upp fyrir mönnum, að tenging íslenzka raforkukerfisins við Bretland eða meginlandið mundi hreinlega gera út af við samkeppnishæfni landsins.  Það þýðir ekkert að benda á Noreg.  Norðmenn barma sér ógurlega núna, en norsk fyrirtæki í samkeppni á erlendum mörkuðum hafa fengið niðurgreiðslur á orkukostnaði úr ríkissjóði.  Þetta geta Norðmenn, af því að þeir eru "olíusjeikar".

Vestmannaeyingar með sítt gríðarlega öfluga atvinnulíf og orkuskipti framundan mundu verða enn betur settir með orkuver með stöðuga orkuvinnslu í Heimaey en viðbótar sæstreng, en orkuskiptin munu að öðrum kosti útheimta annan aflstreng úr landi, geri ég ráð fyrir.

Bjarni Jónsson, 19.12.2021 kl. 18:17

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því virðist sleppt í allri umræðunni að deilan snýst ekki um línu eða ekki línu, heldur um það einfalda atriði að fylgja nútíma tækni, sem notuð hefur verið víða erlendis, og hafa línuna í jörð. Landsnet sagðist fyrir nokkrum árum hafa látið gera ítarlefa athugun á kostnaði, en þegar leitað var eftir því samkvæmt upplýsingalögum að fá að sjá þessa dýru athugun, var fyrsta svarið neitun og síðan enn fráleitara svar, að skýrslan dýra og ítarlega væri týnd!

Ómar Ragnarsson, 20.12.2021 kl. 09:30

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, Ómar.  Ég er viss um, að þú getur núna fengið upplýsingar um þetta hjá verkfræðingum Landsnets.  Þeir hafa upplýst almenning um þá rafmagnsfræðilegu staðreynd, að á þessari háu spennu, 220 kV, verður rýmdarvirkni jarðstrengja með þeim hætti, að á örfáum tugum km verður spennuhækkun strengjanna óviðráðanleg, nema með spólumannvirkjum til útjöfnunar.  Ég veit ekki betur en Landsnet hafi verið fúst til að nýta það tæknilega svigrúm jarðstrengja, sem fyrir hendi er, og sé það t.d. gert í Eyjafirði, eins og sjálfsagt er.  

Bjarni Jónsson, 20.12.2021 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband