Heggur sá, er hlífa skyldi

Samband viðskiptajafnaðar og gengisbreytingaÍslenzka krónan á undir högg að sækja vegna griðarlegs viðskiptahalla.  Megnið af honum er núna vegna taps á fjárfestingum erlendis.  Skuldir fyrirtækja erlendis eru óheyrilegar, og tekur skuldsetning bankanna út yfir allan þjófabálk.  Af þessum sökum er vissulega vá fyrir dyrum.  Skuldir landsins erlendis nema 10,5 þúsund milljörðum (billjónum) eða rúmlega áttfaldri vergri landsframleiðslu ársins 2007.   Þetta er meginástæða núverandi fjármálakreppu (fjárþurrðar) á Íslandi, því að útlendingar meta stöðuna þannig, að fyrirtækjunum (bönkunum) geti reynzt erfitt að standa í skilum.  Myntin íslenzka kemur hér hvergi nærri, og aðild að ESB mundi engu breyta til batnaðar.  

Eins og myndin hér að ofan sýnir, er náið samband á milli viðskiptajafnaðar landanna og gengis mynta þeirra.  Ísland er þarna með mesta hallann á viðskiptajöfnuði og þar af leiðandi mesta fall gengisins miðað við lönd á myndinni.  Okkar markmið getur aðeins verið eitt: að komast upp í 1. fjórðung ofan X-áss og hægra megin Y-áss.  Þar er tryggt, að gengið fellur ekki á erfiðleikatímum í efnahagsmálum heimsins. 

Noregur er dæmi um ríki í 1. fjórðungi, þó að landið sé ekki tilgreint á þessari mynd.  Noregur er með jákvæðan viðskiptajöfnuð upp á 19 % af VLF á árinu 2008 og rúm 16 % árið áður.  Norska krónan er enda pallstöðug.  Noregur afsannar þar með fjarstæðuna um, að lítið efnahagskerfi fái ekki staðizt.  Hagvöxtur hefur verið þokkalegur í Noregi, en meginástæðan er þó meiri verðmæti útflutnings en innlutnings og ábatasamar eignir í útlöndum.  Norðmenn hafa með öðrum orðum fjárfest af skynsamlegu viti bæði innan lands og utan. 

Styrkleikaþróun USD og EURFyrstu 7 mánuði ársins 2008 jókst útflutningur Íslendinga um 13 % frá sama tíma árið áður og innflutningurinn um 1,7 %.  Halli vöruskiptanna á ársgrunni nam þá 5,6 % af VLF, sem er gríðarleg framför.  Það er þó ljóst, að til að ná gengisstöðugleika verðum við að gera enn betur.  Mál er að linni misheppnaðri útrás og tekið verði til við að virkja auðlindir í landinu sjálfu af fullum krafti til eflingar útflutningi. 

Hagvöxtur ársins 2007 var 3,8 % á Íslandi, sem var 1,6 % yfir OECD meðaltali.  Hagvöxtur Bandaríkjanna er nú um 3 % á meðan stöðnun og jafnvel samdráttur sums staðar ríkir á evru svæðinu.  Þess vegna hækkar bandaríkjadalur nú á kostnað evrunnar. 

Hagvöxtur og jákvæður viðskiptajöfnuður eru nauðsynleg og nægjanleg skilyrði fyrir stöðugleika efnahagslífsins.  Í því ljósi eru sem út úr kú yfirlýsingar sumra þingmanna Samfylkingar og jafnvel ráðherra hennar um nauðsyn gjaldmiðilsskipta til lausnar efnahagsvandans.  Þetta óábyrga tal þessara stjórnarþingmanna er til þess eins fallið að veikja íslenzku krónuna.  Með þessu reyna þeir að ryðja brautina fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta framferði þingmannanna léttir ekki almenningi róðurinn, nema síður sé, og er ótrúlega illa grundað.  Í þessu sambandi er vert að hrósa málflutningi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, en málflutingur þess um málefni ríkisins glóir eins og gull af eiri saman borinn við á köflum þjóðhættulegan málflutning Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband