Hnignun Evrópusambandsins

Stjórnarkreppa ríkir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.  Landið er forysturýki Evrópusambandsins (ESB), og þegar í Berlín ríkir einvörðungu starfsstjórn, án umboðs frá Bundestag, á engin stefnumörkun sér stað í Brüssel heldur, sem heitið getur.  Þetta hefur vafalítið tafið fyrir Brexit viðræðunum, enda er fyrri hluti þeirra á eftir áætlun, og þess vegna hafa samningaviðræður um viðskiptaskilmála ekki hafizt; karpað hefur verið um upphæð útgöngugjalds Bretlands, gagnkvæm réttindi fólks í Bretlandi og ESB og landamæraeftirlit á mörkum írska lýðveldisins og Norður-Írlands, en ekkert er farið að ræða um fyrirkomulag viðskiptasambands Bretlands við ESB.  Gagnkvæmir hagsmunir eru svo miklir, að telja verður líklegt, að hagfelldur samningur náist fyrir athafnalíf og almenning beggja vegna Ermarsunds. Veik staða ríkisstjórnar Bretlands og Þýzkalands gagnvart þjóðþingum sínum flækir stöðuna.   

Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, kom löskuð út úr þingkosningunum 24. september 2017, eins og Theresa May fyrr á árinu, og eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum CDU/CSU (flokkasamsteypa Merkel og Bæjarans Seehofers, sem nú hefur reyndar látið af völdum eftir afhroð í téðum kosningum), FDP (Frjálslynda lýðræðisflokksins) og græningja, þá er Angela Merkel sem lamaður leiðtogi. Þar hafa á fáeinum vikum í haust orðið alger umskipti. Hennar tími er augsýnilega liðinn, en hún hefur hvorki erfðaprins né erfðaprinsessu, enda er staðan óvænt.

Skýringin á viðræðuslitunum er óánægja FDP með afstöðu Merkel til flóttamanna í Þýzkalandi.  FDP ætlar að herja á flokkinn AfD, Alternative für Deutschland, sem er á móti aðild Þýzkalands að myntsamstarfi ESB-evrunni og er mjög gagnrýninn á viðtöku einnar milljónar flóttamanna frá aðallega múhameðskum löndum árið 2016, sem enginn veit, hvað á að gera við.  Fólk þetta á mjög erfitt með að aðlagast vestrænum samfélögum, það lifir margt hvert í andlegu miðaldamyrkri og er þungur baggi á velferðarkerfinu.  FDP ætlar að hræra í þessu grugguga vatni og ná enn meiri fylgisaukningu  í næstu kosningum á kostnað AfD, sem fékk 92 þingmenn í september 2017, svo að flokkurinn geti jafnvel gert kröfu um stjórnarmyndunarumboð í Berlín eftir næstu kosningar, sem gætu orðið innan tíðar, ef jafnaðarmenn, SPD, semja sig ekki inn í ríkisstjórn.

Í Austur-Evrópu er að magnast óánægja með ESB, af því að ESB vill þvinga aðildarlönd sín þar til að taka við flóttamönnum.  Austur-Evrópulöndin og Eystrasaltslöndin vilja harðari stefnumörkun gagnvart Rússlandi, sem þau óttast, að geti reynt "úkraínuseringu" gagnvart sér.  Angela Merkel hefur í raun borið kápuna á báðum öxlum gagnvart Vladimir Putín, sem alltaf sætir færis að koma höggi á Vesturlönd og rjúfa samstöðu þeirra. Merkel hefur leyft viðskipti við Rússa með iðnvarning á borð við þýzka bíla, og hún hefur leyft Nord-Stream 2 að halda áfram, en það er stórverkefni Þjóðverja og Rússa um gaslögn beint frá Rússlandi um botn Eystrasaltsins og til Þýzkalands.  Austur-Evrópumenn eru æfir út af þessu.  Fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, situr í stjórn gasrisans rússneska, sem hér á í hlut.  

Suðurvængur ESB er í lamasessi.  Katalónar vilja losna undan völdum Kastilíumanna, og sama á líklega við um Baska.  Það getur hæglega kvarnazt út úr ríki Spánarkonungs á næstu misserum, en ESB óttast það, því að þá verður fjandinn laus víða í Evrópu.  Meira að segja Bæjarar gætu í alvöru farið að velgja Prússunum í Brandenburg/Berlín undir uggum.  

Enginn hagvöxtur hefur verið á Ítalíu frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, og margir banka Ítalíu eru taldir standa veikt.  Ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur.  Ítalir glíma við vantraust á fjármálakerfi sínu, lánshæfismatið á þeim er lágt, og lausafjárkreppa getur fyrirvaralaust leitt til bankagjaldþrots.  Þýzkir kjósendur eru andsnúnir því, að þýzka ríkið og þýzkir bankar hlaupi undir bagga, enda er um háar fjárhæðir að ræða á Ítalíu.  Ef allt fer á versta veg fyrir Ítölum, mun gengi evrunnar lækka enn meira en undanfarin misseri m.v.  bandaríkjadal og jafnvel verða ódýrari en bandaríkjadalur.  Þá mun vegur sterlingspunds vænkast og hrollur fara um margan (tevtónann) norðan Alpafjalla. 

Á Grikklandi er viðvarandi eymdarástand með 20 % atvinnuleysi (50 % á meðal fólks undir þrítugu), ríkisstofnanir eru sveltar og gamlingjar og sjúklingar lepja dauðann úr skel.  Þessi eymd er í boði ESB, sem neitar að klippa á skuldahala gríska ríkisins, þótt AGS mæli með því. Sósíalistar Syriza þrauka í ríkisstjórninni í Aþenu, á meðan eignir Grikkja á borð við höfnina í Pireus eru seldar útlendingum, í mörgum tilvikum Kínverjum, sem eru að tryggja sér aðstöðu á siglingaleiðum (beltiskenning aðalritarans, Xi).  

Ekki tekur betra við, þegar horft er til norðurs úr höfuðstöðvum ESB í Brüssel, Berlaymont.  Öflugasta ríki ESB á sumum sviðum, og næstöflugasta efnahagsveldi þess, er á leiðinni út úr sambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar í júní 2016.  Þetta er  sársaukafullur skilnaður, bæði fyrir ESB og Bretland, og skilnaðarsamningaviðræður hafa gengið illa fram að þessu.  Gæti svo farið, að í marz 2019 hrökklist Bretland úr þessari yfir fertugu meginlandsvist sinni án viðskiptasamnings, og þá gilda ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.  Bezt væri fyrir báða aðila, svo og Íslendinga, að fríverzlunarsamningur kæmist á.  Íslendingar gætu notið góðs af honum, enda fer nú þegar talsvert af íslenzkum sjávarafurðum frá Bretlandi til meginlandsins. 

Bretum er í mun að halda frjálsu viðskiptaaðgengi sínu að Innri markaðinum, og framleiðendum í ESB er í mun að halda óbreyttu aðgengi að 60 milljóna manna öflugum markaði norðan Ermarsundsins, en Berlaymont og leiðtogaráðið eru hins vegar skíthrædd við, að flótti bresti í liðið, ef Bretar standa uppi með pálmann í höndunum árið 2019, eins og reyndin varð eftir hrikaleg vopnaviðskipti 1918 við Habsborgara og Þýzkaland og 1945 við Öxulveldin. Þótt Bretar tapi orrustum, virðast þeir alltaf vinna stríðið.  

Við þessar aðstæður hefur umræða í Noregi um aðild landsins að EES blossað upp, eins og grein í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017 bar með sér.  Hún bar fyrirsögnina:

Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins.

Í Noregi ríkir nú minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins.  Erna Solberg, forsætisráðherra, er fylgjandi aðild Noregs að ESB, en Framfaraflokkurinn er á móti.  Nýlegi kúventi stærsti flokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, í þessu máli og hefur nú þá afstöðu að berjast ekki fyrir aðild Noregs að ESB. Það kann að vera orðið mjótt á mununum um stuðning á Stórþinginu við aðild Noregs að EES.  Án Noregs þar hrynur EES eins og spilaborg, því að Norðmenn halda bákninu uppi fjárhagslega að mestu leyti.   

Á Íslandi hefur úrsögn landsins úr EES þó enn ekki hlotið mikla umfjöllun.  Gæfulegast væri að hafa samflot með Norðmönnum um endurskoðun samninga um EES, þar sem stefnt yrði á endurheimt óskoraðs fullveldis landanna, einnig yfir landamærum sínum, og viðskiptafrelsi með vörur og þjónustu, sem aðilar eru sammála um, að eru óskaðlegar fólki, dýrum og náttúru. Í sáttmála Fullveldisstjórnarinnar stendur í landbúnaðarkaflanum:  "Meginmarkmiðið er, að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð".  Þar sem þetta samræmist ekki matvælalöggjöf ESB, sem einnig gildir fyrir EES samkvæmt EFTA-dómi nýlega, er Íslandi ekki lengur vært innan EES. Hefur þá ekki verið minnzt á hættu, sem lýðheilsu stafar af innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  

Norska Stórþingið og Alþingi verða að fela ríkisstjórnum landanna að semja um undanþágur við ESB, til að hægt sé að óska eftir sameiginlegum viðræðum landanna og hugsanlega Liechtenstein við ESB.  Það er líklegra en hitt, að þessi þjóðþing myndu, eftir umræður, samþykkja að óska eftir slíkum samningaviðræðum við ESB, en það er hins vegar líklegt, að ESB fari undan í flæmingi vegna þess, hvernig allt er í pottinn búið á þeim bæ.  Það er líka skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að doka við og sjá, hver útkoman verður úr Brexit-viðræðunum, og nota tímann til að undirbúa jarðveginn innanlands, og að stilla saman strengi um leið og gerður er fríverzlunarsamningur við Bretland.  Íslendingar munu reyna að ná enn hagstæðari samningum við Breta fyrir vörur sínar, t.d. sjávarvörur, en nú eru í gildi.

Evran krosssprungin     

 

 

 

 


Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


Risi í hagkerfinu

Það getur verið óheppilegt, að mikill stærðarmunur sé á útflutningsgreinum.  Það er út af því, að risinn getur þá hæglega gert öðrum erfitt fyrir og jafnvel rutt þeim úr vegi.  Þetta eru svo kölluð ruðningsáhrif, og þeirra hefur vissulega gætt hérlendis frá ferðaþjónustunni, en gjaldeyristekjur hennar eru nú meiri en frá sjávarútvegi og iðnaði til samans. Umfang ferðaþjónustunnar hefur reyndar Síðan 2016 leitt til minni framlegðar í öllum útflutningsgreinum, einnig hjá ferðaþjónustunni sjálfri, og sterk staða ISK í skjóli ríflegs viðskiptaafgangs hefur reyndar dempað vöxt ferðaþjónustunnar, sem brýna nauðsyn bar til.

Vöxtur ferðaþjónustunnar í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins hefur verið meiri en innviðir landsins hafa ráðið við, og náttúra landsins hefur sums staðar beðið hnekki sökum ágangs ferðamanna.  Þá er alræmd saurmengun á víðavangi sökum skorts á salernisaðstöðu heilsuverndarlegt hneyksli, sem of hraður vöxtur hefur leitt af sér.

Þversögnin í umræðunni um umhverfisleg áhrif ólíkra atvinnugreina er sú, að "eitthvað annað", sem s.k. "umhverfisverndarsinnar" jöpluðu löngum á, þegar þeir voru spurðir um valkost við virkjanir endurnýjanlegra orkulinda og málmiðnað, reyndist vera ferðaþjónusta, en það er þekkt um allan heim, að sú atvinnugrein er stækasti umhverfisskaðvaldur okkar tíma.

Á gististöðum fellur til gríðarlegt magn úrgangs, lífræns og ólífræns, sem er byrði fyrir staðarumhverfið, og ofboðsleg eldsneytisnotkun þessarar orkufreku greinar er stórfelld ógn við lífríki jarðar í sinni núverandi mynd vegna gróðurhúsaáhrifa eldsneytisbrunans.  Þau eru þreföld á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er í þotuhreyflum í háloftunum m.v. bruna á jörðu niðri, hvort sem bókhald ESB um losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það eða ekki.

Flugfélögin í EES-löndunum eru háð úthlutunum á koltvíildiskvóta frá framkvæmdastjórn ESB.  Þessi losunarkvóti mun fara síminnkandi og mismuni raunlosunar og leyfislosunar verða flugfélögin að standa skil á með kvótakaupum.  Fyrir íslenzku millilandaflugfélögin er langeðlilegast og vafalítið hagkvæmast til langs tíma að semja við íslenzka bændur, skógarbændur og aðra, sem stundað geta skilvirka landgræðslu, að ógleymdri minnkun losunar CO2 með endurbleytingu lands með skurðfyllingum. 

Ríkið getur hjálpað til við að koma þessu af stað, t.d. með því að leggja ríkisjarðir, sem nú eru vannýttar, undir þessa starfsemi.

Hjörtur H. Jónsson skrifaði um

"Ruðningsáhrif ferðaþjónustu" 

í Morgunblaðið 14. september 2017:

"Niðurstaðan af þessu er, að þótt almennt séu jákvæð tengsl á milli vaxtar ferðaþjónustu og hagvaxtar í þróuðum ríkjum, þá eru tengslin oft á tíðum veik og hverfa, þegar spenna á vinnumarkaði er orðin það mikil, að jafnverðmætar greinar geta ekki lengur keppt við ferðaþjónustuna um vinnuafl og fjármagn.

Fyrst eftir hrunið 2008 bar íslenzkt efnahagslíf mörg einkenni þróunarríkja.  Atvinnuleysi var mikið, framleiðni lítil og efnahagslífið tiltölulega einhæft, en raungengið var líka lágt, og vinnuafl gat leitað til útlanda, sem hvort tveggja hjálpaði til.  Aðstæður voru því hagstæðar fyrir hraðan vöxt ferðaþjónustunnar, sem fyrst um sinn var nokkurn veginn hrein viðbót við hagkerfið.  En þrátt fyrir að til Íslands sé nú komið umtalsvert erlent vinnuafl til starfa í láglaunageirum, þá eru í dag ýmis merki um, að við séum komin á þann stað, að frekari vöxtur ferðaþjónustunnar kosti okkur álíka mikið í öðrum atvinnugreinum og að þar með muni hægja hratt á hagvexti, sem rekja má til ferðaþjónustunnar.  Það eru vísbendingar um, að ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar vegi í dag mikið til upp á móti ávinninginum af frekari vexti hennar.  

Við slíkar aðstæður er rétt að stíga varlega til jarðar, því að ekki er víst, að atvinnugreinar, sem ekki lifa af samkeppnina, geti risið upp á ný, ef bakslag verður í ferðaþjónustu, og þá stöndum við eftir með einhæfara hagkerfi, sem ræður ekki eins vel við breyttar aðstæður."

Það er hægt að taka undir þetta og um leið draga þá ályktun, að fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna umfram 5 %/ár á næstu misserum sér efnahagslega beinlínis óæskileg.  Hún er líka óæskileg af umhverfisverndarlegum ástæðum.  Það er hægt að hafa mikil áhrif á vöxtinn með verðlagningu þjónustunnar. Greinin mun enn um sinn verða í lægra virðisaukaskattsþrepinu, sem er e.t.v. eðlilegt, þar sem í raun er um útflutningsgrein að ræða. 

Ferðaþjónustan ætti nú að treysta stöðu sína fremur en að vaxa hratt, t.d. með því að dreifa ferðamönnum miklu betur um landið, aðallega til Austurlands og Vestfjarða.  Suðurland er mettað af erlendum ferðamönnum.  Innanlandsflugið gæti hér leikið stórt hlutverk, en einnig beint flug til Akureyrar og Egilsstaða að utan og framhaldsflug til Ísafjarðar og annarra innanlandsflugvalla utan Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli.

Millilandaflugflugfélögin leika aðalhlutverkið í þróun ferðaþjónustu á Íslandi.  Þau eru eins og ryksugur með mörg úttök, sem sjúga til sín ferðamenn og dreifa þeim þangað, sem þeim hentar og spurn er eftir.  Það er spurn eftir norðrinu núna, af því að það er friðsamt og þar koma gróðurhúsaáhrifin greinilega fram og vekja forvitni fólks.  Ef þessum u.þ.b. 30 millilandaflugfélögum, sem hingað hafa vanið komur sínar, þóknast að vekja athygli ferðamanna á dýrð Austurlands og Vestfjarða, þá er björninn unninn.

Nú stendur fyrir dyrum endurnýjun á flugflota Icelandair, en félagið hefur enn stærsta markaðshlutdeild hér.  Í ársbyrjun 2013 var gerður samningur á milli Icelandair Group og Boeing-verksmiðjanna um framleiðslu á 16 flugvélum af gerðinni Boeing 737 - MAX fyrir Icelandair og kauprétt á 8 slíkum til viðbótar, alls 24 flugvélum. Þessar 16 umsömdu vélar á að afhenda 2017-2021.  Hér eru risaviðskipti á ferð, sem fyrir 16 flugvélar af þessari gerð gætu numið miaISK 150.  

Þessar flugvélar bætast í 30 flugvéla hóp, 25 stk Boeing 757-200, 1 stk Boeing 757-300 og 4 stk Boeing 767-300, og er ætlað að leysa af hólmi 26 stk af gerð 757 í fyllingu tímans.  Nýju flugvélarnar eru af gerð 737-MAX 8 og 9 og taka þær 160 og 178 farþega, en þær gömlu taka 183 farþega.  

Þannig rýrnar flutningsgetan við að setja gerð 737 í rekstur alfarið í stað gerðar 757.  Líklegt er þess vegna, að breiðþotum verði bætt í hópinn, því að nýting flugflota Flugleiða er mjög góð.

Nýju flugvélarnar eru sagðar verða 20 % sparneytnari á eldsneyti en samkeppnisvélar.  Árið 2016 er talið, að millilandaflugið hafi losað 7,1 Mt af koltvíildisjafngildi, sem þá var langstærsti losunarvaldurinn á eftir framræstu landi, sem gæti hafa losað 8,2 Mt eða 40 % heildar.  7,1 Mt nam þá 59 % losunar Íslendinga án framræsts lands og 35 % að því meðreiknuðu. 

Losun millilandaflugsins hefði orðið 1,4 Mt minni árið 2016, ef flugvélarnar hefðu verið 20 % sparneytnari.  Íslenzk yfirvöld eru ábyrg fyrir aðeins 2,7 Mt/ár gagnvart Parísarsamkomulaginu til að setja losun millilandaflugsins í samhengi.  Flugfélögin og stóriðjufyrirtækin eru ábyrg fyrir öðru, þ.e. 9,7 Mt/ár gagnvart framkvæmdastjórn ESB.  

Þrátt fyrir minni losun millilandaflugvéla á hvern farþegakm, mun heildarlosun þeirra vegna flugs til og frá Íslandi líklega aukast á næstu árum vegna meiri flutninga.  Ef gert er ráð fyrir 40 % aukningu, þurfa flugfélögin að kaupa um 8 Mt/ár koltvíildiskvóta.  Hvað þyrfti að endurvæta mikið land og rækta skóg á stórum fleti til að jafna þetta út, sem dæmi ? 

Óræktað, þurrkað land er nú um 3570 km2.  Ef helmingur þess, 1800 km2, verður til ráðstöfunar í endurheimt votlendis, má þar útjafna 3,5 Mt/ár eða 44 % af þörf millilandaflugsins.  Ef plantað er í þetta endurheimta votlendi, myndast þar reyndar ekki mýri, en 1,1 Mt/ár CO2 bindast í tré og jarðveg.  Þá þarf að planta hríslum í 5500 km2 lands til viðbótar.  

Þetta jafngildir gríðarlegu skógræktarátaki, aukinni plöntuframleiðslu og auknum mannafla við ræktunarstörf og viðhald skóga.  Land fyrir þetta er sennilega fáanlegt, og ríkið getur lagt fram eyðijarðir í sinni eigu í þetta verkefni.  Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, svo að þegar í stað þarf að hefjast handa.  Samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma, verður um viðskiptalega hagkvæmt verkefni að ræða.  

 Bombardier C

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband