Vandræði í Noregi vegna raforkumarkaðarins

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá áfangi í orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem gengur undir heitinu Orkupakki 3, var samþykktur af Stórþinginu í Ósló í marz 2018 við víðtæk mótmæli í landinu, og enn er í gangi rekistefna fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar samþykktar, því að ekki var krafizt aukins meirihluta (3/4 greiddra atkvæða, þar sem a.m.k. 2/3 þingmanna greiði atkvæði), eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um er að ræða valdframsal til útlanda, sem varðar hag almennings beint. 

Alþingi samþykkti sömu löggjöf ESB haustið 2019 við fögnuð í norska stjórnarráðinu, en sorg um endilangan Noreg, en með þeim mikilsverða fyrirvara þó, sem líklega brýtur í bága við EES-samninginn, að Alþingi áskilur sér rétt til að eiga síðasta orðið um tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við raforkukerfi Íslands. Það eru einmitt öflugar sæstrengstengingar á milli Noregs, Englands, Þýzkalands og Hollands, sem eru rót gríðarlegrar óánægju almennings í Noregi með raforkuverðið þar, sem hefur margfaldazt síðan 2020. 

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum vill meirihluti Norðmanna nú segja skilið við ACER-Orkuskrifstofu ESB og ganga úr Orkusambandinu við ESB, sem lögfest voru í EFTA-löndunum þremur, sem eru í EES, með Orkupakka 3. Svo mikil er óánægjan í Noregi, að u.þ.b. helmingur landsmanna vill nú gera fríverzlunarsamning við ESB í stað EES-samningsins.  Fríverzlunarsamningur EFTA, með Svisslendinga innanborðs, gæti þjónað hagsmunum Íslendinga vel. 

Það er þannig í norska markaðskerfinu, að raforkuverð á heildsölumarkaði Nord Pool er breytilegt frá einni klukkustund til annarrar og það er ólíkt eftir landshlutum.  Sunnan við Þrándheim er það tífalt á við verðið í Mið- og Norður-Noregi.  Þann 9. febrúar 2022 var raforkukostnaður um 2,0 NOK/kWh=28,2 ISK/kWh (raforkuverð+flutnings- og dreifingargjöld og rafskattur og vsk).   Í Þrándheimi nam heildsöluverðið þann dag að meðaltali aðeins 12,6 Naur/kWh=1,8 ISK/kWh, og lætur þá nærri, að einingarkostnaður þar hafi numið 3,0-4,0 ISK/kWh, sem er aðeins um fimmtungur þess, sem íslenzkar fjölskyldur borga fyrir kWh.  Norska fjölskyldan kaupir hins vegar fimmfaldan fjölda kWh á við þá íslenzku, því að hún rafhitar íbúðina sína.  Í Suður- og Vestur-Noregi er þess vegna um verulega lífskjaraskerðingu að ræða eða um 500 kISK/ár, sem alfarið er hægt að rekja til raforkuviðskiptanna við útlönd. 

Þetta hefur valdið almennri óánægju með markaðskerfi raforku í Noregi.  Statkraft (norska Landsnet, ríkisfyrirtæki), sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, ræður ekki lengur yfir flutningunum (eftir OP3), heldur ACER, sem leyfir markaðinum að ganga svo á miðlunarlónin í Suður- og Vestur-Noregi, þaðan sem millilandatengingarnar eru, að verðið helzt tífalt á við það, sem það annars væri.

Íbúar Mið-Noregs óttast að verða fórnarlömb þessa orkuokurs í kjölfar bættrar tengingar við Vestur-Noreg, sem nú stendur yfir.  Fyrirtæki í Suður- og Vestur-Noregi, sem ekki hafa langtímasamninga, hafa orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarauka, og þessi fáránlega staða í vatnsorkulandinu Noregi virkar hagvaxtarhamlandi, en á sama tíma græðir norski olíusjóðurinn á mikilli gassölu, og olíuverði er nú spáð yfir 100 USD/tunnu áður en langt um líður. Ríkisstjórnin getur stundað dýrar millifærslur úr ríkissjóði án skuldsetningar með því að ganga á ávöxtun olíusjóðsins.  

Ríkisstjórnin hefur t.d. aukið s.k. búsetustuðning við hina verst settu vegna hækkaðs orkukostnaðar og lækkað rafskattinn. 

Norskt rafmagn hefur verið flokkað sem vara, sem er keypt og seld á Nord Pool markaðinum. Þetta er í samræmi við orkulöggjöf ESB. Raforkuvinnslufyrirtækin stórgræða á viðskiptunum við fjölskyldurnar, orkufyrirtæki án langtímasamninga og sveitarfélög, sem ekki eiga hlutdeild í virkjunum. Lengi vel var sá áróður hafður uppi í Noregi, að millilandaraforkutengingar væru Norðmönnum nauðsynlegar í slökum vatnsbúskaparárum, en fjárhagsleg sjónarmið annarra en alþýðunnar sátu í raun í fyrrúmi, enda eru nú téðar millilandatengingar orðnar fleiri og öflugri en þörf er á afhendingaröryggisins vegna. Afleiðingin er innflutningur á ógnvekjandi háu raforkuverði og útflutningur á orkuforða miðlunarlóna vatnsorkuvirkjananna, einkum í Suður- og Vestur-Noregi.  Ofan á dræman vatnsbúskap sumarið 2021 lagðist mikil spurn eftir raforku frá útlöndum, svo að vatnsstaða miðlunarlóna í þessum landshlutum er langt undir meðallagi, sem endurspeglast í tíföldun raforkuverðsins núna. 

Statnett stendur nú að eflingu raforkuflutningskerfisins á milli norðurs og suðurs á svipaðan hátt og Landsnet á Íslandi.  Þetta er mikilvægt til að styrkja núverandi vinnustaði í báðum  löndunum og til að gera kleift að stofna til nýrra, en eins og kunnugt hefur á Norðurlandi, t.d. í Eyjafirði, orðið að fresta framkvæmdum, og atvinnutækifæri hafa jafnvel tapazt fyrir vikið.  Þetta er gjörsamlega ólíðandi fyrir almannahag á Íslandi, en í Noregi eru uppi miklar áhyggjur af því, að efling af þessu tagi verði aðeins til að auka útflutning raforku og hækka raforkuverð í Mið- og Norður-Noregi, sem þá gerir atvinnuuppbyggingu þar að engu.  Brostnar vonir kynda undir þjóðfélagsóánægju, og hún mun brjótast fram í mótmælum í Noregi 15. febrúar 2022.

Rafmagn er hluti innviða þjóðfélagsins, sem nota ber til að búa til atvinnu og að tryggja trausta og grózkumikla byggð um allt land.  Með þessu áframhaldi í Noregi eiga Norðmenn á hættu, að orkusækinn iðnaður í dreifðum byggðum landsins flytjist til landa, þar sem orkukerfið er alfarið reist á jarðefnaeldsneyti.   Sams konar eyðilegging á samkeppnishæfni bíður fyrirtækja á Íslandi, ef yfirvöld glepjast á að innleiða hér spákaupmennsku á raforkumarkaði, eins og viðgengst í Noregi, og almenningur þar á fjölmennum  landssvæðum sýpur nú soðið af. Nú er verið að rafvæða olíu- og gasborpalla á norska landgrunninu, sem þá keppa um rafmagn á markaði við heimilin, sem kynda húsnæði sitt með rafmagni.  Hátt raforkuverð gerir vindorkuver hagkvæm í Noregi, en þau eru eðlilega náttúruunnendum í Noregi mikill þyrnir í augum, og vaxandi andstaða er gegn þeim, þegar fólk sér afleiðingarnar, enda eiga Norðmenn enn mikið óvirkjað vatnsafl. 

Orkupakkar ESB leggja grunn að samkeppnismarkaði með rafmagn í kauphöll og ófyrirsjáanlegu raforkuverði.  Orkuskrifstofa ESB, ACER, gegnir því meginhlutverki að koma á flutningskerfi og regluverki, sem valda nokkurn veginn sama raforkuverði í Noregi (og Íslandi og Liechtenstein) og í ESB. Ísland er sem betur fer enn ótengt erlendum raforkukerfum, en hér stefnir hins vegar í óefni, af því að þeirrar forsjár hefur ekki verið gætt að bæta við nægum virkjunum, svo að hér sé alltaf borð fyrir báru, hvernig sem tíðarfarið er.

Aðalkrafa mótmælendanna í Noregi 15. febrúar 2022 verður, að Noregur endurheimti fullveldi sitt yfir orkumálunum úr höndum ESB.  Það er svo mikill hiti undir þeirri kröfu, að hrikt getur í stoðum EES-samstarfsins.  Það er verkalýðshreyfing Noregs sem fer fyrir þessari kröfugerð, og stærri stjórnarflokkurinn í ríkisstjórn Noregs er nú Verkamannaflukkurinn, sem jafnan hefur sveigt stefnu sína að stefnumörkun Alþýðusambands Noregs og/eða stærstu verkalýðsfélaganna.  Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist á Stórþinginu og í grasrótinni gegn innleiðingu Orkupakka 3 í Noregi.  

Baráttufólk iðnaðarins í Noregi mun í samstarfi við verkalýðsforystuna í Björgvin og grennd taka frumkvæði að því að virkja almenning til að krefjast mikillar lækkunar raforkuverðs.  Það jafngildir því, að stjórnvöld afnemi núverandi verðlagskerfi raforku og að stjórnmálamenn ákvarði raforkuverðið út frá heildarkostnaði og arðsemi í líkingu við meðalarðsemi atvinnulífsins.  Norðmenn líta upp til hópa á vatnsaflið sem sitt erfðasilfur, sem þjóna eigi almenningi og eigi að skapa iðnaðinum og atvinnulífinu almennt samkeppnisforskot.  Til bráðabirgða er farið fram á niðurfellingu rafskatts og virðisaukaskatts á rafmagni. 

Til þess að lækka raforkuverðið með viðráðanlegum og sjálfbærum hætti eru kröfur baráttufólksins róttækar og skiljanlegar:

  • Við rekstur raforkukerfisins skal leggja áherzlu á að halda miðlunargetunni ofan hættumarka á tæmingu.  Stöðva ver útflutning rafmagns, þegar miðlunargetan fer niður að meðaltali árstímans.
  • Ganga úr ACER og Orkusambandi ESB, en halda áfram að eiga raforkuviðskipti við nágrannalöndin Svíþjóð og Danmörk. 
  • Gera skal langvarandi raforkusamninga við norskan iðnað og landbúnað um fyrirsjáanleg verð og veita heimilum kost á tvíverðssamningum, t.d. dagtaxta og næturtaxta. 

Þegar höfð er í huga þykkjan, sem er í Norðmönnum vegna þess, hvernig spákaupmenn komast upp með að leika sér með erfðasilfur þeirra, orkuafurð vatnsaflsins, undir verndarvæng löggjafar, sem flutt er inn frá ESB, nú síðast undir heitinu Orkupakki 3, er engin furða, að stjórnarflokkarnir hafi einfaldlega komið sér saman um að taka Orkupakka 4 af dagskrá í Noregi.  Norðmenn vissu, að íslenzka ríkisstjórnin yrði fegin að þurfa ekki að leggja út í orrahríð út af Orkupakka 4, og þess vegna var ákveðið innan vébanda EFTA að salta OP4 í nefnd út þetta kjörtímabil og ESB tilkynnt þar um.  Nú er hins vegar spurningin, hvort meirihluti myndast senn á Stórþinginu fyrir því að kasta OP3 í ruslakörfuna.  Ef nógu margir Stórþingsmenn komast á þá skoðun, að hann vinni gegn hagsmunum Noregs, þá verður það gert.  Alþingi mun varla sýta það, en spurning er, hvernig Framkvæmdastjórnin í Brüssel bregst við.  Sem stendur eru Norðmenn í lykilstöðu sem einn af aðalbirgjum Evrópu fyrir jarðgas.  Skrúfi Noregur fyrir, frýs í húsum Evrópu, og fyrr mun sennilega frjósa í Helvíti. 

 lv-kapall-kynning-april-2011

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Já þessvegna hafa þeir gömlu proponentar OR3 svona hægt um sig. Þeir vita af stemningunni og láta OR4 fara lágt þessvegna. 

Halldór Jónsson, 13.2.2022 kl. 14:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Annar norsku stjórnarflokkanna, Miðflokkurinn, barðist einarðlega gegn OP3, og fylgið við hann jókst talsvert í Stórþingskosningunum í september 2021.  Það er pólitískt útilokað, að sá flokkur standi að ríkisstjórn, hverrar ætlun innan EFTA væri að innleiða OP4, sem felur í sér enn meira valdframsal til ESB í orkumálum en OP3.  Þess vegna sammæltust þessir flokkar um það í stjórnarmyndunarviðræðunum einfaldlega að leggja OP4 í pækil á vettvangi EFTA.  ESB hefði ekkert upp úr því að hefja nú þrýsting á EFTA um innleiðingu OP4.  Þess vegna verður OP4 í pækli út þetta kjörtímabil.  

Bjarni Jónsson, 13.2.2022 kl. 16:17

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Loksins náði ég að klára þennan góða og fræðandi pistil,himin lifandi yfir því næði sem þá gefst á Alþingi við að rétta hallannn á skútunni,-sannist að hann sé nokkur. Kærar þakkir.

Helga Kristjánsdóttir, 14.2.2022 kl. 00:26

4 Smámynd: Guðmundur Karl Þorleifsson

Góð grein hjá þér Bjarni.hér á landi eru vá fyrir dyrum þar sem utanríkisráðherra landsins vill koma Orkupakka 4 í gegn sem fyrst, það er áður en núverandi þingmenn hafa kynnt sér hann.  Ísland ætti að koma upp fríveslunarsamningi við ESB í stað þess sem nú gildir, ásamt öðrum Eftaþjóðum, en vemgna reynslu okkar af núverandi stjórn sem og megninu af núverandi stjórnarandstöðu má reikna með að þingið afsali sér yfirráðum yfir okkar auðlindum.

Guðmundur Karl Þorleifsson, 14.2.2022 kl. 09:25

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Guðmundur Karl;

Hefur núverandi utanríkisráðherra Íslands látið í ljós þá ósk sína að lögleiða Orkupakka 4 (OP4) á Íslandi ?  Það hefur þá farið fram hjá mér, enda væri það mikill pólitískur afleikur.  OP4 verður ekki afgreiddur frá EFTA né í Sameiginlegu EES nefndinni með ESB fyrr en Norðmenn leyfa það, og það munu þeir ekki ekki gera á þessu kjörtímabili af ástæðum, sem raktar eru hér að ofan.  Blautir draumar um OP4 munu því verða það áfram, þ.e. án nokkurs jarðsambands. Það er kominn tími til, að menn geri sér grein fyrir valdastöðunni í EES.   

Bjarni Jónsson, 14.2.2022 kl. 10:56

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Hvað er að frétta af op4? Er verið að ganga frá þeim pakka á bak við tjöldin og loks þegar hann opinberast okkur þá verður "of seint" að gera nokkuð í málinu? Erum við enn að láta plarta okkur?

Það er vissulega kominn upp markaður fyrir raforku hér á landi, enda orkan okkar skilgreind sem vara hér eins og í Noregi. Þökk sé EES.  Nokkur fyrirtæki eru farin að berjast um neytendur orkunnar og víst er að þessi frábæra samkeppni (að mati fyrrum orkumálaráðherra) mun einungis hækka orkuverðið. Það liggur alveg á tæru að miðlarinn þarf að fá sitt og þeir eru gjarnir á að vera frekir til fjársins. Það er gullöld framundan hjá þeim aðilum sem taka að sér að sjá um það eitt að rukka inn fyrir orkuna okkar. Og sumir þeirra með nokkuð góða þekkingu á sviði einokunarsamkeppni (N1).

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 15.2.2022 kl. 07:47

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nei, hann hefur mér vitanlega ekki verið kynntur þingnefndum, enda liggur hann í dvala hjá EFTA, af því að það hentar ekki Norðmönnum að afgreiða hann á þessu kjörtímabili (óeining um hann í ríkisstjórn Noregs), og kannski verður hann aldrei afgreiddur innan EFTA.

Bjarni Jónsson, 15.2.2022 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband