Meinsemdin er kratismi úr hófi fram

Nýlega vakti 1. þingmaður Suðurkjördæmis þarfa og tímabæra athygli á meinsemd í hagkerfinu, sem er offjölgun opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga. Það er samhengi á milli þessarar offjölgunar og mikils hallarekstrar á ríkissjóði og sjóðum margra sveitarfélaga.  Í síðari hópnum vegur borgarsjóður þyngst.  Í Reykjavík hefur Samfylkingin farið með stjórnartaumana í meira en áratug í mismunandi samkrulli.  Óstjórnin er þar verri en í nokkru öðru sveitarfélagi, og nú hótar Samfylkingin að halda með gjaldendur í Reykjavík og reyndar skattgreiðendur alla í landinu út á algert fjárhagslegt og tæknilegt forað, sem hún kallar Borgarlínu.  Borgarlína Samfylkingarinnar er óskapnaður, sem enginn innlendur samgönguverkfræðingur hefur sézt mæla með.  Fær og reyndur samgönguverkfræðingur hefur hins vegar gagnrýnt Borgarlínufyrirkomulagið eindregið og bent á aðra eðlilegri og ódýrari leið.  Borgarlína Samfylkingar verður sorgarlína og mikill baggi á rekstri Reykjavíkur og sveitarfélaganna, sem þátt í glapræðinu taka, mun auka hallarekstur ríkissjóðs og tefja stórlega arðsamar og nauðsynlegar framkvæmdir á samgöngusviði um land allt. 

Fjöldaframleiðsla fólksbílsins var mikið framfaraskref, sem gerði almenningi kleift að eignast vélknúinn fararskjóta og fara sínar eigin leiðir.  Í samanburði við einkabílinn eru strætisvagnar og sporvagnar/járnbrautarlestir óttalegt neyðarbrauð í þéttbýli, nema þar sem gatnakerfið er yfirlestað og rými er ekki fyrir hendi til útvíkkunar.  Við slíkar aðstæður hefur verið lagt neðanjarðar sporvagnakerfi eða jafnvel einteinungar ofanjarðar.  Hér hefur hin andframfarasinnaða og bílfjandsamlega Samfylking beitt sér fyrir því að oflesta samgöngukerfið með því að þvælast fyrir lögn Sundabrautar með skipulagslegum skemmdarverkum og með því að taka hagkvæmustu framkvæmdir til afkastaaukningar samgöngukerfisins, mislæg gatnamót, út af aðalskipulagi Reykjavíkur, svo að ekki sé minnzt á kjánalegar þrengingar gatna (fækkun akreina) og krúsídúllur.  Hér er um forheimskulega stjórnvaldsaðgerð að ræða, sem gerð er í blóra við vilja Vegagerðarinnar, sem sjá mundi um  nauðsynlegar umbótaframkvæmdir á borð við Sundabraut og mislæg gatnamót.  

Menn geta nú rétt ímyndað sér, hvers konar fíflagangur yrði uppi á teninginum, ef þetta krataóbermi (Samfylkingin) kæmist að kjötkötlum ríkisins.  Alls konar vitleysa fengi að viðgangast, vanhugsuð gæluverkefni, og ríkið mundi þenjast enn meira út með ráðningum út og suður, lamandi skattahækkunum á hagkerfið og samt skuldasöfnun ríkissjóðs. Þjóðin kannast við tilburði Samfylkingarinnar.  Þar á bæ er hegðunin þannig, að þau virðast halda að fyrirtæki og heimili séu bara mjólkurkýr hins opinbera. Þar sem Samfylkingin er við völd, þar er hætt við sukki og svínaríi. 

Þann 27. febrúar 2023 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Alþingismann, sem áður var getið, undir fyrirsögninni:

"Sláandi tölur, sem kalla á umræðu".

Hún hófst þannig:

"Opinberum starfsmönnum fjölgaði um 11.400 á árunum 2015-2021 eða um 21,4 %.  Á sama tíma fjölgaði starfsfólki á almennum vinnumarkaði um 4.200 eða um 3 %." 

Þetta er órækt dæmi um ofþenslu hjá hinu opinbera, sem á hlut í miklum hallarekstri ríkissjóðs og margra sveitarfélagssjóða. Hinn mikli hallarekstur er einn af efnahagsþáttunum, sem kyndir undir of mikilli verðbólgu nú um stundir.  Prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, Ragnar Árnason, kallar núverandi verðbólgu eftirspurnarverðbólgu, enda varð gríðarlegur hagvöxtur í fyrra, 2022, eða yfir 6 %. Það ríkir þensla í hagkerfinu og talsverð spurn eftir vinnuafli, jafnvel umfram framboð á ýmsum sviðum.  Hallarekstur og skuldasöfnun opinberra  aðila virkar sem olía á eldinn við þessar  aðstæður.

Núverandi verðbólga á Íslandi er samsett fyrirbrigði, enda er há verðbólga í helztu viðskiptalöndum, t.d. yfir 10 % á Bretlandi, og í nokkrum löndum evrusvæðisins er hún um og yfir 20 %. Hérlendir loddarar, einkum áhugamenn um ESB-aðild Íslands, hafa flíkað hreinni vanþekkingu og/eða vísvítandi blekkingu um það, að innleiðing evru sem lögeyris á Íslandi myndi virka sem töfrasproti til að þrýsta verðbólgu og vöxtum á Íslandi niður í þýzk gildi.  Þetta er bull og vitleysa.  Landsmenn verða sjálfir að koma jafnvægi á fjárhagsbúskapinn hjá sér og efla útflutningsgreinarnar og eigin framleiðslu til að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd skili aftur drjúgum (jákvæðum) afgangi.  

Það er hættulegt villuljós, sem vinstri sinnaðir og yfirborðskenndir hagfræðingar hafa undanfarið haldið á lofti hérlendis, t.d. á Gufunni (RÚV-1), að launahækkanir innanlands umfram launahækkanir í helztu viðskiptalöndum okkar hafi lítil áhrif á innlenda verðbólgu.  Þar sem 2/3 hlutar verðmætasköpunar fyrirtækjanna fara í launakostnað, eins og hérlendis, sem er eitt hæsta þekkta hlutfall í þessum efnum í heiminum, verður að mæta raunlaunahækkunum með framleiðniaukningu í sama mæli.  Annars neyðast fyrirtækin til að velta aukningunni út í verðlagið og samkeppnishæfni þeirra mun versna að sama skapi, einkum við innflutning og á erlendum mörkuðum.  Þetta veikir viðskiptajöfnuðin, sem fellir verðgildi ISK, og slíkt kyndir undir verðbólgu.

"Mesta athygli vekur nefnilega sú niðurstaða, að störfum í opinberri stjórnsýslu hafi fjölgað mest.  Þar bættust við 4.600 starfsmenn á árunum 2015-2021, sem jafngildir fjölgun um 60 % !"

Það er ei kyn, þótt keraldið leki.  Þetta er ósjálfbær fjölgun, því að hún er baggi, sem dregur úr lífskjarasókn í landinu, þar sem þessi mikla fjölgun er langt umfram fjölgunina í einkageiranum, sem stendur undir kostnaðinum af hinum.  Byrði einkageirans af hinum opinbera þyngist, og er hún þó nú þegar á meðal þeirra þyngstu í Evrópu.  Þess vegna þarf nú að vinda ofan af þessari óheillaþróun og útvista verkefnum frá hinu opinbera til einkageirans.  Þetta getur gerzt á heilbrigðissviði, kennslusviði, eftirlitssviði o.fl. Hið opinbera getur áfram borið ábyrgðina á þjónustunni, en fengið aðra í framkvæmdina og sparað fé, því að opinberir starfsmenn eru dýrir og ekki alltaf jafnskilvirkir og þeir í einkageiranum. 

Guðrún gerði þróun launakostnaðar á hvern starfsmann í opinbera geiranum m.v. í einkageiranum að umræðuefni í téðri Morgunblaðsgrein: 

"Merkilegt er annars til þess að hugsa, að á undanförnum árum og áratugum hafi vinnumarkaðurinn okkar þróazt með þeim hætti, að einkageirinn á oft í vandræðum með að fá fólk til starfa í samkeppni við opinbera geirann og kjaraþróunina þar.  Samt heldur einkamarkaðurinn opinbera kerfinu uppi eðli máls samkvæmt !

  • Laun eru orðin hærri víða í opinbera kerfinu en á einkamarkaði.
  • Lífeyrisréttindi eru orðin jöfn í opinbera geiranum og á einkamarkaði.
  • Vinnutíminn er styttri hjá hinu opinbera.
  • Starfsöryggið er meira með ráðningarvernd hins opinbera.
  • Verðmætin verða til í einkageiranum til að standa undir stjórnsýslu og opinberri starfsemi að stórum hluta."

Þetta er uppskrift að spennu á vinnumarkaði, þegar hagvöxtur er góður, eins og um þessar mundir.  Við slíkar aðstæður er hætt við launaskriði, sem kyndir undir eftirspurnarverðbólgu, hvað sem líður kratískum viðhorfum sumra hagfræðinga, sem eru blindaðir af eigin predikunar- og áróðursþörf.  Það tíðkast hvergi í vestrænum samfélögum, a.m.k. ekki, þar sem efnahagslegur stöðugleiki ríkir, að hið opinbera sé leiðandi í launakjörum á vinnumarkaði.  Hér er enn komin uppskrift að efnahagslegum óstöðugleika hérlendis, sem er sjálfskaparvíti auðvitað.

"Eina leiðin og eina ráðið til að auka verðmætasköpun er að örva einkaframtakið, enda verður nánast allur útflutningur til í einkageiranum.

Straumurinn liggur hins vegar í aðra átt í samfélaginu okkar, og það er með miklum ólíkindum.  Það birtist ekki sízt í stórfjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum á sama tíma og störfum fjölgar takmarkað á almennum markaði." 

Nú lítur vel út með spurn eftir Íslandi sem áfangastað ferðamanna frá Bandaríkjunum, Evrópu og víðar að þrátt fyrir bölsýni vegna versnandi lífskjara á þessum svæðum vegna hárrar verðbólgu. Hún er svipuð í BNA, ESB og á Íslandi, en matvöruverð hefur hækkað minna á Íslandi en á evrusvæðinu, eins og Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sýndi glögglega fram á í Morgunblaðsgrein sinni 8. marz 2023.  Engu að síður er verðlag hátt á Íslandi fyrir ferðamenn frá þessum svæðum, og stafar það af hárri skattheimtu og háum launum, en lágmarkslaun eru hérlendis þau hæstu, sem þekkjast.  Hins vegar er uppistaðan í ferðamannastrauminum lífeyrisþegar og annað fólk, sem hefur getað lagt fé til hliðar til að geta ferðazt.

Sökin á ofangreindri öfugþróun í atvinnulífinu, sem veldur óstöðugleika, liggur að nokkru hjá skólakerfinu, sem ekki útskrifar fólk með þá þekkingu og færni, sem atvinnulífið á einkamarkaði þarf á að halda.  Þá þrýstir fólkið á um að komast að í opinbera geiranaum, þótt það fái þar ekki störf alls kostar við hæfi m.v. menntun sína. Í öðrum tilvikum er staðan þó sú, að það kýs fremur að starfa í opinbera geiranum en hjá fyrirtækjum, þar sem samkeppnin knýr á um að sýna frumkvæði og aukna skilvirkni á hverju ári og vegna þeirrar stöðu, sem nú ríkir í opinbera geiranum og 1. þingmaður Suðurkjördæmis telur upp í tilvitnaðri grein. 

"Hvað sem hver segir, þá ber brýna nauðsyn til þess að stíga á bremsur, stöðva þenslu opinbera kerfisins, koma á það böndum og draga úr umsvifum þess með því að flytja þaðan verkefni og störf til einkageirans í mun meira mæli en gert hefur verið.  Í þeim efnum höfum við ekki val." 

Í sumum tilvikum er búið að kostnaðargreina verk hjá hinu opinbera, sem einkaframtakið getur unnið.  Þá er hægt að bjóða verkið út til að sannreyna, að spara megi fé skattgreiðenda (útsvarsgreiðenda), með því að færa verkefni frá hinu opinbera til einkageirans.  Þannig hafa Sjúkratryggingar Íslands nú boðið út liðskiptaaðgerðir á mjöðm og hné.  Landsspítalinn fær greiddar ISK 1.985.694 fyrir mjaðmaraðgerð, en lægsta tilboð einkageirans hljóðaði upp á ISK 1.070.000.  Mismunurinn er ISK 915.694 eða 46 % af verði Landsspítalans.  

Fyrir hnéð fær Landsspítalinn ISK 2.024.481, en lægsta tilboðið hljóðaði upp á 1.070.000. Mismunurinn  er ISK 954.481 eða 47 %.  Í þessum tilvikum fer ekki á milli mála, að það er í almannaþágu að fylgja ráðum 1. þingmanns Suðurkjördæmis og færa öll þessi verkefni frá Landsspítalanum og til einkageirans.  Vegna mikils álags á Landsspítalann, sem er á mjög erfiðu skeiði núna vegna frestunar vinstri stjórnarinnar 2009-2013 á öllum framkvæmdum við nýja Landsspítalann, er þetta sjálfsagt mál, en mikilvægast er þó að leysa úr brýnum vanda sjúklinganna, sem eru fórnarlömb biðlistanna, sem eru fylgifiskur opinbers eignarhalds og rekstrar.

Í lokin skrifaði þingmaðurinn:

"Við verðum í raun að starfa í samræmi við þá staðreynd, að verðmætin skapast í atvinnurekstri einkaframtaksins, en ekki í skrifborðsskúffum opinberra embættismanna.  Mörg dæmi eru hins vegar um, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sannfæringu fyrir því, að verðmætin skapist innan skrifstofuveggja hins opinbera.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra."

Þarna skilur einmitt á milli hægri og vinstri manna. Kratar trúa því, að sem mestur opinber rekstur og eignarhald sé í þágu almennings, þótt dæmin sýni annað.  Þetta eru trúarbrögð kratanna, og þess vegna berja þeir hausnum við steininn, þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Leiðin til fátæktar og ánauðar liggur um leiðir vinstri manna í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband