4.7.2024 | 09:38
Vanhugsuð loftslagsstefna íslenzkra yfirvalda
Á þessu vefsetri hefur rándýr og óskilvirk loftslagsstefna hérlendra yfirvalda verið gagnrýnd, enda er hún bara eftiröpun þess, sem Evrópuþjóðir, sem búa við ríkjandi jarðefnaeldsneytisbrennslu í sínum orkubúskapi, hafa smíðað sér til að verða minna háðar þessu orkuformi. Hér hvorki gengur né rekur við að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, enda hafa sömu yfirvöld hagað málum svo, að skortur er á sjálfbærri raforku til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Hefur vitleysan gengið svo langt síðustu misserin, að hlutur olíu við raforkuvinnslu hefur aukizt af illri nauðsyn. Er það reginhneyksli og hinn versti áfellisdómur yfir ríkjandi stjórnvöldum. Hins vegar gefa stjórnarandstöðuflokkarnir enga von um aukna skynsemi í þessum efnum, komist þeir til valda.
Nú hefur skynsamlegur mælikvarði verið kynntur til sögunnar, sem styður þann málflutning, sem hér á vefsetrinu hefur verið hafður uppi um einn anga þessa máls, sem er sá, að mesta framlag Íslands til loftslagsmálanna er að hýsa hér orkukræfan iðnað. Sú framleiðsla á Íslandi er með minna kolefnisspor en annars staðar þekkist. Þess vegna á ekki að stöðva þessa framleiðslu, eins og erkiafturhaldið í landinu hefur gert opinbera tillögu um, heldur að auka hana. Á öllum sviðum þjóðmálanna er erkiafturhaldið rödd óskynseminnar, sem réttara væri að nefna heimsku.
Sú rödd skynseminnar, sem hér er gerð að umræðuefni, kom frá Samtökum atvinnulífsins - SA, og var það aðstoðarframkvæmdastjórinn, sem þar tjáði sig. Sú tjáning féll ekki í grýttan jarðveg Staksteina Morgunblaðsins, sem 24. júní 2024 voru undir fyrirsögninni:
"Stórslys í uppsiglingu":
"Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, gerir óraunhæf markmið í loftslagsmálum að umræðuefni í pistli í Viðskiptablaðinu. Þar segir hún, að losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun sé nær hvergi minni en hér á landi."
Þetta er góður mælikvarði á gagnsemi losunarinnar í mismunandi löndum og sýnir viðleitni atvinnulífs viðkomandi þjóðar til að standa sig vel í umhverfismálum. Skrámar umræðunnar grípa hins vegar gjarna metnaðarlausan mælikvarða á lofti, sem er losun koltvíildis á mann. Það er erfitt að verða góður á þennan mælikvarða, nema halda að sér höndum, sem eru ær og kýr afturhaldsins.
"Hún segir:"Ætla mætti, að eftirsóknarvert væri, að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenzkum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu ?"
Þessari spurningu hafa íslenzk stjórnvöld svarað fyrir sitt leyti með því að setja þessi og öll önnur fyrirtæki í landinu í orkusvelti, og þau hafa stuðlað að kyndingu olíukatla til að kynda húsnæði. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að í landi gnægðar óbeizlaðrar endurnýjanlegrar orku er orkustefna íslenzkra yfirvalda í raun glórulaus. Það verður að söðla algjörlega um og stöðva fíflaganginn, sem er út um allt og setur orkuöflun landsmanna í kyrrstöðu. Ef menn halda, að stjórn Samfylkingarinnar á orkumálunum muni geti hrint kyrrstöðunni, þá fara menn í geitarhús að leita ullar. Öll stórmál, sem sá stjórnmálaflokkur hefur afskipti af, verða að klúðri og enda með öngþveiti. Dæmi um þetta eru lóðamál og umferðarmál og reyndar fjármál Reykjavíkur. Þegar kom að útlendingamálum á Alþingi í vor, sem gætu valdið heildarkostnaði í landinu um 50 mrdISK/ár, þá skilaði Samfylkingin auðu. Þetta er flokkur fagurgalans og hégómaskaparins, sem nú gerir hosur sínar grænar frammi fyrir kjósendum til Alþingis.
"Ef fram fer sem horfir, munu íslenzk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga, sem ljóst mátti vera frá öndverðu, að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum."
Það er með ólíkindum á hvers konar villigötur stjórnmálamenn og embættismenn geta ratað, þegar þeir leika lausum hala. Þarna fullyrðir aðstoðarframkvæmdastjóri SA, að þessi snilldarmenni hefðu mátt vita, að verið væri að hengja þunga kostnaðarbagga á íslenzka skattborgara með gersamlega óraunhæfum markmiðum um losun koltvíildis 2030. Aðalábyrgðina á því ber VG og fyrrverandi formaður hreyfingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, sem flúði frá borði. Fékk Katrín samþykki fjárveitingavaldsins, Alþingis, fyrir þessum gjörningi áður en hún hélt utan á montsamkomur í Evrópu af þessu tilefni ? Annað væri ólögmæt fjárhagsleg skuldbinding. Það er alveg makalaust, hversu gjörsamlega úti á túni stjórnmálamenn eru, þegar kemur að fýsileika loftslagsmarkmiða. Umhverfisvænsta land Evrópu sýpur nú seyðið af því, að hafa haft ábyrgðarlausan tækifærissinna á stóli forsætisráðherra 2017-2024.
"Anna Hrefna segir, að skynsamlegast væri að "breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.""
Þetta er róttækt sjónarmið, því að það jafngildir því að hætta að binda trúss sitt við EES í loftslagsmálum, en sú tenging á illa við Ísland, því að aðstæður hér eru ósambærilegar við EES að þessu leyti. Taka skal heils hugar undir þessi viðhorf Önnu Hrefnu, því að núverandi tenging við loftslagsmarkmið EES er algerlega vanhugsuð og mun valda íslenzku atvinnulífi og íslenzka ríkissjóðinum tugmilljarða ISK tjóni að þarflausu. Þarna hafa ósjálfstæðir íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vélað um málafylgju, sem er illa fallin til árangurs, en afar kostnaðarsöm. Hvað verður um sektarféð vegna markmiða, sem ekki náðust ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Það er til marks um alveg yfirnáttúrulegan hroka að hafa "loftslagsstefnu."
Ekkert ríki jarðar hefur nein viljandi áhrif á veðurfarið, og hefur aldrei gert, og að trúa því að svo sé er til marks um mikla fyrringu.
Ásgrímur Hartmannsson, 4.7.2024 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.