Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afkáraleg staða orkumála hérlendis

Sjálfskaparvítin eru verst.  Íslendingum hefur borið gæfa til að nýta hluta endurnýjanlegra og nánast kolefnisfrírra orkulinda landsins til að knýja atvinnulífið að töluverðu leyti og til heimilishalds og húsnæðisupphitunar að nánast öllu leyti.  Um 15 % heildarorkunotkunarinnar er enn með jarðefnaeldsneyti og fer jafnvel vaxandi þessi misserin vegna öfugsnúinnar andstöðu sérvitringa (jaðarhópa (borderline)), sem í ótrúlegri forheimskun hafa undanfarin ár lagzt gegn nánast öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð og uppsetningu burðugra (220 kV) flutningslína á milli landshluta, sem ætlað er að auka afhendingaröryggi raforku í öllum landshlutum, draga úr orkutöpum á leiðinni og bæta nýtingu uppsafnanlegs vatns miðlunarlónanna. 

 

Við höfum alla burði og tæknilega möguleika á að halda áfram að skjóta stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf landsins með því að hefja framkvæmdir af krafti við virkjanir og línur.  Það er nóg til af óvirkjaðri orku fyrir landsmenn um fyrirsjáanlega framtíð.  Téðir sérvitringar eiga bakhjarla á Alþingi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, og geta þess vegna enn flækzt fyrir framfaramálum, á meðan hinir taka sig ekki saman í andlitinu og setja þeim stólinn fyrir dyrnar að fremja óhæfuverk sín á framfarasókninni til "grænnar" orkuframtíðar.  Stjórnmálamenn láta eins og þeir komi af fjöllum um orkuskortinn, og þeir forhertustu afneita honum.  Þegar kemur að lausnum, sem duga, vappa þeir eins og kettir í kringum heitan graut. 

Þann 27. janúar 2024 skrifaði vanur maður úr atvinnulífinu, fyrrum stórnotandi raforku og nú framleiðandi raforku, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fróðlega grein í Morgunblaðið um skrýtna stöðu orkumálanna hérlendis undir fyrirsögninni:

"Baráttan um skortinn":

 

"Fyrsta útgáfa frumvarpsins [atvinnuveganefndar um heimildir til að bregðast við raforkuskorti - innsk. BJo] var gölluð.  Þar var í stuttu máli kveðið á um, að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði.  Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON.  Um 60 % af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.  

Þetta er ósanngjarnt,eins og lesa mátti úr flestum umsögnum, sem bárust um frumvarpið.  Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir t.a.m.: "Með hliðsjón af öllu famangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því, að fyrirliggjandi frumvarp verði óbreytt að lögum.  Á þessu stigi málsins telur eftirlitið, að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni."  

Frumvarpsdrögin komu úr Orkustofnun, en handrit hefur greinilega borizt henni frá forstjóra Landsvirkjunar, sem ekki hefur aukið hróður sinn með opinberri framgöngu sinni í þessu skortsmáli, sem hefur verið raunaleg og lítt sæmandi þeirri stöðu. Í a.m.k. eldri samningum við stórnotendur er kveðið á um, að í "force majeure" ástandi, þ.e. þegar glímt er við afleiðingar óviðráðanlegra afla, megi skerða umsamda forgangsorku til þeirra hlutfallslega jafnmikið og til almenningsveitna.  Hinn lögfræðilegi vandi nú er, að raforkuskorturinn stafar af stjórnendamistökum og vanrækslu, sem ekki er sambærilegt við bilanir í búnaði eða náttúruhamfarir.  

"Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum, og fumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu.  Málinu var samt frestað fram yfir áramót.  Þá "var ljóst, að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi", eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023, "Afgreiðslu raforkufrumvarps festað").

Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn "leka á milli markaða".  Ráðizt var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is, sem ekki verður setið undir."

Er of mikið að líkja Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, við fíl í postulínsbúð ? Þegar hann fær ekki yfirgangssömum vilja sínum famgengt við þingmenn, eins og við ósjálfstæða embættismenn, þá trompast hann og ber á borð þvætting og skæting í fjölmiðlum.  Þessi hegðun er óeðlileg og óvenjuleg í orkugeiranum, þar sem yfirleitt sitja prúðmenni á fleti fyrir.  Það er heilbrigðismerki á geiranum, að ofstopanum í forstjóra langstærsta orkufyrirtækisins skuli vera andæft og fjarstæðum hans sópað út í hafsauga.  

"Enginn efast um, að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi.  Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi.  Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi.  Þvert á móti er verið að leggja til, að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa, sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda.  Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara, að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu.  Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis.  Landsvirkjun getur ekki haldið því fram, að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar, því [að] fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa."

Í fyrstu málsgreininni horfir höfundurinn fram hjá sérvitringahópinum, sem grafið hefur svo undan orkugeiranum íslenzka, að hann er núna ófær um að fullnægja raforkumarkaðinum með þeim afleiðingum, að olíu er brennt í verksmiðjum, þar sem rafmagn væri notað, væri það fáanlegt.  

Segja má, að Tryggvi Felixson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, hefur löngum verið talsmaður þessa hóps.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024 með yfirskriftinni:

"Yfirvegun eða óðagot í orkumálum":

"Af famangreindum tölum verður ekki annað séð en viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar.  Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára.  Yfirdrifnar yfirlýsingar, sem fram hafa komið um, að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar.  M.v. flestar aðrar þjóðir mætti segja, að við séum að drukkna í raforku.  Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra.  M.a. er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku, sem losnar, þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út, til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum."

Þarna skrifar einn af beturvitum afurhaldsins í landinu um orkumálin.  Eins og hans nótar eru vanir að gera, setur hann sig á háan hest, gefur skít í áhyggjur og viðvörunarorð kunnáttumanna um orkumálin og skrifar um "meintan" orkuskort.  Hann er sem sagt ímyndun starfsmanna í orkugeiranum, Samorku, Samtaka iðnaðarins og ýmissa ráðgjafa, sem gerzt þekkja þessi mál.  Þá mætti spyrja forráðamenn hins glæsilega hornfirzka félags Skinneyjar-Þinganess, sem ekki fengu keypta forgangsorku á markaðinum í vetur fyrir rafskautaketil sinn og urðu með hraði að kaupa og setja upp olíukyndingu fyrir bræðsluofn sinn.

Hvernig stendur á því, að gapuxar af ólíku tagi telja, að þeir komist upp með það að hefja sig upp fyrir menntaða og virta sérfræðinga og halda því fram, að svart sé hvítt ?  Þetta loðir dálítið við hér, en ætli þeir séu ekki komnir út í skurð nú, sem helzt vilja loka stærstu iðjuverum landsins ?  Þetta vesalings fólk skortir allt sögulegt samhengi, er blautt á bak við bæði eyrun.  Það áttar sig ekki á, að stórsala til iðjuvera myndaði grundvöll að rafvæðingu landsins hinni síðari og samtengingu landshlutanna í eitt orkusvæði.    

 

 


Vesturlöndum stendur mikil ógn af glóruleysi Rússlandsstjórnar

Pútín, forseti Sambandslýðveldisins Rússlands, hefur gefið út tilskipun um, að rússneska ríkinu beri að vinna að því ná undir sig öllum löndum, sem voru innan vébanda Ráðstjórnarríkjanna, og öllum öðrum landssvæðum, sem Rússakeisari réði áður.  Til þessara svæða telst m.a. Alaska, sem Bandaríkjamenn keyptu af zarnum 1867.  Þessari tilskipun verður aðeins lýst sem geðveiki einæðisherra, en hún hlýtur að leiða til þess, að Vesturlönd, einkum Evrópuríkin, sjái skriftina á veggnum og endurhervæðist. Samþykkt Ráðherraráðs Evrópusambandsins (ESB) 01.02.2024 á mrdEUR 50 fjárhagsstuðningi við Úkraínu yfir 4 ár ber að fagna, en handbendi Pútíns, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, skipti um afstöðu til málsins, svo að samþykktin verð einróma.  

 Ef Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, er ógnin geigvænleg, því að þessi fasisti mun svíkja Úkraínu og Eystrasaltslöndin og síðan öll önnur ríki Varsjárbandalagsins sáluga í hendur sálufélaga síns, Pútíns.  Hvernig hann bregzt við kröfunni um Alaska, er efiðara að ímynda sér.  

Nú standa Rússar blóðugir upp að öxlum i Úkraínu.  Vesturlönd verða að átta sig á því, að Úkraínumenn úthella nú blóði sínu ekki einvörðungu til varnar frelsi og sjálfstæði eigin lands, heldur allrar Evrópu. Þessi rússneska útþenslustefna og hatur á Vesturlöndum er ekki bundin við einn mann í Kreml, heldur hefur þessi vitfirring verið við lýði frá stofnun rússneska keisaradæmisins fyrir um 300 árum. Fleiri evrópsk keisaraveldi voru illa haldin af þessari áráttu á 19. og 20. öld, en 2 heimsstyrjaldir hafa læknað viðkomandi þjóðir af árásarhneigð og útþenslustefnu.

Rússneska þjóðin er fátæk og fjölmargir lifa undir fátæktarmörkum, enda viðgengst ægileg spilling og misrétti í Rússlandi.  Rússar hafa reynzt ófærir um að innleiða lýðræði hjá sér og sjúklegt hugarfar og afstaða til annarra þjóða hefur ekki breytzt þar.  Þar verður engin breyting til batnaðar, nema ríkið sundrist, sem gæti orðið við niðurlægjandi tap rússneska hersins í átökunum við úkraínska herinn.  Með óbreyttum stuðningi Vesturlanda verður það þó ekki, og afstaða Bandaríkjamanna ræður þar mestu um.  Það er ótrúlegt, að bandaríska þingið skuli ekki líta á fjárhagsstuðning á formi hergagna og annars við Úkraínu sem mjög hagkvæma fjárfestingu í framtíðinni. Ætlar skammsýnin og blindnin að verða Vesturlöndum að falli ?

Börkur Gunnarsson, kvikmyndaleikstjóri, er ýmsum hnútum kunnugur í Úkraínu og hefur dvalið þar.  Hann hefur frætt lesendur Morgunblaðsins um kynni sín af Úkraínumönnum.  Grein hans 22. janúar 2024 bar yfirskriftina:

       "Innrás Pútíns hefur allt önnur menningarleg áhrif en hann ætlaði":

"En menningarbreytingarnar í Úkraínu eru það, sem ég hef mestan áhuga á.  Sem áhugamaður um sagnfræði las ég mér mikið til um sögu þeirra ríkja, sem mynduðu Sovétríkin.  Þá var hefð [á] meðal sovézkra sagnfræðinga að gera lítið úr því, að það voru norrænir menn, sem áttu mikilvægan þátt í risi Kyiv, en margir rússneskir sagnfræðingar efuðust um heimildir, sem studdu það.  Það hentaði ekki stefnu Kremlar, að víkingar frá Norðurlöndunum ættu eitthvað í því stórveldi, sem Kyiv ríkið var frá 10. öld og fram til ársins 1240, að Mongólar sigruðu her ríkisins, myrtu flesta íbúana og brenndu höfuðborgina til grunna.  

En þegar ég tók viðtal við forstöðumann úkraínska þjóðminjasafnsins í höfuðborginni, varð mér ljóst, að í dag gera Úkraínumenn mikið úr þessum uppruna.  Kenningin er ekki aðeins rökum reist, heldur hentar hún þeim, sem nú stjórna."

Það voru aðallega sænskir víkingar í viðskiptaerindum  eftir fljótum Úkraínu á leið að Svartahafi og niður að Miklagarði, sem sáu sér hag í bandalagi við harðduglega heimamenn, sem þarna áttu í hlut, og má segja, að lengi hafi logað í gömlum glæðum ýmissa tengsla norrænna manna við Úkraínumenn.  Það hefur komið í ljós í blóðugri baráttu Úkraínumanna við arfaka Mongólaveldisins, Rússana, einkum efir innrásina 24. febrúar 2024. 

Blinda vestrænna leiðtoga lýðræðisríkja á söguna og framtíðina er tilefni til áfallastreituröskunar.  Þannig hefur það alltaf verið með þeirri afleiðingu, að hurð hefur skollið nærri hælum í 2 heimsstyrjöldum í viðureigninni við útþenslusinnuð einræðisríki. Bandaríkin komu þá til hjálpar, enda var ráðizt á þau í seinna skiptið og stríði lýst á hendur þeim, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Fasistinn, sem nú um stundir stefnir hraðast á Hvíta húsið, en kann að verða settur á bak við lás og slá vegna afbrota sinna, er aðdáandi einræðisherra heimsins á borð við Pútín og hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr NATO.  Hvers konar hrikalegt döngunar- og úrræðaleysi er það á meðal ríkisstjórna fjölmennustu þjóða Evrópu að hafa ekki nú þegar stóreflt hergagnaframleiðslu sína til að geta staðið myndarlega við bakið á Úkraínumönnum og birgt upp eigin herafla og gert hann bardagahæfan á ný ?  Á meðal Evrópuþjóðanna eru góðar undantekningar, og má þar telja Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Finna. 

Þann 23. janúar 2024 birtist önnur grein í Morgunblaðinu eftir sama höfund, Börk Gunnarsson.  Fyrirsögn hennar var þessi:

"Ekki viss um, að hann finni ástina sína í Úkraínu - Karlarnir berjast og konurnar fara".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Annar piltur, sem ég hitti, er ólmur að komast aftur á vígstöðvarnar og talar um, að það sé hneyksli, hvað Úkraína fái lítinn fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, ungir úkraínskir menn séu að deyja fyrir Vesturlandabúa, á meðan þeir sitji bara uppi í sófa og hámi í sig kartöfluflögur. Maður fær samvizkubit yfir ræðum hans.  Því [að] það er mikið til í þeim.  Við eigum meira að segja fólk á Vesturlöndum, sem gerir lítið úr fórnum úkraínsku þjóðarinnar."

Hið síðast nefnda er hrollvekjandi staðreynd, sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þessi lýður getur verið af tvennum toga: annars vegar Rússadindlar, sem hafa verið heilaþvegnir af áróðri Kremlar.  Þetta eru oft undanvillingar, sem af einhverjum sjúklegum ástæðum hafa fyllzt hatri á lifnaðarháttum Vesturlanda og fyrirlitningu á lýðræðisfyrirkomulaginu.  Sálfræðilega eru þetta einstaklingar svipaðrar gerðar og aðhylltust nazisma á fyrri tíð.  Hins vegar er um að ræða naflaskoðara með asklok fyrir himin og hafa þar af leiðandi engan skilning á því, hvers konar átök eiga sér stað í heiminum núna né hvers vegna Úkraínumenn leggja nú allt í sölurnar til að halda fullveldi lands síns og sjálfstæði.  Naflaskoðararnir hafa engar forsendur til að átta sig á hrikalegum afleiðingum þess fyrir eina þjóð að lenda undir járnhæl Rússa.  Í tilviki Úkraínumanna mundi það jafngilda tortímingu þjóðarinnar.  Rússneski björninn er viðundur í Evrópu 21. aldarinnar.  

Að lokum skrifaði Börkur:

"Ég hef sjaldan upplifað jafnlitla jólastemningu yfir hátíðarnar, en annað hefði verið undarlegt.  Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins leitt til dauða tugþúsunda ungra úkraínskra manna, lagt heimili hundruða þúsunda í rúst, heldur einnig rústað heilbrigði og sálarheill tugmilljóna manna þjóðar, fjölskyldum þeirra og börnum, sem munu vaxa úr gasi algjörlega trámatíseruð.  En á meðan getur íslenzkur almenningur borðað kartöfluflögur í rólegheitum í sófanum sínum og jafnvel verið með yfirlætislegar samsæriskenningar og ræktað í sér samúð með innrásarhernum, en ekki fórnarlömbunum."  

Hvernig halda menn, að fólki verði innanbrjósts, sem gengur til hvílu að kveldi vitandi, að húsið þeirra gæti orðið skotmark fjandmannanna um nóttina ?  Hernaður Rússa er eindæma lágkúrulegur.  Að gera saklausar fjölskyldur að skotmarki ónákvæmra flauga og dróna sinna í stað hernaðarmannvirkja er fyrirlitlega heigulslegt atferli, en Rússar eru til alls vísir.  Þeir eru á afar lágu plani bæði siðferðilega og tæknilega.  Fátæktin, andleg og veraldleg, er yfirþyrmandi.  

 

 


Ráðherra grefur undan grunnatvinnuvegi landsmanna

Það hefur aldrei verið neitt vit í tiltektum Svandísar Svavarsdóttur á ráðherrastóli.  Sem matvælaráðherra hefur hún þó bitið höfuðið af skömminni, og stefndi fyrir vikið í vantraust á störf hennar á Alþingi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ósvífni hennar nær út fyrir þjófamörk, því að hún brýtur lög viljandi með ýmsum gjörðum sínum í ráðuneytinu.  Þetta er ólíðandi með öllu, enda stefnir í milljarða ISK skaðabótakröfur gegn ríkissjóði vegna ráðuneytisverka Svandísar 2023. Þessi ósköp eru sem betur fer sjaldgæf.  

Drög að frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveginn ætti ríkisstjórnin að draga til baka, því að það er ekki heil brú í þeim, frumvarpið er með öllu óþarft og reyndar stórskaðlegt fyrir þjóðarbúið.  Þetta er aðför sósíalista að vel reknum einkarekstri.  Ef slíkt fyrirfinnst einhvers staðar, reyna sósíalistar að verða sér úti um ástæður til að varpa þrúgandi byrðum ríkisins á starfsemina.  Það er glórulaus hegðun gegnvart fyrirtækjum í samkeppnisreksti á erlendri grundu, og jafnstaða fyrirtækjanna gagnvart öðrum innlendum fyrirtækjum er með öllu fyrir borð borin. Svo langt er gengið, að líkja má skattheimtunni við eignaupptöku.  Með þessari hugmynd ráðherra að lagafrumvarpi er stigið stórt skref í átt til þjóðnýtingar, sem er hinn blauti draumur allra sósíalista, þótt þjóðnýtingar eigi sér einvörðungu hrakfallasögu. 

Fremsti fræðimaður landsins á sviði hagfræði sjávarútvegs skilaði umsögn í samráðsgátt um téð afkvæmi sósíalistans, og birti Morgunblaðið nokkur atriði þaðan þann 18. janúar 2024 undir fyrirsögninni: 

"Frumvarpið veiki sjávarútveginn":

"Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í umsögn um drög Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að frumvarpi til laga um sjávarútveg, sem sjá má í samráðsgátt stjórrnvalda, að þar sé ekki gerð gangskör að því að bæta stjórnun fiskveiða og gera þær skilvirkari þannig, að framlag þeirra í þjóðarbúið geti vaxið. Þess í stað sé haldið áfram á þeirri braut að þrengja að fyrirtækjum í sjávarútvegi, leggja á þau auknar byrðar og hækka enn frekar sérstaka og brenglandi skattheimtu á þau.

Ragnar segir afleiðingarnar óhjákvæmilega verða annars vegar veikari sjávarútvegur, sem mun, þegar fram í sækir, ekki geta staðizt samkeppni við sjávarútveg annarra þjóða, sem ekki þurfa að bera svona byrðar, og verður því að gefa eftir í samkeppninni um afla og á fiskmörkuðum í heiminum, og hins vegar minna framlag sjávarútvegsins í þjóðarbúið með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir alla landsmenn." 

Vinnubrögð ráðuneytis, sem leiða til þeirra illu afleiðinga fyrir þjóðarhag, sem prófessorinn fyrrverandi lýsir hér að ofan, eru forkastanleg og ábyrgðarlaus.  Þau eru eins laus við faglega nálgun í þágu lands og þjóðar og hægt er að hugsa sér og eins löðrandi í pólitískum geðþótta af vinstri vængnum og hugsazt getur.  Slík vinnubrögð verðskulda þá umsögn, að þau grafi undan grunnatvinnuvegi landsmanna. 

"Ragnar gerir einnig athugasemd við mjög mikla hækkun á gildandi veiðigjaldi, sem frumvarpsdrögin leggja til. 

Í fyrsta lagi er lagt til, að veiðigjald á uppsjávarfisk verði hækkað úr 33 % af gjaldstofni í 45 %. 

Í öðru lagi verður hætt að heimila frádrátt veiðigjalds frá hefðbundnum tekjuskatti.  Það samsvari 25 % - 60 % hækkun á virku veiðigjaldshlutfalli efir því, hvernig tekjuskattur á fyrirtæki er metinn (tekjuskattur á fyrirtæki árið 2023 var 20 % og fjármagnsskattur 22 %.  Skattur á útgreiddan arð var því 37,6.). 

Í þriðja lagi gera frumvarpsdrögin ráð fyrir, að virkt tekjuskattshlutfall á sjávarútvegsfyrirtæki verði 53 % og 70,6 % á botnfiskveiðar og 65 % og 82,6 % á uppsjávarveiðar, en virka tekjuskattshlutfallið er summa venjulega tekjuskattshlutfallsins, 20 % og 37,6 % og veiðigjaldsins, sem er 33 % á botnfiskveiðar og 45 % á uppsjávarveiðar.  Bendir Ragnar á, að hlutföll séu svo há, að margir myndu kenna það við ofurskatta."

Skattheimta af þessu tagi er gjörsamlega ótæk og jaðrar við að vera stjórnarskrárbrot, því að hún er eiginlega eignaupptaka ríkisins.  Þar að auki er hún gróft brot á jafnræðisreglu, sem fyrirtækin eiga rétt á að njóta gagnvart skattheimtu. Að fara fram með nokkuð eins og þetta vitnar um pólitískt ólæsi, því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt þetta og ekki setið í ríkisstjórn með ráðherra, sem leggur aðra eins óhæfu fram. 

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í ágúst 2023 samþykkti þetta um ríkisfjármál og skatta:

"Skattkerfisbreytingar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um á síðustu 10 árum, hafa fyrst og fremst miðað að því að einfalda skattkerfið, létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun.  Halda verður áfram á sömu braut og huga sérstaklega að barnafjölskyldum, m.a. með breytingum á barnabótakerfinu og hækkun hámarksgreiðslu í fæðinggarorlofi.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn frekari álögum á fólk og fyrirtæki."

Þarna eru tekin af öll tvímæli um það, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki fekari skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, þótt undantekning hafi verið gerð með það vegna neyðarástands í Grindavík.  Þannig mátti Svandísi Svavarsdóttur vera það ljóst, að hún væri komin út á hála braut stjórnarslita með ofurskattlagningu á sjávarútveginn, sem í frumvarpsdrögum hennar felast.  Pólitísku raunsæi er ekki fyrir að fara, heldur vaðið áfram í blóra við niðurstöðu undirbúningsvinnunnar fyrir óþarft frumvarp og í blóra við öll helztu hagsmunafélög, sem að sjávarútvegi koma.  Þarna er einsýni og pólitísku ofstæki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs rétt lýst.    

 

  

 

                                                                                                                           


Heilbrigðiskerfi Vesturlanda eiga í djúpstæðum vanda

Með hækkandi meðalaldri og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara yfir 65 ára aldri stefna heilbrigðiskerfi Vesturlanda í þrot.  Þetta á í ríkum mæli við á Íslandi.  Þjóðin er ung, en "eldist hratt" og er ekki tiltakanlega meðvituð um hollt líferni, matarræði og hreyfingu, eins og útlitið ber með sér.  Þess vegna stefnir í óefni, bæði með hina opinberu þjónustu og heildarkostnað hins opinbera við að fást við sjúkdóma borgaranna. Ekki hefur landlæknir bætt úr skák í verki, þótt heimasíða embættisins gæti bent til annars. Þetta embætti varð sér þokkalega til skammar, þegar fréttist af úkraínskum sálfræðingi hérlendis, sem sótti um starfsleyfi til embættisins.  Það brást við með því að senda inn beiðni um umsögn til rússneskra yfirvalda.  Eru engin mörk á heimsku embættismanna ?

Þegar fárið geisaði hér 2020-2021, sem nefnt er COVID-19, hér bara Kófið, þá stóð embættið og undirembætti þess, Sóttvarnalæknir, fyrir móðursýkislegri áróðursherferð fyrir alls kyns skaðlegum frelsisskerðingum og bólusetningum með handónýtum og skaðlegum tilraunabóluefnum (m-RNA), og heilbrigðisráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, gaf út reglugerðir á færibandi samkvæmt forskrift þessara embætta. Það þarf að fara ofan í saumana á þessari embættisfærslu hérlendis til að draga af henni lærdóma, því að fleiri faraldrar munu berast hingað til lands og verða skeinuhættari en Kófið.  Þá þarf löggjöfin og viðhorfin í ráðuneytinu og embættum þess að vera heilbrigðari og sjálfstæðari en raun var á í Kófinu.  

Ef viðhorf dr Janusar Guðlaugssonar til heilsueflingar aldraðra næðu meiri hljómgrunni hérlendis, er engum vafa undirorpið, að eldri borgarar landsins væru við betri heilsu nú en raun er á.  Versti óvinurinn er leti og sérhlífni ofan á óhollt matarræði, og þá er auðvitað voðinn vís og stutt í að verða lyfjaþræll, sem er ávísun á eymd og volæði.  Vitlaust líferni lendir fljótlega í fanginu á vanbúnu og þunglamalegu að mestu ríkisreknu heilbrigðiskerfi eða réttara sagt sjúklingakerfi ríkissjóðs. 

Morgunblaðið telur, að nýta megi betur og sóa minna í þessu kerfi, en hvernig ?  Forystugrein blaðsins 9. janúar 2024 hét:

"Heilbrigðara heilbrigðiskerfi":

"Hið viðtekna svar við vandanum er, að auka verði fjárframlög, en þó gerðist þetta [danska heilbrigðiskerfinu hrakaði frá seinustu aldamótum - innsk. BJo], um leið og mjög var bætt í opinber fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og fastráðnum læknum fjölgaði um 75 %.  Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Dönum hefur vissulega fjölgað á þessum tíma, en alls ekki í sama mæli [og kostnaðurinn - innsk. BJo], aðeins um 11 %.  Þjóðin hefur líka gamlazt - um aldamót voru um 14 % Dana yfir 65 ára aldri, en eru nú 19 % - sem er talsvert, en vel viðráðanlegt. 

Framfarir í læknavísindum hafa fjölgað meðferðarúrræðum og aukið eftirspurn, en framfarirnar hafa líka leitt til skjótari og auðveldari lækninga.  Meira eftirlit og betri og snemmbærari greiningar minnka einnig kostnað, og miklar vonir eru bundnar við gervigreind. 

Flest bendir til, að vandi danska heilbrigðiskerfisins sé því ekki fjárskortur, heldur sóun.  Að kerfið sé of dýrt og mannafli illa nýttur; að þröngar faglegar skilgreiningar verði til þess, að léttvægari verkefnum sé ofhlaðið á þá, sem hafa mesta menntun og reynslu, en starfskraftar þeirra, sem hafa minni menntun og reynslu, vannýttir.  Að aðalvandinn felist í stjórnun og skipulagi." 

Hvers konar sjúkdómseinkennum rekstrar er verið að lýsa þarna ?  Þetta eru dæmigerð einkenni opinbers rekstrar, sem harla ólíklegt er, að finnist á samkeppnismarkaði í einkarekstri. Það er ríkinu um megn að stunda svona flókinn rekstur með sæmilegu móti, og skiptir þá ekki máli, hvaða land á í hlut.  Byltingar éta börnin sín, svo að affarasælast er að brjóta rekstur heilbrigðiskerfisins upp og bjóða hann út í stærðum, sem taldar eru henta útboðum.  Sjúkratryggingar Íslands yrðu verkkaupinn af íslenzkum einkageira á heilbrigðissviði.  Sparnaður kæmi líklega strax fram, og ekki þarf að óttast gæðarýrnun, enda yrði eftirlit með gæðunum. 

"Skipulagsvandinn verður aðeins leystur, ef stjórnendur og starfsfólk hafa rétta hvata, hvata í kerfinu sjálfu, þar sem mælikvarðinn er ekki fjárframlög, heldur árangurinn. 

Því er erfitt að koma við í miðstýrðu, opinberu kerfi, þar sem ríkið er bæði greiðandi og þjónustuveitandi.  Í Danmörku hefur verið stungið upp á, að allir veitendur og birgjar - opinberir sem einkafyrirtæki - sitji við sama borð, fyrir opnum tjöldum, og keppi um verkefni og innkaup án þess, að hvikað sé frá markmiðum um jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.

Eins þurfi samanburðarhæfar upplýsingar um heilbrigðisstofnanir að liggja fyrir, t.d. um árangur, mistök og legudaga; kostnað veikindadaga og starfsmannaveltu.  Bæði til að efla neytendavitund og -val og skapa sanngjarnt samkeppnisumhverfi með eðlilegum hvötum og aðhaldi.  Allir myndu njóta ávinnings þess, en sóun haldið í skefjum. 

Hreinskilin umræða um það má ekki heldur bíða á Íslandi.  Heilbrigðiskerfið er gott, en það þarf að verða miklu betra.  Til þess eru allir kostir."

Það eru áhöld um það, hvort íslenzka heilbrigðiskerfið geti talizt gott nú um stundir. Þessi danska tillaga um allsherjar samkeppni um heilbrigðisþjónustu til að vega að rótum stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera vegna hennar er góðra gjalda verð og kann að vera framkvæmanleg í Danmörku, en hér gæti hún verið of stór í sniðum til að komast nokkurn tímann til framkvæmda.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stríð í Evrópu - afturhvarf til fortíðar

Árið 1938 var haldinn fundur fjögurra þjóðarleiðtoga í hinni fögru höfuðborg Bæjaralands, München, einræðisherrans og ríkisleiðtogans Adolfs Hitlers og hins ítalska bandamanns hans Benitos Mussolinis, einræðisherra Ítalíu, annars vegar og hins vegar Nevilles Chamberlain, forsætisráðherra Breta, og forsætisráðherra Frakka, Daladier, en 2 síðar nefndu þjóðirnar voru aðilar að Versalasamningunum 1919. Þetta voru nauðungarsamningar, troðið upp á Þjóðverja í refsingarskyni og til að halda þessari þjóð niðri með feiknarlegum stríðsskaðabótum, sem standa áttu yfir til 1960.  

Á þessum tíma var forystufólk lýðræðisþjóðanna haldið þeim grundvallarmisskilningi, að hægt væri að seðja landagræðgi einræðisstjórnar í útrás með skák af öðru landi.  Þetta er ekki hægt, því að einræðisstjórn stórveldis rekur heimsvaldastefnu leynt og ljóst, og í tilviki nazistastjórnarinnar í Berlín var það "Drang nach Osten" í auðugt svæði Úkraínu að náttúruauðlindum, sem ríkisleiðtoginn hafði boðað í Mein Kampf.  

Þýzkaland rak fyrst þá stefnu að innlima þýzkumælandi svæði Evrópu í Stór-Þýzkaland. Í tilviki Münchenarfundarins voru Þýzkalandi eftirlátin Súdetahéruð Tékkóslóvakíu, sem var veitt fullveldi í kjölfar heimsstyrjaldarinnar fyrri. Hitler hafði skynjað á Münchenarfundinum, að forysturíki lýðræðisríkja Evrópu vildu friðmælast við vaxandi Þýzkaland og mat það svo, að þau væru svo ófús til að grípa til vopna gegn Þýzkalandi, að jafnvel samningsbrot og nýir landvinningar mundu ekki duga til.  Þess vegna skipaði hann Wehrmacht strax að gera áætlun um hertöku allrar Tékkóslavakíu, og fáeinum mánuðum eftir yfirlýsingu Chamberlains í brezka þinginu um "frið á vorum tímum" lét Hitler til skarar skríða gegn tékkóslóvakíska hernum, sem var töluvert vel vopnum búinn, en Wehrmacht átti samt auðveldan leik, sennilega vegna afskiptaleysis Vesturveldanna og svika innan Tékkóslóvakíu.  Hitler komst upp með þennan gjörning og "Anschluss" eða sameiningar Þýzkalands og Austurríkis í Stór-Þýzkaland á sama árinu.  Leiðin að enn frekari landvinningum í Evrópu var rudd. 

Núverandi Vesturveldi standa frammi fyrir því ótrúlega á 21. öld, að heimsvaldadraumar Rússa hafa brotizt fram, og síðan 2014 stendur Rússland í stríði við nágrannaríki sitt í vestri, Úkraínu, og hefur þegar náð undir sig um 20 % landrýmis Úkraínu, þ.á.m. hinn þýðingarmikla Krímskaga fyrir yfirráðin á Svartahafi og botni þess, en þar undir munu vera auðlindir, eins og í jörðu í austurhluta landsins. Árið 2006 réðust Rússar á Georgíu og tóku sér sneið af landinu. Skefjalaust stíð hefur svo staðið yfir frá innrás Rússa í Úkraínu 24.02.2022 með um 300 k manna liðsafla og ógrynni tækja og tóla.  Úkraínumenn hafa staðið sig mjög vel í vörninni og sums staðar náð til baka landi sínu.

Óskiljanlegar vöflur hafa verið á Vesturveldunum í hernaðaraðstoðinni við Úkraínu.  Ef Vesturveldin hefðu tekið í upphafi þá sjálfsögðu stefnu m.t.t. eigin öryggis og friðar í Evrópu að afhenda Úkraínumönnum þau vopn og þjálfa þá á þau, sem þeir hafa beðið um og duga mundu Úkraínumönnum til að reka glæpsamlegan Rússaher af höndum sér og ganga frá flugher þeirra og ofansjávarflota, sem skotið hafa flugskeytum á skotmörk, sem ekkert hernaðarlegt gildi hafa, þá væri átökum í Úkraínu lokið núna, og Rússar ættu nóg með að glíma við innanlandsvanda og væntanlega uppreisnir kúgaðra minnihlutahópa í Síberíu og Kákasus. 

Það er eins og leiðtogar Vesturveldanna hafi ekki dregið rétta lærdóma af sögunni.  Staða Úkraínu nú er svipuð og staða Tékkóslóvakíu 1938.  Vesturveldin brugðust þó snöfurmannlegar við 2022 en 1938, en hálfkákið og óákveðnin eru óviðunandi og bjóða hættunni heim. 

Þann 12. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu forystugrein undir fyrirsögninni:

"Varnir Evrópu".  

"Tómlæti Evrópuríkja á borð við Þýzkaland og Frrakkland um eigin varnir er þar mikið áhyggjuefni, hvað þá að þau hafi burði til þess að halda fjarlægum, en lífsnauðsynlegum, aðfangaleiðum opnum líkt og í Rauðahfi.

Eins og Úkraínumenn þekkja er Joe Biden hikandi í hernaðarstuðningi, en Donald Trump, sem vel kann að sigra hann í haust, hefur ítrekað, að Evrópa geti ekki reitt sig á hernaðarmátt Bandaríkjanna, ef hún er óviljug til að kosta eigin varnir.  Ef Kína léti til skarar skríða gegn Taívan, er líka alls óvíst, að Bandaríkin væu fær um að sinna vörnum Evrópu, eins og þyrfti. 

Herði Evrópuríkin sig ekki í stuðningi við Úkraínu og hefji þau ekki tafarlausa uppbyggingu á eigin vörnum, kann það að reynast um seinan eftir 3-5 ár að ætla að verja friðinn."

Þetta er hárrétt hjá Morgunblaðinu og furðulegt, að á löggjafarsamkomunum í Evrópu skuli ekki hafa myndazt samstaða og skilningur á stöðunni og hlutskipti lýðræðisríkjanna, en það er að verjast ásælni einræðisríkjanna.  Til "að verja friðinn" þarf tæknilega, viðskiptalega og hernaðarlega yfirburði gagnvart einræðisríkjunum, en þau verstu þeirrar tegundar um þessar mundir eru Rússland, Íran og Kína. 

Donald Trump er fasisti og þess vegna vargur í véum og sem slíkur stórhættulegur öryggi Vesturveldanna.  Hvers konar spark í afturendann þarf kratinn Olaf Scholz eiginlega til að láta gjörðir fylgja orðum ("die Wende") og endurvígbúa Þýzkaland, ef ógnin um einangrunarstefnu Bandaríkjanna dugar ekki.  Donald Trump mun ella svíkja Evrópu í hendur fasistanum Putin í Kreml, ef hann kemst í aðstöðu til þess.  Þetta eru miklir viðsjártímar. 

Eina gamla stórveldið í vestanverðri Evrópu, sem stendur sína pligt, er Bretland.  Útgjöld þeirra til hermála ná lágmarks viðmiði NATO, og Bretar hafa hvað eftir annað brotið ísinn í hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Nú nýverið var Rishi Sunak í Kænugarði og undirritaði þar gagnkvæman varnarsáttmála Bretlands og Úkraínu. 

Þann 13. janúar 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ninu L. Khrushcheva, prófessor í alþjóðamálum við "The New School".  Hún bar fyyrirsögnina:

"Vesturlönd verða að horfast í augu við raunveruleikann í Úkraínu".

Niðurlag hennar var efirfarandi:

"Það eru 3 sennilegar útkomur þessara aðstæðna:

Í fyrsta lagi skuldbinda Vesturlönd sig aftur til að styðja Úkraínu.  En pólitískar hindranir eru miklar.  Andstaða Repúblikana í Bandaríkjunum og ungverskt og nú síðast slóvakískt neitunarvald í ESB.  Jafnvel þótt þeim verði rutt úr vegi, mun Úkraína eiga í erfiðleikum með að manna herafla sinn með nýjum hermönnum.  

Í annarri atburðarás legði NATO til herafla í Úkraínu.  Þótt Pútín hafi aldrei haft í hyggju að ráðast inn í aðildarríki NATO [það er ekki viðhorfið á austurjaðri NATO-innsk. BJo], gæti umræðan um, að rússneskur sigur í Úkraínu myndi leiða til annarra rússneskra innrása, orðið til að réttlæta aðkomu vestræns herafla.  Hættan er sú, að Stalíngrad-áhrifin myndu magnast; Rússar myndu rísa upp til að verja móðurlandið, og óstöðugleiki myndi yfirtaka Evrópu.

Í þriðju atburðarásinni fyndu Vesturlönd leiðir til að eiga  samskipti við Kreml.  Rússland er langt frá því að vera óbrjótanlegt, en það er ekki á barmi hruns, og Pútín á sér líklega nokkur ár framundan sem forseti.  Jafnvel þótt honum yrði vikið frá völdum, mundi djúpstætt vantraust Rússa á Vesturlandabúum ekkert minnka.  Í ljósi þessa og hins harða veruleika, að ólíklega muni Úkraína endurheimta allt landsvæði sitt, ættu Vesturlönd að einbeita sér að því að efla varnir Úkraínu og búa sig undir að grípa hvert tækifæri, sem gefst, til að taka þátt í raunhæfum viðræðum við Kreml."

Það er ekkert til, sem heitir raunhæfar friðarviðræður við Kreml.  Ef samið er um vopnahlé við Kremlverja áður er rússneski herinn hefur verið rekinn út úr Úkraínu allri, er um friðkaup við glæpsamlegan einræðisherra að ræða, sem allir ættu að vita, að veitir bara svikalogn þar til útþensluríkið fylkir liði á ný og ræðst aftur til atlögu.  Til að Rússar sitji á sárs höfði á eigin torfu, verða þeir að skilja, að þeir eru ekki í neinum færum til að verða einhvers konar "herraríki" í Evrópu líkt og á dögum Ráðstjórnarríkjanna.  Ráðstjórnarríkin verða aldrei endurvakin, enda er hatrið og fyrirlitningin á Rússum orðið mikið í Austur-Evrópu vegna glæpsamlegs framferðis í Úkraínu.  

 

 

 


Ríkisbúskapur í hönk

Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar.  Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum.  Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.  

Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð.  Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu.  Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:

"Þörf áminning".

"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi.  Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi.  Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""

Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð.  Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist.  Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. 

Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði.  Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt.  Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns.  Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum.  Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga.  Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.   

Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.

"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu.  Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar.  Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum.  Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""

Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum.  Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital".  Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á.  "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.  

  

 

 

 


Hrista verður upp í leyfismálum orkuframkvæmda

Svandís Svavarsdóttir er algerlega ótækur ráðherra vegna dómgreindarbrests og einstefnu í öllum málum, sem hún kemur nálægt.  Henni er fyrirmunað að vega og meta kosti og galla ráðstafana, sem henni þóknast að framkvæma, og að gæta lögmætis er ofar hennar skilningi.  Hún sýndi á spilin sín (eintómir hundar), á meðan "fyrsta tæra vinstri stjórnin" sat hér að völdum, slæmrar minningar, en þá fór hún með umhverfismál og sveitarstjórnarmál. Ef rétt er munað, setti hún af stað eiturherferð gegn lúpínunni í Esjunni.  Umhverfisvernd þeirrar aðgerðar er dæmigerð fyrir téða Svandísi. Viðkvæði hennar var fádæma heimskulegt: "náttúran verður að njóta vafans".

 Í febrúar 2010 synjaði Svandís, umhverfis- og sveitarstjórnarráðherra, viðkomandi sveitarstjórnum um að staðfesta skipulagsbreytingar, sem fólu sér að taka tillit til virkjana í Neðri-Þjórsá.  Þá eins og nú hengdi hún hatt sinn á atriði, sem kom málinu ekki við.  Í september 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur, að synjunin ætti sér enga lagstoð.  Svandís virðist lifa í hliðarveruleika og ekki kæra sig um að setja sig inn í raunverulegar aðstæður.  Hún skilur aldrei valdmörk sín, sem gerir hana að ómögulegum stjórnanda í lýðræðikommúnistaflokkarssamfélagi, en var ekki tiltökumál, þar sem  réðu ferðinni.   

Viðbrög hennar við þessum dómi benda til siðblindu, því að hún yppti bara öxlum og sagðist vera í pólitík.  Þau orð hennar útskýra ýmislegt.  Hún veður áfram beint af augum, þegar andskotinn kemur því inn hjá henni að fara nú að framkvæma pólitík vinstri grænna. 

Svandísi má líkja við geimveru, sem ekur út í borgarumferð án þess að kynna sér, hvaða umferðarreglur eru í gildi.  Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu Katrínar Jakobsdóttur að fela téðri Svandísi ítrekað ráðherraembætti m.v. frammistöðu hennar. 

Stefán Einar Stefánsson átti viðtal við Ingibjörgu Ísaksen og Brynjar Níelsson um stjórnmálaviðhorfið, og birtist úrdráttur í Morgunblaðinu 6. janúar 2024 undir fyrirsögninni:

"Vilja lög til að ýta við virkjunum".

Úrdrátturinn hófst þannig:

""Þetta er orðið þjóðaröryggismál [...]; það þarf lagasetningu.  Þess veggna er kannski líka ákall um, að ráðherrann leggi fram mál, sem tengjast þessu."

Svofelldum orðum fer Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um þá stöðu, sem upp er komin í orkumálum þjóðarinnar.  Hún segist bíða eftir frumvörpum frá umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, sem greiða muni götu mála, sem tryggt geti, að frekari orkuöflun geti átt sér stað. 

Bendir hún á, að langt hafi verið gengið í friðlýsingu stórra vatnasvæða, ekki sízt á tímum vinstri stjórnarinnar, sem sat á árunum 2009-2013, og að ráðherra þurfi að ráðast í að aflétta þeim miklu takmörkunum, sem settar voru á orkuöflun á þeim svæðum." 

Það er löngu fullreynt, að núverandi orkuráðherra hefur ekkert bein í nefinu og enga burði til að vinda ofan af fíflagangi Svandísar Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra í téðri alræmdu vinstri stjórn.  Það þarf að stokka upp í stjórnarráðinu til að afnema þjóðhættulega stöðnun þar og herfileg mistök (Svandís).  Binda má vonir við, Ingibjörg Ísaksen eða hennar líkar komi orkuöflun og nýrri Byggðalínu (220 kV) á ásættanlegan rekspöl.  Það er rétt hjá Ingibjögu, að staðan er því miður svo alvarleg, að ný sérlög um þetta eru nauðsynleg. 

"Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa verið gegnrýninn á ráðherra málaflokksins fyrir, að ekki hafi verið nóg að gert.  Hann telur þó einsýnt, að þingmenn VG muni standa í vegi fyrir því, að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir í landinu. 

Á sama tíma segir hann ekki tímabært að tala um stjórnarslit vegna þessa máls eða annarra.  Telur hann hæfilegt að veita VG tímafrest fram á vorið til þess að sýna á spilin.  Þá þurfi samstarfsflokkarnir að hafa fullvissu fyrir því, að kyrrstaða í þessum málaflokki verði rofin, auk þess sem tekizt verði á við stór álitamál, sem m.a. tengist útlendingamálum." 

Hvernig datt mönnum það í hug fyrir 2 árum að halda þessu stjórnarsamstarfi áfram án þess að rjúfa kyrrstöðuna þá ?  Það bendir ekkert til, að afturhaldið í VG verði skárra viðureignar í vor.  Þessi ríkisstjórn er komin á leiðarenda.  Það er ekki hægt að gera neitt af viti með litla siðspillta klíku innanborðs, sem sér ekkert athugavert við það, að ráðherra úr þeirra röðum taki lögin í sínar hendur, sýni síðan enga iðrun, en sé með hortugheit, þegar hún er staðin að verki.  

 

 


Ósvífni siðlausrar klíku

Það hefur komið berlega í ljós í Svandísarmálum, að Vinstri hreyfingin grænt framboð (VG) er lítil og siðlaus klíka, sem fer með völd, eins og ríkið sé þeirra eign og lögin séu bara bókstafir í skræðum fyrir stjórnmálamenn að hafa til hliðsjónar.  Ekki þurfi að fylgja lögum, nema þau falli að hugmyndafræði VG.  Kannast nokkur við þessa hegðun frá dögum byltingar bolsévíka í Rússlandi 1917 ?  Viðhorf Svandísar eru af sauðahúsi bolsa, og það er ekki heil brú í réttlætingu hennar á lögleysu hennar frá 20. júni 2023, þegar hún hóf stríð við Hval hf með því að meina fyrirtækinu að stunda sína löglegu starfsemi fram að 1. september 2023. Með þessari atlögu ætlaði hún að greiða fyrirtækinu banahöggið.  

Hátt var reitt til höggs og án fyrirhyggju.  Nú hittir atlagan hana sjálfa og flokk hennar fyrir vegna fádæma aulaháttar forsætisráðherrans og formanns VG.  Katrín Jakobsdóttir kvittaði undir frámunalegan málatilbúning Svandísar ásamt þingflokkinum.  Þar með hafa stöllurnar dregið flokksnefnuna með sér ofan í svaðið, og gæti atburðurinn riðið þessari siðlausu klíku að fullu í næstu Alþingiskosningum.  

Klóför hinnar siðlausu klíku sjást víða í þjóðfélaginu.  Gríðarlegir erfiðleikar eru uppi í orkumálunum, þar sem VG virðist leggjast þversum bæði gegn nýjum virkjunum yfir 10 MW og nýjum flutningslínum á milli landshluta.  Blýhúðun reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er í anda VG, þótt þar eigi vafalítið embættismenn hlynntir öðrum stjórnmálaflokkum líka hlut að máli.  Hvers konar lýður er þetta í stjórnarráðinu, sem tekur upp hjá sjálfum sér að auka enn á kostnað þessa litla samfélags á Íslandi með því að gera tilskipanir og reglugerðir enn meira íþyngjandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga en efni standa til frá Brüssel ?  Kærir þetta lið sig kollótt um það, að gerðir þess valda gríðarlegu samfélagslegu tapi og skerða í sama mæli lífskjör almennings á Íslandi.  Þessi hegðun er ólýðræðisleg og ófélagsleg og ætti að sæta refsingu með starfamissi, nema viðkomandi ráðherra hafi samþykkt gjörninginn.  Þá ber hann hina pólitísku ábyrgð. 

Nú þykist umhverfis-, orku- lofslagsráðherra ætla í "afhúðun".  Orðið minnir á afhausun, sem verður líklega ekki.  Gangi ráðherranum vel með að flysja reglugerðabáknið með sama mannskapnum og smurði eigin geðþótta utan á það.  Hér er betra að spyrja að leikslokum, því að skrattinn sér um sína. 


Vilji til verka er allt, sem þarf í orkumálunum

Þann 5. janúar 2024 birtist ein bezta greinin um núverandi raforkuskort, sem sézt hefur í Morgunblaðinu.  Höfundurinn er Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri á Eskifirði.  Greinin er stutt, en höfundurinn fer ekki í grafgötur um ástæður raforkuskortsins, og, það sem meira er, hann varpar fram trúverðugri kenningu um, hvað þarf til að brjótast út úr þeirri herkví, sem afturhaldinu í landinu hefur tekizt að hlekkja orkumálin í, á sama tíma og allt rekur á reiðanum í loftslagsmálum landsins. 

Það þarf kjark, skrifar Jens Garðar, og það er hárrétt hjá honum, en pólitískt kjarkleysi hrjáir einmitt ríkisstjórnin, og ekki er umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherrann barnanna beztur í þeim efnum.  Hann mun ekki hafa neitt bein í nefinu til að taka vitræna og framsýna forystu, sem skilar árangri á Alþingi.  Þetta varð ljóst, eftir að hann lét Landsvirkjun og Orkustofnun teyma sig til að fela atvinnuveganefnd þingsins að leggja fram haftafrumvarp, sem er vitagagnslaust og stórskaðlegt raforkumarkaðinum, þar sem mylja á undir fílinn í postulínsbúðinni á kostnað minni fyrirtækja, sem þegar eiga undir högg að sækja.  Þarna eru músarholuviðmið allsráðandi, þegar vilji og stórhugur eru allt, sem þarf. Þeir eiginleikar voru innanborðs hjá Viðreisnarstjórninni á sinni tíð, sem tók slaginn við afturhald þess tíma og barði Búrfellsvirkjun og viðskiptasamning við fyrsta stóra raforkukaupandann í landinu í gegnum Alþingi á sinni tíð.  Það stóð glöggt. 

Grein Jens Garðars hófst með þessum hætti:

"Þrátt fyrir að óbeizluð græn orka renni á hverri mínútu til sjávar á Íslandi, er nú yfirlýstur orkuskortur í landinu.  Á dögunum var lagt fram frumvarp á Alþingi, sem tryggja átti almenningi og öllum minni og meðalstórum fyrirtækjum raforku.  

Embættismanni, skömmtunarstjóra, á vegum ríkisins var falið vald til að ákveða, hverjir fengju rafmagn og hverjir ekki.  Frá því var horfið, og eins og frumvarpið lítur út núna, er skömmtunarstjórinn sjálfur ráðherra orkumála."

Það er ljóst, að þessar haftahugmyndir á afhendingu forgangsorku til fyrirtækja með langtímasamninga, falla að hugmyndafræði Landverndar, sem er útibú frá vinstri grænum (VG), um að loka álverum í stað þess að virkja.  Með þessu væri brotið á samningsbundnum rétti fyrirtækja til íslenzkrar forgangsorku, hvort sem hún kemur úr vatnsorkuverum, jarðgufuverum eða rafstöðvum kyntum með jarðefnaeldsneyti.  Við brot munu vafalaust hefjast málaferli, þar sem ríkisvaldið verður krafið skaðabóta, og álitshnekkir Íslendinga yrði óbætanlegur um langa hríð í hópi fjárfesta og fjármálafyrirtækja erlendis, því að ríkið hefur ekki í tæka tíð gert ráðstafanir til að girða fyrir fyrirsjáanlegt ástand.

Skortur leiðir alltaf til verðhækkana, og þær hækka verðlagsvísitöluna.  Stefna VG er þannig verðbólguhvetjandi og vinnur á margvíslegan hátt gegn almannahagsmunum.  Þannig er VG ótækur stjórnarflokkur.

Eina ráðið í bölvanlegri stöðu er samt að láta markaðinn, eins og hann er skilgreindur í gildandi orkulögum, vinna sitt verk og draga úr orkunotkun og aflþörf tímabundið, á meðan ný sjálfbær orkuöflun er sett á fullan skrið með lagasetningu. 

"Skorturinn er afleiðing þess, að stjórnmálamenn hefur skort kjark og framsýni.  Þessa eiginleika tvo verða stjórnmálamenn að hafa, vilji þeir rísa undir þeirri ábyrgð, sem felst í því að tryggja vöxt og verðmætasköpun í samfélaginu.  Það er meginundirstaða efnahagslegrar velferðar þjóðar."

Þetta er kjarni málsins.  Stjórnmálamenn hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að tryggja forsendur vaxtar og verðmætasköpunar í landinu, sem er sjálfbær raforka.  

Nú er mikil umræða í þjóðfélaginu um yfirálag á heilbrigðiskerfinu.  Það má heita gjörsamlega ríkisrekið.  Menntakerfið er í lamasessi.  Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Það grotnar allt niður í höndum stjórnmálamanna.  Það verður að taka mið af því við stefnumörkun, að ríkisrekstur er afleitt rekstrarform.  

Þess er skemmst að minnast, að forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar óð fram á völlinn með dylgjum í garð samkeppnisaðilanna um, að þeir seldu orku af almenna markaðinum til fyrirtækja með langtímasamninga. Dylgjur þessa forstjóra voru hraktar, og böndin berast nú einna helzt að fyrirtæki hans sjálfs um eitthvað þessu líkt.  Hann ætlaði að klekkja á samkeppnisaðilum fyrirtækis hans með því að sannfæra Alþingismenn um nauðsyn haftabúskapar á raforkusviðinu, þar sem sá stærsti nýtur jafnan forgangs í skömmtunarástandi, t.d. kaupfélögin á sinni tíð, sem þrifust ekki á frjálsum markaði.

 "Stjórnmálamönnum hefur tekizt að innleiða flókin og tímafrek regluverk, sem hafa virkað eins og hönd dauðans á alla uppbyggingu.  Allar framkvæmdir, vegir, raflínur, virkjanir eða önnur leyfisferli hjá einkageiranum eru föst í ár og jafnvel yfir áratug í feni regluverks og tilskipana.  Andstæðingum viðkomandi framkvæmda tekst með endalausum kærum og töfum að tefja eða stoppa nauðsynlegar framkvæmdir.  Þetta er sami hópurinn og krefst orkuskipta með grænni orku.  Orðið tvískinnungur hefur verið notað af minna tilefni."

Allt of mikil lausatök hafa verið viðhöfð af hálfu þingmanna, sem eru með kostaðar hjálparhellur, við eftirlit með embættismönnum, sem hafa tilhneigingu til blýhúðunar reglugerða og tilskipana, sem gera illt verra.  Regluverkið er ónothæft og ber að fleygja á haugana og smíða annað straumlínulaga.                    

 

 

 

                                                                                                                                                                                                               


Vestfirðingar hart leiknir

Vestfirðingar verða illa úti í núverandi ófremdarástandi raforkumálanna. Þeim hefur stjórnvöldum með Vinstri hreyfinguna grænt framboð í fararbroddi tekizt að klúðra svo illilega, að stórfelldum kostnaðarauka veldur í samfélaginu, og vegna álagsaukningar stefnir í þjóðarvoða með straumleysi/og eða skömmtun á forgangsorku. Það er við þingið og stjórnarráðið að sakast, sem í hugsunarleysi og/eða af ráðnum hug hafa sett upp slíkar hindranir fyrir leyfisveitingum nýrra virkjana og flutningslína, að segja má, að flest hafi gengið á afturfótunum hjá virkjanafyrirtækjunum og Landsneti á undanförnum árum.  Að grípa ekki inn í þessa óheillavænlegu rás viðburða er afar ámælisvert m.v. þá almannahagsmuni, sem í húfi eru. 

Það gefur auga leið, að íbúar "kaldra svæða", þ.e. þar sem nýtanlegs jarðvarma nýtur ekki við,eða aðeins í litlu mæli, eiga sérstaklega undir högg að sækja, því að þeir hafa samið um kaup á ótryggðri raforku fyrir hitaveitur sínar og verða nú að kynda þær með olíu.  Dæmi um orkufyrirtæki í þessari stöðu er Orkubú Vestfjarða.  Orkubússtjórinn, Elías Jónatansson, hefur ritað afar fróðlegar og vel samdar greinar í Morgunblaðið um orkumál Vestfirðinga, og ein þeirra birtist 2. janúar 2024.  Áður en gripið verður ofan í hana er rétt að minnast á frétt, sem birtist 4. janúar 2024 og sýnir aðra hlið á kostnaðarauka orkuskortsins.  Hún er frá Vestmannaeyjum, en þar hækkaði raforkuverð til hitaveitunnar um 20 % um áramótin síðustu, og var upp gefin skýringin orkuskortur.  Þarna er lögmál framboðs og eftirspurnar að verki, en niðurgreiðslur munu koma til mótvægis úr ríkissjóði, að lofað er.  Orkuskortur er tvímælalaus verðbólguvaldur og gerir markmið Íslands í losunarmálum koltvíildis grátbrosleg.  Hvers konar stjórnvöld eru hér eiginlega og hafa verið við völd í 6 ár ? Tvískinningurinn er yfirþyrmandi. 

Grein Elíasar bar yfirskriftina:

"Orkuskortur kostar 520 milljónir".

Hún hófst þannig:

"Engum dylst, að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi [skortur á þegar umsaminni forgangsorku er yfirvofandi, nú þegar vantar um 500 GWh/ár af ótryggðri orku, glataðir nýir samningar á að gizka 1000 GWh/ár -innsk. BJo.].  Ekki eru þó öll sund lokuð, því [að] við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina milljón tonna ár hvert [auk eldsneytis á flugvélar og millilandaskip-innsk. BJo].  

Því miður stefnir í það, að á árinu 2024 15-faldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu 2023, fari úr 220 kl í 3,4 Ml.  Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9,2 kt.  Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku."

Útflutningstap og viðbótar innflutningskostnaður vegna þeirra hræðilegu stjórnvaldsmistaka, sem landsmenn súpa nú seyðið af, gæti farið yfir mrdISK 10 frá áramótum til vors 2024, og nákvæmlega engum náttúrugæðum hefur verið bjargað fyrir vikið. Hér er aðeins verið að draga úr hagvexti og tefja fyrir raunverulegum kjarabótum til launþega.  Hvenær verður komið nóg af vitleysu vinstri grænna ? 

"Vonandi verður hægt að fasa út stórum hluta af rafmagni til rafkyntra hitaveitna á Vestfjörðum með jarðhita og forgangsaforku til að knýja varmadælur.  Markmið Orkubúsins hefur verið að fasa úr 12 MW af 16 MW afltoppi rafkyntu veitnanna.  Ef ekki finnst meira en 30°C heitt vatn á Ísafirði, þá væri hugsanlegt að fasa út helmingi eða 8 MW af 16 MW. 

Nauðsynlegt er að auka afltopp forgangsorku á Vestfjörðum , m.a. til að knýja varmadælur á kostnað skerðanlegrar orku.  Í dag er það afl ekki til innan Vestfjarða, og ef ætlunin er að streyma aukinni orku um Vesturlínu, þá er augljóst, að byggja þarf upp samsvarandi olíuknúið varaafl innan Vestfjarða, þótt ekki sé nema til að tryggja óbreytt afhendingaöryggi, þegar línan er úti." 

Það er knýjandi fyrir Vestfirðinga og raforkukerfi landsins að auka verulega framleiðslugetu á raforku innan Vestfjarða úr vatnsafli, og virkjunarkostirnir eru fyrir hendi.  Einn var stöðvaður í Ófeigsfirði með ofstæki nokkurra aðvífandi umhverfisöfgamanna fyrir fáeinum árum, og nú hefur OV lagt til við orku-, umhverfis og loftslagsráðherra að ryðja hindrunum ríkisins á því úr vegi fyrir virkjun í Vatnsfirði.  Hvað hefur hann gert í því máli ?  Ekkert hefur heyrzt af því.  Er það enn eitt merkið um dauðyflishátt þessa sjálfhælna ráðherra ? 

Á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, eru orkuskiptin hafin, og þar er auk þess ein mesta aukningin í umsvifum athafnalífsins á landinu með talsverðri fólksfjölgun.  Allt ýtir þetta undir þörfina á því, að orkuöflun Vestfirðinga verði sjálfbær.  

"Að teknu tilliti til aukningar í eftirspurn, afhendingaröryggis og stöðuleika raforkukerfisins auk raunhæfra áætlana um uppbyggingu flutningskerfisins og uppbyggingartíma virkjana, þá er það alveg ljóst, að taka þarf ákvarðanir um framhaldið fljótlega. MISK 200-500 í olíubrennslu kyndistöðva annað hvert ár er fórnarkostnaður, sem er óásættanlegur auk þess að vera algjörlega úr takti við orkustefnu stjórnvalda og við stefnu Íslands í loftslagsmálum."

Þetta er hverju orði sannara hjá Orkubússtjóranum.  100-250 MISK/ár í olíukostnað við að framleiða rafmagn á Vestfjörðum til hitunar húsnæðis er ástand, sem sýnir í hnotskurn í hvert óefni orkumál landsins undir núverandi ríkisstjórn eru komin. Að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann skuli ekki hafa brugðizt skjótlega við til að greiða veg þeirra lausna, sem Vestfirðingar hafa lagt til, sýnir, að hann er ekki vandanum vaxinn. 

 

Það  er hárrétt stefna, sem Vestfirðingar hafa markað, að færa húsnæðisupphitun sína yfir í hitaveitu með jarðvarma, þar sem það er hægt, og annars staðar yfir í forgangsrafmagn inn á varmadælur.  Samfara þessu þarf að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, svo að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um raforku, en Vesturlína þjóni sem varaleið í bilunar- og viðhaldstilvikum ásamt innmötun á landskerfið til að auka nýtingartíma virkjana Vestfirðinga.   

 

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband