Tilvistarhætta stafar af Rússlandi undir alræðisstjórn

Úkraínuher vann sigur á rússneska hernum í um 5 vikna stríði um Kænugarð frá upphafi svívirðilegrar innrásar Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þetta er saga til næsta bæjar, og þessum hernaðarátökum á eftir að gera góð skil, en þau munu vafalaust fara í sögubækurnar á meðal glæstustu hernaðarafreka. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá, hversu stórt hlutverk öflug samskiptakerfi léku, AWACS-gagnaöflunar- og samskiptaflugvélar Bandaríkjamanna og drónar af öllum gerðum, jafnvel leikfangadrónar úkraínskra borgara voru notaðir til að staðsetja óvininn, svo að unnt væri að gera að honum markvissa atlögu með öflugum varnarvopnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýzkalandi og e.t.v. víðar að.

Rússaher hundskaðist laskaður norður yfir landamærin til Hvíta-Rússlands og Rússlands með skottið á milli lappanna og skildi eftir sig blóði drifna slóð.  Komið hefur í ljós, að hann hefur framið níðingsverk á varnarlausum borgurum og framið þjóðarmorð á hersetnum svæðum.  Orðstír rússneska hersins liggur í valnum, og Rússland er útskúfað og verður lengi.  Þar eru ómenni á ferð og stjórnendurnir upp til forseta Rússlands eru viðbjóðslegir stríðsglæpamenn.

Það er aumkvunarvert að heyra hérlendis enduróm endalauss lygaþvættings frá Moskvu, þar sem þrætt er fyrir meingerðir óþverranna, t.d. við óbreytta borgara í Bútsja.  Ósvífnin og forstokkunin er svo alger, að Úkraínumönnum er kennt um óhugnaðinn.  Enginn heiðvirður maður getur haft snefil af samúð með lygamörðunum í Moskvu. Þýzka leyniþjónustan hefur undir höndum hljóðupptökur af samtölum rússneskra hermanna, þar sem einn segist hafa skotið niður mann á reiðhjóli.  Mynd af þeim vettvangi í Bútsja hefur birzt í íslenzkum dagblöðum.  Þá er til myndupptaka úr dróna, sem sýnir rússneska hermenn drepa vegfarendur í Bútsja.  Andspænis þessum sönnunargögnum tjáir ekki lygalaupunum Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dimitry Peskov, málpípu Putins, að halda áfram lygavef sínum um, að rússneski herinn beini ekki vopnum sínum að saklausum borgurum.  Þvert á móti, rússneski herinn beitir skefjalausri tortímingar- og eyðileggingarstefnu í Úkraínu.   

Nú ætla óþverrarnir að sleikja sár sín og síðan að auka liðssafnaðinn í Suð-Austur-Úkraínu.  Þar er stór hluti íbúanna rússneskrar ættar, en það gildir líka um Maríupol, sem rússneski herinn hefur lagt í rústir.  Rússneskumælandi hermenn Úkraínuhers hafa ekki síður barizt af hreysti gegn rússneska innrásarhernum en þeir, sem eiga úkraínsku að móðurmáli, og rússneskumælandi borgarar hafa einnig veitt innrásarliðinu harðvítuga andspyrnu.

Rússlandsstjórn er ábyrg fyrir stríðinu, sem staðið hefur yfir í Austur-Úkraínu síðan 2014.  Nú ætlar hún að styrkja innrásarliðið þar og leggja undir Rússland enn stærri sneið af Úkraínu en henni tókst í 8 ára stríðsrekstri þar, sem hefur verið rekinn með svívirðilegum hætti, eins og engum þarf að koma á óvart núna. Það er yfirvarp eitt og haugalygi, að Rússlandsstjórn sé þar að vernda rússneskumælandi fólk gegn nazistum.  Aðfarir Rússlandsstjórnar og Rússahers minna ekki á neitt meira en aðfarir Hitlersstjórnarinnar og SS-sveita Heinrich Himmlers í Úkraínu 1941-1944.

Ástæðan fyrir ásókn Rússlands í austurhéruðin er ekki umhyggja fyrir neinum íbúum þar, heldur sú, að í Austur-Úkraínu finnast auðlindir í jörðu, sem rússneskir ólígarkar vilja koma höndum yfir, og Putin er sennilega ríkastur af þeim öllum.  Það getur enginn friður orðið um þá landvinninga, sem Vladimir Putin ætlar sér og ólígörkum sínum í Úkraínu.  Hann mun ekki láta af sjúklegri landvinningaþráhyggju sinni fyrr en hann verður stöðvaður.  Hann er þegar kominn á ruslahauga sögunnar. Það er sorglegt, að hann dregur Rússland með sér þangað. 

Þann 24. marz 2022, mánuði frá upphafi hinnar alræmdu innrásar, birtist í Morgunblaðinu afar þörf og læsileg grein eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, undir umhugsunarverðri fyrirsögn:

"Vakna Vesturlönd ?".

Fyrirsögnin er af gefnu tilefni, því að Vesturlönd hafa sofið á verðinum og rekið bláeyga friðþægingarstefnu gagnvart Rússlandi, sem hefur snúizt um að eiga sem mest viðskipti við Rússland í von um, að friðaröflum þar yxi ásmegin og að landið mundi virða landamæri í Evrópu vegna mikilla viðskiptahagsmuna, sem í húfi væru.  Skemmst er frá því að segja, að þessi fyrirætlun er öll runnin út í sandinn.  Í Kreml nærðu menn allan tímann með sér landvinningadrauma, og nú er ljóst, að Vestrið er komið í tilvistarkreppu vegna blindunnar, sem það var slegið. "Ostpolitik" kratans Willy Brandt kom ekki í veg fyrir uppgang landvinningadrauma í Kreml, og Angela Merkel, þrátt fyrir mörg samtöl við Putin á þýzku og rússnesku, setti kíkinn fyrir blinda augað og gerði Þjóðverja mjög háða Rússum á viðskiptasviðinu.

Í raun eru Úkraínumenn núna að úthella blóði sínu fyrir Vestrið og vestræna lifnaðarhætti.  Þess vegna ber varnarbandalaginu NATO og lýðræðislöndum utan þess að láta Úkraínumönnum í té allan þann stuðning, sem þau geta, á formi hergagna, loftvarnarbúnaðar, þjálfunar, mannúðaraðstoðar, hersjúkrahúsa og fjár.  Á Svartahafi getur reyndar hæglega komið til átaka á milli NATO-flota og þess rússneska.  Ef ekki tekst að reka Rússaher út úr Úkraínu, er bara tímaspurning, hvenær NATO lendir í beinum hernaðarátökum við Rússland. Þangað til Vestrið lætur Úkraínu í té næga aðstoð til að reka villimennina af höndum sér, verður að svara spurningunni í fyrirsögn Einars Hálfdánarsonar neitandi.  

Téð grein Einars S. Hálfdánarsonar hófst þannig:

"Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar (ÓRG), þar sem hann virtist kenna NATO um innrás Pútíns í Úkraínu, hafa að vonum vakið mikla athygli.  Afstaða ÓRG á sér langan aðdraganda.  Á 8. og 9. áratug áratug liðinnar aldar fór hann fyrir vinstrisinnuðum þingmannasamtökum, sem sáu þann kost vænstan að gera kröfur Rússlands í öryggismálum Vestur-Evrópu að sínum.  Vestur-Evrópa mætti ekki koma fyrir nýjum varnarbúnaði, nema Rússland leyfði.  Félagar ÓRG voru felldir af Bandaríkjaþingi, þegar Ronald Reagan komst til valda með yfirburðasigri á Carter og nýjum þingmeirihluta.-

Við tóku nýir, betri og friðsamari tímar, þar sem kommúnisminn var settur á sinn stað næstu 3 áratugina, en Arne Treholt skemur.  ÓRG er enn á sama stað (og Arne reyndar líka) og hann þá var, hvað Rússland varðar.  Heiðra skálkinn og hlýða Pútín."

 Frá því að Pútín tók við af Boris Jeltsín sem forseti rússneska sambandsríkisins, hafa Vesturlönd einmitt fylgt kjörorðinu "Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki", en 24. febrúar 2022 rann upp ljós fyrir vestrænum þjóðum, að þetta væri í grundvallaratriðum röng stefnumörkun og stórhættuleg fyrir öryggi Evrópu, því að lygalauparnir í Kreml væru bara í blekkingarleik og ætluðu sér að ráðast á nágranna sína og endurskapa Stór-Rússland, sem næði að landamærum Þýzkalands og jafnvel Ráðstjórnarríkin að járntjaldinu, sem klauf Þýzkaland.  

Rússland var látið komast upp með að hafa neitunarvald um það, hvaða löndum, sem óskuðu aðildar að NATO, yrði hleypt þar inn.  Þetta var gert á þeirri skökku forsendu, sem Angela Merkel studdi gegn vilja Bandaríkjanna (BNA), að Rússar ættu af öryggisástæðum rétt á áhrifasvæðum í kringum sig, þar sem þeim væri játað neitunarvald um öryggismál þessara áhrifasvæða.  Þetta er Finnlandisering og nær engri átt, enda er komið í ljós, að hér er aðeins um skálkaskjól Rússa að ræða til að geta fært út kvíarnar án þess að lenda strax í beinum átökum við BNA.

Það á ekki lengur að taka mark á hræðsluáróðri Rússa.  Þeir segjast núna sjá Finna, þegar þeir horfi til Finnlands, en gangi Finnland í NATO, muni þeir sjá þar óvini.  "So what" ? Er ekki orðið ljóst núna, að eina vörn nágrannalanda Rússlands er NATO og nágrannar Rússa utan NATO eru annaðhvort orðin fórnarlömb þeirra eða munu verða það, hafi þau einhvern tímann áður verið undir rússneskri stjórn.  Þannig væri óskandi, að Finnland sækti sem fyrst um aðild að NATO. Þeim verður tekið þar fagnandi.

Þannig eru það eins og hver önnur öfugmæli, ættuð úr lygamaskínu Kremlar, að NATO beri ábyrgð á innrás Rússahers í Úkraínu.  Ef Úkraínu hefði verið hleypt inn í varnarbandalagið NATO 2008, eins og BNA vildu, hefðu Rússar ekki lagt í að ráðast á þetta lögmæta fullvalda lýðræðisríki 24. febrúar 2022.

Lok ágætrar greinar Einars voru þannig:

"Nú eru síðustu forvöð fyrir Evrópu.  Ef Bretland og Bandaríkin hefðu ekki undirbúið Úkraínu fyrir innrás síðustu ár, væri draumur Pútíns orðinn að veruleika.  Draumurinn um stórríkið.  Allir, sem tengsl hafa við Eystrasaltslöndin og Úkraínu, hafa óttazt, að þeir dagar, sem upp eru runnir, kynnu að koma.  En íbúarnir auðvitað mest.  Það er súrrealískt að hlusta á Letta ræða flóttaleiðir, yrði á þá ráðizt.

Evrópubúar, ekki sízt Íslendingar, þurfa að horfast í augu við veruleikann.  Hætta umræðum um fjölda kynjanna, kynlaus klósett og búningsklefa í sundlaugunum.  Hætta að taka við ólöglegum innflytjendum, sem misnota flóttamannakerfið á kostnað flóttamanna o.s.frv.  Framtíðarkynslóðir Evrópu eiga á stórhættu að verða undir í heiminum, verði raunveruleikinn ekki viðfangsefni stjórnmálanna á nýjan leik. 

Er til of mikils mælzt, að Evrópa dragi úr hitun híbýla og minnki umferð og lækki hraða á vegum ?  Efnahagur Rússlands bíður einungis viðráðanlegt tjón, ef orkukaupin hætta ekki.  Bretland og Bandaríkin komu meginlandi Evrópu til hjálpar á síðustu öld.  Heimurinn horfði upp á fjöldamorðingjana Lenín, Stalín, Maó og Hitler leika lausum hala.  Nú hefur Pútín bætzt í þennan fríða flokk.  Ekki má láta hann endurtaka leik hinna fyrrnefndu." 

Frá 2014 hafa Úkraínumenn herzt í átökum við Rússa í Donbass- og Lughansk-héruðunum.  Þeir hafa líka sjálfir þróað varnarkerfi, skriðdrekavarnir og loftvarnarbúnað, en jafnframt fengið ómetanlegar vopnasendingar frá Bandaríkjamönnum, Bretum, Áströlum, Þjóðverjum, Pólverjum, Tékkum, Rúmenum o.fl. Ef þeir eiga að geta sótt gegn Rússum á víðerni, þurfa þeir þó miklu meira, einkum loftvarnarkerfi, eins og t.d. Ísraelar eiga, skriðdreka (hver vegna ekki Leopard II ?), flugvélar og þyrlur.  Sjálfboðaliðar af öðru þjóðerni hafa gefið sig fram til skráningar í úkraínska herinn, t.d. Hvítrússar.

Úkraínumenn úthella nú blóði sínu fyrir allan hinn frjálsa heim.  Vesturlönd verða að skilja sinn vitjunartíma, láta Úkraínumönnum í té þann vopnabúnað, sem þeir fara fram á og skera á öll viðskipti við Rússland. Ekki má gera lítið úr áhrifamætti viðskiptabannsins, sem nú þegar er í gildi, og stutt er talið vera í greiðslufall rússneska ríkisins. Eftir friðarrof einræðisherrans Putins í Evrópu og hryðjuverk rússneska hersins í Úkraínu geta Vesturlönd ekki verið þekkt fyrir nokkur samskipti við þetta útlagaríki, og það verður þriðja heims ríki, gegnumrotið af spillingu og að mestu án ungs og hæfileikaríks fólks. Keisaraveldi á 21. öld gengur engan veginn upp. 

Nú hefur um 400 rússneskum njósnurum verið vísað úr landi á Vesturlöndum.  Ef við höfum engin samskipti við Rússland lengur, til hvers höfum við þá sendiráð starfandi í Moskvu  ? Er þá ekki við hæfi að fara að fordæmi Litháa og vísa rússneska sendiherranum úr landi ? 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727Vetur á Íslandi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Níundi maí er stór dagur í augum Rússa, þá verður Pútín helst að geta lýst "sigri yfir nasistunum". 

Hörður Þormar, 9.4.2022 kl. 17:35

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, hann hamrar á þessari vitleysu við þjóð sína, sem nú er lokuð frá umheiminum og fær aðeins fréttir ríkisins.  Ósvífni hans á sér engin takmörk.  Nú er hann farinn að bulla um nazista í Eistlandi, svo að hann virðist ætla að koma því inn hjá Rússum, að alls staðar á vesturlandamærum Rússlands séu nazistar búnir að hreiðra um sig og sæti færis að ráðast á Rússland öðru sinni.  Þessi málflutningur, ásamt mörgu öðru, að einræðisherra Rússlands er ekki með öllum mjalla.  Það er ekkert hægt að tjonka við hann, nema með valdi.  Þess vegna er ekki um annað að ræða en að skera á öll tengsl við Rússland strax.  

Bjarni Jónsson, 9.4.2022 kl. 20:45

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Árið 1917 var talað um að Rússakeysari hefði neitað að fá bankamönnum heimsins peningaprentunina í Rússlandi.  

Þá sendu bankamenn, stundum kallaðir banksterar, svokallaða bolsivika til Rússlands með fullar hendur fjár í innsigluðum lestum, segir sagan. 

Þessir sterar segir rt.com að hafi drepið 66 milljónir Rússa. 

Voru það þeir sem létu drepa hermenn Pólverja í Katalín Skógi? 

Í byltingunni 2014 í Kænugarði virtist sem stjórn Vesturlanda, það er spurning um nafn, yfirtæki landið sem kallað er Úkraína. 

Þá yfirtóku "Vesturlönd" stjórnsýslu á skaganum Krím, þar er eina íslausa herskipahöfn Rússa. 

Jafnframt "tóku" "Vesturlönd" svæði, ef til vill 1/3, gæti verið meira af Úkraíu sem eru að meirihluta byggð af Rússnesku mælandi fólki. 

Rússnesku mælandi fólk í Úkraínu er 14.000.000, 14 milljónir. 

Þessi svæði hafa verið eins og héruð í  Rússlandi að minnsta kosti frá 1783 eftir sögunni.

"Vesturlönd" virðast hafa verið að neyða Rússa í stríð. 

Við eigum að bjóða Úkraínu og Rússlandi að vinna með samtökum Vestur-Evrópu. 

Síðan leysum við vandamálin smá saman eftir því sem hægt er á hverjum tíma. 

Notum innsæið, þeirra Einstein, Nikola Tesla og Jesú, og allra þeirra sem eru á svipaðri línu í löndunum, heiminum. 

Egilsstaðir, 11.04.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 11.4.2022 kl. 12:51

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas á Egilsstaðabúinu;

Það var þýzka herstjórnin, sem leigði lest undir kaffihúsasnatann Lenín frá Sviss til Rússlands til að steypa keisaranum af stóli og semja frið við Þjóðverja.  Þetta gekk eftir.  

Stalín lét taka alla forystu pólska hersins af lífi í Katyn skógi og laug svo gjörningnum upp á Þjóðverja.  Aldalangt hatur ríkir á milli Rússa og Pólverja, enda er pólska ríkisstjórnin nú sú skeleggasta innan Evrópusambandsins (ESB) í baráttunni við einræðisherrann og stríðsglæpamanninn Vladimir Putin, sem nú er útskúfaður sem úrhrak í flestum löndum.  

Vesturlönd hafa aldrei yfirtekið stjórn Úkraínu.  Það er ómerkilegur áróður glæpamannanna í Kreml, sem nú stjórna Rússlandi með harðri hendi.  Þeir réðust með hervaldi og miklum blóðsúthellingum almennra borgara á fullvalda ríkið Úkraínu og hugðust steypa lögmætri ríkisstjórn landsins, sem styðst við lýðræðislega kjörið þing, og lýðræðislega kjörnum forseta landsins.  

Rússneska stjórnin og her hennar ber ekki minnstu umhyggju fyrir rússneskumælandi íbúum Úkraínu, heldur hafa strádrepið þetta fólk og jafnað íbúðarhús þess, sjúkrahús og skóla, við jörðu.  Rússneskumælandi menn berjast við hlið úkraínskumælandi manna í úkraínska hernum.  Úkraínumenn, hvert sem móðurmál þeirra er, hata nú eðlilega Rússa eins og pestina og eru tilbúnir til að úthella blóði sínu fyrir sjálfstæði og fullveldi landsins.  

Ég skil ekkert í þér, Jónas, að snúa staðreyndum á haus og lepja upp áróður Kremlar um, að stríðið í Úkraínu sé Vesturlöndum að kenna.  Stjórn Rússlands eru ómerkilegir lygalaupar og glæpahyski, sem virða enga samninga, og þess vegna er ekkert hægt að semja við þá.  Rússneska herstjórnin er sömuleiðis alvarlega sek um stríðsglæpi og brot á Genfarsáttmálanum s.k. 

Bjarni Jónsson, 11.4.2022 kl. 18:15

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ég leitaði aðeins í sögunni og myndum hvar tungumálin skiptu landinu. 

Svo reynum við að skoða hver hefur gagn af morðunum. 

Eins og þú telur upp virðist ekki vera hægt að treysta þeim sem nú láta okkur borga kolefnaskattinn sem virðist vera orðin venjuleg skattheimta. 

Síðan er það pestar ruglið og lyfjunum sem virka haldið frá fólkinu, til dæmis iverkectin. 

Hvernig getum við látið hagsmuna aðila halda frá okkur meðulum sem gagnast fólkinu. 

Ég setti grein á bloggið sem sagði að 100 milljónir manna hefðu misst vinnuna og fyrirtækin lögð niður. 

þarna virðist sem lokanirnar hafi verið til að eyðileggja framleiðsluna og þá tekjur fólksins. 

Svo kemur stríðið í löndunum með svörtu moldina, en þaðan koma 18% af korni, eða landbúnaðar vörum á heims markaði. 

Þá getur komið skortur á matvöru og þá hungur. 

Þessi landtaka af Rússum getur komið af stað þriðju heimsstyrjöldinni. 

Betra hefði verið að ná fram umbótum með því að bjóða Úkraínu mönnum og Rússum samstarf við vesturlönd.  

Mér hefur sýnst að gamla kerfið sjái fram á að missa peninga prentunina og sé farin að beita örþrifa ráðum. 

Um stríðið er ekki hægt annað en að skoða að þessi lönd hafa verið sem héruð í Rússlandi oft lengur en Bandaríkjamenn hafa haft Flórída. 

Verði þetta að kjarnorku stríði, þriðju heimsstyrjöldinni, þá sagði Einstein að í fjórðu heimstyrjöldinni myndi verða barist með grjótkasti. 

Við ættum allir að reyna að stöðva átökin, sem aldrei hefðu þurft að verða. 

Engan stríðs æsing til að koma okkur aftur á steinöldina.

Gangi þér allt í haginn.

Egilsstaðir, 12.04.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 12.4.2022 kl. 03:00

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Með þessum tengingum þínum við söguna til hliðsjónar ætti Ísland að vera áfram hluti af Danaveldi.  Þessi skoðun verður að víkja fyrir nútímalegum skoðunum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.  Úkraínumenn vilja alls ekki vera undir stjórn Rússa.  Basta.  Þeir eiga sjálfir rétt á að ráða, hvernig þeir haga sínum málum.  

Ef á að fara að hræra í landamærum Evrópu núna, þá endar það strax í blindgötu.  

Það er þegar orðinn matarskortur í heiminum vegna svívirðilegs hernaðar Rússa í Úkraínu og mikil verðbólga í hinum ríkari löndum, sem geta boðið í matvæli á uppsprengdu verði.  Verðbólgan í Þýzkalandi, sem undanfarin ár hefur verið 1-2 %, er nú tæplega 8 % og hækkandi.  

Það er engin leið önnur til að stöðva stríðið í Úkraínu en rússneski herinn snauti til baka yfir til Rússlands.  Síðan verða haldlagðar eigur Rússa, þ.m.t. rússneska ríkisins, nýttar til að byggja upp eftir eyðilegginguna, sem Rússar hafa valdið síðan 24.02.2022.  Hið efnislega tjón gæti nú þegar numið mrdUSD 500.  

Bjarni Jónsson, 12.4.2022 kl. 10:30

7 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ég hef mikla samúð með skrifum ykkar drengir og þegar þið dragið fram söguna og vandamálin eruð þið með mikið ljós í myrkrinu.

Einhvern vegin lentum við og Þjóðirnar út af brautinni, þegar við stofnuðum til stríðs.

Nú er eini vegurinn til að reyna að leysa málefnin að byggja upp sátt.

Engin önnur leið er til lausnar á deilunni.

Ég hef enga lausn, en með því að beita innsæinu sem við kunnum ekki, en Einstein, Nikola Tesla og Jesú notuðu, þá gæti þar verið möguleiki.

Við kunnum allir Faðirvorið, og nú er nauðsyn.

Hlusta í þögninni, hlusta í íhuguninni, hlusta í svefninum, HLUSTA.

Vona í algjöru hlutleysi, Guð viltu hjálpa okkur. 

Góði Guð vilt þú hjálpa okkur, Úkraínu, Rússlandi, og öllum löndunum, öllu fólkinu, öllum dýrunu, öllu lífinu.

Góði Guð, villt þú hjálpa okkur fáráðunum.    

---

Hér neðan við skrifa ég einn fáráðurinn.

Erum við að búa til skort og hungur?

Fyrst kom kolefnis misskilningurinn.

Kolefnið er lífsloft, það kom í  efninu sem varð að plánetunni Jörð.

Allur grænn gróður í sjó og vötnum, og allur grænn gróður á landi lifir á kolefninu, og allur gróður, og allir akrarnir vaxa mun betur ef kolefnið er meira.

Gróðurhúsa menn setja oft kolefni í gróðurhúsin og verður vöxturinn mun meiri.

Meiri gróður, þá kemur meira súrefni frá gróðrinum fyrir fólkið og dýrin.

---

Við höfum reynt að hætta að brenna olíu og kolum og þá  var farið að nota dýrari lausnir, og nú er kominn orku skortur.

Þá skortur og hungur.

Næst voru lokanirnar, 100 milljónir urðu atvinnulaus og fyrirtækjunum lokað og fólkið missir tekjurnar og notar ekki þær vörur sem ekki má búa til.

Þá skortur og hungur.

Erum við þá byrjuð að fækka fólkinu?

Núna höfum við stríðið, sem getur eyðilagt uppskeruna frá svörtu moldinni í Úkraínu og Rússlandi og þau 18% af matvælum sem fóru á heimsmarkað.

Þá skortur og hungur.

Mikil hætta á kjarnorkustríði, þriðju heimsstyrjöldinni, Einstein segir að þá verði sú fjórða háð með grjótkasti, við verðum komin aftur í steinöldina.

Er þá enn meiri fækkun á fólkinu?

Hver stendur fyrir því að búa til skort og þá hungur á jörðinni?

Höfum við misst vitið?

Við settum viðskifta bann á Rússland, og þá erum við alslausir.

Settum við viðskiftabann á okkur sjálfa?

Egilsstaðir, 12.04.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 12.4.2022 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband