Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Skammarstrikið

Menningar- og viðskiptaráðherra er í meira lagi yfirlýsingaglöð, en svo mikið vantar upp á efndir og eftirfylgni, að tala má um verkleysi. Dæmi um þetta er fjölmiðlaheimurinn hérlendi, sem er í úlfakreppu ríkisafskipta og mjög óheilbrigðrar og ósanngjarnrar  samkeppni.  Lilja D. Alfreðsdóttir lýsti því yfir fyrir um ári, að hún ætlaði að laga þá skökku stöðu, sem þarna ríkir, með því að láta skattleggja íslenzkar auglýsingar í erlendum miðlum, aðallega í netheimum, og að draga úr auglýsingum á RÚV o.h.f., "útvarpi allra landsmanna", sem í raun virkar eins og útvarp allra vinstri manna og afæta.

Ekkert af þessu hefur gerzt, erlendu miðlarnir hafa nú sogað til sín helming auglýsingamarkaðarins í ISK talið og umsvif RÚV á þessum markaði aukast stöðugt.  Velta þessa ríkisfjölmiðils er talin munu nema mrdISK 8 í ár, sem er auðvitað váboði, þótt varaformaður Framsóknarflokksins láti enn duga að tala út og suður.  Jafna verður þegar í stað skattheimtuna af öllum fjölmiðlunum, draga RÚV út af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess.  Ein rás af hverju tagi er meira en nóg fyrir þennan ríkisrekstur, sem er að verða eins og svarthol fyrir ríkissjóð. 

Staksteinar Morgunblaðsins á þrettándanum 2023 fjölluðu um fjölmiðlahneyksli, sem sem vinstri fjölmiðlarnir hafa reynt að þegja í hel.  Svo virðist sem starfsmenn RÚV-fréttastofu, sem kalla sig "rannsóknarblaðamenn" þar, hafi verið hafðir að ginningarfíflum í Namibíu í Afríku, þar sem yfirvöld rannsaka alvarlegt spillingarmál. Fórnarlamb fréttamanna í þessu máli varð útgerðarfélagið Samherji. 

Þetta félag sætir engri ákæru þar í landi, og þess vegna lítur út fyrir, að óprúttnir menn þar hafi látið líta svo út í augum grobbinna íslenzkra "rannsóknarblaðamanna", að íslenzka útgerðarfélagið hefði hlunnfarið alþýðufólk í Namibíu.  Þessi mynd var dregin upp fyrir áhorfendum Kveiks og lesendum fylgitunglanna, sem frá greinir í téðum Staksteinum:

"Björn Bjarnason skrifar um Fishrot-hneykslið í Namibíu, sem náð hefur hingað og fengið nafnið Samherjamálið. "Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svo nefnda.  Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019.  Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins", skrifar Björn." 

Þessi skuggi lögreglunnar á Norðurlandi eystra stafar líklega af meintum stuldi gagna úr farsíma skipstjóra nokkurs hjá Samherja.  Augljóslega er þar um alvarlegt mál að ræða, þótt upphlaupsmiðlar hafi ekki gert sér mikinn mat úr því, enda nærri þeim höggvið.  Þarna kom fréttastofa RÚV einnig við sögu, en vonandi verða allir viðkomandi blaðamenn hreinsaðir af sök í þessu máli, því að sönnuð sök væri til vitnis um alvarlegan dómgreindarskort. 

"Þá bendir hann á, að Samherji hafi greitt fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu, en svo hafi komið í ljós, að 10 stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar þar í landi, hafi verið sakaðir um mútur og [aðra] spillingu.  Enginn Samherjamaður sæti þó ákæru vegna málsins, sem er umhugsunarvert í ljósi látanna, sem hér urðu."  

Nokkrir íslenzkir blaðamenn voru í einhvers konar krossferð gegn Samherja og töldu sig hafa komizt í feitt og dylgjuðu ótæpilega um refsiverða háttsemi  útgerðarfélagsins þar niðri í Afríku.  Það er með ólíkindum m.v. það, sem á undan er gengið, að hvorki er fram komin ákæra í Namibíu né á Íslandi á hendur téðu útgerðarfélagi eða starfsmönnum þess.  Sú staðreynd vitnar um ótrúlegt dómgreindarleysi Kveiksfólks, sem að þessari þáttagerð kom, og óvönduð vinnubrögð.  Ganga þau nú með veggjum ?

  Tilbúningurinn og vitleysan var á kostnað íslenzkra skattborgara, sem minnast þess að hafa séð Helga Seljan heldur gleiðfættan spígspora sem Sherlock Holmes í Namibíu, og norskum banka var flækt í málið.  Hvernig fór sú rannsókn ?

"Og Björn bendir á frétt Morgunblaðsins í gær um, að yfirlögfræðingur Samherja "hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda, og að hún verði felld niður".  Lögfræðingurinn hafi haft réttarstöðu sakbornings í 3 ár."

Þetta er dæmi um ótæk vinnubrögð réttarkerfisins, sem ekki geta orðið lögum og rétti í þessu landi til framdráttar.  Skörin er þó tekin að færast upp í bekkinn, þegar í ljós kemur, að ekki er einvörðungu um óhæfni að ræða, heldur er bullandi vanhæfi á ferðinni í þessari rannsókn:

"Svo vill til, að saksóknarinn íslenzki er bróðir blaðamanns Stundarinnar, sem fjallað hefur um þetta mál.  Björn segir óskiljanlegt, hve lengi saksóknarinn sitji yfir málinu án þess, að nokkuð gerist.  "Er hann örmagna andspænis því, eða er það tilefnislaust ?", spyr Björn."

Það er víðar spilling en í Namibíu, en það er ekki sama Jón og séra Jón, allra sízt í vinstri pressunni.  Er ekki löngu tímabært, að "Reichsanwahlt", ríkissaksóknari leysi téðan saksóknara frá málinu ?

 

 

 

 

 

 


Sjúk fjölmiðlun

Íslenzkur fjölmiðlamarkaður er afar óeðlilegur, og þar er steinrunnu ríkisvaldi um að kenna.  Það er alltaf ólíðandi, þegar ríkisvaldið er í bullandi samkeppni við einkaframtakið á markaði, sem í eðli sínu er samkeppnismarkaður, og engin brýn þörf lengur fyrir beina eða óbeina (opinbert hlutafélag) veru ríkisvaldsins þar.  Það er réttlætismál og í anda EES-samningsins að jafna samkeppnisstöðuna með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að gera allar auglýsingar jafnar fyrir skattalögunum óháð gerð miðils og eiganda hans. 

Jafnframt yrðu umsvif ríkisfjölmiðilsins minnkuð til muna.  Það ættu að vera hámarksumsvif ríkisins að reka eina sjónvarpsrás, eina útvarpsrás og einn vefmiðil. Fréttastofa "RÚV" er kapítuli út af fyrir sig. Þar ríkir svo hrottaleg vinstri slagsíða, að segja má, að lítilsvirðandi framkoma og mismunun gagnvart þeim, sem fréttamenn virðast telja til pólitískra andstæðinga sinna, skeri í augun (og eyrun). Síðan skal vart bregðast, að farið er silkihönzkum um sósíalistana, afglöp þeirra og spillingu, t.d. í borgarstjórn. 

Fréttastofa "RÚV" rekur fyrirbæri, sem hún kallar rannsóknarblaðamennsku undir heitinu Kveikur, en á mjög lítið skylt við vönduð vinnubrögð, sem einkennast af umfangsmikilli og gagnrýninni heimildarvinnu.  Undir þessu falska flaggi hafa fúskarar "RÚV" hvað eftir annað reynt að koma höggi á atvinnurekstur í landinu og reynt að sá ómældri tortryggni í hans garð.  Málflutningurinn einkennist síðan af drýldni og innantómri sjálfsupphafningu.  Alræmdasta atlagan hingað til er að Samherja, og hún hefur algerlega runnið út í sandinn.  Það ætti að jafngilda dauðadómi yfir þessu þáttarskrípi, Kveik, en áfram skröltir hann þó á kostnað skattborgara.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um Namibíumálið 19. desember 2022 með tilvísunum í Pál Vilhjálmsson:

"Páll Vilhjálmsson skrifar um Namibíumálið, sem oft hefur verið kallað Samherjamálið og olli um tíma töluverðu uppnámi."Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu, og ekkert fyrirtæki útgerðarinnar er ákært fyrir mútur.  Helgi Seljan, verðlaunablaðamaður, hóf skáldskap um Samherja á RÚV og flutti iðjuna yfir á Stundina, þegar honum varð óvært á ríkisfjölmiðlinum", skrifar hann."

Þetta vitnar um djúpstæða glópsku og samvizkuleysi Helga Seljan.  Allur málatilbúnaður hans var reistur á sandi og á þess vegna ekkert skylt við rannsóknarblaðamennsku.  Hann virðist hafa misskilið málið frá upphafi, gefið sér forsendur um glæpsamlegt eðli viðskiptanna, sem til umfjöllunar voru, og vaðið sífellt lengra út í ófæruna til að sanna það, sem ekki var flugufótur fyrir.  Þessi vinnubrögð voru viðhöfð, á meðan téður Seljan var starfsmaður RÚV.  Ljótur er ferill fréttastofu þar á bæ. 

"Páll segir engan ákærðan fyrir mútur í Namibíumálinu, heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnað.  Hann segir, að í þessu máli sé "Samherju brotaþoli.  Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga, sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi.  Peningunum var síðan stolið.  Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59."

Hann bætir því við, að starfsmaður Samherja hafi verið "í góðri trú, þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta".  Hann hafi ekki getað vitað, að peningunum yrði síðan stolið."

Samkvæmt þessari rannsókn namibískra lögregluyfirvalda er Samherji ekki sökudólgurinn, eins og "rannsóknarblaðamennska" Helga Seljans, starfsmanns RÚV, leiddi getum að til að þjóna lund sinni og ólund í garð þessa fyrirtækis. Krossfarinn, sem þótzt hefur fletta ofan af spillingu íslenzkra fyrirtækja, stendur nú uppi í hlutverki riddarans sjónumhrygga, sem bjó til forynjur úr vindmyllum og barðist við þær við lítinn orðstír.

"Og Páll spyr, hvað Helga Seljan gangi til "með að ljúga upp ákæru í Namibíu um mútugjafir Samherja ?  Jú, orðstír og æra blaðamannsins er í veði.  Þegar rennur upp fyrir fólki, að allur málatilbúnaður Helga og félaga á RSK-miðlum er uppspuni og gróusögur, er fokið í flest skjól fyrir fréttagörpunum, sem umliðin ár hafa stundað skipulega fréttafölsun og veitt sjálfum sér verðlaun fyrir.""

Þetta er hrottaleg lýsing á ólöglegu og siðlausu atferli fréttamanna, sem sáu fjandann í hverju horni, þegar þeir litu til a.m.k. sumra íslenzkra fyrirtækja, sem vegnað hefur vel í harðri samkeppni um markaði, fjármagn og starfsfólk.  Að slíkt skuli gerast undir handarjaðri ríkisútvarpsins segir sína sögu um stjórnunina þar á bæ og brýna þörf á að snarminnka umsvif þessa opinbera hlutafélags, sem er þungt á fóðrum á ríkisjötunni.

  

 

 

 

  


Ófullnægjandi stjórnsýsla

Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.

Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár.  Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu. 

Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni.  Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta. 

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:

 "Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".

Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast.  Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.

Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.

Í téðum Staksteinum stóð m.a.:

"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar.  Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."

Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur.  Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ?  Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki. 

"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki.  Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."

Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu.  Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar.  Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi.  Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram.  Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum.  Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt. 

Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim.  Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti. 

"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn.  Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar.  Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."

Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag.  Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna. 

Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ?  Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum.  Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós.  Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.  

 


Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar

Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann  harður.  Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki.  Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns.  Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð.  Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.  

Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi. 

Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi.  Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun.  Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar.  Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda. 

Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn.  Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn. 

Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:

  "Ná að hræða lítil börn".

Síðari hluti hans var þannig:

"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum.  En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri. 

Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto.  Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra.  En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" !  Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar.  Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"

Þetta er ekki lítil ádrepa.  Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á.  Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir.  Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum. 

Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni.  Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.

Greinina nefndi Steinar Ingimar:

 "Ávinningur vindmylla er ofmetinn",

og hófst hún þannig:

"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli.  Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021.  Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð." 

Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis.  Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga. 

Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna.  Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?    

 


Skýrsla veldur vonbrigðum

Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús.  Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat. 

Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi.  Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna.  Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.

Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar.  Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot. 

Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar.  Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni.  Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti.  Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns.  Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?  

Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli.  Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana.  Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar.  Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).

Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?".  Aum er sú hegðun:

"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is.  Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar.  Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins."  Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."

Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi.  Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.  

"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir.  Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina.  Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."

Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni.  Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans.  Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur.  Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari.  Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.  

"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði.  Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann.  Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?" 

Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt.  Þar er hvatinn ótvíræður.  Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis.  Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.

Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins.  Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna.  Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ?  Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins.  Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka.  Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna.  Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé.  Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.   

     


Misheppnuð stjórnun Samfylkingar á höfuðborginni

Það er með eindæmum, hversu mislagðar hendur stjórnmálafólki Samfylkingarinnar eru við stjórnun málefna almennings.  Þótt vítin séu til að varast þau, vantar ekki gorgeirinn í forkólfana, en þeir (þau) tala gjarna, t.d. á Alþingi, eins og þau hafi öðlazt æðsta sannleik um málefni í almannaþágu, en samt eru svikin loforð og mistök á mistök ofan, það sem upp úr stendur, þar sem þau hafa krafsað til sín völd þrátt fyrir dvínandi fylgi, eins og í Reykjavík.

Pólitískur sjálfstortímingarleiðangur  Framsóknarflokksins inn í Ráðhúsið við Tjörnina er reyndar saga til næsta bæjar fyrir flokk, sem annars hefur verið nokkur borgaralegur bragur á undir stjórn Sigmundar og síðar dýralæknisins. Einar, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, virkar nú sem blaðafulltrúi læknisins eða öllu heldur búktalari. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skeleggur gagnrýnandi borgarstjórnarmeirihlutans. Hann reit grein grein í Morgunblaðið 6. október 2022, sem hann nefndi:

"Neyðarástand á húsnæðismarkaði í Reykjavík".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót.  Á þessum tíma hafa vinstri stjórnir í Reykjavík knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði með ýmsum ráðum, t.d. með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun margvíslegra gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda.  Allar slíkar aðgerðir eru lóð á vogarskálar hækkandi húsnæðisverðs."

Dettur einhverjum í hug, að þessar gjörðir Samfylkingarinnar, sem skreytir sig með öfugmælunum Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þjóni hagsmunum alþýðunnar í borginni ?  Allt, sem Samfylkingin tekur sér fyrir hendur, gerir hún með öfugum klónum.  Hún hefur alla sína hundstíð daðrað við auðjöfra, sem varð alræmt fyrir Hrun, enda kemst Kjartan Magnússon að eftirfarandi niðurstöðu í framhaldinu:

"Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og [selt] þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði.  Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnazt um tugi, ef ekki hundruði milljarða ISK vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna."

Þarna kemur Samfylkingin aftan að almenningi, eins og henni er einni lagið.  Hún hagar málum þannig, að markaðurinn geri nýjum kaupendum og öðrum með takmörkuð fjárráð erfitt eða ómögulegt að festa kaup á húsnæði í borginni, en neyðist þess í stað til að flytjast í leiguhúsnæði, þar sem Samfylking einmitt vill hafa almenning.  Sjálfsbjargarfólk á meðal almennings er eitur í beinum Samfylkingar, og hún fer ýmsar krókaleiðir gegn því. 

Sigurður Oddsson, verkfræðingur, ritaði skorinorða grein í Morgunblaðið 3. október 2022, þar sem hann sýndi fram á, hvernig fúskarar borgarstjórnar í umferðarmálum hefðu eyðilagt meginhugmyndir faglegra hönnuða umferðarflæðis í höfuðborginni.  Þarna er um ótrúlega ósvífin skemmdarverk atferlishönnuða að ræða, sem svífast einskis í viðleitni sinni til að skapa farþegagrundvöll fyrir andvana fædda borgarlínuhugmynd sína.  Samfélagshönnuðir af þessu tagi eru eitthvert leiðasta fyrirbrigði nútímans, afætur, sem verða borgurunum óhemju dýrir á fóðrum áður en lýkur.

Grein sína nefndi Sigurður:

"Eyðilegging umferðarmannvirkja".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Eigendur bíla hafa með skattlagningu og eldsneytisgjöldum byggt Háaleitisbraut og Grensásveg, eins og allt gatnakerfi borgarinnar.  Hefur meirihlutinn leyfi til að eyðileggja þessi umferðarmannvirki í þeim tilgangi að tefja umferð."

Nei, auðvitað hefur meirihluti Samfylkingar engan siðferðislegan rétt til slíkrar kúvendingar í skipulagsmálum, enda er hér komið aftan að kjósendum, þar sem engin kynning á þessum klaufaspörkum hefur farið fram fyrir kosningar.  Fallandi fylgi Samfylkingar í borginni gefur til kynna óánægju með afkáraleg vinnubrögð hennar í skipulagsmálum umferðar og húsnæðis.  Lýðræðið er fótum troðið, því að allt eru þetta óvinsælar ráðstafanir.  

"Markvisst hefur verið unnið að því að skemma Bústaðaveginn sem stofnbraut: Við Reykjanesbraut er margbúið að lofa mislægum gatnamótum við Bústaðaveg.  Í stað þess að standa við það er nú komið illa hannað hringtorg, sem tefur alla umferð að og frá Bústaðavegi.  

Við Grensásveg er komið raðhús svo nálægt Bústaðavegi, að þar verður illmögulegt að hafa Bústaðaveginn 2+2-akreinar.  Þannig eru komnir flöskuhálsar á báða enda þess kafla, sem auðvelt var að hafa 2+2."

Skemmdarverk furðudýranna í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík setur þá stjórnmálamenn, sem þannig nota völd sín, í ruslflokk á meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlöndunum.  Það er fullkomlega ósiðlegt og ólýðræðislegt að beita skipulagsvaldinu til að binda hendur komandi kynslóða við úrlausn umferðar viðfangsefna borgarinnar, eins og Samfylkingin undir furðuforystu læknisins Dags hefur gert sig seka um.  Fyrir vikið er ástæða til að treysta henni ekki fyrir landstjórninni, enda er reynslan af henni þar ömurleg. 

 

 


Eru áberandi verkalýðsforingjar veruleikafirrtir

Af málflutningi og skrifum sumra verkalýðsforingja nú í aðdraganda ASÍ-þings og samningagerðar um kaup og kjör á almenna vinnumarkaðinum mætti stundum ætla, að þar séu geimverur á ferð, sem aldrei hafðu heyrt minnzt á þau almennt viðteknu efnahagslögmál, sem gilda í mannheimi.  Þá virðast þeir ekkert hafa kynnt sér, hvaða aðferðarfræði er líklegust til árangurs við að bæta kjör og velferð skjólstæðinga sinna og þar með alls almennings í bráð og lengd.  Það versta við þá er þó, að þeir tala, eins og þeir telji sig hafa höndlað einhvern nýjan sannleika, sem öðrum, þ.á.m. atvinnurekendum og Peningastefnunefnd Seðlabankans, sé dulinn.  Þegar þeir þó reyna að rúlla hinu nýja hjóli, sem þeir telja sig hafa fundið upp, sjá allir, nema þeir sjálfir, að hjólið þeirra er ferkantað og er þess vegna gagnslaust og í raun hreinn brandari, ef þessir sömu menn hefðu ekki miklu meiri völd en þeir hafa vit á að fara með.  Í þessu er fólgið þjóðfélagsvandamál, sem er ekki að finna á hinum Norðurlöndunum og vart á siðmenntuðu bóli.

Hatur þessa fólks á Seðlabankanum og aðgerðum hans er lýsandi fyrir sálarástand þess og almenna skynsemi.  VR heldur úti dýrri og kjánalegri auglýsingaherferð í sjónvarpi um aðaltól Peningastefnunefndar Seðlabankans.  Foringjarnir, m.a. starfandi forseti ASÍ, halda því fram, að þeir verði að krefjast launahækkana til að vega upp á móti kjaraskerðingunni, sem af stýrivaxtahækkununum hefur leitt. Er þeim ekki ljóst, að hlutverk þessara vaxtahækkana er einmitt að draga úr kaupmætti, sem er sá hæsti í Evrópu að Sviss undanskildu, til að hemja verðbólguna ?  Höfrungahlaupið, sem þessir verkalýðsforingjar boða með þessum talsmáta, er eins heimskulegt og hugsazt getur út frá hagsmunum fólksins í verkalýðsfélögunum, en verðbólgan er versta ógnin við hagsmuni þess.  Þess vegna væri þveröfug stefna verkalýðsfélaganna gagnvart Seðlabankanum skjólstæðingum verkalýðsforingjanna mest í hag, þ.e. að leggjast á sveif með bankanum með lágmarks launakröfum í bili og þar með að kveða verðbólguna sem hraðast niður. 

Stýrivaxtahækkanir koma auðvitað niður á hag fyrirtækjanna í landinu líka, launagreiðendanna, þaðan sem öll verðmætasköpun landsins kemur.  Þannig mun draga úr fjárfestingum og þar með hagvexti og vinnuframboð minnka.  Ef verkalýðsforingjar ætla að halda stefnu sinni til streitu, munu þeir framkalla atvinnuleysi og samdrátt hagkerfisins.  Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi að heimsækja fyrir ferðamenn, og hækki stærsti kostnaðarliðurinn enn mikið, er slíkt fallið til að gera samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina óbærilega, nema gengið falli, og þar með er fjandinn laus.  

Sumir verkalýðsforingjar og ráðgjafar þeirra hafa sett reiknifærni sína undir mæliker, þegar kemur að útreikningum á "sanngjörnum" launahækkunum í næstu kjarasamningum.  Þá hefur ekki tekið betra við, að 2 starfsmenn Viðskiptaráðs hafa í Morgunblaðsgrein 25. ágúst 2022 tekið að sér að sýna fram á alvarlegar gloppur í útreikningum verkalýðsfélaganna, í þessu tilviki Eflingar, við útreikninga þeirra að baki kröfugerðinni. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, en ekki er síður umhugsunarvert, að vitið skuli ekki duga til að draga dul á eigin skavanka.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var þessi samanburður á útreikningum Viðskiptaráðs og Eflingar dreginn samann undir fyrirsögninni:

"8,3 % neikvætt svigrúm Eflingar",

sem sýnir, að Efling skaut sig í fótinn með því að birta þessa útreikninga sem alvöru gagn í kjarabaráttunni:

"Tveir starfsmenn Viðskiptaráðs svöruðu í grein hér í blaðinu í gær sjónarmiðum Eflingar um, að "við undirritun kjarasamninga í haust hækki laun [um] sem nemur 7,5 % verðbólgu samkvæmt spá Hagstofu auk spár um 2 % framleiðniaukningu, samtals að meðaltali 9,5 % með flatri hækkun upp á 66.000 kr/mán fyrir alla tekjuhópa.  Fullyrt er, að svigrúm sé til þessa.  Jafnframt er því haldið fram [af Eflingu], að þessar launahækkanir muni ekki hafa áhrif á verðlag."

Þarna gösslast Efling fram á ritvöllinn og sýnir annaðhvort af sér vanþekkingu á staðreyndum, sem þarf að leggja til grundvallar heiðarlegri kröfugerð verkalýðsfélaga, eða virðingarleysi fyrir staðreyndum og ásetning til blekkingarstarfsemi í aðdraganda kjarasamninga í von um, að einfeldningar lepji vitleysuna upp eftir þeim. 

"Útreikningar Eflingar horfi aðeins til þessa árs [2022], en, eins og greinarhöfundar [Viðskiptaráðs] benda á, þarf að horfa til þróunar frá síðustu kjarasamningum árið 2019." 

Aðeins geimverum, sem ekkert kunna fyrir sér í þessum efnum og ekkert hafa lært á þessu sviði, dettur í hug að miða útreikninga á launahækkanaþörf aðeins við lokaár gildandi kjaratímabils.

"Samkvæmt forsendum Eflingar [afar hæpnar-innsk. BJo] er innistæðan til launahækkana þessi að mati greinarhöfunda: "Frá ársbyrjun 2019 og til loka ársins 2022 má vænta samtals 22 % verðbólgu, 2,7 % hagvaxtar og 8,1 % fólksfjölgunar m.v. nýjustu spár.  Framleiðni hagkerfisins samkvæmt skilgreiningu Eflingar mun því fyrirsjáanlega dragast saman um 5,4 % [2,7 %-8,1 % = -5,4 %].

Svigrúm til launahækkana yfir þetta tímabil er því 16,6 % [22 %-5,4 % = 16,6 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar.  Laun hafa aftur á móti þegar hækkað um 24,9 % frá undirritun síðustu kjarasamninga, langt umfram þróun verðlags og framleiðni.

Svigrúm til launahækkana við gerð næstu kjarasamninga ætti því að vera neikvætt um 8,3 % [16,6 %-24,9 % = -8,3 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar." 

Þegar forysta Eflingar fór að reikna, endaði það auðvitað með þeim ósköpum, að hún sýndi fram á, að ekkert svigrúm er til launahækkana á þessu ári, og þannig skaut hún sig í fótinn.  Þess var að vænta m.v. andlegt atgervi þar á bæ, þar sem leðjuslagur liggur betur við þeim en greiningarvinna. 

Glíman við verðbólguna er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins 29. ágúst 2022 undir heitinu: 

"Við höfum val".

Hún endaði þannig:

"Verðbólgan verður ekki kveðin í kútinn með slíkum ráðum [boðum og bönnum - innsk. BJo]. Hana þarf að sigra með því að auka framboð, þar sem framboð skortir og aukning er möguleg [t.d. lóðaframboð sveitarfélaga - innsk. BJo], og svo þarf að stíga á bremsuna á öðrum sviðum [almenn neyzla - innsk. BJo]. Seðlabankinn hefur réttilega gert það með hækkun vaxta, en aðrir verða að gera það einnig, bæði þeir, sem stýra opinberum útgjöldum og þeir, sem semja um kaup og kjör á almennum og opinberum vinnumarkaði. 

Með sameiginlegu átaki af þessu tagi er hægt að tryggja, að verðbólguskeiðið verði stutt og skerði kaupmátt almennings lítið og jafnvel ekki. Verði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að hella olíu á eldinn eða skekkja markaðsstarfsemina enn frekar en verðbólgan hefur gert, þá er tryggt, að glíman verður löng og endar með ósköpum."

Þarna er ritað af heilbrigðri skynsemi, reynslu og þekkingu á málefninu.  Af málflutningi áberandi verkalýðsforingja að dæma virðast þeir ætla að verða í því hlutverki að hella olíu á eldinn.  Hvers vegna í ósköpunum ?  Verkalýðshreyfingin virðist alls enga alvöru greiningarvinnu hafa gert um það, hvers konar ráðstafanir henta nú bezt til að verja einn hæsta kaupmátt í Evrópu.  Ætla má, að stefnumörkun með vinnuveitendum og stjórnvöldum í þá veru að draga úr verðbólgu og halda háu atvinnustigi í landinu muni koma launþegum bezt og mun betur en illa ígrundaðir lýðskrums óskalistar, sem birtir hafa verið.

Verðbólgan á Íslandi er enn þá einna lægst í Evrópu og má rekja það til þess, að um 85 % orkunnar, sem hér er notuð, á sér innlendan uppruna, sem er óháður orkuverði erlendis.  Norðmenn eru í svipaðri stöðu, en þar hefur raforkuverðið u.þ.b. tífaldazt á einu ári sunnan Dofrafjalla.  Hvers vegna er það ?  Þar eru markaðsöflin að verki, þar sem raforkukerfi Noregs (vatnsorkukerfi) er tengt með öflugum aflsæstrengjum við meginland Evrópu og England og stjórnun þessara raforkuflutninga lýtur orkulöggjöf Evrópusambandsins, þ.e. s.k. Orkupakka 3. Af hinu síðara leiðir, að stjórnvöld Noregs hafa ekki heimild til að grípa inn í þessi viðskipti, þótt þau augljóslega ógni afkomu margra heimila og fyrirtækja í Noregi.  Þau hafa hins vegar gripið til fjárhagslegra stuðningsaðgerða, eins og víðast hvar annars staðar í EES á sér stað um þessar mundir.

Norðan Dofrafjalla, þar sem verðlagsáhrifa sæstrengjanna gætir lítið vegna flöskuháls í flutningskerfinu þar, hafa verðhækkanir raforku ekki orðið neitt í líkingu við hækkanir sunnan við.  Það sannar verðlagsáhrif sæstrengjanna.  Þann 29. ágúst 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóra Storm Orku, undir fyrirsögninni:   

"Ástæða hærra raforkuverðs í Evrópu".

Hún endaði þannig:

"Þessar tölur sýna svart á hvítu, að orsök hás raforkuverðs í Evrópu og Bretlandi [Bretland hefur alltaf verið hluti af Evrópu - innsk. BJo] er hækkun á verði á gasi, sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu.  Mikill misskilningur er að halda, að skýringuna sé að finna í orkupakka EB [svo !] eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess, að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess, að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng.  Það er fjarri sanni.  

Aðalástæða þess að Íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku, sem framleidd er án þess, að nota þurfi gas til framleiðslunnar.  Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin."

Hvernig ætlar höfundur þessarar hrákasmíði að nota hana til að útskýra þróun raforkuverðs í Noregi á árinu 2022 ?  Í Suður-Noregi er ekki notað jarðgas við raforkuvinnslu, heldur vatnsafl. Verðþróun raforku í Evrópusambandinu á þessu tímabili er flóknari en svo, að einvörðungu megi útskýra hana með verðbreytingum á jarðgasi.  Frakkar hafa t.d. þurft að draga tímabundið mikið úr raforkuafhendingu frá mörgum kjarnorkuvera sinna vegna viðhalds og viðgerða.  Hreinn skortur á jarðgasi til raforkuframleiðslu vegna mikillar minnkunar á framboði frá Rússlandi og vegna fyrirskipunar stjórnvalda um að safna vetrarbirgðum vegur þó þungt í verðlagningu raforkunnar, einkum þegar lítið blæs á vindmyllurnar.  Það væri hins vegar stórfurðulegt og bryti viðtekin efnahagslögmál, ef öflug tenging íslenzka raforkukerfisins við kerfi ESB og eða Bretlands hefði ekki veruleg áhrif til verðhækkunar rafmagns hérlendis.  Orkupakki 3 stjórnar ekki verðinu (hver heldur því fram ?), en hann stjórnar því, hvernig flutningunum eftir sæstrengjunum er háttað.  Þannig gætu íslenzk stjórnvöld ekki reynt að hafa áhrif á raforkuverðið innanlands með því að hlutast til um flutningana til og frá útlöndum, t.d. með því að stöðva þá tímabundið, nema í neyð, ef lónin væru að tæmast. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hóflaus skattheimta er hagkerfinu skaðleg

Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi.  Þetta kemur auðvitað fram í samanburði á samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna, og til að festa góð lífskjör (kaupmátt) í sessi, þarf að bæta samkeppnishæfnina. Skattheimtan leikur þar stórt hlutverk, en hvað er hófleysi í þessu sambandi ?  Margar snilldarhugmyndir og drög að lausnum á viðfangsefnum hafa orðið til með uppdráttum á munnþurrkum á matarborðinu undir góðum málsverði. Ein slík er kennd við bandaríska hagfræðinginn dr Arthur B. Laffer - Laffer ferillinn og sýnir, að til er skattheimtugildi (optimum-beztunargildi) á hverju sviði skattlagningar, sem hámarkar beinar heildartekjur (skattspor) hins opinbera af skattlagningunni, en bæði við lægri og hærri skattheimtu verða heildarskatttekjurnar minni. 

Staksteinar Morgunblaðsins 25. júlí 2022 báru heitið:

"Skyndilegt áhugaleysi um skatta".

Þar stóð m.a. þetta:

"Afgangurinn [af kaupverði útgerðarfélagsins Vísis], mrdISK 6,0, er greiddur með peningum, en eins og greint var frá í frétt Morgunblaðsins á laugardag [23.07.2022], fer stærstur hluti þeirrar fjárhæðar í skattgreiðslu eða vel á fimmta milljarð króna. ....

Þetta [áhugaleysi ýmissa fjölmiðla á þessari háu skattheimtu] kemur nokkuð á óvart ekki sízt í ljósi þess, að gagnrýnendur viðskiptanna fundu m.a. að því, að ríkið fengi ekkert út úr þeim.  Fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem hefur jafnan miklar áhyggjur, ef einhvers staðar liggur óskattlögð króna, sagði t.a.m., að viðskiptin færu fram "án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut"."

Þessi viðskipti eru ofureðlileg og stórfurðulegt að halda því fram, að skattalöggjöfin hérlendis spanni ekki viðskipti af þessu tagi.  Það er deginum ljósara, að lítilsigldir vinstri menn ruku upp til handa og fóta vegna viðskipta, sem þá varðar ekkert um, og fóru að fiska í gruggugu vatni í von um, að einhver teldi sig hafa verið hlunnfarinn. 

Að lokum stóð í þessum Staksteinum:

"Þjóðin hefur notið þess ríkulega, bæði beint og óbeint, að hér á landi er sjávarútvegur rekinn með hagkvæmum hætti, en er ekki niðurgreiddur, eins og almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar.  Eigi hann áfram að skila miklu í þjóðarbúið, þarf hann að búa við viðunandi rekstrarumhverfi, ekki sízt stöðugleika í regluverki."

Hér munar mestu um regluna um frjálst framsal nýtingarréttarins, sem var að verki í hagræðingarskyni, þegar almenningshlutafélagið Síldarvinnslan á Neskaupstað festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík, og önnur regla um sjávarútveginn á við veiðigjöldin, sem er ekkert annað en sérskattur á sjávarútveginn og auðvitað íþyngjandi sem slíkur, enda nemur hann þriðjungi framlegðar fyrirtækjanna (framlegð er það, sem fyrirtækin hafa upp í fastan kostnað sinn). Veiðigjaldið var á sínum tíma réttlætt með því, að í sjávarútveginum væri fólgin auðlindarenta, en sú hefur aldrei fundizt. 

Nýjasta dæmið um, að í sjávarútveginum fyndist engin auðlindarenta (þ.e. hagnaður umfram annan atvinnurekstur), kom fram í grein Svans Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins og sjávarútvegsfræðings, í Morgunblaðinu 21. júlí 2022. Hún hófst þannig:

"Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslenzku samfélagi. [Þetta er hin ósanna fullyrðing um auðlindarentu, sem skapi ríkinu rétt til viðbótar skattheimtu - innsk. BJo.] Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa "upp" aðrar atvinnugreinar [so what ?].  Ekkert er fjær lagi, því [að] fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist, og arðsemi þar er sízt meiri en við eigum að venjast á íslenzkum fyrirtækjamarkaði.  Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu, þó [að] þau starfi í mjög krefjandi umhverfi, þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð, á sama tíma og þau þurfa sífellt að laga sig að breytingum, sem lúta að grunnþáttum greinarinnar."  

Svanur Guðmundsson bar síðan saman framlegð í % af veltu fyrirtækja með a.m.k. 80 % af veltu í hverri af 10 atvinnugreinum samkvæmt ársreikningum 2020-2021.  Framlegð sjávarútvegs, sem ein atvinnugreina sætir því af hálfu löggjafans, að framlegðin sé skattstofn, nam 25 %, en meðaltal 10 greina var 26,3 %. Hann bar líka saman hagnaðinn sem % af eigin fé fyrirtækjanna. Hjá sjávarútveginum nam hagnaðurinn 14 %, en meðaltal 10 fyrirtækja nam 13,5 %. 

Þrátt fyrir að þessi athuguðu 2 ár hefðu verið sjávarútveginum tiltölulega hagfelld, er alls enga auðlindarentu að finna í fórum hans.  Hvað veldur því, að sumir hagfræðingar búa til spuna um atvinnugrein, sem gefur skattasjúkum pólitíkusum, embættismönnum, blaðamönnum o.fl. tilefni til að krefjast viðbótar skattlagningar á atvinnugrein, sem á í höggi við niðurgreiddar vörur á erlendum mörkuðum ?

Skattspor sjávarútvegsins er stórt, því að hann veitir mörgum vinnu, bæði beint og óbeint, og greiðir há laun.  Hærri skattheimta af honum en nú tíðkast yrði aðför að dreifðum byggðum landsins, þar sem sjávarútvegur er kjölfesta byggðarlaga víða.  Óhjákvæmilega drægi hærri skattheimta úr getu sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem drægi strax úr hagvexti í landinu, og innan skamms kæmist hann á vonarvöl, því að fólk og fé tæki að forðast hrörnandi atvinnugrein, og hann yrði hreinlega undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum. 

Í stað þess að vera flaggskip íslenzks atvinnulífs yrði hann að ryðkláfi, sem ríkissjóður yrði sífellt að hlaupa undir bagga með í nafni byggðastefnu.  Sú tíföldun veiðigjalda, sem aldurhnignir Berlínarkommar og vizkubrekkur í Icesave-hlekkjum úr HÍ hafa talað fyrir, er ekki einvörðungu svo langt til hægri á X-ási Laffer-ferilsins, að hann sé kominn að núlli (0), heldur hefur Laffer-ferillinn í þessu tilviki skorið X-ásinn, og ríkið fær þá ekki lengur skatttekjur af brjálæðislegri skattheimtu, heldur verður ríkissjóður fyrir útgjöldum við að halda atvinnugreininni á floti.  Það er einmitt draumsýn kommúnistans.     

 


Lítt af setningi slegið

Þegar tilkynnt var um ofureðlileg kaup almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, gaus upp moldviðri loddara og lýðskrumara, sem létu aðalatriði málsins lönd og leið, en einbeittu sér að hugðarefnum sínum, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútveginum skaðleg. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, og hann verður að reka á viðskiptagrundvelli.  Með rekstur hans er ekki hægt að hlaupa eftir illa ígrundaðri hugmyndafræði um "réttlæti" í ráðstöfun hagnaðar af fjárfestingum í greininni.  

Aðalatriði málsins er, að hlutverk íslenzks sjávarútvegs er að skapa hámarksverðmæti úr auðlind íslenzkra fiskimiða fyrir íslenzkt þjóðarbú, enda er auðlindin í þjóðareign, þótt enginn eigi óveiddan fisk í sjó, og þar með hefur ráðherra það mikla vald til inngripa í þessa atvinnugrein að setja aflamark í hverri tegund á hverju fiskveiðiári, og Hafrannsóknarstofnun getur lokað svæðum fyrir fiskiskipum í verndarskyni.

Hverjir fá að stunda sjóinn og eiga aflahlutdeild í hverju settu aflamarki réðist í upphafi af aflareynslu og síðan 1989 af markaðinum upp að hámarksaflahlutdeild í hverri tegund. Algengast er 20 % kvótaþak, en þó aðeins 12 % í þorski per fyrirtæki.  Þetta fiskveiðistjórnunar fyrirkomulag hefur tryggt Íslendingum skilvirkasta sjávarútveg í Evrópu og þótt víðar væri leitað.  Greinin varð arðbær í flestum árum, eftir að nægilegri lágmarks samþjöppun var náð, og hún greiðir meira til samfélagsins en aðrar atvinnugreinar.  Er það réttlátt, t.d. gagnvart almenningshlutafélögum í greininni, sem berjast við fyrirtæki í öðrum greinum um fjármagn ?

Íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin flytja yfir 96 % afurða sinna á erlendan markað og eiga þar í flestum tilvikum í höggi við stærri fyrirtæki en þau eru sjálf, fyrirtæki, sem njóta þar að auki fjárhagsstuðnings hins opinbera í sínu landi og greiða sáralítið þangað í samanburði við íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin.  Alþingismenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja við að skekkja samkeppnisstöðu þessarar greinar á erlendum fiskimörkuðum og innlendum fjármagns- og vinnumarkaði. Verða þeir að gæta að sér að mismuna ekki þessari grein úr hófi fram.  

Hælbítar íslenzks sjávarútvegs spanna litrófið frá vinstri-sósíalistum með böggum aflóga hugmyndafræði austur-þýzka alþýðulýðveldis Walters Ulbricht og Erichs Honecker til áhangenda kenningarinnar um, að Íslandi sé bezt borgið alfarið innan vébanda Evrópusambandsins - ESB, þ.e. "við borðið", en ekki bara á Innri markaði ESB, eins og 2 önnur EFTA-ríki með EES-samninginum, sem gildi tók 1. janúar 1994.

Sameiginlegt málflutningi allra þessara aðila er að mæla fyrir ráðstöfunum, sem veikja mundu samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins stórlega, og þar með óhjákvæmilega draga úr getu hans til verðmætasköpunar fyrir íslenzka þjóðarbúið úr auðlind þjóðarinnar í lögsögunni og utan hennar samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar.  Þessi málflutningur hælbítanna er þess vegna klæddur í búninga, sem eiga að hætti lýðskrumara að höfða til mismunandi fólks.  Annars vegar er lofað gríðarlega auknum skatttekjum ríkissjóðs af sjávarútveginum, og hins vegar er lofað uppboðsmarkaði veiðiheimilda og um leið árlegum afskriftum veiðiheimilda þeirra, sem fengu þær úthlutaðar á grundvelli veiðireynslu og/eða hafa keypt þær hingað til.  Í raun er þetta sami grautur í sömu skál, sem endar í þjóðnýtingu útgerðanna, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvorug aðferðanna er til þess fallin að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar í hafinu, heldur munu þær rýra hinn þjóðhagslega hagnað frá því, sem hann getur orðið, ef atvinnugreinin fær að þróast í friði fyrir loddurum, sem lítið skynbragð bera á það, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til að atvinnugreinar fái að njóta sín.  Engin góð reynsla frá öðrum þjóðum mælir þessum dillum málsbót.

Sjónarhólsgrein um alþjóðaviðskipti birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2022 eftir Stefán E. Stefánsson, blaðamann, undir fyrirsögninni: 

"Skref í rétta átt".

Þar stóð m.a.:

"Kaupin á Vísi eru því áhættudreifing í sinni tærustu mynd. Það má ekki sízt sjá, þegar borið er saman úthlutað aflamark [aflahlutdeild] Síldarvinnslunnar annars vegar og Vísis hins vegar í mikilvægum botnfisk- og uppsjávartegundum. Fyrir kaupin var Síldarvinnslan aðeins með 2,7 % hlutdeild í þorski, en Vísir 5,4 %.  Í ýsu var hlutdeild Síldarvinnslunnar 3,8 %, en Vísis 6,1 %, og í síld og loðnu er hlutdeild Síldarvinnslunnar í úthlutuðu aflamarki annars vegar 16 % og hins vegar 18 %, [á] meðan hlutdeild Vísis er 0 %.  Styrkurinn, sem felst í kaupunum á Vísi er því að efla Síldarvinnsluna í botnfiski."

Þetta er vafalaust hárrétt athugað hjá Stefáni E., og slíkar aðgerðir fyrirtækja eru öllum í hag og koma hvorki Samkeppnisstofnun né stjórnmálamönnum við.  Með öflugri stoðir mun Síldarvinnslan standa betur að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum, þar sem hún samt verður tiltölulega lítil. Sterkari staða á markaði þýðir, að hún getur fengið betri viðskiptakjör á fiskmörkuðum.  Þetta er aðalatriði máls, og að hóta fyrirtækjunum enn hærri skattheimtu, af því að þau eru öflug og vel rekin og hafa í sér stækkunarkraft, eins og jafnvel innviðaráðherra gerði sig sekan um, er fyrir neðan allar hellur. 

Hér er um að ræða almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands, sem sækir sér fé á hlutabréfamarkað, t.d. til lífeyrissjóða, og stjórnmálamenn verða að gæta að sér og kunna sér hóf í málflutningi, svo að ekki sé hægt að saka þá um atvinnuróg og brot á stjórnarskrárreglu um jafnræði til atvinnufrelsis.

"Við kaupin á Vísi upphófst gamalkunnur söngur þeirra, sem alla tíð hafa öfundazt út í sjávarútveginn hér á landi og þann glæsta árangur, sem náðst hefur í uppbyggingu margra fyrirtækja á þessu sviði.  Þeir hinir sömu skella skollaeyrum við öllum þeim rökum, sem borin eru á borð varðandi styrkleika íslenzka kvótakerfisins og þá þrotlausu vinnu, sem lögð hefur verið í uppbyggingu þessara sömu fyrirtækja. Engu er líkara en þessir sömu aðilar telji kerfisbreytingar æskilegar, sem mundu draga enn frekar úr fyrirsjáanleika og ganga af þeirri áhættudreifingu, sem þó er fyrir hendi innan greinarinnar, gjörsamlega dauðri."

Sjávarútvegur er sjálfstæð atvinnugrein, en ekki tilraunaleikhús stjórnmálamanna og annarra viðvaninga á sviði fyrirtækjarekstrar.  Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar, en stjórnmálamenn seilast um hurð til lokunnar, þegar þeir halda, að þetta gefi þeim heimild til að ráðskast með sjávarútveginn á leiksviði fáránleikans. Þjóðin er ekki lögaðili, en ákvæðið gefur ríkisvaldinu í nafni þjóðarinnar heimild til að stjórna nýtingu auðlindarinnar og gengur auðvitað ekki út yfir eignarrétt útgerðanna og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi. 

"Söngurinn er allur sniðinn í kringum þá rómantísku hugmynd, að allir eigi að geta róið til fiskjar og að það sé óheppilegt, að fyrirtækin stækki og eflist.  Þar er horft fram hjá þeirri staðreynd, að fyrirtækin keppa á alþjóðavettvangi við fyrirtæki, sem í sumum tilvikum eru stærri en allur íslenzki sjávarútvegurinn til samans. Nær allur afli, sem dreginn er á land við Ísland fer á markaði erlendis, og því eiga samkeppnissjónarmið, sem alla jafna mundu gilda um fyrirtæki á innlendum markaði, ekki við.  Hvert er annars markmiðið með íslenzkum sjávarútvegi ?  Er það ekki að hámarka verðmætin, sem sótt eru í greipar Ægis ?"

Þetta er mergurinn málsins. Alls konar sótraftar eru á sjó dregnir með skoðanir á þessari atvinnugrein, og sameiginlegt málflutningi þeirra er tvennt: atvinnugreinin sé óalandi og óferjandi eins og hún er rekin núna, og stjórnmálamenn (Alþingi og ríkisstjórn) verði að gjörbreyta leikreglunum.  Hugmyndafræði þessa svartagallsrauss rekstrarviðvaninga og loddara er öll því markinu brennd, að rekstrarlegur og þjóðhagslegur arður sjávarútvegsins mun minnka, verði reynt að framfylgja hugmyndafræði þeirra. 

Það er rangt, sem haldið er fram, að mikil samþjöppun sé í íslenzkum sjávarútvegi, hvort sem litið er til samanburðar við aðrar íslenzkar atvinnugreinar eða til erlendra samkeppnisaðila, eins og Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, sýndi fram á í grein í Morgunblaðinu 14.07.2022.  Samkeppnisstofnun, sem er á góðri leið með að eyðileggja tæplega mrdISK 80 viðskipti Símans með Mílu, fer í geitarhús að leita ullar vegna kaupsamnings Síldarvinnslunnar við Vísi í Grindavík.   Eftirlitsiðnaðurinn hérlendis gín yfir þáttum, sem honum kemur ekki við og sem hann ræður illa við í þokkabót. 

"Myndi þetta sama fólk, sem sífellt talar öflugan sjávarútveg niður, tala fyrir því, að Marel yrði klofið upp í margar smáar einingar, sem gætu svo keppt sín á milli, en þó í baráttu við alþjóðlega risa, sem ættu auðvelt með að ryðja þeim öllum út af markaðinum ?" 

Munurinn er sá, að það eru engir beturvitar áberandi um þessa grein iðnaðar, en það er hins vegar enginn hörgull á skrýtnum og fjandsamlegum hugdettum beturvita um íslenzka sjávarútveginn.  Þeir eru með sérvizkuhugmyndir, sem ekki væru taldar gjaldgengar í neinu öðru landi. 

Hvernig á að ákvarða hámark aflahlutdeildar, s.k. kvótaþak ?  Eðlilegast er að hafa hliðsjón af þróun þeirra mála í samkeppnislöndum sjávarútvegsins. Sé það skoðað, kemur í ljós, að kvótaþakið hér hefur setið eftir, sérstaklega í þorskinum, þar sem það er aðeins 12 % hér, en t.d. um 25 % í Noregi.  Hið tiltölulega lága kvótaþak hérlendis er farið að standa íslenzkum útgerðarfélögum fyrir þrifum og hefur e.t.v. ýtt undir krosseignatengsl þeirra á milli. 

Í lok greinar sinnar skrifaði Stefán E. Stefánsson:

"Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin.  Eftir því sem þeim fækkar og þau eflast að innri styrk, því betur mun íslenzkt þjóðarbú standa.  Úrtölufólkinu finnst ekki gaman að heyra þetta.  Raunar þolir það alls ekki að horfast í augu við þessa staðreynd.  En svona er það nú samt."

Þetta er hárrétt hjá höfundinum, en hvers vegna ?  Það vefst fyrir "úrtölufólkinu", en er samt sára einfalt, og í stuttu máli er aðallega um að ræða hagkvæmni stærðarinnar. Kostnaður útgerðanna á hvert veitt tonn fer lækkandi með aukinni stærð þeirra og þar með verður framlegð þeirra meiri, og þau geta þá aukið framleiðni sína með fjárfestingum í nýrri tækni án eða með lítilli skuldsetningu. Afleiðingin verður betri aðbúnaður sjómanna um borð og hærri tekjur þeirra með auknum afla á skip.  Jafnframt eykst hagnaður fyrirtækjanna og þar með skattstofninn og arðgreiðslur, sem er allra hagur, ekki sízt eigendum hlutafjárins, sem fjármagna fyrirtækin, t.d. lífeyrissjóða í tilviki almenningshlutafélaga á borð við Síldarvinnsluna á Neskaupstað.   

 


Geðshræring, þegar yfirvegunar er þörf

Ótrúlegu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna sölu á 22,5 % eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.  Þar eru lítilsigldir stjórnmálamenn að fiska í gruggugu vatni í ljósi sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022, og ofan á bætist innbyrðis ómerkingakeppni þeirra um athygli og vegsemd innan eigin stjórnmálaflokka. Þetta er frumhlaup stjórnarandstöðunnar í ljósi þess, að Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun eru með undirbúning og söluferlið sjálft til skoðunar.  Ófáir gagnrýnendanna hefðu notað hvaða fjöður, sem þeir komust yfir, til að búa til 10 hænsni, svo að úthúða mætti þeim gjörningi per se að selja ríkiseignir.  Forstokkaðir sameignarsinnar eru ófærir um að draga rökréttar ályktanir af atburðum, gömlum og nýjum, sem sýna glögglega, að binding á ríkisfé í banka í miklum mæli er engu þjóðfélagi til heilla, enda er slíkt yfirleitt ekki tíðkað.

 Kolbrúnu Bergþórsdóttur blöskrar framganga stjórnarandstöðunnar í þessu bankasölumáli, enda í raun ótímabær, þar til málið hefur verið krufið til mergjar af til þess settum aðilum.  Skýring á þessari hegðun gæti verið tilraun til að draga athygli kjósenda frá gjörsamlega óboðlegum kreddum meirihluta borgarstjórnar, sem hafa valdið stórvandræðum á húsnæðismarkaðnum og fullkominni stöðnun í umferðarmálum, sem auðvitað jafngildir afturför. Gatnakerfi Reykjavíkur er með öllu óboðlegt fyrir þá umferð, sem það þarf að þjóna, það er tæknilega aftarlega á merinni og býður hættunni heim með frumstæðum gatnamótum.  Hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar um að fækka bílunum með ofurstrætó á miðju vegstæði eru andvana fæddar skýjaglópahugmyndir. Ofan á þessa hörmung bætist óstjórn fjármála og leynibrall borgarstjóra með "útrásarvíkingi", sem nú er stærsti hluthafi Skeljungs.

Kolbrún ritaði forystugrein Fréttablaðsins 6. maí 2022, sem hún nefndi því lýsandi nafni:

"Vanstilling".

Forystugreinin hófst þannig:

"Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir, en samt skal spurt, hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill ? [Þetta mætti Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, hugleiða sérstaklega, en hún hefur flestum öðrum átt auðveldan leik við ávöxtun hlutabréfa, sem henni hafa áskotnazt á sérkjörum sem starfsmaður í banka - innsk. BJo.]

Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur, þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum.  Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist.  Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutninginum.  Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.

Vissulega blasir við, að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað.  Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram.  Það hentar stjórnarandstöðunni t.d. afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni [á] meðal almennings. 

Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir, sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum stað eftir bankahrun ["the usual suspects"-innsk. BJo]. Það hvarflar jafnvel að manni, að þetta fólk sakni tímans, þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur, og sé nú að reyna að endurskapa hann.  Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli, þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn.  Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið."

 Þessi mótmæli í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs eru óttalega hvimleið og skilja ekkert annað eftir sig en svigurmæli og annan sóðaskap. Þetta fólk hefur lítið fyrir stafni, úr því að það finnur sér ekkert annað til dundurs en að misþyrma vikulega þessum hlaðvarpa fyrstu skrásettu landnámshjónanna á Íslandi og verða til almennra leiðinda með ópum og skrækjum.  Það ætti að finna sér einangrað rými og fá þar útrás með því að syngja "Nallann" nokkrum sinnum.  Boðskapurinn er enginn, nema almenn samfélagsleg vonbrigði. 

Lok þessarar forystugreinar Kolbrúnar voru þannig:

"Spyrja má, hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir, að þetta fólk færi upp á háa c-ið, hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka.  Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling ! Vanhæf ríkisstjórn ! [meinar líklega "óhæf ríkisstjórn" !?-innsk. BJo].  Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir, sem fá það hlutverk, verða að búa yfir yfirvegun, en ekki lifa í stöðugri vanstillingu."

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa opinberað vangetu sína (óhæfni) til að taka við upplýsingum og vinna úr þeim, en það er grundvallar atriði fyrir þingmenn að ráða við þetta.  Þeir hafa eftir söluna komið eða þótzt koma af fjöllum um aðferðina, sem beitt var, en formaður og forstjóri Bankasýslunnar voru þó búnir að gera þingnefndum ítarlega grein fyrir aðgerðinni og þingmenn ekki gert athugasemdir, nema til að gera sölu ríkiseigna yfirleitt tortryggilega.  Morgunblaðið gerði grein fyrir þessu 7. maí 2022 undir fyrirsögninni:

"Fengu kynningu á tilboðsleiðinni".

Fréttin hófst þannig:

"Á fundum með fjárlaganefnd Alþingis 21. febrúar [2022] og með efnahags- og viðskiptanefnd þremur dögum síðar kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins með ítarlegum hætti, hvaða leið stofnunin legði til við við sölu á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Þar var helzt lagt til, það sem kallað er "tilboðsfyrirkomulag", sem var sú leið, sem farin var í útboðinu 22. marz [2022], þegar ríkið seldi 22,5 % hlut í bankanum fyrir um mrdISK 53."

Það er þess vegna helber hræsni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, að sú leið, sem farin var, hafi komið þinginu í opna skjöldu.  Að einhverju leyti kann sofandaháttur og misskilningur þingmanna að hafa ráðið för, en árásir á ríkisstjórnina í kjölfar útboðsins bera aðeins vitni ómerkilegri tækifærismennsku.  Í sumum tilvikum notuðu sameignarsinnar tækifærið til að koma höggi á ríkisstjórnina fyrir yfirleitt að dirfast að koma eigum ríkisins í verð í stað þess að liggja aðgerðalitlar og með talsverðri áhættu sem eigið fé banka.  Engum rekstri hentar ríkiseign og ríkisafskipti, og bankastarfsemi er þar engin undantakning. 

 "Eins og fram kom í úttekt ViðskiptaMogga, fór mikil umræða fram um málið á fundum nefndanna, en enginn nefndarmaður gerði þó efnislega athugasemd við þá leið, sem farin var, þ.e. tilboðsfyrirkomulagið. Þá var heldur ekki gerður fyrirvari um það, hverjir mættu eða mættu ekki fjárfesta í útboðinu. 

Í fyrrnefndum glærum kemur fram, að bankasýslan leggi til tilboðsfyrirkomulag í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir eignarhlutinn með sem minnstum tilkostnaði.  Þótt deilt hafi verið um fyrirkomulagið eftir á, þá gekk þetta markmið eftir."

(Undirstr. BJo)   Þar sem söluferlið var með blessun Alþingis og megináformin gengu eftir, er engin málefnaleg ástæða fyrir þingmenn að hneykslast á ferlinu eftir og því síður er ástæða fyrir þingið að haga sér, eins og himinninn hafi hrunið, og að þingið þurfi strax að skipa "óháða" rannsóknarnefnd með öllum þeim tilkostnaði.  Rétt bærir eftirlitsaðilar ríkisins fara nú yfir þessa hnökra. Geðshræring þingmanna og vanstilling hefur smitað út frá sér.  Fullyrðingar loddara í þeirra röðum um, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi átt að hindra föður sinn í að neyta réttar síns til viðskipta í þessu tilviki eru svo ósvífnar og heimskulegar, að engu lagi er líkt.  Bankasýslan upplýsti engan um viðskiptamenn á meðan á viðskiptunum stóð og taldi sig ekki einu sinni mega upplýsa ráðuneytið eftir á.  Ráðherrann sjálfur skarst þá í leikinn, fékk skrá um kaupendur og opinberaði hana umsvifalaust. Hvernig getur nokkur verið svo skyni skroppinn, að kaup þessa ættmennis ráðherrans hafi farið fram með vitund hans og vilja ? Uppþotið væri of dýru verði keypt.  Upphæðin var lág, en öllum mátti vera ljóst, að það er fátt og lítið, sem hundstungan finnur ekki.    

 

  h_my_pictures_falkinn

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband