Vindmylluriddarar

Fyrr á þessu ári (2009) fréttist af ónefndum umhverfisráðherra hjálmlausum á reiðhjóli í grennd við ráðuneyti sitt.  Ferð þessi reyndist ekki vera til fjár, enda féll téður ráðherra af hjólhestinum og slasaðist á höfði.  Hafa afköst í ráðuneytinu verið afdæmingarlega léleg síðan. 

Er leið að Kaupmannahafnarráðstefnu embættis-og stjórnmálamanna heimsins, sem fjallar um það stórfellda verkefni að stöðva hlýnun heimsins (hann hefur þó ekkert hlýnað síðast liðinn áratug), þá færðist þó líf í tuskurnar.  Ráðherrann lýsti því yfir, og kom það eins og skrattinn úr sauðarleggnum, að orðstýr Íslendinga mætti ekki við því, að samninganefnd þeirra í Kaupmannahöfn reyndi að halda í horfinu frá Kyoto varðandi losunarheimildir landsins. 

Hvað í ósköpunum átti ráðinnan við ?  Var hún að vísa til bankahrunsins ?  Ef svo er, blandar hún saman gróðurhúsaáhrifum og gjaldþroti fjármálastofnana.  Slík grautargerð er fullkomin fásinna og með öllu óskiljanleg og óviðeigandi.  Eða heldur hún því fram, að losunarréttindi Íslands frá Kyoto hafi verið og séu ósæmileg ?  Hvers konar firra og firring í einu ráðinnuhöfði er hér á ferðum og vantraust á fyrri samninganefnd og starfsfólk í eigin ráðuneyti ?  Hagsmunagæzla af þessu tagi er í anda annars frá VG á erlendum vettvangi og er hneyksli.  Það er ekki til heil brú í málflutningi þessarar ráðinnu, og sagan og þjóðin mun veita henni makleg málagjöld.  Ferill hennar var þyrnum stráður og stuttur.   

Hvað sem frú Svandís kann að hafa átt við, er deginum ljósara, að í málflutningi hennar eru hagsmunir Íslands gjörsamlega fyrir borð bornir.  Miklu betra hefði verið að fela Dönum að tala máli okkar Íslendinga á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn en þessum endemis ráðherra hinnar alræmdu og lánlausu vinstri stjórnar á Íslandi. 

Kjarnorka í samkeppni við kolÞað er kunnara en frá þurfi að segja, að á Kyoto ráðstefnunni tókst Íslendingum fyrir um hálfum öðrum áratugi að semja um viðbótar losunarheimildir stóriðju á gróðurhúsalofttegundum miðað við árið 1990 á þeim forsendum, að þá var iðnvæðing landsins skammt á veg komin miðað við önnur lönd, sem tóku á sig skuldbindingar í Tokyo.  Um var að ræða 1,6 Mt CO2 (1,6 milljón tonn koltvíildisjafngildis), og hefur sá kvóti enn aðeins verið nýttur að hluta. 

Formaður IPCC (International Panel on Climate Change) áætlar, að til að skapa orkufyrirtækjum hvata til að velja fremur haldbæra orkugjafa (einnig kallaðir sjálfbærir) í stað jarðefnaeldsneytis þurfi að leggja á koltvíildisskatt á bilinu 50-80 USD/t CO2.  Ef notað er miðgildið, fæst kostnaðurinn 100 USD/t Al.  Verðmæti stóriðjuákvæðis Íslands frá Kyoto jafngildir þannig 160 MUSD/a eða um ISK 20 milljörðum á ári.

Ekki þarf að fara í grafgötur um, að hefðu Íslendingar falið rentukammerinu danska að fara með hagsmunamál sín á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, þá hefði það ekki farið tómhent á fundina né sent samningamenn sína af stað með innantóman vaðal í vegarnesti, eins og ráðinnan íslenzka, sem stendur jafnan á öndinni af þótta, nema hún þurfi "að róa umræðuna".  Þegar kemur að gæzlu íslenzkra hagsmuna á erlendri grundu, hins vegar, verður vinstra viðrinið venjulega að gjalti. 

Ferill þessarar endemis ríkisstjórnarómyndar þennan tiltölulega stutta tíma, frá 1. febrúar 2009, er með þeim ósköpum, að telja verður vinstri menn lélegustu vörzlumenn íslenzkra hagsmuna, sem hugsazt gat, og er sú vitneskja nú orðin ærið dýrkeypt kjósendum á Íslandi.  Sú vitneskja verður hins vegar í askana látin með því að leyfa þessu liði að belgja sig út valdalausu í stjórnarandstöðu næstu áratugina, öllu rúið með gortinu um eigið ágæti. 

Nú vefst ekki lengur fyrir nokkru mannsbarni, að keisarinn er ekki í neinu.    

Nýjar lindirGagnið af Kyoto orkar tvímælis.  Helzt hafa Þjóðverjar og Bretar sýnt einhvern árangur.  Hann hefði líklega náðst án Kyoto vegna sameiningar Þýzkalands og í kjölfarið niðurrifs brúnkolaverksmiðja í austurhlutanum af mengunarástæðum nærumhverfisins.  Hvernig Þjóðverjar ætla að halda áfram að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, sem aðallega koma frá orkuvinnslunni, án þess að reisa ný kjarnorkuver, er enn á huldu.  Svipaða sögu er að segja um Breta, sem fóru úr kolum í gas í lok 20. aldarinnar, en hafa nú miklar áhyggjur af orkuöryggi Bretlands, sem þarf núorðið að flytja inn gas, þar sem gasvinnsla þeirra í Norðursjó hefur minnkað hratt frá árinu 2000. 

Hin heimóttarlega ríkisstjórn Íslands ætlaði að leggja kolefnisskatt á áliðnaðinn.  Þá var henni sagt, að stefna ESB væri að leggja ekki slíkan skatt á samkeppniiðnað sinn.  Ekki þarf að orðlengja, að slíkur iðnaður fer þá þangað, sem hann sleppur undan slíkum sköttum.  Þetta er vandinn við baráttuna við að draga úr losuninni.  Fyrir lífið á jörðunni skiptir engu máli, hvar þessi losun á sér stað.  Einvörðungu magnið skiptir máli. 

Þetta hefur Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, verið óþreytandi við að benda á.  Hans ályktun er sú, að Íslendingar geri mest gagn í þessari baráttu með því að framleiða sem mest ál á Íslandi.  Fyrir þessari ályktun hefur Jakob fært fjöldamörg talnaleg rök, enda standa honum fáir á sporði um meðferð talna.  Hér á þessu vefsetri hafa og verið tilfærð óyggjandi rök um, að:

  • álið er umhverfisvænn málmur í þeim skilningi, að við notkun þess í farartækjum sparast mun meiri orka, og þar með losun koltvíildis, en þarf við framleiðslu þess, jafnvel þótt það sé framleitt með raforku frá kolakyntum orkuverum og allur vinnsluferillinn frá báxíti til fullunninnar vöru sé tekinn með í reikninginn.
  • Íslendingar geta ekki lagt meira af mörkum í baráttunni við meinta hlýnun jarðar með nokkru öðru móti en að framleiða sem mest af áli á Íslandi.  Þar erum við enn fjarri endimörkunum, því að samkvæmt gögnum Orkustofnunar er enn aðeins búið að virkja um þriðjung af afli, sem hagkvæmt er að virkja úr vatnsafli og jarðgufu með núverandi tækni, að teknu tilliti til umhverfisverndarsjónarmiða, sem líklegt er, að meirihluti þjóðarinnar vilji styðja.  

 titan_fossafelagid_Urridafoss Þess má geta, að samkvæmt nýlegri rannsókn Birgis Jónssonar, dósents við Háskóla Íslands ,eru allar núverandi virkjanir landsins afturkræfar.  Umhverfisráðuneytið var auðvitað stofnað á sinni tíð til að hafa frumkvæði að lagasetningu til að koma í veg fyrir óafturkræf umhverfisspjöll og að semja reglugerðir um leiðir til slíks. 

Ráðinnur vinstri flokkanna í umhverfisráðuneytinu, Samfylkingarinnar í Hrunsríkisstjórninni og vinstri-grænna í Kreppuríkisstjórninni, hafa hins vegar algerlega misskilið hlutverk sitt.  Þær hafa misbeitt ráðuneytinu með því að beita því fyrir vagn afturhalds og sú seinni til beinnar niðurrifsstarfsemi gagnvart atvinnulífinu í landinu með því að leggja stein í götu verkefna, sem jafnvel voru þó tilgreind sem markmið í Stöðugleikasáttmálanum, sem Kreppustjórnin stóð að með atvinnulífinu.  

Fordildarfullir umhverfissinnar rjúka upp til handa og fóta í hvert sinn, sem minnzt er á nýjan virkjunarkost, og telja þá viðkomandi stað til einstakra og ómissandi perla, sem nauðsyn beri til að vernda óbreyttan "vegna komandi kynslóða".  Allur er þessi málflutningur rakalaus, enda á tilfinninganótum, eins og smekkur sérvitringa í minnihluta eigi að ráða ferðinni, þó að klár hagsmunarök hnigi til annars.  Í atvinnumálum dettur þessum steingervingum fátt annað í hug en ferðamennska, en að þeirri grein að öðru leyti ólastaðri verður að halda því til haga, að hún veldur mikilli loft- og vatnsmengun og áníðslu á land, oft viðkvæmt. 

Kaupmannahöfn-10-12-2009Áður var á það minnzt, að Kyoto ráðstefnan skilaði ákaflega litlum árangri.  Aðferðarfræðin að baki harki embættismanna og stjórnmálamanna hinna ólíku hagsmuna getur aldrei leitt til annars en öngþveitis og í skársta tilviki hrossakaupa á milli ólíkra heilda.  Aðeins tæknilausnir, sem bjóða upp á minna álag á lífríkið í heild og þar með mannlífið geta varðað mannkyni leiðina fram á við. 

Vísindamenn, sem ráðstefnuhaldarar reiða sig á, halda því fram, að ríku þjóðirnar, þ.e. þær iðnvæddu án Kína og Indlands, þurfi að draga úr losun koltvíildisjafngildis um 25 % - 40 % frá 2009 - gildinu á u.þ.b. 10 árum til að halda hlýnun innan við 2°C m.v. hitastigið um iðnbyltingu fyrir rúmlega 200 árum.  Í Kaupmannahöfn er hins vegar verið að ræða um 15 %, og BNA eru ekki til viðræðu um hærra gildi en 4 %, þó að losunin sé líklega hvergi meiri en þar á hvern íbúa, sbr graf í lok þessarar greinar.  Mismunurinn þarna er hins vegar óhemju dýrkeyptur og er talinn munu nema um 1 % af VLF á ári eða um USD 700 milljörðum á heimsvísu.  Samkvæmt viðhorfskönnun Alþjóðabankans er aðeins 40 % íbúa í 13 "ríkum" löndum reiðubúnir til að leggja þetta á sig.  Það er þess vegna ljóst, að Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn mun litlu eða engu breyta fyrir jörðina. 

Hins vegar mun ríkisstjórn Íslands, með umhverfisráðinnuna í broddi fylkingar, ná að baka þjóðinni enn eitt tjónið á stuttri vegferð þessara niðurrifsafla í stjórnmálum Íslendinga.  Lausn borgaralegra afla, þegar þau hafa knésett sótsvart afturhaldið og stungið í poka, til að iðjuver landsins verði enn samkeppnihæf á heimsvísu, getur þá orðið að efla mótvægisaðgerðir af ýmsu tagi, t.d. endurheimtur votlendis, landgræðslu og skógrækt, til að skapa hér innanlands markað seljenda og kaupenda losunarheimilda á verði, sem er mjög samkeppnihæft á heimsvísu. 

Losun á mann og viðhorf til dýrra aðgerða 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki hef ég augum barið,
í augum sjalla gáfnafarið,
af týru aldrei tekið skarið,
tómur kofinn, allt er farið.

Þorsteinn Briem, 12.12.2009 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband