Sjálfstæðinu í loftslagsmálum fórnað 2009

Ekki þarf að rekja sorgarsögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hún vann mörg óþurftarverk, enda þurfti allt undan að láta hjá henni, svo að málið eina fengi framgang.  Enginn fer í grafgötur um, að það var að þóknast stækkunarkommisarnum í Brüssel í einu og öllu.  Þar með var látið af sjálfstæðri loftslagsstefnu í íslenzka stjórnarráðinu og fórnað sterkri samningsstöðu, sem fólst í einstaklega háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsmanna, m.a. til húshitunar og til að knýja málmframleiðslu, sem yfirleitt notaði raforku úr kolaorkuverum.  Þarna nýttu Íslendingar sér auðvitað sérstaka samkeppnishæfni landsins á sviði vatnsfalla og jarðgufu.  Vinstri stjórnin gaf þetta allt upp á bátinn og hengdi Ísland aftan í loftslagsstefnu Evrópusambandsins, sem var algerlega óraunhæft og allt of dýrt, en þar við situr.  Katrín Jakobsdóttir, sem var menntamálaráðherra í þessari vinstri stjórn og vann menntakerfinu mikið tjón, bætti um betur sem forsætisráðherra síðar og skuldbatt Íslendinga á alþjóðavettvangi með óraunsæjum og raunar óframkvæmanlegum markmiðasetningum um samdrátt losunar 2030 og nettó núlllosun 2040.  Fíflagangurinn mun koma okkur í koll, ef svo heldur fram sem horfir.  Tveir  þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og kannski fleiri) vilja taka í taumana, en þar verður á brattann að sækja.

Björn Lomborg skrifaði enn eina merka grein í Morgunblaðið 17. ágúst 2024 um loftslagstengd efni, og hét þessi:

"Mýtan um græn orkuskipti".

Hún hófst þannig:

"Þótt mörg og fögur orð sé að finna í lofræðum um græn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti, þá eru þau umskipti samt ekki að verða.  Það reynist óviðráðanlega kostnaðarsamt að ná markverðri breytingu með núverandi stefnu.  Við þurfum að gjörbreyta stefnunni."

Þetta er nú orðið augljóst mál, en stjórnmálamenn, sem reka þessa andvana fæddu stefnu, hafa stungið hausnum í sandinn og þar við situr, þótt slík hegðan þjóni ekki hagsmunum umbjóðenda þeirra, og þeir hafi ekki verið kosnir til að fara undan í flæmingi, þegar nýrrar stefnumörkunar er þörf.  Þetta er þó því miður einkenni á stjórnmálum samtímans, einnig í ráðuneytum stórra og mikilvægra málaflokka.

"Á heimsvísu eyðum við nú þegar tæpum 2 billjónum bandaríkjadala árlega [ 1 billjón=1 trilljón(trn)=1 þúsund milljarðar] til að reyna að knýja fram orkuskipti.  Undanfarinn áratug hefur notkun sólar- og vindorku aukizt í það mesta, sem hefur verið.  En það hefur ekki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis.  Á sama tíma höfum við bara aukið enn meira við brennslu jarðefnaeldsneytis." 

Þessi sorglega niðurstaða stafar sumpart af því, að vegna óhjákvæmilegs slitrótts rekstrar sólar- og vindorkuvera þarf að brenna jarðefnaeldsneyti til að fylla í skarðið, en sumpart er ástæðan aukin orkueftirspurn. Á Íslandi er yfirleitt unnt að fylla í skarðið með vatnsafli.

"Ótal rannsóknir sýna, að þegar samfélög auka við endúrnýjanlega orku, kemur sú orka sjaldnast í stað kola, gass eða olíu.  Heildarnotkunin eykst bara.  Nýlegar rannsóknir sýna, að fyrir hverjar 6 einingar af nýrri grænni orku kemur minna en 1 eining í stað jarðefnaeldsneytis [< 17 %].  Greining í Bandaríkjunum sýnir, að niðurgreiðslur á endurnýjanlegum orkugjöfum leiða einfaldlega til þess, að meiri heildarorka er notuð.  M.ö.o.: aðgerðir, sem ætlað er að efla græna orku leiða til meiri losunar."

Ekki er víst, að þetta síðasta sé alls kostar rétt, því að aukinni orkuþörf hefði ella verið fullnægt með enn meiri eldsneytisbrennslu.  Hins vegar er ljóst af þessu, að niðurgreiðslur á sólar- og vindorku auka orkueftirspurn og eru óskilvirk leið og slæm ráðstöfun skattfjár í viðleitni til að draga úr losun koltvíildis.  Á Íslandi koma slíkar niðurgreiðslur ekki til greina, enda mun notkun þessara orkugjafa hækka meðalraforkuverð í landinu og verða þar með verðbólguvaldandi.  

"Mannkynið hefur [er haldið] óslökkvandi þorsta í orku á viðráðanlegu verði, sem er nauðsynlegt fyrir alla þætti nútímalífs.  Á síðustu hálfri öld hefur orkan, sem við fáum úr olíu og kolum, tvöfaldazt, vatnsaflið hefur þrefaldazt og gasið fjórfaldazt, og við höfum upplifað sprengingu í notkun kjarnorku, sólar- og vindorku.  Allur heimurinn, og einstaklingar að jafnaði, hefur aldrei haft meiri orku tiltæka. 

Sú mikilfenglega áætlun, sem liggur til grundvallar grænum orkubreytingum nútímans, snýst að mestu leyti um að þrýsta á mikla niðurgreiðslu endurnýjanlegrar orku, sem alls staðar muni með töfrum láta jarðefnaeldsneyti hverfa.  En nýleg rannsókn dró fram þá niðurstöðu, að tal um "umskipti" væri villandi.  Vísindahópurinn komst að því, að viðbót nýrra orkugjafa hefði hvergi, án undantekninga, leitt til viðvarandi samdráttar í notkun þekktra orkugjafa."

Stjórnmálamenn og embættismenn þeirra hafa rétt einu sinni tekið algerlega rangan pól í hæðina í stórmáli.  Þeir hafa litið fram hjá aðalforsendunni fyrir því, að "orkuumskipti" séu möguleg, en hún er sú, að tæknin sé raunverulega tilbúin til að leysa verkefnið.  Þeir virðast hafa ímyndað sér, að slitróttir orkugjafar á borð við vind og sól gætu leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi, en það er borin von.  Þeim hefði verið nær að setja brot af því fé, sem þeir hafa sólundað í gagnslítil verkefni, í rannsóknir og þróun á umhverfisvænum, stöðugum og hagkvæmum orkugjöfum. Það hefur alltaf verið tækniþróunin, sem leyst hefur orkuskiptaviðfangsefnið þangað til nú, að pólitíkusar tóku til sinna ráða og hafa auðvitað keyrt allt í skrúfuna. 

"Aðaldrifkrafturinn hefur alltaf verið sá, að nýja orkan er annaðhvort betri eða ódýrari [eða hvort tveggja - innsk. BJo].

Sól og vindur bregðast í báðum atriðum.  Þau eru ekki betri, því [að] ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem getur framleitt rafmagn, hvenær sem við þurfum á því að halda, geta þau aðeins framleitt orku í samræmi við duttlunga dagsbirtu og veðurs. 

Þetta þýðir, að þau eru ekki heldur ódýrari.  Í bezta falli eru þau aðeins ódýrari, þegar sólin skín eða vindurinn blæs á réttum hraða.  Þess utan eru þau að mestu gagnslaus og óendanlega dýr. 

 Þegar við reiknum með kostnaði af aðeins 4 tíma geymslu, verða vind- og sólarorkulausnir ósamkeppnishæfar m.v. jarðefnaeldsneyti.  Til þess að ná raunverulega sjálfbærum umskiptum yfir í sólar- eða vindorku mundi þurfa geymslurými  af umfangi, sem gerir þessa kosti óviðráðanlega óhagkvæma."

Í vatnsorkulöndum, þar sem vatnsskortur er, eins og á Íslandi, eru þessi gölluðu orkuform dýrmætari en annars staðar, ef þau geta komið í veg fyrir orkuskerðingu.  Hér geta m.ö.o. þessir aflgjafar keyrt á öllu því afli, sem vindur og sól leyfa, alltaf, því að vatnsfallsver eru auðstýranleg og þá er sparað vatn í miðlunarlónum með því að draga úr afli þeirra á móti, og fjöldi véla í rekstri miðaður við hámarksnýtni vél- og rafbúnaðar.  Engu að síður munu þessir nýju orkugjafar hækka meðalkostnað í íslenzka raforkukerfinu meira en nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir, og neikvæð umhverfisáhrif vindhverflanna og þeirra risastóru spaða eru ískyggileg og miklu meiri en hefðbundinna íslenzkra virkjana reiknað í framleiddri raforku (km2/GWh) yfir tæknilegan endingartíma. 

"Á þessari braut munum við aldrei ná orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti.  Það mundi krefjast miklu meiri niðurgreiðslu á sólar- og vindorku sem og rafhlöðum og vetni fyrir okkur öll [og fórna] að sætta okkur við óhagkvæmari tækni fyrir mikilvægar vörur eins og stál og áburð.  Í ofanálag mundu raunveruleg umskipti einnig krefjast þess, að stjórnmálamenn legðu gríðarlega skatta á jarðefnaeldsneyti til að gera það síður eftirsóknarvert. McKinsey áætlar verðmiðann á raunverulegum breytingum yfir 5 trnUSD/ár. 

Þessi eyðsla myndi hægja á hagvexti og gera raunkostnað fimmfalt hærri.  Árlegur kostnaður fyrir fólk, sem býr í ríkum löndum, gæti farið yfir 13 kUSD/íb ár.  Kjósendur mundu ekki samþykkja þann sársauka."

 Það er svo gríðarlegur kostnaður, sem stjórnmálamenn eru að flækja almenning í með rangri stefnumörkun í loftslagsmálum, að sliga mundi hagkerfi landanna, sem þátt taka í vitleysunni, og valda þar óðaverðbólgu, sem brjóta mundi niður efnahagslega getu til stórverkefna og auka fátækt í heiminum.  Andstæðingar neyzlu yrðu þá kátir, en skamma stund yrði sú hönd höggi fegin.  

"Eina raunhæfa leiðin til að ná fram umskiptum er að stórbæta grænu orkutæknina.  Þetta þýðir meiri fjárfestingu í rannsóknum og þróun á grænni orku.  Nýsköpunar er þörf í vindi og sól, en einnig í geymslum, kjarnorku og mörgum öðrum mögulegum lausnum.  Að ná kostnaði við aðra orku niður fyrir verð jarðefnaeldsneytis er eina leiðin til að hægt sé innleiða grænar lausnir á heimsvísu, ekki bara hjá yfirstétt fáeinna ríkra landa, sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum."

Lomborg segir í raun og veru, að núverandi tæknistig megni ekki að leiða fram raunveruleg orkuskipti.  Gerviorkuskiptum var þjófstartað samkvæmt reglu allmargra stjórnmálamanna um, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.  Stjórnmálamenn veðjuðu á rangan hest með gríðarlegri sóun á opinberu fé sem afleiðingu og seinkun á raunverulegum umbótum. Hvenær mun yfirstéttin sjá að sér ?  Þá verður hún að kyngja stórum fullyrðingum og heitstrengingum, en þá mun lýðum verða ljóst, að keisarinn er ekki í neinu.  Almenn þjóðfélagsóánægja og -óþol er svo mikil í ríka heiminum um þessar mundir, að áfallaþol almennings er orðið lítið áður en upp úr sýður. Kannski koma einhverjir stjórnmálamenn með vit í kollinum fram á sjónarsviðið og ná að greiða úr þessari flækju.  Þá er betra að hafa í huga, að kraftaverkin taka tíma.    

 

   

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband