Áhyggjur þingmanna af orkumálum í öngstræti

Það er huggun harmi gegn, að loksins hefur runnið upp fyrir þingheimi, þó auðvitað ekki græningjum, sem leggjast gegn flestum framkvæmdum á þessu sviði af ótrúlegri glámskyggni og ábyrgðarleysi í efnahagslegu tilliti, því að tjónið af völdum raforkuskorts 2022 mun fara yfir mrdISK 20 og fara vaxandi á næstu árum, þar til nýjar virkjanir, sem um munar, stakar sæmilega stórar og litlar nægilega margar, fara að framleiða inn á landskerfið. 

 Ingibjörg Ólöf Ísaksen, Alþingismaður, ritaða góða grein um þetta viðfangsefni stjórnmálanna, sem birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.  Hún hét:

"Orkuskortur - sorgleg staða, sem varðar okkur öll".

Þar gat að líta þetta undir millifyrirsögninni "Neyðarkall" (einstakt bréf Orkustofnunar til orkuvinnslufyrirtækjanna):

"Þetta [olíubrennsla vegna raforkuskorts-innsk. BJo] er sorgleg og ótrúleg staða, sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslenzk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir. Þetta getur ekki verið svona til frambúðar.  Þetta er ástand, sem við viljum ekki búa við, svo einfalt er það."

Það er ástæða fyrir þingmenn að fá svar við því frá stjórnarformanni Landsvirkjunar, hversu langt á veg kominn undirbúningur að stækkun virkjana fyrirtækisins sé kominn til að nýta aukið vatnsrennsli vegna hlýnunar, og hvers vegna umsókn um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun hafi ekki verið send Orkustofnun fyrr en í fyrra (júní 2021).  Þá þurfa þingmenn að gera það, sem í þeirra valdi stendur til að greiða götu þeirra eigenda vatnsréttinda, sem flýta vilja undirbúningi, byggingu og tengingu smávirkjana við dreifikerfin.

Undir millifyrirsögninni "Ástandið er alvarlegt"

skrifaði Ingibjörg Ólöf m.a.:

"Staðan í orkumálum er alvarleg og kom meginþorra landsmanna líklegast verulega á óvart.  Þessi staða hefur hins vegar haft sinn aðdraganda.  Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orkujöfnuð 2019-2023 við mögulegum aflskorti árið 2022.  Þar var bent á, að á tímabilinu myndi ekki nægilega mikið af nýjum orkukostum bætast inn á kerfið til að duga fyrir sívaxandi eftirspurn eftir rafmagni samkvæmt raforkuspá."

Það er mikilvægt að draga þá staðreynd rækilega fram í dagsljósið, eins og Ingibjörg Ólöf gerir, að vandamálið er aflskortur, og aflskortur er óháður vatnshæð miðlunarlóna. Forstjóri Landsvirkjunar stagast á lágri vatnshæð Þórisvatns vegna lélegs vatnsárs 2021, en þetta vatnsár var ekki sérlega slæmt, enda hitastig 0,2°C yfir meðallagi á SV-landi. Álag kerfisins var hins vegar mikið, sem kallar á mikla vatnsnotkun, og þá er of lítið borð fyrir báru til að mæta snöggri álagsaukningu eða brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skýrir núverandi aflskort kerfisins. 

Önnur meinloka forstjórans er, að vegna takmarkaðrar flutningsgetu eftir Byggðalínu frá Austurlandi til Suð-Vesturlands hafi ekki verið hægt að beita Fljótsdalsvirkjun nægilega til að draga úr miðlunarþörf Þórisvatns.  Í þessu eru 2 villur.  Í fyrsta lagi skortir Fljótsdalsvirkjun vélarafl til að anna fullu vetrarálagi á Austurlandi og framleiða yfir 150 MW fyrir Suð-Vesturland samtímis, en flutningsgeta gömlu 132 kV línanna til norðurs og suðurs frá Fljótsdalsvirkjun er líklega um 150 MW. Í öðru lagi leyfir miðlunargeta Hálslóns ekki slíka flutninga til Suð-Vesturlands, eins og sýnir sig með því, að núverandi staða Hálslóns er lægri en á sama tíma í fyrra og langt undir meðallagi.  Væntanlega var þess vegna gripið til þess að neita fiskimjölsverksmiðjum Austurlands og (og í Vestmannaeyjum) um ótryggða orku.

Það er ástæða til að útskýra hugtakið ótryggð orka, því að jafnvel orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, skriplar á skötunni, þegar að því kemur að útskýra það fyrir almenningi.  Hún var beðin um það í viðtali á Gufunni (RÚV-Rás 1) í þættinum Morgunvaktinni fimmtudagsmorguninn 3. febrúar 2022.  Hún greip þar til þeirrar yfirborðslegu skýringar, að ástæðan fyrir ótryggðri orku væri sögulegs eðlis.  Það er ekki rétt.  Ástæðan er enn í fullu gildi og er af eðlisfræðilegu tagi eða nánar tiltekið veðurfræðilegs eðlis. Til ákvörðunar framleiðslugetu vatnsorkuvirkjunar eru lagðar rennslismælingar nokkurra ára eða áratuga til grundvallar og búið til rennslislíkan til að auka öryggi rekstrar virkjunarinnar.  Út frá lágmarksársrennsli um virkjunina er lágmarksorkuvinnslugeta hennar reiknuð.  Það er sú orka, sem óhætt er að selja frá virkjuninni sem forgangsorku, og út frá þeirri orkusölu er arðsemi virkjunarinnar reiknuð.  Síðan fer það eftir stöðugleika álagsins, s.k. nýtingartíma toppálagsins, hversu mikið vélarafl þarf að setja upp til að mæta toppálaginu. 

Til að koma hluta af umframorkunni í verð, er vélaraflið aukið, svo að það ráði við vatnsrennslið í 27 af 30 árum, og var sú umframorka áður kölluð afgangsorka (secondary energy) til aðgreiningar frá forgangsorkunni (primary energy, firm power), en er nú oftast nefnd ótryggð orka (unsecerud energy). Þetta þýðir, að búast má við skerðingu ótryggðrar orku á 3 af 30 árum.

Verð forgangsorkunnar tryggir arðsemi virkjunarinnar, svo að ótryggðu orkuna er hægt að selja á mun lægra verði, t.d. 20 % af verði forgangsorku með þeim skilmálum auðvitað, að hana megi skerða samkvæmt umsömdum reglum.  Þetta er einfölduð mynd af hugtökunum ótryggð orka og forgangsorka. 

Af þessu sést, að það er misskilningur hjá orkumálastjóra, sala ótryggðrar raforku frá vatnsorkuverum sé orðin úrelt.  Hún er enn í fullu gildi, enda mun eðli vatnsorkuvera ekkert breytast með orkuskiptunum. Það getur hentað fyrirtækjum, sem geta dregið tímabundið úr framleiðslu sinni með fyrirvara að kaupa ótryggða orku, og það getur borgað sig fyrir fyrirtæki, sem notað geta aðra frumorku í staðinn 9 af hverjum 10 árum  að kaupa ótryggða orku.  Með afnámi jarðefnaeldsneytis kemur lífolía, t.d. repjuolía, eða rafeldsneyti, sem er blanda vetnis og annarra efna, í staðinn. 

Undirgrein með millifyrirsögn:

 "Glötum bæði orku og tækifærum" ,

  hófst þannig:

"Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið.  Í viðtali við fjölmiðla áætlaði forstjóri Landsnets, að orkan, sem tapast í flutningskerfinu á hverju ári samsvari afkastagetu Kröfluvirkjunar sökum annmarka flutningskerfisins. Á hverju ári tapast milljarðar ISK vegna þess og enn meira vegna glataðra atvinnu- og uppbyggingartækifæra um allt land."   

Annmarkar flutningskerfisins, sem Ingibjörg Ólöf gerir þarna að umræðuefni, eru of lág kerfisspenna á Byggðalínu m.v. nauðsynlegar flutningsvegalengdir og afl.  Byggðalínan er barn síns tíma af vanefnum gerð, en nú er verið að reisa nýja með kerfisspennu 220 kV í stað 132 kV.  Þegar hún hefur öll verið tekin í notkun, munu orkutöp hennar aðeins verða um 36 % af orkutöpum gömlu Byggðalínunnar í sambærilegum rekstri.  Þetta jafngildir þá um 320 GWh/ár eða 1,6 % af heildarkerfisflutningunum eða helmingi af orkunotkun heimilanna.  Ef þessi orka væri til reiðu nú, þyrfti að líkindum ekki að grípa til neinna orkuskerðinga í vetur.  Verðmæti þessarar orku á heildsölumarkaði er tæplega 2 mrdISK/ár.  Af þessu sést, hversu brýn og arðsöm efling flutningskerfis raforku er, og enginn vafi er um þjóðhagslegt mikilvægi hennar. 

Samt hefur ríkisvaldið látið endalausar tafir á þessari uppbyggingu viðgangast. Andmælaréttur er nauðsynlegur og ber að vernda í þeim tilgangi að fá að lokum fram beztu lausnina, sem dregur úr tjóni einstaklinga að teknu tilliti til viðleitni til hámörkunar þjóðarhags.  Þetta er s.k. beztunarverkefni og er auðvitað leysanlegt innan ásættanlegs tímaramma, ef almennilega er að verki verið. 

Lokakafli greinar Ingibjargar Ólafar var undir fyrirsögninni:

"Tími aðgerða er núna":

"Mikilvægt er að ráðast í eflingu fyrirliggjandi virkjana, þar sem það er hægt, hefja undirbúning að þeim orkukostum, sem auðveldast er að hrinda í framkvæmd fljótlega, og einfalda svo ferlið frá hugmynd að framkvæmd, þannig að nýting orkukosta, sem samfélagið þarfnast, gangi betur og hraðar fyrir sig í framtíðinni. 

Á Íslandi hefur það sýnt sig, að tíminn, sem það tekur frá hugmynd um hefðbundna orkukosti, þar til framkvæmdir verða að veruleika, er um 10-20 ár.  Sagan sýnir, að það er of langur tími, ef tryggja á orkuöryggi þjóðarinnar.  Vissulega eru til aðstæður, þar sem það er vel skiljanlegt, og alltaf þarf að vanda til verka.  En oft og tíðum eru óþarfa tafir, sem sóa dýrmætum tíma án þess, að það skili sér í betri framkvæmd m.t.t. umhverfisins.  Við okkur blasir, að úrbóta er þörf og tími aðgerða er núna."

Núverandi regluverk ríkisins er óskynsamlegt, af því að það virðist hannað til að letja virkjunaraðila til framkvæmda fremur en að hvetja þá til að vanda sig.  Nefna má, að stækkun virkjunar, þ.e. aflaukning, er háð nýju lögformlegu umhverfismati.  Þessi krafa verndar ekki umhverfið, en hamlar framkvæmdum, enda hefur verið lítið um þetta hérlendis.  Nú mun ætlunin að ráða bót á þessu, og verður þá auðveldara að mæta skammtíma álagi og að nýta offramboð vatns á sumrin (draga má þá niður í gufuorkuverunum).

Nú vantar allt að 200 MW af nýjum virkjunum inn á kerfið til að anna eftirspurn og hafa borð fyrir báru í viðhalds- og bilunartilvikum. Fyrir 2030 þarf 2000 GWh/ár og 500 MW einvörðungu fyrir orkuskiptin.  Megnið af þessu þyrfti að vera fullhannað núna og með virkjanaleyfi, ef nokkur von á að vera til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í losunarmálum koltvíildis, en það er fjarri lagi, að svo sé.  Það verður að gera orkufyrirtækjunum kleift að leggja fyrir Orkustofnun raunhæfar áætlanir 10-20 ár fram í tímann um framkvæmdir, svo að Orkustofnun geti gætt hagsmuna notenda gagnvart orkuskorti.  Tjón notenda af orkuskorti er nefnilega margfalt á við tjón orkufyrirtækjanna af tapaðri orkusölu.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband