Samþjöppun ?

Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi.  Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi. 

Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.  Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.   

Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi.  Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu.  Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar.  Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi".  Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.  

Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Meinsemd sjávarútvegsins".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri.  Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins.  Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."

Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.

  Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust.  Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu.  Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu.  Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön.  Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ?  Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál.  Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér. 

"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil.  Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki.  Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið.  Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."

Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins.  Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.

Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni.  Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu. 

"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn.  Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans.  Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang.  Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla.  Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.

Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."

  Þetta er vel að orði komizt.  Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ?  Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur.  Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp.  Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu. 

Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi.  Það er ofur eðlilegt.  Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs.  Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.  

Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær.  Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni.  Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir.  Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár.  Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband