Söguskoðun Pútíns er röng

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sem nú hefur breytt Rússlandi í alræðisríki, hefur greinilega misreiknað sig á öllum sviðum, sem máli skipta í hernaðinum gegn vestrænum lifnaðarháttum og stjórnarháttum, sem nú geisar í Úkraínu.  Mafíforinginn lætur nú óspart illsku sína og vesælmennsku bitna á óbreyttum borgurum Úkraínu.  Þjóðarmorð opinberaðist, þegar hersveitir Úkraínu stökktu rögum Rússum á flótta úr nærsveitum Kænugarðs.  Myndir og lýsingar frá Bútsja, norðvestan Kænugarðs, varpa ljósi á, hvílík ómenni er við að eiga í Moskvu og neðanjarðarbyrgi alræðisseggsins í Vestur-Síberíu.

Vesturlönd verða að bregðast við þeirri bráðu ógn, sem að þeim stafar, ekki aðeins með fordæmingu, heldur með því að láta Úkraínumönnum í té enn öflugri vopn og þjálfun á þau en þeir hafa nú, til að reka óþverrana af höndum sér, loftvarnarkerfi, flugvélar, herdróna, þyrlur og skriðdreka auk hersjúkrahúsa, matfanga og annars.  Söder, formaður CSU-stjórnarflokks Bæjaralands, hefur hvatt þýzku ríkisstjórnina til að banna þýzkum fyrirtækjum kaup á rússnesku gasi, og Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýzkalands, hefur hvatt Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, til að banna aðildarríkjunum að kaupa eldsneytisgas af illvirkjunum í Rússlandi. Rússland undir forystu illmennisins, sem hlaut uppeldi í KGB, leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna, er á hraðri leið á ruslahauga sögunnar, þangað sem grimm árásarríki eiga heima. 

Hugarfar Úkraínumanna er ólíkt Rússa, enda eru Úkraínumenn afkomendur Kósakkanna, sem voru hugrakkir bardagamenn og frelsisunnandi föðurlandsvinir, sem stunduðu meira lýðræði við val á forystumönnum sínum en Rússar nokkurn tímann hafa viðhaft.  Alls engin lýðræðishefð er fyrir hendi í Rússlandi, en hún er aftur á móti fyrir hendi í Úkraínu, og þeir vilja allt til vinna, eins og þeir hafa sannað síðan 24. febrúar 2022, til að fá að lifa í frjálsu og fullvalda landi, lausir undan oki hinna frumstæðu Rússa, sem lengi hafa þjakað þá, síðast á Ráðstjórnartímanum, en á Stalínstímanum var þeim sýnt algert miskunnarleysi.  Enginn vill búa við kúgun, allra sízt af hendi siðlauss undirmálsfólks. Pútín, garmurinn, sá lífskjarabatann, sem var að verða í Úkraínu undir lýðræðisstjórn, vissi að betri lífskjör í Úkraínu en í Rússlandi kynnu að vekja alvarlegar spurningar í huga rússnesks almennings um stjórnarfarið í Rússlandi, og hræddist samkeppni um lífskjörin.  Nú hrapa lífskjör hratt í Rússlandi og atgervisflótti er hafinn þaðan.  Vonandi tekst Úkraínumönnum með hjálp Vesturlanda að fleygja vörgunum á dyr, endurreisa land sitt og lifa í friði í góðu samneyti við lýðræðisríkin. 

Kósakkarnir stóðu uppi í hárinu á stórvesírum Ottómanaríkisins, sem vildu leggja undir sig Úkraínu, og sendu súltaninum í Miklagarði háðulegt svarbréf við bréfi, þar sem þeim var skipað að leggja upp laupana og gerast þegnar Tyrkjasoldáns.  Bréf þetta minnir á svar úkraínsku varðmannanna á eyju nokkurri í Svartahafi, undan strönd Úkraínu, til rússnesks herskips, sem skipaði þeim að gefast upp.  Þessir varðmenn gáfu tóninn. Nú bendir ýmislegt til, að til átaka kunni að koma á milli NATO-flotans á Svartahafi og þess rússneska, því að sá síðar nefndi er tekinn að leggja tundurdufl úti fyrir strönd NATO-ríkis (Búlgaríu).

Þá má benda á Khmelnytski-uppreisn Úkraínumanna gegn innlimun lands þeirra í Pólsk-Lithúaníska stórríkið 1648 (lokaár 30 ára stríðsins) og stofnun sjálfstæðs hertogadæmis, sem þurfti þó vernd öflugra herveldis, og var þá leitað eftir henni hjá zarnum austur í Moskvu, svo að sagan er flókin. Ef skrattanum er réttur litli fingur, tekur hann alla höndina. 

Þann 31. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Sergii Iaromenko, dósent við Hagfræðiháskóla Ódessu við Svartahafið, þar sem reynt er að varpa ljósi á þau brengluðu sögulegu viðhorf, sem gripið er til af hálfu rússnesku mafíunnar til að "réttlæta" óréttlætanlegt blóðugt ofbeldi hennar gagnvart friðsömum nágranna í suðvestri.  Fyrirsögn þessarar nýstárlegu greinar var:

  "Af hverju ræðst Rússland á Úkraínu ?              Er Kreml flækt í hjól sögunnar ?"

Hún hófst þannig:

"Sögulega réttlætingu á ofríki Rússa gagnvart Úkraínu má rekja til hugmyndarinnar um hið mikla Rússland, sem mótaðist í Moskvuríki á 14.-16. öld. Kenning þessi á sér nokkrar meginstoðir. Hin fyrsta kveður á um, að Moskvuríki eigi tilkall til þeirra landa, sem áður heyrðu undir Kænugarð og Rús.  Útþenslu Moskvuríkis voru engin takmörk sett - ekki frekar en útþenslu rússneska heimsveldisins eða Sovétríkjanna síðar meir.  Þessi gegndarlausa útþensla var afsprengi tatarskrar eða mongólskrar stjórnsýslu, sem byggði á lóðréttum valdastrúktúr; aðalkhaninn var sá, sem allir greiddu skatt, á hann reiddi fólk sig í skilyrðislausri undirgefni.  Stjórnsýsla Rússlands hefur í aðalatriðum verið rekin með sama hætti fram á þennan dag." 

Önnur meginforsendan var trúin, skrifar Sergii Iaromenko, og sú þriðja krýning keisarans.  Allt er þetta óttalega rýrt í roðinu á 21. öldinni, og þeir sem reisa landvinningakröfur á þessum forsendum eru ekki með öllum mjalla.  Úkraína hefur í seinni tíð verið fullvalda ríki frá 1991, íbúarnir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti, frelsi til orðs og athafna, og vilja þétt samstarf við Vesturlönd á sem flestum sviðum.  Allt þetta ber öllum nágrönnum landsins að virða.  Rússar hafa nú með níðingsskap sínum, fláræði og fólsku, brennt allar brýr að baki sér í samskiptum við Úkraínumenn og sameinað þjóðina gegn sér, og gildir þá einu, hvert móðurmál eða uppruni íbúa Úkraínu er.

"Vladimir Pútín lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Þetta hefur ítrekað komið fram opinberlega hjá rússneskum stjórnvöldum og eins á leiðtogafundi NATO í Búkarest árið 2008 [þar sem Angela Merkel, þáverandi kanzlari Þýzkalands, kom, illu heilli, í veg fyrir aðild Úkraínu að NATO, þótt Bandaríkin styddu aðild  Úkraínu.  Friðþægingarstefna þessarar austur-þýzku prestsdóttur gagnvart Rússlandi var reist á kolröngu stjórnmálalegu mati á ríkjandi viðhorfum í Kreml.  Þáverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, núverandi forseti Sambandslýðveldisins, Frank-Walter Steinmeier, hefur viðurkennt mistök sín og beðizt afsökunar. - innsk. BJo].  Rússar verja söguskoðun sína með kjafti og klóm.  Samkvæmt Kreml er Úkraína sýsla, sem gert hefur uppreisn gegn valdamiðjunni, og nú ríður á að lægja öldurnar.  Opinber[ri] niðurlæging[u] og valdbeiting[u] hefur löngum verið beitt gagnvart fyrrum Sovétlýðveldum og héruðum rússneska keisaradæmisins."

Frammistaða og framganga rússneska hersins í Úkraínu er fyrir neðan allar hellur og hefur kallað fram fyrirlitningu og fordæmingu allra siðlegra ríkja.  Framgangan er til vitnis um gegnumrotið ríki ólígarka, sem skefjalaust skara eld að sinni köku og taka vafalaust sneiðar af fjárframlögum ríkisins til hersins.  Siðleysi og getuleysi yfirmanna hefur framkallað agaleysi og óánægju hermanna í víglínunni með miklu mannfalli þeirra og tapi hergagna. 6-10 hershöfðingjar hafa fallið, sem bendir til, að fjarskiptakerfi hersins sé í lamasessi. Siðferðileg og hernaðarleg niðurlæging Rússlands er alger, svo að búast má við, að óánægja með yfirráð Rússa muni koma upp á yfirborðið sums staðar í rússneska ríkjasambandinu, þar sem aðrir kynþættir búa. Þegar alræðisherrar vanmeta andstæðinga sína og fara í landvinningastríð, fer iðulega illa.  Þetta þekkja menn úr evrópskri sögu. 

"Hvers vegna er Pútín jafnheltekinn af sögunni og raun ber vitni [um] ?  Án efa er það vegna þess, að þannig getur hann skýrt fyrir mér, þér og Rússum, að ofríki Rússa eigi sér sögulega réttlætingu.  Lýsingar Pútíns á klofinni þjóð, sem beri að sameina, skilgreinir Úkraínumenn, sem tala rússnesku - í krafti þeirrar Rússavæðingar, sem átt hefur sér stað - sem Rússa. Þessi aðferð gerir honum kleift að viðhalda málstað hinnar þríeinu þjóðar, sem tilheyri einu og sama ríkinu.  

Á fundi öryggisráðsins í Rússlandi varð enn eina ferðina ljóst, að rússneska elítan lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Undir því falska flaggi, að Lenín hafi búið til Úkraínu, leitast Pútín við að réttlæta fyrir forréttindastéttum og Rússum almennt, að Úkraína sé gerviríki, sem hafi engan tilverurétt."

Málflutningur forseta Rússlands ber merki um vitfirringu, því að það er ekki heil brú í honum, enda er hann hreint yfirvarp í áróðursskyni til að draga fjöður yfir raunverulega fyrirætlun hans, sem er að maka krókinn, krók hans og ólígarkanna hans, á auðæfum Úkraínu.  Þetta skynja Úkraínumenn, enda þekkja þeir rússnesk yfirráð af langri og biturri reynslu, og kæra sig sízt af öllu um að verða aftur þrælar rússneskrar yfirstéttar.  Allir sæmilega réttsýnir menn hljóta að styðja Úkraínumenn með ráðum og dáð við að varðveita fullveldi og frelsi lands síns síns, enda hefur nú komið í ljós meiri einhugur á meðal þjóðarinnar um að verja frelsi sitt en nokkru sinni áður, og skiptir þá móðurmál viðkomandi litlu máli, enda eru flestir tvítyngdir og úkraínska og rússneska skyld tungumál. 

ukrainian-cloth-flags-flag-15727 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Ingi Guðmundsson

UKRAINA FYRIR AFSKPTI VESTURVELDANNA ÁRIÐ 2014 OG UKRAINA EFTIR AFSKIPTI VESTURVELDANNA ÁRIÐ 2014 . 

það þarf ekki að hafa fleiri orð um málefni Ukrainu, til þess að sjá hvar glæpurinn liggur. 

það þarf lika ekki annað að skoða hverjir það eru sem að telja sig hafa hag af ástandinu i  Ukrainu, sem að nú er komið upp, til þess að sjá hvar glæpurinn liggur.

það þarf nefnilega Drullusokk til þess að euga við drullusokk, og það veit Putin. 

Sem betur fer fyrir RUSSNESKJU ÞJOÐINA. 

KV

Lig

Lárus Ingi Guðmundsson, 6.4.2022 kl. 16:42

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Úkraínska þjóðin tók af skarið með það 2014, að hún vill fylgja Vesturveldunum að málum.  Hún er að undirstrika það núna með blóðfórnum sínum, að hún vill ekki sjá rússneskt ofríki lengur í landi sínu.  Úkraínumenn undir lýðræðisstjórn voru á leiðinni að sigla fram úr Rússum undir einræðisstjórn í lífskjörum.  Pútín þorði ekki að horfa upp á afleiðingarnar af því.  Smjörþefurinn fannst í Hvíta-Rússlandi.   

Bjarni Jónsson, 6.4.2022 kl. 17:28

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Það er lenska dusilmenna að grípa til sögunnar er önnur rök þrjóta. Þá er valin einhver tími sögunnar til viðmiðunar, tími er hentar vel dusilmenninu. Undir þetta taka síðan fávísir fréttamenn miðla um allan heim, einnig hér á Íslandi.

Saga Úkraínu nær þó lengri aftur en til 14. - 16. aldar, reyndar einhverjum þúsundum árum eldri en saga Rússlands. Við Kænugarð hefur verið borgarríki í þúsundir ára, mun lengur en borgaríkið Moskva varð til, eða aðrar stórborgir tóku að myndast á því landsvæði sem nútímasagan kallar Rússland.

Þegar Úkraína var sem stærst náði það landsvæði allt norður til Hvítahafs og það var ekki fyrr en eftir landnám á Íslandi að þetta stórríki liðaðist í sundur, vegna bræðravíga. Þau bræðravíg olli hnignun Úkraínu, sem náði lágmarki sínu á 14. öld

Og þá er rétt að minnast þess að það sem í dag kallast rússneska rétttrúnaðarkirkjan var stofnuð í Úkraínu. Hið eiginlega Rússland var þá ekki til. Um það er sérstök saga þar sem norrænir víkingar koma við sögu. Reyndar voru víkingar stór þáttur í sögu Úkraínu á sínum tíma, bæði risi þess og falli.

En það er alltaf spurning hvar skuli byrja þegar söguskýringar er þörf. Einræðisherrann í Rússlandi velur að miða við þann tíma er veldi Úkraínu stóð sem lægst, fyrir utan tíma  kommúnistaskelfinkunnar. Undir þá söguskýringu taka fjölmiðlar og sumir spekingar og standa þannig við bak einræðisherrans. Skýringin á framferði þessa dusilmennis er þó mun nærtækari og þarf ekki að leita hennar langt aftur, einungis til falls Sovétsríkjanna. Það er biti sem fyrrverandi KGB liðinn hefur aldrei getað kyngt og mun aldrei kyngja. Hans markmið, frá því honum voru færð völd yfir Rússlandi, er að endurvekja hið "mikla" veldi Sovét. Það mun verða hans markmið þar til hann fellur frá. Innrásin í Úkraínu var fyrsta skrefið í þá átt, en sem betur fer kom fljótt í ljós að hinn mikli rússneski her var ekki svo mikill. Vanbúinn tækjum á flestan hátt og mannaður hermönnum án baráttuvilja. Enn hefur einræðisherrann yfir að ráða fámennri og grimmri herdeild svartstakka, er einskis svífast. Það er sú herdeild sem gengur um að fremur fjöldamorðin í Úkraínu. Ungu drengirnir sem sendir eru sem fóður á vígstöðvarnar taka ekki þátt í þeim hildarleik.

Hversu vanbúinn her Rússlands er kom mörgum á óvart. Ekki einungis vanbúinn heldur er ljóst að engin geta er til endurnýjunar eða viðhalds þessara úreltu tækja. Því leitar einræðisherrann nú samstarfs við hvern þann er getur veitt honum hjálp á því sviði. Fyrir Evrópu er þetta vissulega huggun og kannski þess vegna sem ráðamenn hinna vestrænu ríkja halda að sér höndum, meðan úkraínsku þjóðinni blæðir.

Það er hins vegar dapurt þegar málsmetandi menn reyna að fegra þá óhæfu er einræðisherrann stundar, með skýringum um að NATO eða ESB eigi þar einhvern hlut. Það er eitthvað að í kollinum á slíku fólki, sumt af því sennilega orðið elliært, en aðrir eiga sér fáar málsbætur.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 7.4.2022 kl. 08:03

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Gunnar.  Sammála þér.  Beinan og óbeinan stuðning hérlendis við árás Rússa á Úkraínu 24.02.2022 og ótrúlega fólskulega framgöngu þeirra þar, sem æ betur kemur í ljós, má annaðhvort skýra með því, að þar séu leiguþý á ferð eða fólk, sem er ekki gefið að greina aðalatriði frá aukaatriðum.  Í seinni hópnum er fólk með inngróna fyrirlitningu á vestrænum lifnaðarháttum og kann ekki að meta frelsið, sem það nýtur á Vesturlöndum, en heldur áfram að styðja einræðisöfl, sem nú ógna Vesturlöndum, og skilja ekki, hvað í því felst fyrir þau sjálf og samfélag þeirra, ef alræðisöflin verða ofan á.  

Bjarni Jónsson, 7.4.2022 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband